Útskúfun þeirra fullorðnu

Hvers vegna setjumst við ekki niður og tölum við unglingana okkar og fáum þeirra sýn á lífið og tilveruna? Spyrjum þau hvað þeim finnst og hvaða lausn þau finna á vanda okkar fullorðnu varðandi málefni sem þau varða? Við fullorðna fólkið erum allt of fljót að ákveða það að við þurfum að stjórna unglingunum og gæta þess að þau fari ekki ranga leið í lífinu. Með því að stjórna þeim í stað þess að leiðbeina og hlusta getum við líka eyðilagt fyrir þeim. Lesa meira “Útskúfun þeirra fullorðnu”

Er mikilvægt fyrir ungmennin að taka þátt í sínu eigin tómstunda- og félagsmálastarfi?

Það þekkir engin ungmenni betur heldur en þau sjálf. Það sem ég velti fyrir mér er það hversu mikilvægt það er fyrir ungmenni að taka þátt í tómstundastarfi og vera með fulltrúa sem getur haft áhrif á starfið.

Það er því mikilvægt að mínu mati að ungmenni viti hvað það er mikilvægt að stunda tómstundir. Að því sögðu finnst mér mikilvægt að ungmennum sé kennt um mikilvægi tómstunda og afhverju það sé mikilvægt fyrir þau að taka þátt í starfi félagsmiðstöðva. Ungmenni eru eflaust með það á hreinu að það sé gott og gaman að stunda íþróttir.

Lesa meira “Er mikilvægt fyrir ungmennin að taka þátt í sínu eigin tómstunda- og félagsmálastarfi?”

„Sá á Instagram að þú reykir og drekkur allar helgar“

Samfélagsmiðlar hafa verið mikið í umræðunnu síðustu ár. Í dag eru samfélagsmiðlar helsti samskiptamáti fólks. Stærstu miðlarnir eru Facebook, Instagram og TikTok. Það eru skiptar skoðanir á samfélagsmiðlum enda eru bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar sem að fylgja þeim. Það sem að félagsmiðstöðvar þurfa að takast á við og getur verið frekar flókið mál eru starfsmenn á samfélagsmiðlum.

Félagsmiðstöðvar nota mikið samfélagsmiðla í starfinu sínu. Instagram hefur verið hvað mest notað þegar kemur að starfi félagsmiðstöðva. Þar inn koma allar helstu upplýsingar til unglinganna, auglýsingar fyrir dagskrá og viðburði og skráningarform. Einnig er mjög auðvelt að hafa samband við félagsmiðstöðina í gegnum skilaboð. Sumir nota líka Instagram til þess að halda utan um klúbba- og hópastarf. Til þess að ná betur til unglingana og útskýra fyrirkomulag fyrir ákveðin viðburði eða hreinlega bara til þess að „peppa“ þá eru starfsmenn oft í forsvari á samfélagsmiðlunum, þá sérstaklega í ,,story” á Instagram og í myndböndum á TikTok. Þegar að unglingarnir sjá mjög reglulega starfsfólk félagsmiðsöðva á samfélagsmiðlum er hætta á því að þau upplifi það sem mjög eðlilegt að fara að fylgja þeim á þeirra persónulegu aðgöngum. Starfsfólkið verður að fígúru (e. figure) .

Starfsfólk félagsmiðstöva eru fyrirmyndir fyrir unglinga og sem er oft mjög vand með farið þegar verið er að ráða starfsfólk í flélagsmiðstöðvar. Gerðar eru kröfur á að starfsfólk beri virðingu fyrir öðrum, séu til fyrirmyndar í samskiptum með því að nota ekki niðrandi orðræðu ásamt því að þeir leiðbeini unglingum þegar þau geri eitthvað rangt. Starfsfólk félagsmiðstöva er oft ungt fólk sem notar mikið samfélagsmiðla og unglingarnir líta mikið upp til. Er ekki mikilvægt að starfsfólk sé líka til fyrirmyndar á samfélagsmiðlum? Að mínu mati finnst mér það mjög mikilvægt. Það er ábyrgð sem að fylgir því að vinna með börnum og unglingum og finnst mér að hún eigi að ná til samfélagsmiðla líka.

Ég velti því samt fyrir mér hvort að starfsstaðir geti krafist þess af starfsfólki sínu hvernig samfélagsmiðlum þeirra sé háttað, hvort það er að hafa þá opna eða lokaða aðganga eða hvað er óviðeigandi á samfélagsmiðlum? Klárlega ekki en það gæti verið sniðug lausn fyrir félagsmiðstöðvar að gera sáttmála meðal starfsmanna hverju sinni þar sem að umræðan er tekin um það hvaða hlutverki starfsfólk gegnir og biðji það um að vera meðvitað um það sem að það er að birta á samfélagsmiðlum.

—-

Guðmunda Bergsdóttir

 

 

Forvarnargildi félagsmiðstöðva í minni sveitarfélögum

Þegar litið er á íslenska unglinga má sjá ótrúlega mismunandi einstaklinga og fjölbreytta hópa. Í gegnum kynslóðirnar sést hvað áherslurnar breytast gríðarlega hratt þar sem á þessu tímabili breyta unglingar um stefnu og stað á stuttum tíma. Þau kynnast nýju fólki, taka fyrstu skrefin að sjálfstæði og þroskast mikið á örfáum árum. Fólk sem vinnur með unglingum sér hvað hópar eru mismunandi, áherslur í starfi breytast og að starfið er stanslaust að þróast. Áhugamál einstaklinga eru mismunandi og í mörgum tilfellum breytast þau á meðal þeirra á þessu tímabili. Einstaklingar sem hafa æft íþróttir geta dregist aftur úr og jafnvel hætta að æfa þegar áhugi þeirra breytist og aukið frelsi í tómstundaiðkun getur leitt til margskonar áhættuhegðunar.

Í grein eftir Vöndu Sigurgeirsdóttur (2014) bendir hún á mikilvægi tómstundamenntunar. Tómstundamenntun getur bæði verið formlegt og óformlegt nám. Hún snýst um það að kenna einstaklingum að nýta frítímann sinn á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Þegar á heildarmyndina er litið eyðum við meiri tíma af ævi okkar í frítímann  heldur en við eyðum í skóla og starf til samans. Því gefur það auga leið að ef við nýtum þennan mikla tíma á neikvæðan hátt, eins og áfengisneyslu, hreyfingarleysi, depurð o.s.frv., veitir frítíminn okkur ekki mikla vellíðan og eykur það hættu á andlegum-, félagslegum- og líkamlegum vandamálum. Áhugamál og jákvæð tómstundaiðkun er okkur mjög mikilvæg og eykur líkur á heilbrigðu andlegu og líkamlegu líferni (Vanda Sigurgeirsdóttir, 2014).

Félagsmiðstöðvar hafa verið til staðar í okkar samfélagi í áratugi og sveitarfélög eru krafin um að reka unglingastarf í einhverri mynd. Hugmyndafræði félagsmiðstöðva hefur verið í stanslausri mótun síðustu áratugi. Grunnhugmyndafræðin byggist á kenningum um félagsmótun, þroska, gildi og viðmið. Fræðimenn hafa lagt áherslu á það að unglingar eigi að nota félagsmiðstöðvar til að prufa sig áfram og læra af mistökum. Þær eiga að skapa umhverfi þar sem unglingamenning getur ráðið ríkjum og þeirra þörfum þjónað. Starfið á að brúa bilið á milli skipulegrar tómstundaiðkunar, eins og íþróttafélögin o.s.frv., og í óskipulegt tómstundastarf sem einstaklingar stunda sjálfir (Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir, 2017).

Kostir lítilla sveitarfélaga eru margskonar. Þau bjóða upp á meira frelsi fyrir börn og unglinga. Unglingar geta auðveldlega farið til vina sinna, foreldrar og forráðamenn jafnvel þekkjast vel og hóparnir verða jafnvel nánari. Kosturinn við litlar félagsmiðstöðvar eru persónuleg aðkoma. Þegar unnið er rétt, getur verið auðvelt að ná til jaðarhópa og veita persónulegri þjónustu fyrir þarfir hvers einstaklings. Starfsmannahópurinn er frekar lítill og unglingarnir ná góðum tenglum við starfsfólkið. Fagfólk félagsmiðstöðva eru oft besta forvörnin, þau grípa umræðuna og fræða ungmenni á óformlegan máta, mæta þörfum þeirra í þeim umræðum sem ungmennin leita í. Félagsmiðstöðvar bjóða upp á óformlegt nám sem kennir samskipti, forvarnarvinnu, sjálfsskoðun og umgengni við mismunandi hópa samfélagsins. Þá er unnið með minni hópa sem gerir það að verkum að auðveldara er að grípa þau ungmenni sem eru ekki virk í tómstundum eða sýna áhættuhegðun. Því er nauðsynlegt að unnið sé vel að starfinu, stuðlað að fjölbreyttri dagskrá og aðstöðu til að unglingar geta prufað sig áfram í tómstundum og fundið sín áhugamál.

Að mínu mati eiga sveitarfélög að leggja mikla vinnu í félagsmiðstöðvar því þar myndast samfélög sem brúar bilið á milli jaðarhópa og mynda jafningjagrundvöll þar sem allir fá tækifæri til spreyta sig í sínum áhugamálum. Þegar starf félagsmiðstöðvar er vel unnin, eftir góðri stefnu og góðum gildum er svo auðvelt að styðja börn og unglinga í gegnum krefjandi þroskaskeið, hjálpa þeim að verða að heilbrigðu ungu fólki með sterka sjálfsmynd, hvata til að breyta rétt, jákvæða leiðtogafærni og heilbrigða samskiptahæfni. Því hvet ég sveitarfélög, stór og smá, að vanmeta ekki forvarnargildi félagsmiðstöðva heldur að auka virkni, metnað og sveigjanleika til að vinna metnaðarfullt starf.

Sigurhanna Björg Hjartardóttir

 

Heimildir:

Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir. (2017). Félagsmiðstöðvar barna og    unglinga. Í Alfa Aradóttir, Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir (ritstjórar), Frístundir og         fagmennska: Rit um málefni frítímans (bls. 109-121). Félag fagfólks í frítímaþjónustu, Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi og Rannsóknarstofa í tómstundafræðum.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun23(1).

Félagsmiðstöðvar og landsbyggðin

Lífið sem unglingur á Höfn gat oft á tíðum verið leiðinlegt og leið mér eins og ekkert væri í boði í litla bænum sem ég bjó í, að ég hélt. Á þeim tíma upplifði ég Reykjavík sem stað valmöguleikanna, þá sérstaklega fyrir unglinga. Í Reykjavík var hægt að fara í Kringluna, Smáralindina, í keilu og bíó! Í dag bý ég í Reykjavík vegna náms og þó allir þessir valmöguleikar séu til staðar eru þeir kannski ekki endilega fyrir mig.

Ég horfi til baka og hugsa hvað ég átti þægilegt líf í rauninni, ég gat hjólað og labbað hvert sem var, hvenær sem var án þess að foreldrar mínir hefðu áhyggjur. Lífið í litlum bæ er rólegt og notalegt, þegar ég er heima finnst mér ég vera meira frjáls bæði núna og sem unglingur. Í dag upplifi ég Reykjavík stað þar sem er of mikið áreiti, þegar ég er heima finnst mér ég vera með fleiri klukkutíma í sólarhringnum. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það hefði verið að alast upp í bænum, hefði ég verið meira háð foreldrum mínum upp á að fá far til dæmis á æfingar, eða hefði ég æft eitthvað? Ég æfði fótbolta á unglingsárunum mínum, hefði ég gert það ef ég hefði alist upp í Reykjavík? Þegar ég lít til baka þá man ég ekki eftir að hafa leiðst mikið, við fundum okkur alltaf eitthvað til þess að gera.

Sem félagslynd manneskja var ég virk í mörgu. Ásamt því að æfa fótbolta mætti ég í félagsmiðstöðina eins mikið og ég hafði tök á. Félagsmiðstöðin var opin þrisvar í viku og eyddi ég miklum tíma þar með vinkonum mínum. Eitt árið var ég í ráði innan félagsmiðstöðvarinnar, þar sem krakkar eru fengnir til þess að mæta á fundi, hjálpa við að skipuleggja viðburði hvers mánaðar og hjálpa við undirbúning. Þessi litla reynsla sem ég fékk þarna er líklega ástæðan fyrir því að ég hef verið í nemendaráði bæði í framhaldsskóla og háskóla. Þessi reynsla opnaði fleiri valmöguleika og þar fann ég styrkleika mína.

Félagsmiðstöðvar bjóða upp á svo margt, þær eru vettvangur fyrir börn og unglinga að læra það sem virkilega skiptir þau máli. Krakkarnir geta mætt þangað með frjálsum vilja og fá tækifæri til þess að efla samskipta- og félagsfærni þeirra auk þess að styrkja sjálfsmyndina þeirra og sjálfstæði. Einnig brýtur starfsemi félagsmiðstöðva upp hversdagsleikann hjá börnum og unglingum þar sem þau geta komið og spilað borðtennis, þythokkí og biljarð til að nefna nokkur dæmi.

Ég tel félagsmiðstöðina vera eina af mikilvægustu stöðum sveitarfélagsins, þar geta hópar hist undir jákvæðum formerkjum. Þegar ég var unglingur höfðum við aðgang að félagsmiðstöðinni og hitti ég vini mína þar frekar en að rápa um göturnar eða hanga á Olís eftirlitslaus. Það gleður mig mikið að sjá að starfsemin í gömlu félagsmiðstöðinni minni er stöðugt að aukast og verður aðeins betri með tímanum. Að mínu mati skipta félagsmiðstöðvar gríðarlega miklu máli, þá sérstaklega í minni sveitarfélögum. Það er ávinningur af þeim, bæði fyrir ungmennin og samfélagið.

Adisa Mesetovic

Fjöldatölur, kyn og gæði?

Þegar tómstundastarf í félagsmiðstöðvum er metið koma fjöldatölur oftar en ekki við sögu. Starfsmenn í hverri félagsmiðstöð í Reykjavíkurborg þurfa að halda utan um fjölda þeirra ungmenna sem sækja starfið hverju sinni. Þátttakendur þurfa oftar en ekki sjálfir að muna eftir því að skrá að þeir hafi mætt og tekið þátt í starfinu. Tölunum er svo safnað saman fyrir hvert tímabil og þær skoðaðar. Ég tel eðlilegt upp að vissu marki að notast við fjöldatölur til að stjórnendur hafi yfirsýn á hve mikið hlutfall nemenda taki þátt í og nýti sér starfið sem er skipulagt og á sér stað í félagmiðstöðum en ég tel þetta kerfi þó ekki gallalaust.

Lesa meira “Fjöldatölur, kyn og gæði?”