Fræðsluáætlun FFF – Fullt af spennandi námskeiðum og fyrirlestrum

Þá er fræðsluáætlun FFF loksins tilbúin. Nú þegar hefur verið haldinn einn hádegisverðarfundur þar sem Steingerður Kristjánsdóttir fjallaði um hugmyndafræði þjónandi forystu (servant leadership) og var það áhugavert umfjöllunarefni sem skapaði góðar umræður hjá þeim sem á hlýddu. Hádegisverðarfundir og Kompás/Compasito námskeið eru fastir liðir hjá okkur og við höldum áfram í vetur að fjalla um reynslunám en nú verður boðið upp á námskeið þar sem viðfangsefnið er leiðbeinandinn í reynslunámi. Einnig verða spennandi námskeið um hvernig hægt er að nýta leiklist og aðferðarfræði verkefnisstjórnunar í frístundastarfi.

Hádegisverðarfundir/smiðjur

Viðfangsefni: Allt eftir stemmingunni hverju sinni.
Hvenær: Nóvember, febrúar, apríl og ágúst.
Staðsetning: Mismunandi – auglýst sérstaklega.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: Félagsmönnum og öðrum gestum að kostnaðarlausu.

Kompás og Compasito – stutt kynningarnámskeið

Samstarf FFF, Æskulýðsvettvangsins og Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Viðfangsefni: Bækurnar Kompás og Compasito (Litli Kompás) eru handbækur um mannréttindafræðslu fyrir börn og ungt fólk. Námskeiðið er ætlað þeim sem sinna slíkri mannréttindafræðslu á vettvangi frítímans en gagnast einnig öllum þeim sem starfa með börnum og ungu fólki.
Hvenær: Fjögurra klukkustunda námskeið í janúar, febrúar, mars og apríl.
Staðsetning: Nánar auglýst síðar.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: 5000 kr. og félagsmenn í FFF fá Kompás-bókina sér að kostnaðarlausu á námskeiðinu.

Leiðbeinandinn í reynslunámi – hvar er hann?auglysing

Samstarf FFF og Áskorunar ehf.

Viðfangsefni: Þátttakendur verða þjálfaðir í því að verða betri leiðbeinendur eða „vegvísar“ (e. facilitator) í frístunda- og æskulýðsstarfi þannig að þeir geti betur stutt við nám, vöxt og þroska skjólstæðinga sinna.

Markmiðið er að þátttakendur verði meðvitaðri um:

• Þau mismunandi hlutverk (og skyldur) sem fylgja starfinu.

• Þær víddir sem felast í hlutverki leiðbeinandans.

• Aðferðir og leiðir til að ná betri tökum á starfinu.

• Samhengið milli eigin þroska og getunnar til að vinna með þroska annarra.

• Leiðtogann – í eigin lífi og í lífi annarra.

Hvenær: Þrjú skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (21. janúar kl. 16-20, 10. mars kl. 9-13 og 29. apríl kl. 18-22) og verkefnavinna þess á milli.
Staðsetning: Hlaðan við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 15. janúar, takmarkaður fjöldi plássa.
Verð: 25.000 kr. fyrir félaga í FFF en 30.000 kr. fyrir aðra.

Leiklist í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Fjallað verður um hvernig hægt er að nota leiklist í frístundastarfi, bæði með börnum og unglingum. Námskeiðið byggir á virkri þátttöku og æfingum.

Markmið:

• Að þátttakendur öðlist grunnþekkingu í að beita leiklist sem listformi.

• Að þátttakendur fái innsýn í hvernig hægt er að nota kennsluaðferðir leiklistar á skemmtilegan hátt í tengslum við forvarnir og lífsleikni.

• Að þátttakendur kynnist fjölbreyttum kennsluaðferðum leiklistar og geti notað þær með börnum og unglingum.

Unnið verður með bókina Leiklist í kennslu eftir Önnu Jeppesen og Ásu Helgu Ragnarsdóttur.
Hvenær: Fjögur skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (14. janúar kl. 12.30-14.50, 15. janúar kl. 8.20-11.30, 21. janúar 12.30-14.50 og 22 janúar 8.20-11.30 ) og verkefnavinna á milli.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 6. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir félaga í FFF en 15.000 kr. fyrir aðra.

Verkefnastjórnun í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Á námskeiðinu veður farið yfir aðferðarfræði verkefnisstjórnunar og skipulagningu verkefna. Markmið námskeiðsins eru að þátttakendur tileinki sér aðferðir verkefnisstjórnunar til að geta aukið skilvirkni í daglegum störfum, stýrt verkefnum og byggt þau upp á faglegan hátt.

Helstu efnisatriði:

• Skilgreining á umhverfi, forsendum, markmiðum og umfangi verkefna.

• Skilgreining verkþáttum og vörður verkefna.

• Forgangsröðun og niðurbrot verkefna niður í verkþætti.

• Hagsmunaaðila- og áhættugreiningar.

• Grunnatriði verkefnaferilsins, uppbygging verkefnaáætlunar, stöðugreiningar, vörður og verkefnislok.

• Verkefnisskipulag og ábyrgð.

• Hlutverk verkefnastjóra, eigenda, stýrihóps, verkefnisteymis og verkefnishóps.

• Eftirlit með framgangi verkefna og hvernig tryggja má tilætlaða niðurstöðu.

Hvenær: Fimmtudaginn 16. janúar kl. 8.20-14.50 og föstudaginn 17. janúar á sama tíma.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 11. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir FFF-félaga en 15.000 kr. fyrir aðra.

 

Evrópu samvinna í 20 ár – Uppskeruhátíð Evrópu unga fólksins

Föstudaginn 22. nóvember fer fram uppskeruhátíð samstarfsáætlanna ESB en frá og með áramótum verða þessar áætlanir sameinaðar undir einu nafni, Erasmus+. Ein af þeim áætlunum sem munu falla undir Erasmus+ er Evrópa unga fólksins en sú áætlun hefur stutt við æskulýðsvettvanginn með því að fjármagna samstarfs- og þróunarverkefni á sviði æskulýðsmála.

Á síðustu 7 árum sem EUF hefur verið starfandi hefur áætlunin úthlutað €6.882.515 en á gengi dagsins í dag eru rúmlega 1.1 milljarður króna. Þetta fjármagn hefur runnið 410 verkefni sem unnin hafa verið hér á landi og hafa 6500 þátttakendur tekið þátt í þessum verkefnum.

Við hvetjum alla til að fjölmenna í Hafnarhúsið þar sem EUF verður með bás og kynningu á fyrirmyndarverkefnum sem áætlunin hefur styrkt. Einnig munu fulltrúar EUF svara spurningum varðandi nýju áætlunina Erasmus+.

Uppskeruh.22-2

Landsþing Ungmennahúsa – „Markmið Ungmennahúsa er að efla ungmenni og leyfa þeim að vinna að áhugamálum sínum”

landsþing ungmennahúsaDaganna 24. – 25. október fór fram Landsþing Ungmennahúsa sem haldið var á vegum Samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi (Samfés). Landsþingið fór fram í Hvíta húsinu sem er ungmennahús á Akranesi. Á Landsþingið voru mættir fulltrúar frá sjö ungmennahúsum víðs vegar af landinu. Dagskráin var fjölbreytt en auk almenns hópeflis til að kynna ungmennin hvert fyrir öðru var Sigga Dögg með kynlífsfræðslu og unnið var í smiðjuvinnu.

Ungmennahús eru ekki ný á nálinni hér á landi en sem dæmi má nefna að Hitt Húsið var stofnað sem eins konar ungmennahús árið 1991. Ungmennahúsin sem nú eru starfrækt hér á landi eru um 20 talsins en þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Ungmennahús eru þó oftar en ekki aðstaða fyrir ungmenni 16 ára og eldri til að stunda jákvæðar og uppbyggilegar tómstundir á sínum eigin forsendum. Starf ungmennahúsanna er afar mikilvægt þar sem lítið sem ekkert opið vímuefnalaust tómstundastarf er í boði fyrir þennan aldurshóp sem að hluta til er ekki orðinn lögráða og hefur einnig ekki aldur til að drekka áfengi.

Á Landsþinginu var haldinn stórfundur þar sem fulltrúum frá ólíkum ungmennahúsum var skipt upp í umræðuhópa sem fjölluðu um málefni ungmennahúsa. Eitt af því sem unga fólkið ræddi sín á milli var hvert markmiðið með ungmennahúsum væri í þeirra huga. Hér fyrir neðan verða taldir upp nokkrir þeir hlutir sem þau nefndu:

  • Staður til þess að hafa gaman
  • Staður til að hittast, kynnast öðru fólki og blanda geði
  • Staður til að leyfa ungmennum að koma hugmyndum sínum í framkvæmd
  • Staður til að efla ungmenni og leyfa þeim að vinna að áhugamálum sínum
  • Samastaður til að skapa heilbrigt umhverfi án vímuefna (forvarnarstarf)
  • Umhverfi fyrir krakka sem gætu verið útundan, þeir sem stunda kannski ekki íþróttir eða eru jafnvel ekki í skóla
  • Staður til að lífga upp á samfélagið

Að lokum vann unga fólkið saman að því að búa til samstarfsverkefni ungmennahúsa þar sem markmiðið væri að efla samstarf á milli ungmennahúsa og kynna ungmennahúsin fyrir ungu fólki út um allt land. Það verður því spennandi að sjá hvernig þetta frábæra starf ungmennahúsanna mun þróast á næstu mánuðum og árum.

Orðanefnd ýtt úr vör

Orðanefnd á stofnfundi
Orðanefnd að loknum fyrsta fundi. Frá vinstri Hulda V. Valdimarsdóttir, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Jakob F. Þorsteinsson, Eygló Rúnarsdóttir og Ágústa Þorbergsdóttir

Stofnuð hefur verið orðanefnd í tómstundafræðum sem tók formlega til starfa 24. júní síðast liðinn. Námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði hefur um nokkur skeið unnið að stofnun orðanefndarinnar í samvinnu við Félag fagfólks í frítímaþjónustu og Ágústu Þorbergsdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Lesa meira “Orðanefnd ýtt úr vör”

Sumarið og frítíminn

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, var í morgunspjalli á Rás 2 þriðjudaginn 18. júní og ræddi sumarið og frítímann. Mikið framboð er á fjölbreyttum námskeiðum á höfuðborgarsvæðinu og ræddi hún meðal annars innihald og umgjörð, mikilvægi þess að huga að áhugasviði barnanna og ekki síst þörf þeirra fyrir að komast líka í sumarleyfi. Hún kom jafnframt inn á þau viðfangsefni sem foreldrar standa frammi fyrir á sumrin enda aðstæður fólks misjafnar.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér

Mikilvægi skipulags íþrótta- og frístundastarfs fyrir unga innflytjendur

Kampur_hringur_fjolbreytileikiFrístundamiðstöðin Kampur og Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur stóðu fyrir fræðslufundi miðvikudaginn 29. maí þar sem ungir innflytjendur voru í brennidepli. Á fundinum flutti Eva Dögg Guðmundsdóttir, cand.mag í menningar- og innflytjendafræðum og uppeldis- og kennslufræði, erindi um mikilvægi skipulags íþrótta- og tómstundastarfs fyrir börn og unglinga með annað móðurmál en íslensku.

Eva sagði frá helstu rannsóknum sem gerðar hafa verið á íþróttaþátttöku barna og unglinga í Hollandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku og þremur verkefnum sem sett hafa verið á laggirnar í Danmörku. Einnig sagði Eva Dögg frá helstu niðurstöðum eigin vettvangs-rannsóknar í tengslum við lokaverkefni við Háskólann í Hróarskeldu.

Eva sagði frá stöðu ungra innflytjenda í dönsku samfélagi þar sem rannsóknir sýna að ungt fólk af með annað móðurmál en dönsku skila sér í litlu mæli inn í framhaldsskóla og enn síður í frekara nám. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt sömu þróun og því má horfa til reynslu Dana af því  hvernig hægt er að bregðast við.

Í erindi Evu kom fram að samþætting er það hugtak sem helst hefur verið notað í umfjöllum um aðlögun innflytjenda í samfélagi. Hún vill ítreka mikilvægi þess að slík samþætting þarf að vera gagnvirk til að geta verið innflytjendum og samfélaginu gagnleg, annars vegar í íþróttinni sjálfri sem viðfangsefni en einnig í gegnum íþróttina til að virkja unga innflytjendur og ungt fólk af erlendum uppruna með annað móðurmál en í dvalarlandinu til leiks í samfélaginu. Þar bendir Eva á rannsóknir sem sýna mikilvægi íþróttaþátttöku fyrir margar úr þessum hópum.

Eva vísaði í rannsóknir frá Hollandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku í máli sínu. Í gegnum íþróttirnar virðast ungir innflytjendur geta brotið þann múr sem tungumálið er í skólastarfi og íþróttavöllurinn því kjörinn vettvangur til að æfa daglegt mál. Í íþróttunum eru samskiptin jafnframt á öðrum forsendum og ekki eins háð tungumálinu og samskipti í skólaumhverfinu. Samveran og samskiptin eru á öðrum nótum sem gefa færi á annars konar tengslum og grunn að félagslegum samskiptum. Margir viðmælenda vísa í að hugurinn tæmist og ekkert skipti máli nema það sem er að gerast á vellinum sem verður um leið einhvers konar athvarf þar sem annað er skilið eftir fyrir utan. Þegar góður árangur næst í íþróttum er það jafnframt jákvæð styrking á sjálfsmynd viðkomandi.

Það er þó ekki svo að íþróttaþátttakan sé töfralausn á þeim vanda sem ungir innflytjendur og ungt fólk með annað móðurmál en dönsku glíma stundum við. Í þeim rannsóknum sem Eva fjallaði um kom jafnframt fram að oft væri að heyra ljótan tón á vellinum þar sem fordómar og neikvæð samfélagsumræða virðist stundum skila sér inn í samfélagið á vellinum. Þar eru einnig að finna sterkar staðalmyndir og sjálfsmynd þátttakenda getur boðið hnekki ef geta þeirra er ekki í samræmi við meginþorra iðkenda. Það virðist þó vera svo samkvæmt rannsóknum frá Hollandi að fram að kynþroskaaldri eigi börn af ólíkum menningar- og þjóðernisuppruna auðvelt með samskipti í íþróttum.

Það er niðurstaða Evu að skapa þurfi í íslensku samfélagi aðstæður og betra aðgengi fyrir virka þátttöku ungra innflytjenda á mismunandi sviðum samfélagsins og íþróttir eru þar ein leið.

Erindi Evu varð kveikja að fjörugum umræðum undir lok fundarins sem var ágætlega sóttur. Fundargestir voru sammála um mikilvægi þess að hlúa sérstaklega að þessum hópi í gegnum frítímastarf og þátttöku á þeirra eigin forsendum og skoða þarf þátttöku þeirra, möguleika og þær hindranir sem mæta þeim í íslensku íþrótta- og tómstundastarfi gaumgæfilega.

Áhugasamir geta komist í samband við Evu í gegnum netfangið [email protected]