Hvað þarf framtíðin?

Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er quality education eða gæða nám og hef ég mikið velt því fyrir mér í hverju það felst. Mín skoðun er sú að nám sem leggur áherslu á að efla styrkleika og trú einstaklinga á eigin getu til þess að nýta hæfileika sína til hins ítrasta sé gæða nám. En hvernig kennir maður fólki að nýta hæfileika sína til hins ítrasta?

Til að nýta hæfileika sína þarf maður fyrst að komast að því hverjir þeir eru. Þá velti ég því fyrir mér hvað eru hæfileikar? Samkvæmt íslenskri orðabók er það góður eiginleiki, gáfa eða hæfni. Í framhaldi af þessu langar mig til þess að fjalla örstutt um niðurstöður rannsóknar sem ég las um daginn.  Þær leiddu það í ljós að útinámsferðir þar sem hópur dvelur ásamt leiðbeinanda úti í nokkra daga og nætur geta haft djúpstæð áhrif á viðhorf þátttakenda til sjálfs sín, en í gegnum sjálfsuppgötvun og árangur eykst jákvæð sjálfsmynd þeirra til muna. Það er eiginleiki sem mikilvægt er að efla meðal ungmenna en einstaklingur með góða sjálfsmynd hefur trú á sjálfum sér og á því auðveldara með að takast á við áskoranir og mótlæti í lífinu. Rannsóknin leiddi það líka í ljós að félagsfærni eykst í útinámsferðum. Virðing, þolinmæði og umhyggja gagnvart öðrum eykst í ferðum sem þessum. Ábyrgðartilfinning sprettur af umhyggju og því upplifa allir að þeir tilheyri þar sem náungakærleikur ríkir.  Að lokum greinir frá því í niðurstöðum að dvöl í óbyggðum í lengri tíma hefur djúpstæð áhrif á viðhorf okkar til náttúrunnar. Það sama gildir um hana og náungakærleikann en með aukinni umhyggju fyrir náttúrunni eykst ábyrgðartilfinning okkar gagnvart henni. Fimm af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna snúa beint að umhverfismálum og mörg til viðbótar óbeint. Það skiptir því óneitanlega miklu máli að efla ábyrgðartilfinningu fólks gagnvart náttúrunni en það gerist við það að verja meiri tíma úti, a.m.k. samkvæmt þessarri rannsókn.  Útinámsferðir eru því að mínu mati gæða nám þar sem þær efla hæfni og jákvæða eiginleika þátttakenda.

Í útinámsferðum er tíma varið  úti í náttúrunni í samveru með öðrum. Leiðbeinandi skipuleggur dagskrárliði sem þátttakendur taka þátt í af innri hvata. Jafnvægi er haft á milli áreynslu og hvíldar, samveru og einveru. Tekist er á við allskonar fjölbreytileg verkefni sem reyna á mismunandi færni. Litið er á mistök sem tækifæri til að læra af og hugsað er í lausnum. Í svona ferðum er oftast unnið út frá hugmyndum um reynslumiðað nám þar sem áhersla er lögð á sjálfsuppgötvun í gegnum ígrundun og reynslu. Sérfræðingar á þessu sviði segja ávinning útinámsferða gríðarlegan og mjög jákvæðan fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu. Útivist sem felur í sér áhættu og áskorun þar sem þátttakandi hefur þó nægilega færni til að takast á við áskorunina getur verið mjög þýðingarmikil og gefandi en árangurinn skilar sér strax og upplifunin er sú að maður sé algjörlega lifandi eða að lifa til hins ítrasta.

Tímarnir breytast og mennirnir með, samfélagið kallar sífellt á nýjar kröfur og áskoranir. Það er mikilvægt að allir þeir sem vinna með börnum og unglingum á einn eða annan hátt séu meðvitaðir og aðlagi og þrói jafnóðum sitt starf í takt við það. Einstaklingur sem ber umhyggju til sjálf síns, annarra og umhverfisins og hefur trú á sjálfum sér, öðrum og umhverfinu er einstaklingur sem framtíðin þarf. Núna er því tími til að efla sjálfsþekkingu, félagsfærni og ástríðu fyrir náttúrunni meðal ungmenna og tel ég útinámsferðir vera farsæla og skilvirka leið til þess.

Hrafnhildur Jóakimsdóttir