Skjárinn eða upplifun?

Þegar maður var sjálfur ungur var maður mikið að leika sér úti með vinum sínum. Dagskráin hjá manni var alltaf sú sama, það var skóli, æfing, borða og svo út að leika sér með vinum sínum að lenda í allskonar ævintýrum í allskonar veðrum.  Krakkar í dag hafa aðeins öðruvísi dagskrá, en þeirra dagskrá lítur einhvern veginn svona út skóli: Æfing, borða og svo beint í tölvuna, sjónvarpið eða símann.  Það skiptir ekki máli hvaða veður er úti, unga fólkið vill frekar vera inni að horfa á eitthvað spennandi eða spila einhverja tölvuleiki. Þá fer maður að spyrja sig, er unga fólkið að missa af öllum þeim ævintýrum sem að þau hefðu getað átt á sínum unga aldri með því að hanga fyrir framan tölvuskjáinn alla daga og allar nætur alla daga ársins? Er tölvunotkun að koma í veg fyrir að krakkar fari út og styrki vinasambönd milli sín og vina sinna?

Tækni í dag er alltaf að verða betri og flottari með hverju ári og allar þessar spjaldtölvur, snjallsímar og fartölvur sem að unga fólkið er að nota hafa allskonar síður og leiki sem heldur augum þeirra límdum við skjáinn. Þau fara á Youtube til þess að horfa á fyndin video eða video af öðru fólki að fíflast sín á milli og lenda í allskonar ævintýrum. Þau fara inn á Netflix og horfa á spennandi þætti eins og Friends eða Stranger Things þar sem alltaf eitthvað spennandi eða fyndið er að gerast hjá öðru fólk en þeim. Svo fara þau í Playstation tölvuna sína, þar spila þau leiki eins og Fortnite þar sem þau eru að leika sem karakter sem hefur það markmið að verða síðasti maður á lífi í öllum leiknum. Allt sem unga fólkið er að horfa á eru ævintýri, félagslegar aðstæður og samskipti sem þau sjálf eru ekki að upplifa heldur eru þau að horfa á annað fólk lenda í þessum aðstæðum og ævintýrum á meðan unga fólkið situr inni hjá sér límt við skjáinn alein.

Allt fullorðið fólk hefur lent í allskonar ævintýrum þegar að þau voru á unga aldri sem þau geta sagt frá. Þau höfðu ekki alla þessa tækni sem er til í dag til að halda þeim inni. Þau urðu að fara út til vina sinna, fóru með þeim á allskonar staði, lentu í óteljandi ævintýrum og sköpuðu ógleymanlegar minningar. Fólk vill lenda í fullt af frábærum ævintýrum til að segja frá þegar að þau eru eldri en öll þessi ævintýri eru ekki bara til að geta sagt sögur. Þau eru einnig til að styrkja vinasambönd með þeim aðilum sem upplifa þessi ævintýri með þeim. Fólkið var ekki bara að horfa á annað fólk upplifa þessa hluti á einhverjum skjá í símanum eða tölvunni þeirra, nei þau fóru út og upplifðu þetta sjálf.

Við vonum að sjálfsögðu að tæknin haldi áfram að verða betri og flottari til að auðvelda okkur lífið, gefa okkur auðveldari leiðir til að hittast og tala saman og í framtíðinni hjálpa okkur að heimsækja aðra heima. En þangað til að það gerist verður unga fólkið að ákveða það hvort það vilji horfa á skjáinn heima hjá sér á fullt af mismunandi fólki skemmta sér, spjalla saman og lenda í allskonar ævintýrum. Eða ætla þau að taka upp símann, hringja í vini sína og lenda í öllum þessum ævintýrum sjálf, styrkja vinasambönd og búa til fullt af skemmtilegum minningum?

Viktor Orri Þorsteinsson