Unglingadrykkja og reykingar

Ég hef mikið verið að pæla í því hvort að unglingadrykkja hafi minnkað síðastliðin ár. Mér fannst meira um þetta hér þegar ég var yngri og fann mikið fyrir því að fólk hafi byrjað að drekka mjög ungt. Þegar ég var að stíga mín skref inn í unglingsárin þá voru margir byrjaðir að drekka og þá þótti frekar hallærislegt að drekka ekki áfengi og finnst mér það vera öfugt í dag. Ég hef verið minna vör við unglingadrykkju nú til dags. Ég á bróðir sem er í 10. bekk og eru mjög fáir í kringum hann sem eru byrjaðir að drekka. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað hefur áhrif á að unglingar byrji að drekka seinna í dag en hér áður. Held ég að íþróttir spili þar stóran þátt því mér finnst meira um að unglingar vilji ná betri árangri í tómstundum sínum.

Þegar ég ræddi þetta við bróður minn þá talaði hann um það að draumarnir eru orðnir stærri til dæmis í fótboltanum þegar þeir horfa á íslenska landsliðið vera komið svona langt. Ég man eftir því þegar ég var yngri og mínar vinkonur og vinir sem voru í íþróttum voru að flosna upp úr sínum íþróttum í unglingadeild. Við tók þá meira ,,spennandi“ hlutir eins og þá að hanga út í sjoppu, hanga með eldra fólki, drekka, reykja og þess háttar. Þegar ég hugsa til baka fannst mér engin af mínum vinkonum hafa verið 100% í sinni íþrótt og stundaði hana af kappi. Flest allir í kringum bróður minn sem er í unglingadeild eru í íþróttum eða annars konar tómstundum og hafa það í forgangi og láta ekkert koma í veg fyrir það. Það vilja allir ná ákveðnum markmiðum þegar kemur að íþróttum og ef mikil drykkja er til staðar hefur það auðvitað áhrif á það.

Einnig hef ég verið að velta fyrir mér reykingum samhliða þessu. Það voru margir á mínum aldri þegar ég var í unglingadeild sem reyktu og þetta var vandamál innan skólans, eins og í frímínútum og þess háttar. Í dag þegar ég lít inn í grunnskólana er lítið sem ekkert af reykingum, unglingar eru meira með rafrettur eða að taka neftóbak í vörina. Það getur verið að þeim þykir það þægilegra upp á að fela það fyrir fullorðnu fólki eins og kennurum og foreldrum. Það er minni lykt af því og mikið minna áberandi, getur vel verið að það sé jafn mikil notkun á nikótíni innan skólans en það sé alls ekki eins áberandi og reykingarnar voru á sínum tíma. Í heildina litið finnst mér frábært hvað unglingadrykkja og reykingar hafa minnkað með árunum en á sama tíma getur maður velt því fyrir sér hvort eitthvað annað sé komið í staðinn, þá eins og kannabis reykingar, rafrettur eða neftóbak undir vör. Ég held að það hafi mikil áhrif og sé mikilvægt að hafa fræðslu um forvarnir, reyna halda unglingum í sinni tómstund því það er talin lang besta forvörnin í dag og fræða ungmenni um skaðan sem getur fylgt þessum efnum.

Ef grunnskólarnir eru skoðaðir er ekki mikið um forvarnir sem beinast að vímuefnaneyslu. Mikið af verkefnum hafa verið unnin hér á landi í tengslum við forvarnir gegn vímuefnaneyslu og hefur það skilað góðum árangri. Umræðan er meiri og foreldrar virðast vera meira vakandi  sem er frábært.

Hanna Karen Hafþórdóttir