Landsþing Ungmennahúsa – „Markmið Ungmennahúsa er að efla ungmenni og leyfa þeim að vinna að áhugamálum sínum”

landsþing ungmennahúsaDaganna 24. – 25. október fór fram Landsþing Ungmennahúsa sem haldið var á vegum Samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi (Samfés). Landsþingið fór fram í Hvíta húsinu sem er ungmennahús á Akranesi. Á Landsþingið voru mættir fulltrúar frá sjö ungmennahúsum víðs vegar af landinu. Dagskráin var fjölbreytt en auk almenns hópeflis til að kynna ungmennin hvert fyrir öðru var Sigga Dögg með kynlífsfræðslu og unnið var í smiðjuvinnu.

Ungmennahús eru ekki ný á nálinni hér á landi en sem dæmi má nefna að Hitt Húsið var stofnað sem eins konar ungmennahús árið 1991. Ungmennahúsin sem nú eru starfrækt hér á landi eru um 20 talsins en þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Ungmennahús eru þó oftar en ekki aðstaða fyrir ungmenni 16 ára og eldri til að stunda jákvæðar og uppbyggilegar tómstundir á sínum eigin forsendum. Starf ungmennahúsanna er afar mikilvægt þar sem lítið sem ekkert opið vímuefnalaust tómstundastarf er í boði fyrir þennan aldurshóp sem að hluta til er ekki orðinn lögráða og hefur einnig ekki aldur til að drekka áfengi.

Á Landsþinginu var haldinn stórfundur þar sem fulltrúum frá ólíkum ungmennahúsum var skipt upp í umræðuhópa sem fjölluðu um málefni ungmennahúsa. Eitt af því sem unga fólkið ræddi sín á milli var hvert markmiðið með ungmennahúsum væri í þeirra huga. Hér fyrir neðan verða taldir upp nokkrir þeir hlutir sem þau nefndu:

  • Staður til þess að hafa gaman
  • Staður til að hittast, kynnast öðru fólki og blanda geði
  • Staður til að leyfa ungmennum að koma hugmyndum sínum í framkvæmd
  • Staður til að efla ungmenni og leyfa þeim að vinna að áhugamálum sínum
  • Samastaður til að skapa heilbrigt umhverfi án vímuefna (forvarnarstarf)
  • Umhverfi fyrir krakka sem gætu verið útundan, þeir sem stunda kannski ekki íþróttir eða eru jafnvel ekki í skóla
  • Staður til að lífga upp á samfélagið

Að lokum vann unga fólkið saman að því að búa til samstarfsverkefni ungmennahúsa þar sem markmiðið væri að efla samstarf á milli ungmennahúsa og kynna ungmennahúsin fyrir ungu fólki út um allt land. Það verður því spennandi að sjá hvernig þetta frábæra starf ungmennahúsanna mun þróast á næstu mánuðum og árum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *