Orðanefnd ýtt úr vör

Orðanefnd á stofnfundi
Orðanefnd að loknum fyrsta fundi. Frá vinstri Hulda V. Valdimarsdóttir, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Jakob F. Þorsteinsson, Eygló Rúnarsdóttir og Ágústa Þorbergsdóttir

Stofnuð hefur verið orðanefnd í tómstundafræðum sem tók formlega til starfa 24. júní síðast liðinn. Námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði hefur um nokkur skeið unnið að stofnun orðanefndarinnar í samvinnu við Félag fagfólks í frítímaþjónustu og Ágústu Þorbergsdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Brýnt er að skýra hugtakanotkun í tómstundafræðum og í mörg ár höfum við fundið mjög sterkt fyrir því að fagleg og almenn umræða um tómstundir, frístundir og skyld svið er ekki nægilega skýr. Oft eru mismunandi heiti á sama hugtaki í gangi samtímis. Til þess að fagleg orðræða geti farið fram á íslensku þarf hugtakanotkunin að vera nákvæm. Markmiðið með starfi orðanefndarinnar er skilgreina hugtakagrunn tómstunda- og frístundafræðanna og þar með styrkja faglega orðræðu. Verkefni nefndarinnar verður að gefa út íðorðasafn með íslenskum og erlendum íðorðum með skilgreiningum og mun það koma að miklu gagni fyrir fagfólk og nemendur í tómstunda- og félagsmálafræði.

Nefndina skipa Jakob Frímann Þorsteinsson, Kolbrún Pálsdóttir, Hulda Valdís Valdimarsdóttir og Eygló Rúnarsdóttir auk þess sem Ágústa Þorbergsdóttir mun vinna með nefndinni.  Leitast verður við að tengja starf orðanefndarinnar við lokaverkefni nemenda og nú þegar er í burðarliðnum eitt lokaverkefni á þessu sviði. Þeir sem vilja koma ábendingum á framfæri við nefndina er bent á að hafa samband við Jakob [email protected].

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *