Samfestingurinn – Unglingaviðburður í aldarfjórðung

Fyrirsögnin segir margt um viðhorf til unglinga árið 1992.

Árlega fara unglingar á Íslandi að ókyrrast í mars byrjun vegna dansleiks sem þau hafa beðið lengi eftir. Þau eru óþreyjufull því senn er biðin á enda. Samféshátíðin er nefnilega handan við hornið en þá koma saman unglingar úr félagsmiðstöðvum hvaðan æva af landinu í allsherjargleði í Laugardalshöll. Samféshátíðin sem í daglegu tali er kölluð Samfestingurinn er haldin á vegum Samfés, samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, en þar spilar ungmennaráð samtakanna stóra rullu. Ungmennaráð Samfés, sem skipað er átján lýðræðislega kjörnum fulltrúum, hefur nefnilega haft veg og vanda að dagskránni undanfarin ár en þau bæði velja plötusnúða og hljómsveitir sem koma fram á Samfestingnum sem og aðstoða við viðburðahaldið. Vægi ungmennaráðsins er alltaf að aukast. Þetta er því viðburður haldin fyrir unglinga af unglingum undir handleiðslu starfsmanna félagsmiðstöðva og Samfés. Sannkölluð uppskeruhátíð fyrir æsku landsins.

En hvað er þetta fyrirbæri Samfestingurinn? Hvaðan kemur nafnið? Hver er sagan á bakvið hann? Samfés eru frjáls félagasamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi sem stofnuð voru þann 9. desember árið 1985 en síðar komu einnig ungmennahús landsins inn í samtökin. Þau hafa allt frá stofnun staðið fyrir öflugu starfi með það að leiðarljósi að auka samskipti og samvinnu ungmenna landsins í víðu samhengi. Á bernskuárum samtakanna voru sveitarfélög að vinna á ólíkan hátt með frístundastarf ungmenna og settu mismikið púður í starfið. Félagsmiðstöðvar höfðu rutt sér til rúms víða en með tilkomu Samfés skapaðist vettvangur til skoðanaskipta starfsmanna sem margir höfðu sótt sér menntun út fyrir landssteinanna. Þessi skoðanaskipti komu boltanum af stað og æ fleiri sveitarfélög fóru að hyggja að stofnun félagsmiðstöðva og sóttu þá í viskubrunn meðlima Samfés.  Gróskan var mikil á uppvaxtarárum samtakanna en á sama tíma var umræða hávær um hina alræmdu unglinga á blöðum dagblaðanna. Unglingamenningin var máluð sem hættulegur heimur þar sem vargöld ríkti. Gífuryrðin voru svo sem ekkert ný af nálinni um hegðun unglinga á Íslandi því þau hafa fylgt orðræðunni um áratuga skeið. Vandræðagemsarnir í Kömpunum, Hallærisplanið, rokkaralýðurinn, pönkararnir, Villingarnir og allir hinir sem voru á beinustu leið í Sollinn. Staðreyndin var aftur á móti sú að unglingar höfðu í fá hús að venda í frítíma sínum á þessum tíma og skipulagt tómstunda- og íþróttastarf langt frá því að vera í líkingu við það sem við þekkjum í dag. Óæskileg hópamyndun var algeng í bæjum og byggðum en með tilkomu félagsmiðstöðva fengu unglingarnir afrep til að sinna sínum áhugamálum í öruggu umhverfi undir handleiðslu starfsmanna. Þeir máttu ekki sækja skemmtistaði en eins og í nútímanum – vildu þeir taka snúning á dansgólfinu. Þar vildu þeir hlýða á stærstu bönd samtímans en kostnaður við slíka viðburði gat verið of mikill fyrir litla félagsmiðstöð. Þar kom Samfés til skjalanna og mætti þörfum unglinganna með fyrsta Samfésballinu sem haldið var árið 1991 í Hinu Húsinu. Samfésballið var orðið til en í þá daga var einungis um ball að ræða sem var haldið eina kvöldstund á ári.

Árið 1992 stóðu Þróttheimar fyrir fyrstu söngkeppni Samfés í Danshúsinu í Glæsibæ. Fyrstu fjögur árin hélt Samfés dansleikinn sinn í Hinu Húsinu sem þá var staðsett við Brautarholt og spiluðu bönd á borð við Ný Dönsk og Sálin hans Jóns míns fyrir dansi. Viðburðurinn fór úr því að vera dansleikur fyrir fjögur til fimm hundruð unglinga yfir í það að fylla húsnæðið með rúmlega 1000 unglingum. Þá voru góð ráð dýr og var ákveðið að færa viburðinn árið 1995 yfir í Hafnafjörð – nánar tiltekið í íþróttahúsið á Strandgötu. Þar stigu á stokk stærstu hljómsveitir og tónlistarmenn landsins og enn fjölgaði meðal unglinga sem sóttu viðburðinn. Á þessum tíma var viðburðurinn lífæð samtakanna sem treystu nær alfarið á tekjur sem sköpuðust við viðburðahaldið. Viðburðurinn stækkaði og stækkaði og við það gat Samfés eflt starf sitt til muna. Getur maður hæglega spurt sig hvort viðburðir eins og: Landsmót Samfés, hönnunarkeppnin Stíll, rappkeppnin Rímnaflæði, ungmennaráð samtakanna og Jafningjafræðsla samtakanna stæðu jafn sterkum fótum nú ef ekki hefði komið til Samfésballsins?  Ásamt því mikilvæga starfi sem Samfés skilar í þjálfun starfsmanna og aukinni fagþekkingu á vettvangi frítímafræða hérlendis.

Viðburðurinn óx og óx í Hafnafirðinum þangað til að árið 2001 sprengdu 1700 unglingar utan af sér húsnæðið og enn þurfti að hugsa út fyrir kassann. Söngkeppnin stækkaði líka samhliða því að félagsmiðstöðvum fjölgaði hérlendis og flakkaði hún á milli staða en árið 2001 var ákveðið að fara með hana Laugardalshöllina þar sem ungir söngvarar þöndu raddböndin fyrir framan 2700 áhorfendur. Árið 2005 var ákveðið að halda viðburðina, ballið og söngkeppnina, sömu helgi og blása til alvöru hátíðar. Samféshátíðin eða Samfés festvalið var orðið til en árið 2012 var ákveðið að gefa viðburðinum heitið Samfestingurinn. En hvað fer þarna fram?

Á Samfestingnum koma saman unglingar frá öllum krókum og kimum Íslands en þeir eru þarna sem erindrekar þeirra 120 félagsmiðstöðva sem eiga aðild að Samfés. Á föstudeginum koma unglingar og starfsfólk saman í rútum í Laugardalinn og hlusta á stór bönd sem unga fólkið hefur sjálft valið spila fyrir dansi í bland við unga tónlistarmenn úr félagsmiðstöðvunum. Þarna höfum við unglinga sem hafa keyrt landið endilangt til þess eins að skemmta sér með jafnöldrum sínum. Á laugardeginum fer Söngkeppni Samfés fram en keppnin er iðulega send út í sjónvarpi líka. Þar stíga á stokk margir af efnilegustu söngvurum landsins og undirspilið er einnig oftast leikið af ungum hljóðfæraleikurum úr félagsmiðstöðvunum. Þessir söngvarar hafa allir sigrað undankeppnir sem haldnar eru út í félagsmiðstöðvunum sjálfum en sigurvegararnir úr þeim keppa síðan í sérstökum landshlutakeppnum. Þegar á Samfestinginn er komið eru því 30 bestu söngatriði landsins að etja kappi. Keppnin er góður vettvangur fyrir ungt tónlistarfólk til að spreyta sig á stóra sviðinu þar sem aðstaðan er sú glæsilegasta. Hafa margir íslenskir tónlistarmenn stigið sín fyrstu skref þarna. Að söngkeppnini lokinni fara svo allir unglingar til síns heima – og niðurtalningin fyrir Samfesting næsta árs hefst.

Frá Landsmóti SAMFÉS árið 1991. Heimild: Morgunblaðið.

Þessi glæsilegi viðburður er samofinn íslenskri unglingamenningu síðari ára enda verður hann þrítugur árið 2021. Á þessum tæpu 30 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar í málefnum barna á Íslandi. Rannsóknir sýna að neysla áfengis og vímuefna hefur lækkað verulega með samhentu átaki allra þeirra sem koma að málefnum æskunnar. Við sem störfum innan félagsmiðstöðva á Íslandi sjáum þennan árangur fyrir augum okkar á hverju kvöldi. Unglingar landsins hafa sterkar skoðanir á málefnum líðandi stundar, eru hugmyndaríkir, útsjónarsamir og láta mannréttindi og jafnrétti sig varða. Því skýtur það stundum skökku við að lesa og/eða heyra neikvæðan málflutning um Samfestinginn í spjalli við fullorðna eða á samfélagsmiðlum. Það eru ákveðnar mýtur um hegðun unglinga á þessarri glæsilegu hátíð sem skyggja oft á jákvæðu hliðinarnar. Sögusagnir um kossaflens og klæðaburð kæfa oft þá staðreynd að þarna koma saman hátt í 4500 unglingar og um 400 starfsmenn án allra stórra árekstra eða vandræða. Á viðburðinum eru til taks hjúkrunarfræðingar ef einhver verður fyrir slysi eða líður ekki vel. Starfsmenn manna sérstakt brosherbergi þar sem tekið er á öllum málum sem þarf að bregðast skjótt við. Gæslan er framúrskarandi og gæslustjórinn á viðburðinum hefur stýrt henni í rúman áratug. Það er varla dauður blettur sem starfsmenn ekki manna – hvorki fyrir innan veggi Laugardalshallar né utan. Færanlegir starfsmenn labba um útisvæðið og gæta þess að enginn sem á ekki erindi á Samfestinginn sé að sniglast þarna fyrir utan. Leitað er á öllum bæði heima í héraði og ef upp kemur grunur upp eitthvað misjafnt. Slík mál eru deyjandi – þökk sé árvökulum augum starfsmanna félagsmiðstöðvanna sjálfra.

Unglingar eru unglingar og eru vissulega að þreifa fyrir sér í lífinu. Þau eru forvitin og hormónaflæðið ber suma ofurliði en allt hjal um að hátíðin snúist einungis um kossa og kelerý er einfaldlega rangt. Samtök félagsmiðstöðva á Íslandi eru iðulega í samstarfi við aðra fagaðila. Í ár tóku þau höndum saman með Stígamótum um að fræða alla þá sem fara á Samfestinginn. Þar munu unglingarnir fá fræðsluna „unglingar gegn ofbeldi“ en sú fræðsla mun fara fram samhliða herferð Stígamóta sem ber heitið Sjúkást. Er það krafa samtakanna að allar félagsmiðstöðvar sem hyggjast koma á ballið fræði sína unglinga en fræðslan kemur inn á hugtök eins og upplýst samþykki, kynferðislega áreitni og að setja mörk. Frábært framtak hjá Samfés og Stígamótum því fræðsla sem þessi á erindi við alla unglinga. Við þurfum að fræða þau á þessum róstursömu unglingsárum.

Úr Fjarðarpóstinum 1998.

Nú þegar líða fer að Samfestingi er ekki seinna vænna en að brýna upp raustina og hrósa Samfés og starfsfólki félagsmiðstöðva fyrir glæsilega hátíð. Þróun hennar hefur verið frábær og megi hún lifa næstu 30 árin í viðbót – hið minnsta. Æskulýðsstarfsmenn innan samtaka félagsmiðstöðva í Evrópu öfunda okkar af þessum flotta viðburði og koma reglulega hingað til lands til að rekja úr okkur garnirnar. Foreldrar og forráðamenn ættu svo sannarlega að hvetja sína unglinga til að mæta ef þeir sýna því áhuga og taka umræðuna með sínum unglingi um það hvað sé þarna að gerast. Hvernig skemmtir maður sér eiginlega á ábyrgan hátt? Hvernig setur maður mörk? Er í lagi að kyssa einhvern ef manni langar til þess? Hvernig á unglingurinn að haga sér á svona stórri skemmtun?

Áfram Samfés og Samfestingurinn!

——

Magnús Sigurjón Guðmundsson, félagsmálafræðingur og verkefnastjóri hjá sveitarfélaginu Árborg