Útskúfun þeirra fullorðnu

Hvers vegna setjumst við ekki niður og tölum við unglingana okkar og fáum þeirra sýn á lífið og tilveruna? Spyrjum þau hvað þeim finnst og hvaða lausn þau finna á vanda okkar fullorðnu varðandi málefni sem þau varða? Við fullorðna fólkið erum allt of fljót að ákveða það að við þurfum að stjórna unglingunum og gæta þess að þau fari ekki ranga leið í lífinu. Með því að stjórna þeim í stað þess að leiðbeina og hlusta getum við líka eyðilagt fyrir þeim.

Við pössum svo vel upp á unglingana að við ákveðum að tilteknir einstaklingar séu ekki nægilega góðir til að umgangast unglinginn. Af hverju? Jú við heyrðum eitthvað, unglingurinn klæddi sig ekki í takt við þann ramma sem við ákváðum svo ég tali ekki um að hafa kannski eyrnalokk á stað sem „okkur“ finnst ekki viðeigandi eða viðkomandi tilheyri ekki „rétta“ hópnum að okkar mati.

Með þessu hátterni erum við að útskúfa þá sem okkur hentar og afleiðingarnar geta verið hræðilegar fyrir þann sem fyrir því verður og einnig slæmt unglingnum sem stendur okkur næst, sem líður líka illa en þorir ekki að standa upp fyrir þann sem er útskúfaður vegna hræðslu við að verða fyrir því líka og þá frá öðrum fullorðnum. Einnig erum við að segja unglingnum okkar að eitt sérstakt mót sé rétta mótið í stað þess að fjölbreytileikinn sé frábær og öll geti verið það sem þau vilja og líður vel með.

Félagsmiðstöðvarnar eru mikilvægur vettvangur fyrir unglinga en það þarf bara einn starfsmann til þess að eyðileggja fyrir samverustaðnum. Starfsmaður sem gefur sér ekki tíma til að setjast niður og kynnast þeim unglingum sem koma í félagsmiðstöðina heldur stjórnar öllu með harðri hendi veldur því að unglingarnir fara annað. Með því getur til dæmis flosnað upp úr hópnum og einstaklingar einangrað sig og misst af félagsþroska sem mikilvægur er inn í lífið.

Öll ungmenni eiga að vera velkomin í félagsmiðstöðina burt sé frá því hvar þau búa. Börn í dag búa til dæmis sum hver á tveimur heimilum og sækja því tvær félagsmiðstöðvar. Starfsmenn félagsmiðstöðva eiga ekki að setjast í dómarasæti þegar nýir unglingar mæta heldur taka öllum opnum örmum og kynna þeim reglur staðarins og aðstöðu þar. Starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar er þjónn þeirra unglinga sem koma þangað, eyru þeirra, leiðbeinandi í samskiptum ef þarf, finnur leiðir til að gera það sem hópinn langar að gera og gerir allt til að lýðræðislegir starfshættir séu til staðar til að efla frábæru æskuna okkar sem er skynsöm og meðvituð um umhverfi sitt.

Tökum okkur saman í andlitinu, gefum okkur tíma og setjumst niður og tölum við unglingana okkar. Við getum lært helling af því og umfram allt þá sýnum við unglingunum okkar traust sem er mikilvægt veganesti út í lífið og hjálpar þeim að þroskast og blómstra.

Grein þessi er skrifuð til þess að opna augu fullorðinna og að öll líti í eigin barm. Unglingarnir eru sérfræðingar í þeirra umhverfi og lífi. Leiðbeinum unglingunum okkar í stað þess að stjórna þeim. Það er gamaldags að það sé smart að vera „stjórnandi“ því lífið gengur út á að leiðbeina og styrkja fólk sama á hvaða aldri þau eru.

Steinunn Rósa Einarsdóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði