Hvað ertu eiginlega að gera í vinnunni?

Sara Linneth Lovísudóttir Castaneda

Ég starfa í félagsmiðstöð. Oftar en ekki er ég spurð hvað þetta sé eiginlega, hvað ég sé að gera í vinnunni. Einnig hef ég fengið að heyra það sem fólk heldur að starfi mitt snúist um. Að ég sé einungis þarna til að hafa auga með unglingum, opna fyrir þeim húsið og loka þegar útivistartíma lýkur. Ég hef líka lent í að fólk sé undrandi yfir fjölda starfsmanna í félagsmiðstöðinni þegar í raun og veru er oft undirmannað á þessum vettvangi. Ég tek því ekki persónulega og geri mér fulla grein fyrir því að þetta er bara vanþekking.

Þess vegna langar mig til þess að fræða þig kæri lesandi um það starf sem fer fram í félagsmiðstöðvum. Það er ótrúlega skemmtilegt og gefandi en á sama tíma er þetta virkilega krefjandi og alls ekki fyrir alla. Unglingsárin er tímabilið þar sem börn standa frammi fyrir því hlutverki að hætta að vera börn og stíga þar að leiðandi inn í heim fullorðinna. Á unglingsárunum eiga mikið af breytingum sér stað, bæði líffræðilega, vitsmunalega og félagslega. Kröfur samfélagsins og jafningja breytast og unglingurinn stendur frammi fyrir þeirri mikilvægu áskorun að velja bestu leiðina til þess að takast á við þessar breytingar.

Það er mikilvægt að fagmenntað fólk sé að vinna á þessum vettvangi með þessum viðkvæma aldri, alls staðar þar sem unnið er með fólki finnst mér algjört skilyrði að þar séu einstaklingar með menntun á þessu sviði.

Í grunninn er félagsmiðstöðvarstarf forvarnarstarf þar sem unnið er með viðhorf og atferli unglinga í átt að heilbrigðum lífstíl og virkni í samfélaginu. Þangað geta unglingar leitað í öruggt umhverfi og eitt mikilvægasta verkefni starfsmanna er að sjá til þess að enginn verði fyrir aðkasti og/eða einelti. Eitt af meginmarkmiðum félagsmiðstöðvastarfs er að ná til sem flestra og bjóða upp á dagskrá sem hentar hverjum og einum. Ábyrgð starfsmanna í félagsmiðstöðvum er mikil, þar sem við erum mikilvægar fyrirmyndir og höfum oft meiri áhrif á unglingana en við gerum okkur grein fyrir. Þarna mætum við unglingnum á jafningjagrundvelli með virðingu fyrir honum og hans málum.

Starf í félagsmiðstöðvum er tvíþætt, það er að segja opið starf og hópastarf. Í opna starfinu gefst unglingum tækifæri á að hittast á hlutlausum og öruggum stað þar sem þeir geta mætt á eigin forsendum og fá að vera virk á þann hátt sem hentar hverjum og einum undir handleiðslu félagsmiðstöðvarleiðbeinanda. Í opna starfinu geta unglingarnir sinnt áhugamálum sínum og þjálfast í því að nýta frítíma sinn á innihaldsríkan og uppbyggjandi hátt. Færnin að nýta frítíma sinn á jákvæðan hátt er ekki meðfædd og oftast er það í frítíma unglinga sem þeir fara að sýna áhættuhegðun. En á meðan þeir mæta í félagsmiðstöðvarnar og fá þar stuðning og hvatningu til þess að gera hluti sem eykur lífsgæði þeirra dregur það úr líkum áhættuhegðunar. Starfsfólk félagsmiðstöðva vinna markvisst að því að hjálpa unglingum að mótast sem einstaklingar, nota gagnrýna hugsun og að átta sig á því hvernig einstaklingar þeir vilja vera í samfélaginu. Síðan er það hópastarf þar sem unnið er að sameiginlegum viðfangsefnum þar sem tækifæri gefst til þess að þjálfa félagsfærni, vináttufærni, styrkja sjálfsmynd, sýna umhyggju og þroska með sér hópavitund. Í hópastarfi er unnið með einstaklinginn einn og sér ásamt hópnum í heild. Ferli hópastarfs er stýrt af fagaðila sem leiðbeinir einstaklingunum innan hópsins til þess að ná sameiginlegum markmiðum hópsins. Oftast er þátttaka í hópastarfi valfrjáls og getur hver sem er tekið þátt. Síðan er það sértækt hópastarf, í því hópastarfi er valið í hópinn með aðstoða annarra fagaðila vegna ástands unglingsins sem getur til dæmis verið að hann er félagslega óvirkur eða sýnir áhættuhegðun. Leiðbeinandinn stendur frammi fyrir því verkefni að leiða hópinn áfram á lýðræðislegan hátt og vinnur markvisst að því að virkja alla aðila innan hópsins þar sem allir eiga möguleika á því að hafa áhrif.

Í grófum dráttum er þetta hluti af því sem starfsmenn félagsmiðstöðva takast á við. Eins og í leikskólum, frístundastarfi og starfi innan skóla er markmiðið að hjálpa unglingum að mótast sem einstaklingar og verða að góðum samfélagsþegnum.

Sara Linneth Lovísudóttir Castaneda

Samfestingurinn – Unglingaviðburður í aldarfjórðung

Fyrirsögnin segir margt um viðhorf til unglinga árið 1992.

Árlega fara unglingar á Íslandi að ókyrrast í mars byrjun vegna dansleiks sem þau hafa beðið lengi eftir. Þau eru óþreyjufull því senn er biðin á enda. Samféshátíðin er nefnilega handan við hornið en þá koma saman unglingar úr félagsmiðstöðvum hvaðan æva af landinu í allsherjargleði í Laugardalshöll. Samféshátíðin sem í daglegu tali er kölluð Samfestingurinn er haldin á vegum Samfés, samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, en þar spilar ungmennaráð samtakanna stóra rullu. Ungmennaráð Samfés, sem skipað er átján lýðræðislega kjörnum fulltrúum, hefur nefnilega haft veg og vanda að dagskránni undanfarin ár en þau bæði velja plötusnúða og hljómsveitir sem koma fram á Samfestingnum sem og aðstoða við viðburðahaldið. Vægi ungmennaráðsins er alltaf að aukast. Þetta er því viðburður haldin fyrir unglinga af unglingum undir handleiðslu starfsmanna félagsmiðstöðva og Samfés. Sannkölluð uppskeruhátíð fyrir æsku landsins. Lesa meira “Samfestingurinn – Unglingaviðburður í aldarfjórðung”

Reykvél með blómalykt

Að reykja rafrettur, eða „veipa“, er æði sem gengur nú yfir þjóðina –allir svölu unglingarnir eiga veip og keppst er um að vera alltaf með nýtt bragð og blása sem stærstu gufuskýi yfir næsta mann. Strax og rafrettur náðu vinsældum hófst umræðan um hvort þetta væri einhverju skárra en sígarettur. Margir fullorðnir nikótínfíklar skiptu úr sígarettum og munntóbaki yfir í rafrettur í von um að losna við hina hvimleiðu fylgikvilla tóbaks, svo sem óþef, versnandi heilsu og kostnaði. Lesa meira “Reykvél með blómalykt”

Af hverju er ekki meira gert fyrir börn og unglinga í Listasöfnum í Reykjavík?

 

Ég er nemandi í Listfræði við Háskóla Íslands og er að taka Tómstunda- og félagsmálafræði sem aukagrein við BA gráðuna mína. Einnig hef ég unnið hjá Reykjavíkurborg og farið með hópa af börnum og unglingum á listasöfnin í Reykjavík. Mér finnst mikilvægt að börn og unglingar kynnist listum vegna þess að það eykur þroska þeirra og skilning á menningu þeirri sem þau eru partur af. Listir eru uppeldisatriði og börn eiga rétt á að læra að njóta lista, eins og þau eiga rétt á að læra að lesa. Góður vettvangur fyrir börn og unglinga eru félagsmiðstöðvar sem kynna listir fyrir börnunum með því t.d. að fara með þau á listasöfn. Lesa meira “Af hverju er ekki meira gert fyrir börn og unglinga í Listasöfnum í Reykjavík?”

Frá fikti til dauða

Árið 2018 er ný gengið í garð og hafa nú þegar sex einstaklingar látið lífið af völdum fíkniefnaneyslu, sex einstaklingum of mikið. Einstaklingarnir eru með misjafnan bakgrunn og eru á öllum aldri sem skilja eftir sig börn, foreldra, maka og aðra ættingja og vini í miklum sárum. Að sjá á eftir ástvini sem fer þessa leið er hræðilegt. Hver einn og einasti aðstandandi hugsar með sér hvað hefði ég getað gert betur? Hvað klikkaði? Fyrst kemur reiðin, síðar sorgin og svo söknuðurinn. Lesa meira “Frá fikti til dauða”

Börnin sem sitja á hakanum

Flestum er kunnug starfsemi félagsmiðstöðva. Félagsmiðstöðvar í Reykjavík eru fyrir ungmenni í 5. – 10. bekk grunnskóla. Í starfsskrá frístundamiðstöðva Reykjavíkurborgar er hlutverk félagsmiðstöðva skilgreint á þann veg að þær eigi að bjóða ungmennum á aldrinum 10-16 ára upp á frístundastarf sem hefur forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Ásamt því að bjóða þeim upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi.

Þetta þýðir að félagsmiðstöðvarnar standa ungmennum opnar við 10 ára aldur. Fram að þeim aldri bjóða frístundaheimili krökkum í 1.-4. bekk upp á starfsemi alla virka daga í formi skipulags tómstundastarfs. Flestir krakkar nýta sér þetta starf ef þeim gefst kostur á en sum þeirra eru aftur á móti hætt í frístund áður en þau koma í 5. bekk og félagsmiðstöðvarnar taka við. Lesa meira “Börnin sem sitja á hakanum”