Jákvæð sálfræði og frístundastarf

Hrefna GuðmundsdóttirÉg átti einu sinni spjall við kennara á grunnskólastigi. Hann barmaði sér yfir því að fyrsta spurning foreldra í foreldraviðtölum væri hvort barn þess ætti vin í bekknum eða ekki. Kennarinn hafði væntingar um að foreldrar hefðu frekar áhuga á hvernig gengi hjá barninu að læra að lesa. Við sem þekkjum frístundastarf skiljum að það eru samskipti sem skipta mestu máli. Að fá að njóta sín, kynnast jafnöldrum, eignast vini og kunningja, að fá að reyna á hæfileika sína og hafa gaman. Lesa meira “Jákvæð sálfræði og frístundastarf”

Naglalakkaðir unglingsdrengir í Dregyn

þve_naglalakk

Eitt föstudagskvöld í febrúar skipulagði nemendaráð félags-miðstöðvarinnar Dregyn dragkeppni. Dragkeppnin varð frekar misheppnuð þar sem aðeins einn hugrakkur drengur mætti í dragi. Létt stemning var þó í félagsmiðstöðinni þetta kvöld og var skorað á karlkyns starfsmennina að láta mála sig. Slíkt var samþykkt, með trega. Málunin var svo kórónuð með naglalakki á fingrum. Það þótti ákaflega fyndið að sjá karlkyns starfsmennina með meik, maskara, varalit og svona verulega huggulega.

Þegar þrífa átti „kvenleikann“ af máluðu drengjunum fékk verkefnisstjórinn þá hugmynd að hrista aðeins upp í „norminu“ og halda naglalakkinu, andlitið mátti þó þrífa. Héldu karlkynsstarfsmennirnir því naglalakkinu og fóru út í samfélagið. Annar þeirra „þurfti“ að þrífa naglalakkið af sér daginn eftir en verkefnisstjórinn hélt út helgina, sem var ekki auðvelt. Aragrúi athugasemda, augngota, hláturs, aðfinnsla og fordóma gerðu vart við sig. Reyndar í bland við orð á borð við: „En skemmtilegt“ og „Fallegt naglalakk“ og „Af hverju ertu með naglalakk?“. Einmitt; af hverju er ég með naglalakk?
Ég vissi það ekki þá, en uppgötvaði það á þessum tveimur dögum að samfélagið mitt passar virkilega vel upp á að ég fylgi hefðbundinni tísku í fatavali, klippi hár mitt samkvæmt því sem telst inn og haga mér samkvæmt því sem karlmanni er ætlast. Með öðrum orðum; að ég fylgi norminu. Við það að stíga, óvart meðvitað, út fyrir normið með því að vera með naglalakk fer allt í baklás. Aðgerðaráætlun samfélagsins um að koma mér aftur í normið hefst. Þessar litlu augngotur, viðhorfshlöðnu athugasemdirnar og skýru skilaboðin um að ég væri öðruvísi létu mér líða þannig að mig langaði til að flýja. Inn í normið. Þangað sem mér ber að vera sem karlmaður.

Ég velti því fyrir mér hvort að svona líði þeim sem hafa ekki kost á að „fitta“ inn í normið. Eru of strákalegar stelpur, stelpulegir strákar, of feitir, of mjóir, of eða van eitthvað að mati fjöldans – samfélagsins. Ég rifjaði upp ráðstefnu um einelti sem ég fór á fyrir nokkru síðan þar sem talað var um að rannsóknir bendi til þess að þeir sem verða fyrir einelti eru einmitt þeir sem ekki passa inn í fjöldann. Reynsla mín af naglalakkinu þessa helgi gaf mér hugmynd um hvernig það er að vera ekki inn í norminu. Hún sýndi mér hvernig samfélagið sameinast um að troða mér í normið, hversu ríkar staðalmyndir fólks eru um hvernig strákar eigi að vera og hvernig strákar eiga ekki að vera. Hversu fúst fólk er til að aðstoða mig við að vera „eðlilegur“.

Ég hugsaði að ef unglingarnir í félagsmiðstöðinni fengju nasaþef af því sem ég gekk í gegnum gætu þeir jafnvel skilið betur hvernig er að vera utan við normið. Þeir gætu jafnvel þróað með sér aukið umburðarlyndi og víðsýni fyrir lífinu, samfélaginu. Hlutir og fólk þarf ekki að fylgja óskrifuðu reglum samfélagsins um klæðaburð eða útlit. Það er hvergi ritað í lög að strákar eigi ekki að bera naglalakk. Hvergi segir að strákur með naglalakk sé samkynhneigður. En hvernig ætti ég að fá unglingsdrengi til að bera naglalakk, af fúsum og frjálsum vilja?

Félagsmiðstöðvastarfsmenn eru fyrirmyndir. Það sem þeir segja og gera verður oft það sem unglingarnir vilja segja og gera. Þannig varð þetta með naglalakkið í félagsmiðstöðinni Dregyn. Karlkynsstarfsmennirnir tóku fram naglalakkskrukkurnar á einu opnu húsi og samstundis komu nokkrir sem vildu fá naglalakk. Af hverju? Bara af því að við starfsmennirnir vorum að því.

Núna eru um 40 unglingsdrengir með naglalakk. Og bera það af fúsum og frjálsum vilja af því að þeir eru að mótmæla þessum rótgrónu hugmyndum sem fólk hefur um hvernig þú eigir að vera. Drengirnir voru ekki manaðir, þvingaðir eða sannfærðir. Þeir voru til í að kanna á eigin skinni hvernig er að „fitta“ ekki í normið, ögra sjálfum sér, samfélaginu, fordómunum, staðalmyndunum og taka eftir hvað gerist.

Tilraunin stendur enn yfir og eru strákarnir að safna í reynslubankann upplýsingum um dóma samfélagsins. Hvað er erfitt við það að vera með naglalakk, af hverju og hvenær? Ég meina, af hverju mega strákar ekki vera með naglalakk?
Þorsteinn V. Einarsson
Verkefnisstjóri félagsmiðstöðvarinnar Dregyn
Frístundamiðstöðin Gufunesbær

Forvarnir í félagsmiðstöðvastarfi

magnus_gudmundsson_tomstundafraedingurLeiksviðið er Fellahverfið og árið er 1994. Ungur drengur er áhugasamur á fundi félagsmiðstöðvaráðs Fellahellis sem er að ræða stórdansleik sem á að halda síðar í mánuðinum. Hann hlustar á aðra meðlimi ráðsins ræða um hvaða hljómsveitir séu mest móðins á þessum tímapunkti og hlýðir í hálfgerðri lotningu á starfsmann félagsmiðstöð-varinnar ræða um aðgerðaáætlanir. Allt þetta umstang er honum framandi og hann finnur hvernig ábyrgðar-tilfinningin veitir honum gleði. Hann hefur æft íþróttir í áratug en varla tekið neinum framförum en þarna finnst honum hann metinn að verðleikum og hans styrkleikar fá að njóta sín. Tækjagrúsk, plötusnúðafikt, heimspeki-legar vangaveltur, graffiti og viðburða-stjórnun eru þættir sem hann stundar af alúð í Fellahelli og með hverju verkefninu þá þróar hann með sér nýja færni. Reynslunám er að eiga sér stað í gegnum óformlegar námsleiðir og það allt án þess að hann átti sig á nokkru. Þarna öðlast hann grunn að dýrmætri færni í gegnum handleiðslu fagmanna sem starfa í félagsmiðstöðinni – færni sem síðar kveikir hjá honum áhuga til að hefja nám í tómstundafræðum og gera þau að ævistarfinu. Eftir að þessi rótgróna og sögufræga félagsmiðstöð lokar á kvöldin og starfsmenn Fellahellis halda til síns heima þá mælir hann götur Fellahverfis næstu þrjú árin með tugum ef ekki hundruðum annarra ungmenna úr þessu hverfi sem hafði á sér ógæfustimpil. Leiksviðið er líflegt og þar gilda oft önnur lögmál en samfélagið samþykkir. Lögreglan er með aðsetur í hverfinu og dyrnar á lögreglustöðinni eru ávallt opnar fyrir forvitinn æskulýðinn. Neysla ungs fólks hefur verið vandamál og fjölmiðlar keppast við að mála Breiðholtið í vandræðalit og sögur af hinni alræmdu Landalöggu birtast á forsíðum dagblaða reglulega. Þegar þessi ævintýragjarni ungi maður, sem er ég, lítur til baka og ígrundar unglingsárin sín og hvað þátttaka í opnu félagsmiðstöðvastarfi gerði fyrir hann þá sækir á hann forvitni. Forvitnina ákveður hann að festa á blað og senda frá sér þessar vangaveltur.

Það sem mig fyrst langaði að vita var hversu alvarleg og algeng neysla ungmenna var á þeim tíma sem ég ólst upp og hvort sú mynd sem fjölmiðlar máluðu hafi verið réttmæt. Einnig langaði mig að rýna í hvernig staðan væri í dag. Frá því að ég var að ala manninn þá hefur verið unnið markvisst með forvarnastarf og skyldi það starf hafa borið árangur? Fjölmiðlar hafa stundum fjallað um alvarleika ýmissa brota sem unglingar fremja og margir sem ekki þekkja vel til halda án efa að á Íslandi sé stór partur ungmenna sem sé stórlega vafasamur.

Hvað skyldu rannsóknir sýna um unglingamenninguna á Íslandi? Eins og allir starfsmenn í æskulýðsstarfi vita þá hefur neysla ungmenna á tóbaki, áfengi og vímuefnum verið skoðuð reglulega síðan 1997. Bendi ég á rannsóknina „Vímuefnaneysla unglinga í efstu bekkjum grunnskóla“ sem allir geta kynnt sér á vef Rannsókna og greiningar (http://www.rannsoknir.is). Þar kemur fram að árið 1997 hafi 61% nemenda í 10.bekk prufað að reykja sígarettu en árið 2012 var það hlutfall komið niður í 21%. Daglegar reykingar sama árgangs hafa lækkað úr 21% í 3%. Rannsóknin sýnir vel þróun áfengisdrykkju unglinga. Svona lítur hún út: grein-afengi

(Rannsóknir og greining, 2012:19)

Þegar maður skoðar þróun kannabisneyslu ungmenna þá birtast manni þessar tölur:

grein-kannabis

(Rannsókn og greining, 2012:21)

Það er því ljóst að gríðarlegur árangur hefur náðst í forvarnastarfi á Íslandi. Það er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Menntastofnanir og jafnvel kirkjan hefur í aldanna rás komið að uppeldi barna með beinum hætti í gegnum formlegar kennsluaðferðir. Um miðja síðustu öld kom Æskulýðsráð Reykjavíkur (ÆR) upp tómstundaheimili að Lindargötu (Árni Guðmundsson, 2007:62) og með því hófst blómleg saga félagsmiðstöðva í höfuðborg Íslendinga. Þessar félagsmiðstöðvar hafa vaxið og dafnað á þessarri rúmu hálfu öld og fagmennska starfsmanna einnig. Þær léku stórt hlutverk í forvarnastarfi fyrir unglinga þegar ég var unglingur og gera enn. Þær eru vettvangur óformlegrar menntunar sem þátttakendur starfsins öðlast í gegnum leik og starf. Allt þeirra starf er litað af beinum og óbeinum forvörnum um málefni líðandi stundar og fylgjast starfsmenn þeirra vel með tíðarandanum hverju sinni. Þegar ný vá steðjar að þá keppast þeir við að skapa umræður og hvetja notendur sína til að taka upplýsta ákvörðun í áttina að beinu brautinni. Starfsmenn félagsmiðstöðva starfa náið með öðru fagfólki sem kemur að uppeldi barna í gegnum þverfagleg teymi. Þessi þverfaglega vinna hefur borið árangur í forvarnarmálum á Íslandi. Kennarar, foreldrar, þjálfarar, lögreglan, starfsmenn þjónustumiðstöðva, aðrir fagmenn og starfsfólk í félagsmiðstöðvum geta klappað sér á bakið og verið stolt af árangrinum.

Starfsmenn Fellahellis, þau Linda Udengaard, Eygló Rúnarsdóttir, Agnar Arnþórsson, Hafsteinn Hrafn Grétarsson, Helgi Eiríksson og Arna Kristjánsdóttir, áttu öll markvisst inngrip í mitt líf á mínum róstusömu unglingsárum og voru mínar fyrirmyndir. Þau öll starfa enn í æskulýðsstarfi með ólíkum hætti og hafa snert við lífi margra. Þegar ég var forvitinn um andfélagslega hluti og þreifaði fyrir mér í rangar áttir þá átti ég heimahöfn í minni félagsmiðstöð. Þar gat ég sest niður og rætt við þessa starfsmenn og fengið ráðgjöf og hvatningu. Ég einsetti mér sem ungur maður að verða eins og þau þegar ég yrði stór og lifi enn í draumnum. Félagsmiðstöðvastarfsfólk á Íslandi – verum stolt af þætti okkar í forvarnarmálum og höldum áfram baráttunni.

Magnús Sigurjón Guðmundsson

Tómstundafræðingur

Orðanefnd ýtt úr vör

Orðanefnd á stofnfundi
Orðanefnd að loknum fyrsta fundi. Frá vinstri Hulda V. Valdimarsdóttir, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Jakob F. Þorsteinsson, Eygló Rúnarsdóttir og Ágústa Þorbergsdóttir

Stofnuð hefur verið orðanefnd í tómstundafræðum sem tók formlega til starfa 24. júní síðast liðinn. Námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði hefur um nokkur skeið unnið að stofnun orðanefndarinnar í samvinnu við Félag fagfólks í frítímaþjónustu og Ágústu Þorbergsdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Lesa meira “Orðanefnd ýtt úr vör”

Sumarið og frítíminn

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, var í morgunspjalli á Rás 2 þriðjudaginn 18. júní og ræddi sumarið og frítímann. Mikið framboð er á fjölbreyttum námskeiðum á höfuðborgarsvæðinu og ræddi hún meðal annars innihald og umgjörð, mikilvægi þess að huga að áhugasviði barnanna og ekki síst þörf þeirra fyrir að komast líka í sumarleyfi. Hún kom jafnframt inn á þau viðfangsefni sem foreldrar standa frammi fyrir á sumrin enda aðstæður fólks misjafnar.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér

Mikilvægi skipulags íþrótta- og frístundastarfs fyrir unga innflytjendur

Kampur_hringur_fjolbreytileikiFrístundamiðstöðin Kampur og Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur stóðu fyrir fræðslufundi miðvikudaginn 29. maí þar sem ungir innflytjendur voru í brennidepli. Á fundinum flutti Eva Dögg Guðmundsdóttir, cand.mag í menningar- og innflytjendafræðum og uppeldis- og kennslufræði, erindi um mikilvægi skipulags íþrótta- og tómstundastarfs fyrir börn og unglinga með annað móðurmál en íslensku.

Eva sagði frá helstu rannsóknum sem gerðar hafa verið á íþróttaþátttöku barna og unglinga í Hollandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku og þremur verkefnum sem sett hafa verið á laggirnar í Danmörku. Einnig sagði Eva Dögg frá helstu niðurstöðum eigin vettvangs-rannsóknar í tengslum við lokaverkefni við Háskólann í Hróarskeldu.

Eva sagði frá stöðu ungra innflytjenda í dönsku samfélagi þar sem rannsóknir sýna að ungt fólk af með annað móðurmál en dönsku skila sér í litlu mæli inn í framhaldsskóla og enn síður í frekara nám. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt sömu þróun og því má horfa til reynslu Dana af því  hvernig hægt er að bregðast við.

Í erindi Evu kom fram að samþætting er það hugtak sem helst hefur verið notað í umfjöllum um aðlögun innflytjenda í samfélagi. Hún vill ítreka mikilvægi þess að slík samþætting þarf að vera gagnvirk til að geta verið innflytjendum og samfélaginu gagnleg, annars vegar í íþróttinni sjálfri sem viðfangsefni en einnig í gegnum íþróttina til að virkja unga innflytjendur og ungt fólk af erlendum uppruna með annað móðurmál en í dvalarlandinu til leiks í samfélaginu. Þar bendir Eva á rannsóknir sem sýna mikilvægi íþróttaþátttöku fyrir margar úr þessum hópum.

Eva vísaði í rannsóknir frá Hollandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku í máli sínu. Í gegnum íþróttirnar virðast ungir innflytjendur geta brotið þann múr sem tungumálið er í skólastarfi og íþróttavöllurinn því kjörinn vettvangur til að æfa daglegt mál. Í íþróttunum eru samskiptin jafnframt á öðrum forsendum og ekki eins háð tungumálinu og samskipti í skólaumhverfinu. Samveran og samskiptin eru á öðrum nótum sem gefa færi á annars konar tengslum og grunn að félagslegum samskiptum. Margir viðmælenda vísa í að hugurinn tæmist og ekkert skipti máli nema það sem er að gerast á vellinum sem verður um leið einhvers konar athvarf þar sem annað er skilið eftir fyrir utan. Þegar góður árangur næst í íþróttum er það jafnframt jákvæð styrking á sjálfsmynd viðkomandi.

Það er þó ekki svo að íþróttaþátttakan sé töfralausn á þeim vanda sem ungir innflytjendur og ungt fólk með annað móðurmál en dönsku glíma stundum við. Í þeim rannsóknum sem Eva fjallaði um kom jafnframt fram að oft væri að heyra ljótan tón á vellinum þar sem fordómar og neikvæð samfélagsumræða virðist stundum skila sér inn í samfélagið á vellinum. Þar eru einnig að finna sterkar staðalmyndir og sjálfsmynd þátttakenda getur boðið hnekki ef geta þeirra er ekki í samræmi við meginþorra iðkenda. Það virðist þó vera svo samkvæmt rannsóknum frá Hollandi að fram að kynþroskaaldri eigi börn af ólíkum menningar- og þjóðernisuppruna auðvelt með samskipti í íþróttum.

Það er niðurstaða Evu að skapa þurfi í íslensku samfélagi aðstæður og betra aðgengi fyrir virka þátttöku ungra innflytjenda á mismunandi sviðum samfélagsins og íþróttir eru þar ein leið.

Erindi Evu varð kveikja að fjörugum umræðum undir lok fundarins sem var ágætlega sóttur. Fundargestir voru sammála um mikilvægi þess að hlúa sérstaklega að þessum hópi í gegnum frítímastarf og þátttöku á þeirra eigin forsendum og skoða þarf þátttöku þeirra, möguleika og þær hindranir sem mæta þeim í íslensku íþrótta- og tómstundastarfi gaumgæfilega.

Áhugasamir geta komist í samband við Evu í gegnum netfangið [email protected]