Þegar strákar gera það sem er ætlast til af þeim þá fagnar fólk þeim og hrósar. Þegar stelpur gera það sem ætlast er til af þeim eru engin viðbrögð. Það er einfaldlega vegna þess að þær fara oftast eftir fyrirmælum og gera það sem á að gera. „Strákagaurar“ fá mesta „praisið“, vegna þess að það er búist við minnstu frá þeim. Ef að við myndum búa til pýramída þessu tengdu þá yrðu stelpur efstar, þar sem ætlast er til mikils af þeim, strákar sem teljast vera „lúðar” eða „nördar” yrðu næst efst, vegna þess að þeir eru oftast klárir og góðir.„Venjulegir” strákar yrðu þar á eftir og „gaura” strákar væru neðst í pýramídanum. Það er vegna þess að við búumst ekki við því að „gaura” strákar séu kurteisir, góðir með börnum, klárir, hlýir eða sýni samkennd. Í staðinn er gert ráð fyrir að þeir séu truflandi, aggresívir, tillitslausir og áhugalausir. Þegar þeir sýna aðra hegðun er þeim fagnað og hrósað í hástert. Frá stelpum býst maður við samkennd, hjartahlýju, áhuga og hlustun. Þegar þær sýna á aðra hegðun, eins og reiði eða tillitsleysi, er sú hegðun fordæmd.
Category: Greinar
Greinar skrifaðar af ritstjórn Frítímans
Félagsmiðstöð á faraldsfæti
Í kjölfar fordæmalausra atburða í nágrenni Grindavíkur hefur 3700 manna samfélag verið á hrakhólum í rúma fimm mánuði. Opnaðar hafa verið þjónustumiðstöðvar fyrir íbúa bæði í Reykjavík og Reykjanesbæ og hafa íþróttafélög, Strætó auk annara aðila lagt sig fram við að tryggja grindvískum börnum aðgengi að áframhaldandi íþrótta – og tómstundastarfi. Félagsmiðstöðin Þruman, sem áður var starfrækt í Grindavík, er einn af þeim vinnustöðum Grindavíkurbæjar sem enn er á faraldsfæti og ríkir mikil óvissa um. Starfsfólk þess leggur sig allt fram til þess að halda starfinu gangandi á lausnarmiðaðan hátt.
Lesa meira “Félagsmiðstöð á faraldsfæti”
Samfélagsleg styrkleikakort
Það er alltaf mikil orka sem fylgir því að hefja nýtt ár og nýja önn í tómstunda- og félagsmálastarfi. Eftir undarlega haustönn erum við reynslunni ríkari með allskyns nýjar leiðir til þess að halda úti starfinu en einnig bindum við vonir við að hægt verði að halda úti hefðbundnu starfi í auknum mæli næstu mánuði. Við upphaf nýrrar annar er alltaf gott að staldra við, ígrunda og rýna starfið, hvað er að ganga vel og hvar viljum við sækja fram. Eitt tól sem er afar gagnlegt til að nýta á slíkum tímamótum er samfélagsleg styrkleikakort (e. community asset mapping) á samfélagi einstaklingana sem samtökin eða stofnunin vinnur með. Út frá slíkri kortlagningu færist umræðan um starfið á hærra stig og fæðast oft allskyns hugmyndir um ný samstarfsverkefni og bætt samskipti við aðra hagaðila samfélagsins.
Í bók sinni Building communties from the inside out fjalla þeir Kretzman og McKnight (1993) um að það séu tvær hugmyndafræðilegar leiðir til að styðja við samfélög. Í hefðbundinni leið er áherslan á að styðja við samfélög með því að skoða þarfir samfélagsins, áhyggjur og vandamál. Markmiðið er að breyta stofnunum samfélagsins og hreyfiaflið eru völd og valdhafar en litið er á einstaklinginn sem neytanda eða skjólstæðing (Allen o.fl., 2002). Hin leiðin er að gera samfélagsleg styrkleikakort sem efla samfélög með því að skoða þá styrkleika og resourca sem samfélagið býr yfir. Markmiðið er að efla samfélagið og hreyfiaflið eru sambönd, samstarf og samskipti. Litið er á einstaklinginn sem hreyfiafl sem á eignarhald í samfélaginu (Allen o.fl, 2002). Samfélagsleg styrkleikakort rýma því vel við áherslur tómstundastarfs um virðingu fyrir einstaklingnum og að hlutverk starfsins sé að byggja upp einstaklinginn út frá áhugasviði hans, draumum og styrkleikum. Samfélagsleg styrkleikakort geta verið margskonar en eiga það öll sameiginlegt að teikna upp þá styrkleika og þá resourca sem samfélagið býr yfir (Allen o.fl, 2002) Hér er dæmi um uppsetningu á samfélagslegu styrkleikakorti:
(Allen, 2002)
Þegar samfélagsleg styrkleikakort er unnið er mikilvægt að bera það undir ólíka þátttakendur samfélagsins til að þau endurspegli fjölbreyttni samfélagsins og er besta leiðin að fá fjölbreyttan hóp þátttakenda samfélagsins til að vinna kortið saman. Samfélagsleg styrkleikakort veita aukna innsýn inn í samfélag og samhengi starfseminar sem við höldum úti. Með aukinni innsýn opnast augu okkar fyrir því að til að bæta okkur þurfum við oft að líta út fyrir eigin samtök eða stofnun og auka samstarf og samskipti við aðra aðila samfélagsins. Ég mæli hiklaust með að útbúa samfélagslegt styrkleikakort með nýjum starfsmannahópi, einnig er hægt að gera það með þátttakendum í starfinu eða jafnvel blönduðum hópi starfsmanna, þátttakanda og annara hagaðila samfélagsins.
Guðmundur Ari Sigurjónsson
Mastersnemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands
Heimildir
– McKnight, John L. og John P. Kretzmann. (1993). Building Communities From the Inside Out. Chicago: ACTA Publications.
– Allen, John C. og fleiri. (2002). Building on Assets and Mobilizing for Collective Action: Community Guide. Nebraska: CARI
Stytting framhaldsskóla – Af hinu góða?
Nám til stúdentsprófs var stytt haustið 2015 og var námið stytt úr 4 árum niður í 3 ár. Þegar ég var sjálf í menntaskóla var ekki búið að samþykkja þessa styttingu og átti ég vini sem kláruðu á 3,5 ári og sumir meiri segja á 2,5 ári. Það var þeirra val að klára á styttri tíma en 4 árum. En fyrir suma er nógu erfitt að klára námið á 4 árum. Sumir þurfa líka að vinna með námi og þá er ennþá erfiðara að stunda nám, sinna vinnu, stunda tómstundarstarf og hafa tíma fyrir félagslífið. Einnig spyr maður sig hvaða áhrif styttingin hafi á tómstundarstarf nemendanna? En tómstundarstarf hefur gífurleg áhrif á fólk og sérstaklega unglinga. Lesa meira “Stytting framhaldsskóla – Af hinu góða?”
Að brjóta niður múra
Múrbrjóturinn er viðurkenning sem Landsamtökin Þroskahjálp veita árlega þeim sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að fullgildri samfélagsþátttöku, mannréttindum og lífsgæðum þess til jafns við aðra. Á alþjóðadegi fatlaðs fólks þann 3. desember sl. féll Múrbrjóturinn m.a. í skaut Frístundamiðstöðvarinnar Þorpsins og Ruthar Jörgensdóttur Rauterberg, sem starfaði í Þorpinu í 11 ár en er núna aðjúnkt og doktorsnemi við HÍ.
Vettvangur starfsemi Þorpsins er frítími og forvarnir þar sem megin áherslan er lögð á barna- og unglingastarf. Við settum okkur það markmið að vera ávallt opin fyrir nýjungum og breytingum og miða starfsemina út frá þörfum samfélagsins hverju sinni. En mikilvægast er að við viljum mæta þörfum hvers og eins eftir bestu getu. Við viljum gera ráð fyrir margbreytileika mannlífsins og að allir geti fengið hvatningu og stuðning við hæfi í sínu tómstundastarfi. Það eru allir velkomnir í starfið okkar, alltaf.
Starf án aðgreiningar
Haustið 2007 byrjaði félagsmiðstöðin Arnardalur með tómstundastarf fyrir fötluð börn í 5.-10. bekk eftir að skóla lauk á daginn.Við kölluðum það Frístundaklúbb Arnardals. Gaman-saman starf Þorpsins byrjaði svo sem tilraunaverkefni haustið 2009 en það þróaðist út frá tómstundastarfi Frístundaklúbbsins sem var í fyrstu eingöngu ætlað fötluðum börnum en breyttist svo í tómstundastarf fyrir öll börn. Á þeim tíma vorum við búin að átta okkur á því að börnin í Frístundaklúbbnum voru miklar félagsverur sem áttu í góðu sambandi við jafnaldra sína í skólanum og okkur fannst mótsögn í því að verið var að þróa skólastarf án aðgreiningar en í frítíma vorum við að stuðla að aukinni aðgreiningu.
Haustið 2013 framkvæmdi Ruth með stuðningi Þorpsins þátttökurannsókn á Gaman – saman starfinu í Þorpinu þar sem 40 börn á aldrinum 10-12 ára og 6 frístundaleiðbeinendur tóku þátt. Það var megin niðurstaða rannsóknarinnar að þróun starfs fyrir margbreytilega barna- og unglingahópa byggir á samvinnu sem felst í því að allir taki virkan þátt. Við sáum líka að þátttaka í tómstundastarfi eins og Gaman-saman getur undirbúið okkur undir það að takast á við áskoranir í samfélagi fyrir alla. Börn sem við héldum að þyrftu mestu aðstoðina frá okkur fóru að blómstra og voru jafnvel drifkrafturinn í hópnum. Þau komu sjálfum sér á óvart, unnu mikla sigra og var það oft hvatningu jafnaldranna að þakka.
Við viljum skapa menningu sem viðurkennir margbreytileikann og umhverfi þar sem þátttaka allra þykir sjálfsögð. Við viljum líka sína fram á að starf á vettvangi frítímans er kjörið til þes að stuðla að aukinni þátttöku og auknum samskiptum milli fólks. Við upplifðum nefnilega að fjölbreytileikinn í hópnum gat dregið fram það besta í öllum.
Það að vera múrbrjótur er ekki átaksverkefni. Það er lífstíll og það er hugmyndafræði. Með þessa hugmyndafræði að leiðarljósi geta allir tekið þátt í öllu starfi Þorpsins.
Við erum ákaflega stolt og þakklát fyrir þessa viðurkenningu og hún hvetur okkur til að halda áfram á þessari vegferð og fá aðra með okkur í lið. Það er nefnilega erfitt fyrir einn að brjóta niður múr en verður létt verk þegar allir hjálpast að.
—
Heiðrún Janusardóttir, verkefnisstjóri æskulýðs- og forvarnarmála Akraneskaupstað
Ruth Jörgensdóttir Rauterberg, þroskaþjálfi og aðjúkt við HÍ
Hvar á að geyma geðveikina?
Það er að verða mun algengara að börn og unglingar greinast með geðræna sjúkdóma í dag. Það er misjafnt eftir löndum hversu góð úrræðin eru fyrir þá einstaklinga. Þótt hér á landi hafi verið brugðist við úrræðum fyrir geðsjúk ungmenni á undanförnum árum, þá er enn ansi langt í land að þau verði á þeim stað sem þau ættu að vera á. Úrræðin eru svakalega fá og á meðan fjölgar þeim ungmennum sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Úrræðaleysi stjórnvalda er talsvert og það þarf að gera varanlegar ráðstafanir áður en meiri skaði hlýst af. Lesa meira “Hvar á að geyma geðveikina?”