Að vera vinur er ekkert grín

Lesandi góður, ég veit ekki með þig en lengi vel hef ég velt því fyrir mér hvernig áhrif ég hef á fólkið í kringum mig. Er gagn af nærveru minni og hverju skilar hún? Gef ég af mér jafn mikið og ég raunverulega vil? Flestir vilja hafa góð áhrif á fólkið í kringum sig og vera góðar fyrirmyndir en það krefst áreynslu. Ég reyni að vera meðvituð um hvað það er sem ég gef frá mér og hvernig ég hátta samskiptum mínum við annað fólk. Ég velti mikið fyrir mér samskiptum á milli ungmenna. Er eitthvað sem við sem fyrirmyndir yngra fólks getum gert í okkar samskiptum til að miðla því áfram til unglinganna okkar?  

Umhverfið hefur margt að segja um hegðun og mótun einstaklingsins. Allt snýst þetta um samskiptin sem einstaklingar eiga í enda eru þau grundvöllur þess að eiga í tengslum við annað fólk. Að eiga vini og að vera í heilbrigðu vináttusambandi er þar engin undantekning enda eru vinirnir, í langflestum tilfellum, í nánasta umhverfi unglingsins. Margir gera sér ekki grein fyrir því að vináttusambönd hafa töluverð áhrif á þroska unglingsins. Vináttusambönd á unglingsárunum vara oft stutt en það er ferli í mótun unglingsins og í samræmi við þroska einstaklingsins.

Mikilvægi tengsla í lífi fólks er gríðarlegt. Á unglingsárunum gefst einstaklingum tækifæri á að stækka tengslanetið sitt. Ýmsir viðburðir eiga sér stað þar sem einstaklingar hittast, kynnast og mynda tengsl. Ég vil meina að við löðum að okkur fólkið í kringum okkur, fólkið sem er á sömu bylgjulengd og við sjálf. Samt sem áður hafa samskiptin margt að segja um framvindu mála og komandi vináttusambands.

Hugtakið tengsl er náskylt hugtakinu hamingja og eftir því sem ég best veit er það hugtak sem okkur flestum er hugleikið. Að mynda tengsl og að vera vinur er ekkert grín. Góð og jákvæð tengsl hafa góð áhrif á heilsu fólks. Það er í eðli mannsins að sækjast eftir félagsskap og hamingjusamastir eru þeir sem njóta stuðnings góðra vina. Hlutverk okkar sem fyrirmyndir ungmenna er fyrst og fremst vandvirkni í samskiptum.

Að eiga vini er flókið og mikil vinna. Að eiga vini er ekki leikni né færni sem við fæðumst með heldur er þetta eitthvað sem æfist og tekur tíma. Gagnkvæm vinátta einkennist af því að ást og traust á sér stað innan sambandsins. Hún á sér stað þegar einstaklingar gefa jafn mikið af sér og halda báðir jafnri stöðu innan sambandsins. Á þann hátt myndast falleg vinátta sem hefur góð áhrif og nýtur trausts.

Þú sérð það góða í öðrum án þess að vera endilega meðvitaður um það. Það skiptir máli hvernig maður hugar að sjálfum sér og hlúir að persónulegum verðmætum því það smitar út frá sér. Fögnum jákvæðum samskiptum, vöndum okkur og gerum okkar besta.  Verum fyrirmyndir í samskiptum okkar við aðra.

Alexía Rut Hannesdóttir