Reykvél með blómalykt

Að reykja rafrettur, eða „veipa“, er æði sem gengur nú yfir þjóðina –allir svölu unglingarnir eiga veip og keppst er um að vera alltaf með nýtt bragð og blása sem stærstu gufuskýi yfir næsta mann. Strax og rafrettur náðu vinsældum hófst umræðan um hvort þetta væri einhverju skárra en sígarettur. Margir fullorðnir nikótínfíklar skiptu úr sígarettum og munntóbaki yfir í rafrettur í von um að losna við hina hvimleiðu fylgikvilla tóbaks, svo sem óþef, versnandi heilsu og kostnaði.

Það sem fæstir bjuggust hins vegar við var sú þróun að unglingar í efri bekkjum grunnskóla og á fyrstu árum menntaskóla byrjuðu að „veipa“ án þess að hafa nokkurn tímann reykt áður. Í félagsmiðstöðvum og skólum var þetta fljótt bannað þótt að krökkunum þætti það mörgum fásinna og rökræddu mikið um skaðleysi veips, að þau væru nú flest með nikótínlaust veip o.s.frv. Allir vita að unglingar eru verri en stjórnmálamenn þegar kemur að því að hlusta á rök annara, hvað þá að skipta um skoðun svo það er hægara sagt en gert að rökræða við þá. Þar sem ég sem félagsmiðstöðvafulltrúi er ekki læknismenntuð né hef tíma til að lesa þær rannsóknir sem gerðar hafa verð um efnið ákvað ég að leyfa líffræðilegum áhrifum veips að liggja milli hluta og pæla frekar í félagsfræðilegum og samfélagslegum áhrifum rafretta.

Hvað gerir það fyrir samfélag unglinga að venja sig á að draga reyk eða gufu ofan í lungu og að verða instant nettur fyrir vikið? Er ekki nógu erfitt að vera unglingur nú til dags, þarf einnig að gera kröfu um persónulega reykvél með blómalykt? Þar að auki má spyrja sig hvort að það að venja sig á að reykja, nikótín eða ekki, gagnist nokkrum. Áralöng fræðsla um skaðsemi reykinga tókst að láta reykingar líta heimskulega út en nú eru enn á ný sterk tengsl milli þess að vera svalur og að reykja. Mun auðveldara er að segja já við nikótínveipi, sígarettum eða jafnvel marijúana þegar maður er búinn að venja sig á að reykja nikotínlaust veip. Því væri hægt að líkja rafrettureykingum við gras, en þau hafa svipuð áhrif að því leiti að geta virkað sem „gateway-drug“, eitthvað sem kveikir áhuga á öðrum og skaðlegri eiturlyfjum.

Enn eitt sem vert er að velta fyrir sér er á hvaða aldri sé skynsamlegt að byrja að sækja orku í annað en mat. Ísland er alræmd kaffi- og áfengisdrykkjuþjóð og því er kannski best að halda ungmennum frá bæði örvandi og róandi efnum eins lengi og hægt er. Til dæmis eru orkudrykkir, sérstaklega þeir sem eru með hátt koffíninnihald, bannaðir innan félagsmiðstöðva hér á landi. Bæði vegna þess að þeir geta valdið hjartatruflunum í miklu magni en líka vegna þess að krakkar ættu ekki að þurfa á örvandi efni líkt og koffíni að halda. Hættan er sú að með því að leita í „efni“, þó að það sé jafn sakleysislegt og koffín, til að finna fyrir ákveðinni tilfinningu (aukinni orku, róandi áhrifum, vímu), er búið að opna ákveðna gátt sem erfitt er að loka fyrir.

Að öllu þessu sögðu tel ég því að sem félagsmiðstöðvarstarfsmenn, kennarar eða foreldrar ættum við öll að gefa unglingunum okkar góð rök gegn rafrettunotkun, ekki endilega með hræðsluáróðri um lungnakrabba heldur með ígrunduðum rökum um hvaða veseni það getur komið þeim út í félagslega.

Hrefna Björg Ragnarsdóttir