Unglingsárin eru árin sem margir bíða eftir og eru spenntir að fá að upplifa nýja hluti og fá að vera sjálfstæðari. Á þessum tíma eru þó margar breytingar sem eiga sér stað, bæði andlega og líkamlega. Sjálfmyndin er að mótast, sjálfstraustið fer upp og niður eftir dögum jafnvel klukkutímum og síðan eru það tilfinningasveiflurnar sem einkenna oft unglingsárin hjá mörgum unglingum enda er oft sagt að það sé sko ekkert létt að vera unglingur. Þegar sjálfsmyndin okkar er að mótast, erum við oft að leita af eiginleikum sem okkur langar til þess að hafa, hvernig manneskjur við viljum í raun vera. Lesa meira “Mikilvægi félagsmiðstöðvarinnar”
Category: Aðsendar greinar
Aðsendar greinar
Eru foreldrar að styðja eða þrengja mjög að íþróttum ungmenna?
Íþróttir eru tækifæri fyrir börn og unglinga til að læra mikilvægar lexíur um lífið. Til dæmis að læra að vinna sem teymi kennir ungum börnum félagsfærni sem hjálpar þeim í vexti þeirra sem manneskju, ekki bara sem íþróttamenn. Fyrir ungmenni getur þátttaka í íþróttum þróað teymisvinnu, forystuhæfileika, sjálfstraust og sjálfsaga. Einnig, þegar börn stunda íþróttir, þá læra þau að tapa og það kennir þeim að byrja aftur frá byrjun, takast á við óþægilega reynslu og er mikilvægur liður í því að verða seigur. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar hvetji börn sín til að taka þátt í skipulögðum íþróttum. Lesa meira “Eru foreldrar að styðja eða þrengja mjög að íþróttum ungmenna?”
Brúin milli skólastiga í opnara námsumhverfi
Fjórða grein Heimsmarkmiða (2015) kveður á um menntun fyrir alla. Og samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar hafa átt aðild að síðan árið 1992 er hægt að vitna í margar greinar sem tengja má við jöfnuð og aðgang að menntun. Í Aðalnámskrá framhaldsskóla (2011) kemur jafnframt í ljós sú staðreynd að framhaldsskólanum beri að sinna öllum nemendum hvernig svo sem undirbúningi þeirra er háttað úr grunnskóla, stuðla að alhliða þroska þeirra, búa þá undir störf í þjóðfélaginu og frekara nám. Lesa meira “Brúin milli skólastiga í opnara námsumhverfi”
Að vera „gamall“ forstöðumaður í félagsmiðstöð
Árið 2014 fékk ég starf sem forstöðumaður í félagsmiðstöð þá fertug að aldri. Fyrir það vann ég sem grunnskólakennari en hafði verið viðloðandi félagsmiðstöðvarstarfið í 11 ár bæði sem starfsmaður og sem tengiliður skólans við félagsmiðstöðina. Mér mætti furðulegt viðmót, það upplifði ég frá kollegum mínum í grunnskólanum sem og mörgum öðrum í kringum mig. Af hverju að fara að vinna í félagsmiðstöð lærður grunnskólakennari? Ertu þá ekki alltaf að vinna á kvöldin? Hvað ertu að gera í vinnunni, spila borðtennis? Svo lítið vissi fólk um þetta starf og mér fannst ég alltaf þurfa að vera að verja þessa ákvörðun mína og starfið mitt. Að vinna sem forstöðumaður í félagsmiðstöð er nefnilega ekki bara það að spila borðtennis þó sannarlega sé það kostur að geta gripið í spaðann með unglingunum og þannig ná góðu spjalli. Lesa meira “Að vera „gamall“ forstöðumaður í félagsmiðstöð”
Samfélagsleg styrkleikakort
Það er alltaf mikil orka sem fylgir því að hefja nýtt ár og nýja önn í tómstunda- og félagsmálastarfi. Eftir undarlega haustönn erum við reynslunni ríkari með allskyns nýjar leiðir til þess að halda úti starfinu en einnig bindum við vonir við að hægt verði að halda úti hefðbundnu starfi í auknum mæli næstu mánuði. Við upphaf nýrrar annar er alltaf gott að staldra við, ígrunda og rýna starfið, hvað er að ganga vel og hvar viljum við sækja fram. Eitt tól sem er afar gagnlegt til að nýta á slíkum tímamótum er samfélagsleg styrkleikakort (e. community asset mapping) á samfélagi einstaklingana sem samtökin eða stofnunin vinnur með. Út frá slíkri kortlagningu færist umræðan um starfið á hærra stig og fæðast oft allskyns hugmyndir um ný samstarfsverkefni og bætt samskipti við aðra hagaðila samfélagsins.
Í bók sinni Building communties from the inside out fjalla þeir Kretzman og McKnight (1993) um að það séu tvær hugmyndafræðilegar leiðir til að styðja við samfélög. Í hefðbundinni leið er áherslan á að styðja við samfélög með því að skoða þarfir samfélagsins, áhyggjur og vandamál. Markmiðið er að breyta stofnunum samfélagsins og hreyfiaflið eru völd og valdhafar en litið er á einstaklinginn sem neytanda eða skjólstæðing (Allen o.fl., 2002). Hin leiðin er að gera samfélagsleg styrkleikakort sem efla samfélög með því að skoða þá styrkleika og resourca sem samfélagið býr yfir. Markmiðið er að efla samfélagið og hreyfiaflið eru sambönd, samstarf og samskipti. Litið er á einstaklinginn sem hreyfiafl sem á eignarhald í samfélaginu (Allen o.fl, 2002). Samfélagsleg styrkleikakort rýma því vel við áherslur tómstundastarfs um virðingu fyrir einstaklingnum og að hlutverk starfsins sé að byggja upp einstaklinginn út frá áhugasviði hans, draumum og styrkleikum. Samfélagsleg styrkleikakort geta verið margskonar en eiga það öll sameiginlegt að teikna upp þá styrkleika og þá resourca sem samfélagið býr yfir (Allen o.fl, 2002) Hér er dæmi um uppsetningu á samfélagslegu styrkleikakorti:
(Allen, 2002)
Þegar samfélagsleg styrkleikakort er unnið er mikilvægt að bera það undir ólíka þátttakendur samfélagsins til að þau endurspegli fjölbreyttni samfélagsins og er besta leiðin að fá fjölbreyttan hóp þátttakenda samfélagsins til að vinna kortið saman. Samfélagsleg styrkleikakort veita aukna innsýn inn í samfélag og samhengi starfseminar sem við höldum úti. Með aukinni innsýn opnast augu okkar fyrir því að til að bæta okkur þurfum við oft að líta út fyrir eigin samtök eða stofnun og auka samstarf og samskipti við aðra aðila samfélagsins. Ég mæli hiklaust með að útbúa samfélagslegt styrkleikakort með nýjum starfsmannahópi, einnig er hægt að gera það með þátttakendum í starfinu eða jafnvel blönduðum hópi starfsmanna, þátttakanda og annara hagaðila samfélagsins.
Guðmundur Ari Sigurjónsson
Mastersnemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands
Heimildir
– McKnight, John L. og John P. Kretzmann. (1993). Building Communities From the Inside Out. Chicago: ACTA Publications.
– Allen, John C. og fleiri. (2002). Building on Assets and Mobilizing for Collective Action: Community Guide. Nebraska: CARI
Þeirra annað heimili
Af hverju skiptir það máli að hafa sérhúsnæði fyrir frístundastarf?
Húsnæði fyrir félagsmiðstöðvar sem og frístundaheimili er grundvöllur þess að halda úti góðu og virku starfi. Í húsnæðinu þarf að vera gott flæði þar sem mikil starfsemi fer fram. Húsnæðið þarf að hafa mikið rými svo að krakkarnir hafi pláss til að leika sér. Það er gríðarlega mikilvægt starf sem fer fram í félagsmiðstöð eða á frístundaheimili. Rannsóknir hafa sýnt fram á að vellíðan barna og ungmenna eykst með frítímastarfi eða tómstundastarfi. Í starfinu sjálfu er einnig lögð áhersla á gildi forvarna, sköpunargleði og að starfsemi sé fagleg og byggi á uppeldisgildum frítímans. Að vera með eigið húsnæði fyrir frístunda- og félagstarf í skólum er mikilvægt vegna þess að það skapar öryggi hjá þeim sem sækja starfið. Þegar starfið fer fram í föstu húsnæði þá þekkja krakkarnir það og það dregur úr kvíða og óvissu hjá börnum því að þetta er staður sem þau þekkja sig á. Þetta er þeirra staður. Að hafa stað þar sem allir í hverfinu, börn og unglingar, geta leitað í til að sinna frístunda- og tómstundastarfi, er mikilvægt. Í sumum tilfellum eru þessi hús einhverskonar annað heimili barnanna og viljum við að þetta húsnæði sé þeirra og að þau séu alltaf velkomin.
Reynsla Maríu
Reynsla mín af því að hafa haft sér húsnæði fyrir starfsemi frístundaheimila og félagsmiðstöðva er til fyrirmyndar. Þar sem ég ólst upp var sér húsnæði fyrir þessa starfsemi og húsnæðið byggt nýtt fyrir aðeins þessa starfsemi. Í þessu húsnæði var og er nóg svæði fyrir allt og alla sem vilja þar vera með í starfinu. Í húsnæðinu er mikið opið rými og mörg minni rými sem var hægt að nýta í allt á milli himins og jarðar. Allir árgangar höfðu rými til þess að nýta sér húsnæðið þó ekki allir á sama degi á sama tíma en skipulag og góð nýting skiptir öllu máli. Eldhús, matsalur, hjólastólaaðgengi, salur fyrir böll, leikrými fyrir yngri árgangana og svo mætti lengi telja.
Hér er ég með þau forréttindi að hafa fengið þetta húsnæði og notið góðs af. Af hverju eru ekki allir með sömu réttindin og fá húsnæði sem hentar þeim?
Reynsla Margrétar
Ég vinn í einum af stærstu grunnskólum landsins og eru margir krakkar sem taka þátt í frístundastarfinu hjá okkur. Við höfum lent í vandræðum með húsnæðið og var það einfaldlega út af því að aðstaðan var orðin of lítil til að koma til móts við alla krakkana. Starfið var staðsett inn í grunnskólanum í endanum á einum ganginum þar sem voru í raun tvær stofur og eitt millirými. Einstaka sinnum fengum við afnot af stofum en það voru ekki vinsælar lausnir á meðal kennara. Við vorum oft sökuð um að ganga illa um og fara ekki vel með dótið inn í stofunum. Við þurftum því oft að sætta okkur við litla hornið okkar. Á svona litlu svæði geta myndast mikil læti. Þessi læti höfðu slæm áhrif á bæði starfsmennina og krakkana. Ég man oft eftir því að hafa komið heim þreytt og með hausverk og veit ég að það voru fleiri sem fundu fyrir þessu. Lítil svæði útiloka líka þann möguleika að krakkarnir geti farið og verið í friði þegar þau þurfa á því að halda. Þannig getur myndast pirringur hjá krökkunum sem ýtir undir stress og vinnu hjá starfsfólkinu.
Við höldum að húsnæðismálum fyrir frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sé oft ábótavant og gleymist þegar kemur að því að byggja upp hverfi. Nú er endalaust verið að byggja ný húsnæði. Það er talað um að bæta við íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Það er verið að tala um að byggja nýja grunnskóla og leikskóla en hvað með að byggja gott frístundaheimili eða félagsmiðstöð? Það að byggja aðstöðu fyrir krakkana til að geta komið og leikið sér án þess að vera hrædd um að stíga á tærnar á næsta manni ætti að vera eitt af forgangsatriðum þegar kemur að því að byggja upp hverfi. Í sumum hverfum eru húsnæðisaðstæður fyrir þessa starfsemi til fyrirmyndar en í öðrum hverfum er hægt að gera betur.
—
Margrét Stefanía Þorkelsdóttir og María Lilja Fossdal eru nemendur í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands