Unglingurinn og netið – Hvert er vandamálið?

Ungdómurinn virðist alltaf vera að fara til andskotans af mismunandi ástæðum gegnum tíðina. Þegar ég var unglingur þá bar þar hæst klæðaburður, unglingadrykkja, miðbærinn og útivistartímar. Við klæddumst upp til hópa öllu svörtu, í svo rifnum buxum að þær héldust saman á voninni einni saman og litum helst út fyrir að vera meðlimir í einhvers konar sértrúarsöfnuði. Við byrjuðum mörg að drekka áfengi strax eftir fermingu og aðal samverustaður okkar voru sjoppurnar og miðbærinn um helgar. Foreldrar voru það ráðalausir á þessum tíma að það var ekkert gert og þetta fékk að viðgangast. Í dag er það netnotkun ungdómsins sem gerir fólk ráðalaust. Það eru skrifaðar allskyns greinar um afleiðingar of mikillar netnotkunar þar sem netið er ljóti kallinn. Það er skrifað um áhrifin á andlega, líkamlega og félagslega heilsu ungs fólks, en að mínu mati er lítið talað um farsælar lausnir í þessu sambandi heldur einungis afleiðingar.

Það sem mér finnst vera að gleymast í þessari umræðu er ábyrgð foreldra og forráðamanna. Eru foreldrar það uppteknir í dag að farsælasta lausnin er að slökkva á routerum heimilisins, taka af þeim símana eða eitthvað í þeim dúr? Er uppeldislegri skyldu okkar lokið þegar börnin okkar verða unglingar? Ef við höfum áhyggjur af mannlegu samskiptaleysi unglinganna okkar er það þá ekki okkar, foreldranna að kenna þeim? Það eru svona spurningar sem ég velti fyrir mér í þessu sambandi og finnst að þurfi að leggja meiri áherslu á þegar talað er um netávana unglinga í dag. Rannsóknir sýna að unglingar sem eru ekki í góðum samskiptum við foreldra sína eru líklegri til að leita á netið í einhvers konar samskipti og líklegri til að þróa með sér netfíkn eða netávana.

En hvað er til ráða? Í fyrsta lagi þá þurfa foreldrar og fullorðið fólk að átta sig á að tækninýjungar eru komnar til að vera og hvort sem við viljum viðurkenna það eða ekki þá erum við einnig háð þeim, þó svo unglingarnir séu oftast fljótari að tileinka sér þær. Við þurfum að átta okkur á því að dagblöð, námsbækur, venjulegt sjónvarp og fleira er að deyja út hægt og rólega, en við erum kannski ekki alveg að átta okkur á því að þetta sé að gerast því við treystum gríðarlega mikið á netið í okkar daglega lífi. Við fullorðna fólkið eigum að vera fyrirmyndirnar, setja mörkin og kenna börnunum okkar að umgangast netið á heilbrigðan hátt og það er ekki hægt ef maður ætlar að vera blindur á þessa þróun.

Hvernig gerum við það? Að mínu mati þá er það ekki að slökkva á routerum, taka síma, segja þeim að fara út að leika sér og fleira. Heldur ekki eins og gert var á mínum unglingsárum þar sem við vorum bara látin afskiptalaus. Fyrir mér er þetta allt afskiptaleysi. Þegar ég var unglingur þá voru foreldrar mínir ekki að reyna að fá mig til að gera eitthvað með þeim og það held ég að eigi oft á tíðum líka við í dag. Þó svo að við viljum ýta undir sjálfstæði þeirra þá þurfum við líka að sýna þeim að við höfum áhuga á því sem þau eru að gera, spjalla við þau, gera hluti saman, hlæja saman, setja þeim skynsamleg mörk, semja, sýna ást og umhyggju og umfram allt vera góð fyrirmynd og uppalandi.

Ég er með þessum greinaskrifum ekki að segja að allir foreldrar séu að fara til andskotans, heldur finnst mér þetta sjónarhorn oft gleymast og skuldinni er skellt á netið og tæknina á meðan lausnin er ekki tæknilegs eðlis heldur uppeldislegs.

Guðbjörg Lilja Gunnarsdóttir.

Móðir og nemi í tómstunda og félagsmálafræði.