Grunur um ofbeldi og vanrækslu – Hvað er næsta skref?

Tengsl á milli foreldra og barns virðast skipta miklu máli fyrir framtíð hvers og eins og hvernig við mótumst sem fullorðnir einstaklingar, til dæmis hvernig við hegðum okkur og hvaða gildi við höfum. Í barnæsku er mikilvægt að mynduð séu sterk tengsl á milli foreldra og barns svo að barnið muni þróa með sér góða sjálfsmynd. Ef slík tengsl eru ekki mynduð vegna skorts á getu til að sýna umhyggju er meiri hætta á að seinna meir muni barnið leiðast út í óæskilega hegðun. Foreldrar eða forráðamenn sem hafa ekki tök né yfirsýn á hvaða skyldur þau hafa ná oft á tíðum ekki að sinna skyldum sínum þegar kemur að uppeldi barna sinna. Lesa meira ”  Grunur um ofbeldi og vanrækslu – Hvað er næsta skref?”

Er ég velkominn hér?

Flestir hafa lent í því að finnast þeir ekki velkomnir einhversstaðar. Hvort sem það er á vinnustað, heima hjá einhverjum sem er manni nærri eða bara meðal fólks sem maður þekkir ekki. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að finnast við vera velkomin og það skiptir ekki máli á hvaða aldri við erum. Mér finnst gott að heyra góðan daginn þegar ég fer í búðina eða að hótelherbergið mitt sé vel upp á búið og hreint þegar ég leyfi mér þannig munað, það er búið að sjá um hlutina þannig að mín upplifun sé góð og að ég upplifi að ég sé velkominn aftur. Lesa meira “Er ég velkominn hér?”

Forvarnargildi félagsmiðstöðva í minni sveitarfélögum

Þegar litið er á íslenska unglinga má sjá ótrúlega mismunandi einstaklinga og fjölbreytta hópa. Í gegnum kynslóðirnar sést hvað áherslurnar breytast gríðarlega hratt þar sem á þessu tímabili breyta unglingar um stefnu og stað á stuttum tíma. Þau kynnast nýju fólki, taka fyrstu skrefin að sjálfstæði og þroskast mikið á örfáum árum. Fólk sem vinnur með unglingum sér hvað hópar eru mismunandi, áherslur í starfi breytast og að starfið er stanslaust að þróast. Áhugamál einstaklinga eru mismunandi og í mörgum tilfellum breytast þau á meðal þeirra á þessu tímabili. Einstaklingar sem hafa æft íþróttir geta dregist aftur úr og jafnvel hætta að æfa þegar áhugi þeirra breytist og aukið frelsi í tómstundaiðkun getur leitt til margskonar áhættuhegðunar.

Í grein eftir Vöndu Sigurgeirsdóttur (2014) bendir hún á mikilvægi tómstundamenntunar. Tómstundamenntun getur bæði verið formlegt og óformlegt nám. Hún snýst um það að kenna einstaklingum að nýta frítímann sinn á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Þegar á heildarmyndina er litið eyðum við meiri tíma af ævi okkar í frítímann  heldur en við eyðum í skóla og starf til samans. Því gefur það auga leið að ef við nýtum þennan mikla tíma á neikvæðan hátt, eins og áfengisneyslu, hreyfingarleysi, depurð o.s.frv., veitir frítíminn okkur ekki mikla vellíðan og eykur það hættu á andlegum-, félagslegum- og líkamlegum vandamálum. Áhugamál og jákvæð tómstundaiðkun er okkur mjög mikilvæg og eykur líkur á heilbrigðu andlegu og líkamlegu líferni (Vanda Sigurgeirsdóttir, 2014).

Félagsmiðstöðvar hafa verið til staðar í okkar samfélagi í áratugi og sveitarfélög eru krafin um að reka unglingastarf í einhverri mynd. Hugmyndafræði félagsmiðstöðva hefur verið í stanslausri mótun síðustu áratugi. Grunnhugmyndafræðin byggist á kenningum um félagsmótun, þroska, gildi og viðmið. Fræðimenn hafa lagt áherslu á það að unglingar eigi að nota félagsmiðstöðvar til að prufa sig áfram og læra af mistökum. Þær eiga að skapa umhverfi þar sem unglingamenning getur ráðið ríkjum og þeirra þörfum þjónað. Starfið á að brúa bilið á milli skipulegrar tómstundaiðkunar, eins og íþróttafélögin o.s.frv., og í óskipulegt tómstundastarf sem einstaklingar stunda sjálfir (Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir, 2017).

Kostir lítilla sveitarfélaga eru margskonar. Þau bjóða upp á meira frelsi fyrir börn og unglinga. Unglingar geta auðveldlega farið til vina sinna, foreldrar og forráðamenn jafnvel þekkjast vel og hóparnir verða jafnvel nánari. Kosturinn við litlar félagsmiðstöðvar eru persónuleg aðkoma. Þegar unnið er rétt, getur verið auðvelt að ná til jaðarhópa og veita persónulegri þjónustu fyrir þarfir hvers einstaklings. Starfsmannahópurinn er frekar lítill og unglingarnir ná góðum tenglum við starfsfólkið. Fagfólk félagsmiðstöðva eru oft besta forvörnin, þau grípa umræðuna og fræða ungmenni á óformlegan máta, mæta þörfum þeirra í þeim umræðum sem ungmennin leita í. Félagsmiðstöðvar bjóða upp á óformlegt nám sem kennir samskipti, forvarnarvinnu, sjálfsskoðun og umgengni við mismunandi hópa samfélagsins. Þá er unnið með minni hópa sem gerir það að verkum að auðveldara er að grípa þau ungmenni sem eru ekki virk í tómstundum eða sýna áhættuhegðun. Því er nauðsynlegt að unnið sé vel að starfinu, stuðlað að fjölbreyttri dagskrá og aðstöðu til að unglingar geta prufað sig áfram í tómstundum og fundið sín áhugamál.

Að mínu mati eiga sveitarfélög að leggja mikla vinnu í félagsmiðstöðvar því þar myndast samfélög sem brúar bilið á milli jaðarhópa og mynda jafningjagrundvöll þar sem allir fá tækifæri til spreyta sig í sínum áhugamálum. Þegar starf félagsmiðstöðvar er vel unnin, eftir góðri stefnu og góðum gildum er svo auðvelt að styðja börn og unglinga í gegnum krefjandi þroskaskeið, hjálpa þeim að verða að heilbrigðu ungu fólki með sterka sjálfsmynd, hvata til að breyta rétt, jákvæða leiðtogafærni og heilbrigða samskiptahæfni. Því hvet ég sveitarfélög, stór og smá, að vanmeta ekki forvarnargildi félagsmiðstöðva heldur að auka virkni, metnað og sveigjanleika til að vinna metnaðarfullt starf.

Sigurhanna Björg Hjartardóttir

 

Heimildir:

Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir. (2017). Félagsmiðstöðvar barna og    unglinga. Í Alfa Aradóttir, Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir (ritstjórar), Frístundir og         fagmennska: Rit um málefni frítímans (bls. 109-121). Félag fagfólks í frítímaþjónustu, Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi og Rannsóknarstofa í tómstundafræðum.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun23(1).

Er starfandi félagsmiðstöð í þínu hverfi?

Ég hef unnið í tómstunda- og frístundstarfi undanfarin 15 ár með hléum, hef starfað sem aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöð, frístundaleiðbeinandi, aðstoðarverkefnastjóri í frístund og svo aftur aðstoðarverkefnastjóri í félagsmiðstöð.

Ég byrjaði óvart að vinna í félagsmiðstöð í Hafnarfirði þegar ég var 20 ára og vissi hreinlega ekkert út í hvað ég var að fara. Ég fann strax að þetta var eitthvað sem hentaði mér en ég var samt alltaf alveg að fara að hætta. Samfélagið, vinir og vandamenn áttu það til að spyrja mig: „Hvenær ertu svo að að fara að hætta að vinna í þessari félagsmiðstöð?“ Ég tel að margir viti ekki alveg út á hvað félagsmiðstöðvastarf gengur. Við erum ekki alltaf bara í borðtennis eða í playstation.

Tímarnir hafa breyst þessi ár sem ég hef unnið á vettvangi og er frítíminn því stundum svolítið þaulskipulagður og stjórnaður af okkur fullorðna fólkinu, bæði foreldrum og okkur sem störfum á vettvangi. Ég hef sjálf dottið í að vera að stjórna of mikið og við verðum að passa okkur að leyfa unga fólkinu að hafa frumkvæði, virkja hugmyndaflæðið þeirra og leyfa þeim að njóta unglingsáranna með því að njóta starfsins sem félagsmiðstöðvarnar hafa upp á að bjóða.

En hvaða fyrirbæri er félagsmiðstöð?

Helstu markmið félagsmiðstöðva almennt eru að auka félags- og lýðræðisþátttöku ungs fólks, sinna forvörnum og veita börnum og unglingum stuðning og tækifæri til að sinna áhugamálum sínum. Að félagmiðstöðvar notast við leiðir unglingalýðræðis eins vel og hægt er, bjóða upp á starf þannig að það sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi og að starfsfólkið tengjist börnunum og unglingunum með samtölum og virkri hlustun og mæti þeim einnig á þeirra forsendum og þeim sé sýnd virðing í leik og starfi.

Þar er frábært starfsfólk á gólfinu sem tekur á móti börnunum og unglingum ykkar með bros á vor og alltaf tilbúið í spjall. Sumar félagsmiðstöðvar bjóða upp á starf fyrir 5.-10. bekk á meðan aðrar sjá kannski aðeins um unglingastig.  Opnunartíminn er mismunandi eftir sveitafélögum en það er oftast lagt upp með að það sé að minnsta kosti opið þrisvar sinnum í viku.

Undanfarin ár hefur þekking starfsfólks á gólfinu í félagsmiðstöðvum verið efld þar sem Háskóli Íslands heldur úti námsbraut sem kallast tómstunda- og félagsmálafræði. Fagmanneskan í starfinu er því orðin mikil þar sem þeir starfsmenn sem eru tómstunda- og félagsmálafræðingar koma með aukna fagþekkingu inn í starfið.

Það fer fram svokallað óformlegt nám í félagsmiðstöðunum en þá er unnið að fyrirfram settum markmiðum og starfsfólk félagsmiðstöðvanna veitir þann stuðning sem þarf til að þau náist innan ákveðins tímaramma. Mannleg samskipti koma sterk inn og á tímum snjallforrita þá er frábært að það sé í boði fyrir barnið, unglinginn þinn að kíkja í félagsmiðstöðina í sínu skólahverfi og geta spurt og spjallað við starfsmann félagsmiðstöðvarinannar um allt milli himins og jarðar.

Unglingarnir og börnin okkar hafa svo margt í sér, við verðum að virkja þau og sköpunarkraft þeirra og þar kemur félagsmiðstöðin sterk inn og tekur á móti öllum hugmyndum. Starfsfólkið hjálpar þeim að útfæra hugmyndirnar, t.d. ef þau koma með hugmynd að klúbbastarfi, langi þau að halda bingó, íþróttamót, stofna jafnréttisráð o.s.frv.

Ef þú átt ungling eða barn í 5.-10.bekk athugaðu hvað er í boði í félagsmiðstöðinni í þínu hverfi. Taktu upp tólið og hringdu í félagsmiðstöðina, skoðaðu heimasíðuna, samfélagsmiðlana eða kíktu bara í heimsókn.

Þórunn Þórarinsdóttir

Höfundur er nemi á öðru ári í Tómstunda- og félagsmálafræði

 

Þekkja unglingar mikilvægi tómstunda?

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort unglingar viti afhverju þeir stunda tómstundir. Hvað er það sem er svona mikilvægt við þær? Ég nýti mér oft tækifærið og spyr þá unglinga sem ég þekki til hvers þau stundi tómstundir og hvað þær gefi þeim. Oftar en ekki vita unglingarnir ekkert hverju þeir eiga að svara. Þó svo það séu til ótal margar skilgreiningar á því hvað tómstundir eru og ekki séu allir fræðimenn sammála hvernig best sé að skilgreina það, þá ættu allir að þekkja orðið og geta útskýrt í stuttu máli um hvað það nokkurn veginn snýst.

Það er löngu orðið tímabært að innleiða tómstundamenntun í skólakerfi landsins. Tómstundamenntun er vitundavakning á því hversu mikilvægar tómstundir og frítíminn eru.

Með því að koma tómstundamenntun inn í skólakerfið eykur það skilning unglinga á tómstundum og mikilvægi þeirra sem þau geta tekið mér sér út í lífið. Það er mikilvægt fyrir unglinga að vera meðvitaðir um hvaða áhrif tómstundir geta haft á líf þeirra, hvort þeirra tómstundir hafi neikvæð eða jákvæð áhrif á þeirra vellíðan, hamingju og lífsgæði. Neikvæðar tómstundir eru þær sem geta verið skaðlegar fyrir velferð einstaklinga eins og misnotkun áfengis eða eiturlyfja. Jákvæðar tómstundir eru síðan þær sem auka vellíðan, eru uppbyggjandi og eru nýttar til að bæta lífsgæði, þær tómstundir sem fela í sér líkamlega, félagslega, vitsmunalega eða tilfinningalega þætti.

Unglingsárin eru tími sem einstaklingar eiga það til að leiðast út í áhættuhegðun og finnst mér því unglingsárin kjörinn tími til þess að kynna þeim fyrir tómstundamenntun og geta þá t.d. leitt unglinga að réttri braut áður en þau komast útaf sporinu eða að koma í veg fyrir önnur frítímatengd vandamál og leiða.

Tómstundamenntun hefur þann tilgang að þjálfa og mennta einstaklinga í að iðka tómstundir í frítíma sínum og fá sem flesta til þess að stunda jákvæðar tómstundir sem hafa jákvæð áhrif á frítíma þeirra. Tómstundamenntun fyrir unglinga aðstoðar þau við það að auka eigin lífsgæði með þátttöku í tómstundum. Með tómstundamenntun kynnast unglingar þeirri færni og fá þá þekkingu og tæki til þess að geta nýtt sinn frítíma á uppbyggilegan hátt.

Nú er ég utan af landi, frá litlum bæ á Vestfjörðum og heyri oft talað um það hvað það sé ekkert að gera þar. Í öllum tilfellum kemur það frá unglingum eða ungmennum. Það kemur mér alls ekki á óvart að það sé byrjað að kvarta um þetta á unglingsárunum þar sem unglingar eru ef til vill að vaxa upp úr áhugamálum sem þau voru vön að eiga og enda þau því síðan oft á því að hanga og gera ekki neitt.

Ef til vill getur það verið erfitt að finna sér ný áhugamál eða einfaldlega eitthvað til þess að gera í frítíma sínum. Væri það jafn erfitt ef unglingar myndu læra um tómstundir og frítímann í skólanum? Gæti það komið í veg fyrir áhættuhegðun, frítímatengd vandamál eða leiða? Jafnvel minnkað síma og tölvunotkun?

Elín Ólöf Sveinsdóttir

 

Heimildir

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun, 23(1). 91-97. Sótt

af https://timarit.is/page/6009537#page/n89/mode/2up

 

 

Starfsmenn félagsmiðstöðva með þarfir barna og ungmenna í fyrirrúmi

Eftir að hafa verið nemandi í grunnskóla og starfsmaður í tveimur grunnskólum seinna meir, varð mér hugsað til starfsfólks félagsmiðstöðva og frístundasstarfs utan skóla. Þá sérstaklega um mikilvægi þess að það séu góðar fyrirmyndir og hvetji ungmenni til virkrar þátttöku, þar sem virðing og skemmtilegheit eru í fyrirrúmi. Af minni reynslu er starfsfólkið í félagsmiðstöðvum að vinna almennt mjög gott starf, þó auðvitað megi alltaf bæta sig. Ungmenni eru eins mismunandi og þau eru mörg, sumum finnst ekkert mál að mæta, hafa samskipti við aðra og plumma sig gríðarlega vel í þessu umhverfi. Aðrir eru jafnvel aðeins til baka, finnst erfiðara að mæta og glíma við einhvers konar kvíða eða félagsfælni. Þessi tiltekni hópur gæti orðið svolítið út úr og ekki tekið jafn mikinn þátt í félagslífinu. Það getur verið svolítið yfirþyrmandi að koma inn í félagsmiðstöð þar sem eru mjög margir krakkar saman, allir að gera mismunandi hluti. Lesa meira “Starfsmenn félagsmiðstöðva með þarfir barna og ungmenna í fyrirrúmi”