Í Reykjavík hefur verið verkefni í samstarfi við Samtökin 78 og Tjörnina um að koma upp félagsmiðstöð þar sem hinsegin börn og vinir þeirra gætu fengið öruggt rými til að dafna undan einelti og með starfsfólki sem best getur ráðlagt og skilið þau. Hinsegin félagsmiðstöð hefur verið opin í 8 ár, með stórum viðburðum eins og Hinsegin balli og Hinsegin landsmóti og um 120 ungmenni heimsækja hverja opnun, einu sinni í viku. Hins vegar er það enn kallað „tilraunaverkefni“. Lesa meira “Hinsegin félagsmiðstöð ekki alvöru félagsmiðstöð?”
Tag: ungmennaráð
Bætum okkur í framkomu við ungmenni
Ég var eitt sinn stödd á borgarstjórnarfundi þar sem ungmennaráð Reykjavíkur mætti og fékk að flytja tillögur sínar fyrir borgarráð. Tvö ungmennaráðanna voru með tillögur að bættri flokkun um borgina, bæði í stofnunum undir Reykjavíkurborg og einnig á götunum. Einn fulltrúanna svaraði og sagðist fagna þessari tillögu, hann bætti þó við að heima hjá sér þá gæfi unglingurinn skít í að flokka og furðaði sig á því að ef ungmenni landsins væru svona æstir í að flokka að þá þyrftu þeir að taka þátt í því. Ef við myndum skipta samfélagshópnum „unglingar“ yfir í annan hóp eins og t.d. konur, þá hefði fólki brugðið við þessi ummæli. Ef sonur hans flokkar ekki heima, þýðir það að allir unglingar flokka ekki rusl? Lesa meira “Bætum okkur í framkomu við ungmenni”
Samfestingurinn – Unglingaviðburður í aldarfjórðung
Árlega fara unglingar á Íslandi að ókyrrast í mars byrjun vegna dansleiks sem þau hafa beðið lengi eftir. Þau eru óþreyjufull því senn er biðin á enda. Samféshátíðin er nefnilega handan við hornið en þá koma saman unglingar úr félagsmiðstöðvum hvaðan æva af landinu í allsherjargleði í Laugardalshöll. Samféshátíðin sem í daglegu tali er kölluð Samfestingurinn er haldin á vegum Samfés, samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, en þar spilar ungmennaráð samtakanna stóra rullu. Ungmennaráð Samfés, sem skipað er átján lýðræðislega kjörnum fulltrúum, hefur nefnilega haft veg og vanda að dagskránni undanfarin ár en þau bæði velja plötusnúða og hljómsveitir sem koma fram á Samfestingnum sem og aðstoða við viðburðahaldið. Vægi ungmennaráðsins er alltaf að aukast. Þetta er því viðburður haldin fyrir unglinga af unglingum undir handleiðslu starfsmanna félagsmiðstöðva og Samfés. Sannkölluð uppskeruhátíð fyrir æsku landsins. Lesa meira “Samfestingurinn – Unglingaviðburður í aldarfjórðung”
Ungmennaráð – Lýðræðisverkefni eða punt?
Að undanförnu hef ég mikið velt því fyrir mér hvort unglingar í dag upplifi að þeir hafi eitthvað að segja um eigin hagsmuni í samfélaginu. Þetta er ekki síst áhugaverð pæling þar sem mikil umræða er um lækkun kosningaaldurs frá 18 í 16 ára og því töluvert mikilvægt að þau átti sig á því að þau geti bæði valið fulltrúa og haft beina aðkomu að ákvarðanatökum um samfélagsleg málefni.
Einn daginn þar sem ég velti þessu fyrir mér tók ég málið upp í samtali við yngri systur mína sem er fjórtán ára. Ég spurði hana hvernig hún upplifði framkomu fullorðinna gagnvart henni og öðrum unglingum í kring um hana þegar þau tjá skoðanir sínar. Hennar upplifun var sú að fullorðnir treystu unga fólkinu ekki fyrir því að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Einnig sagði hún að samfélagið gerði ráð fyrir því að allir unglingar væru á gelgjunni og vissu ekki hvað þeir væru að tala um. Hún taldi afleiðingarnar af þessu vera þær að unglingarnir trúa þeim fullorðnu og finnst því ekki taka því að tala um sín hagsmunamál vegna þess að það er engin sem tekur mark á þeim. Lesa meira “Ungmennaráð – Lýðræðisverkefni eða punt?”
Ég pant fá að ráða!
Þegar kemur að ákvarðanatöku í málum sem tengjast okkur langar okkur flestum að hafa eitthvað um málin að segja og þannig hafa áhrif á það hvernig þau eru afgreidd. Stundum erum við spurð hvað okkur finnst og jafnvel tekið mark á því sem við segjum. Í stærri málum, þar sem ekki er hægt að spyrja alla, kjósum við t.d. fulltrúa fyrir okkur og treystum því að viðkomandi standi undir því trausti. Þessir fulltrúar eru s.s. alþingismenn eða sveitarstjórnarfólk sem allt eru málsmetandi forkólfar og talsmenn mismunandi hagsmunahópa. Lesa meira “Ég pant fá að ráða!”
Ungmennaþing í stað lokaðs ungmennaráðs
Fyrir fimm árum fórum við á Seltjarnarnesi af stað með eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í þegar við lögðum í það að stofna Ungmennaráð Seltjarnarness eða Ungness. Við nálguðumst verkefnið þannig að Ungness yrði skipað ungmennum sem væru 16 ára og eldri og var markmiðið sem við lögðum af stað með að ráðið yrði bænum til ráðgjafar á stjórnsýslustiginu ásamt því að halda viðburði og fræðslu fyrir ungmenni á menntaskólaaldri á Nesinu.
Við boðuðum nýútskrifuð ungmenni í félagsmiðstöðina og auglýstum kosningar í ráðið. Góð mæting var á þennan stofnfund en 19 ungmenni lögðu leið sína á fundinn og 12 gáfu kost á sér til setu í ráðinu. Haldnar voru framboðsræður og svo kosnir 7 fulltrúar ungmennana í Ungmennaráð Seltjarnarness. Veturinn fór vel af stað og héldum við úti opnun fyrir 16+ einu sinni í viku í félagsmiðstöðinni og var mætingin góð. Þegar líða fór á veturinn fór hópurinn þó að þynnast og hægt og rólega fóru ungmenni sem ekki voru í ráðinu að hætta að mæta.
Þetta fyrsta sumar tókum við þátt í ungmennaskiptum á vegum Evrópu unga fólksins með sænsku ungmennaráði frá Lundi. Þetta sænska ráð hafði verið starfandi frá aldamótum og voru með allt annan strúktúr á sínu ráði en við. Þar var ekki kosið í neitt ráð heldur var ráðið opið öllum sem vildu taka þátt og byggðist starfið upp á ungmennaþingum sem haldin eru fjórum sinnum á ári. Á þessi ungmennaþing eru öll ungmenni Lundar velkomin en í Lundi búa rúmlega 80.000 manns. Þingin eru alltaf með ákveðin þemu og eru fræðsla og umræður út frá þemanu. Á þinginu velja ungmennin sig svo í nefndir og vinna verkefni út frá sinni nefnd.
Eftir að hafa kynnst þessum sænska strúktúr og bera hann saman við okkar ákváð Ungmennaráð Seltjarnarness að breyta sínu fyrirkomulagi og heimfæra sænska stílinn á Seltjarnarnes þar sem búa rúmlega 4000 manns.
Ákveðið var að opna ungmennaráðið og í staðinn fyrir að hafa það lokað ráð með kjörnum fulltrúum, að gera það að opnu ráði þar sem öll ungmenni Seltjarnarness mættu taka þátt í verkefnunum og segja sína skoðun sem. Við tókum upp á því að halda fjögur Ungmennaþing á ári en á þau eru allir Seltirningar á aldrinum 16-25 ára boðaðir og þeir sem mæta á þingin eru með atkvæðis- og tillögurétt. Á þingunum er farið yfir verkefni síðastliðinna þriggja mánaða og næstu þrír skipulagðir. Stundum er skipulagt lengra fram í tímann en þetta er svona grunnstefið sem miðað er við.
Við það að opna ráðið og halda þessi fjögur þing sem virka eins og púlsinn í starfseminni jókst þátttaka til muna og verkefnin samhliða því. Á hverju þingi er ákveðið hvaða verkefni skal ráðast í og skipaðir eru verkefnastjórar eða nefndir fyrir hvert verkefni. Það má í raun segja að í staðinn fyrir að hafa eitt ráð sem hefur yfirumsjón með öllum verkefnum er Ungmennaráðið orðið vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til að framkvæma verkefni og myndaðar eru minni nefndir fyrir hvert verkefni af þeim sem vilja koma að því verkefni. Við hugsum þetta sem hugarkort eða bubblukerfi eins og við höfum kallað það.
Eftir að við tókum upp á þessu kerfi hefur ungmennaráðið vaxið og dafnað, endurnýjun hefur verið góð á sama tíma og stofnmeðlimir taka enn þátt í starfinu. Það góða við þetta kerfi er það að þú þarft ekki að vera með í öllum verkefnum og þarft ekki að bjóða þig fram til að vera einn af sjö heldur geturðu valið þér verkefni sem þú hefur áhuga á. Þetta minnkar pressuna á krakkana sem margir hverjir hafa nóg á sinni könnu og þurfa þau ekki að vera all inn alltaf heldur kemur maður í manns stað.
Guðmundur Ari Sigurjónsson
Tómstunda- og félagsmálafræðingur
Verkefnastjóri í Selinu og Skelinni