Kynjaímynd karlmanna

Hefur viðhorf unglinga til karlmennsku breyst mikið á síðustu árum? Nú eru 9 ár síðan ég var nemandi í grunnskóla en núna vinn ég sem forfallakennari í grunnskóla. Á mínum unglingsárum upplifði ég að það að vera karlmaður er einhver sem er sterkur, harður, duglegur, lætur ekkert á sig fá og sýnir ekki veikleika. Þeir strákar sem voru með mér í árgangi sem voru viðkvæmir, ekki mikið fyrir íþróttir og áttu jafnvel mikið af vinkonum voru sagðir vera „hommalegir“. Þessi hugmynd myndast út frá því að það er talið mjög eðlilegt að stelpur sýni viðkvæmi, gráti og líði illa og fylgir það staðalímyndinni sem hefur ríkt í tugi ára um samkynhneigða karlmenn að þeir séu alltaf svo stelpulegir. Þetta var mín upplifun í grunnskóla og sérstaklega í unglingadeild. Ég tel að þessi ríkjandi hugmynd um hvað karlmennska er sé mjög neikvætt fyrirbæri og valdi mikilli vanlíðan hjá mörgum strákum og sé jafnvel hluti af þeirri ástæðu að algengasta dárnarorsök stráka á aldrinum 18-24 ára er sjálfsvíg.

Mín reynsla af ungu fólki í kringum mig er að þetta viðhorf hafi lítið breyst og strákar séu enn í dag hræddir við að sýna veikleika. Hvað er hægt að gera til að breyta þessu viðhorfi í samfélaginu svo að börnin okkar þurfi ekki að alast upp við þessa karlmannsímynd og verða fyrir skaðlegum áhrifum af henni?

Þessar sterku samfélagslegu hugmyndir um kynjaímyndir byrja jafnvel fyrir fæðingu barns, þegar haldið er upp á „babyshower“ fyrir tilvonandi mæður þar sem allt er skreytt í bleiku ef það er stelpa og bláu ef það er strákur. Þar sést greinilega hversu snemma þessar staðalkynjaímyndir byrja að mótast. Ég tel að til þess að sporna við þessari þróun sem byrjar svo snemma í lífi barna er fræðsla til verðandi foreldra og starfsmanna sem vinna með börnum mikilvæg. Kennsla um kynjaímyndir ætti að byrja strax í leikskóla þar sem lögð er áhersla á að öll börn eigi rétt á því að vera eins og þau eru, kenna báðum kynjum að tjá tilfinningar sínar og að þau eigi rétt á sínum tilfinningum. Kennsla um kynjaímyndir ætti að einkenna grunnskólagöngu allra. Þó það væri ekki bein kennsla þá þyrfti ávallt að vera umræða innvafin að einhverju leyti í kennslu í grunnskóla.

Ég tel að ef að meira væri um fræðslu fyrir verðandi foreldra um hverjar kynjaímyndir samfélagsins eru og hvernig þær geta reynst börnum skaðleg muni það hafa áhrif á aðra þætti samfélagsins. Því að breytingar myndu líka þufa að sjást í auglýsingum, fjölmiðlum og afþreyingarefni því börn og unglingar eru umvafinn þessu í daglegu lífi.

Elín Rún Jónsdóttir