Pókermót í félagsmiðstöð – Hvað gerir þú?

Við höfum ákveðið að setja inn nýtt siðferðislegt álitamál. Það barst okkur fyrirspurn um „no stakes“ pokermót í tómstundastarfi. Við hvetjum alla til að blanda sér í umræðuna og beita rökum með og á móti. Mikilvægt er að fólk sé opið og virði skoðanir annarra. Ef þið hafið siðferðislegt vandamál sem ykkur langar að ræða sendið það endilega á [email protected]. Það má vera raunverulegt úr starfinu ykkar eða aðstæður sem gætu hugsanlega komið upp.

poker

Vandamál:
Unglingaráðið þitt óskar eftir að halda “no-stakes” poker mót. (En fyrir þá sem ekki vita þá er ekki spilað upp á peninga í „no stakes“ pokermóti). Oftast er spilað uppá peninga þegar spilað er póker og margir hafa farið illa út úr því og jafnvel tapað öllu sínu. Póker er ein mest spilaða íþrótt á netinu skv. Wikipedia.
Hvað finnst þér um þér um að hafa “no-stakes”  pokermót í Félagsmiðstöðvum?

 

„Ekkó bjargaði unglingsárum mínum“ : viðhorf einstaklinga sem voru virkir í félagsmiðstöðinni Ekkó

Um verkefnið

Verkefni þetta er lokaritgerð til BA prófs í tómstunda- og félagsmálafræði. Leiðbeinandi verkefnsins er Árni Guðmundsson félagsmiðstöðvamógúll. Höfundar verkefnisins höfðu unnið saman í félagsmiðstöðvastarfi og voru einnig samferða í náminu. þeir luku námið í febrúar 2012. Þegar kom að því að ákveða viðfangsefni ritgerðarinnar vildum þeir báðir leggja lóð á vogaskálarnar og upplýsa fólk um mikilvægi félagsmiðstöðvastarfs og áhrif þess á einstaklinga í framhaldinu framkvæmadu þeir minniháttar rannsókn og athuga viðhorf einstaklinga sem voru virkir í félagsmiðstöðvastarfinu hér á árum áður.til félagsmiðstöðvarinnar.  

Útdráttur

Í þessari rannsóknarritgerð byrjum við á að fjalla stuttlega um unglingsárin og þau vandamál sem þeim fylgja. Því næst fjöllum við um tómstundir almennt og þrengjum rammann að félagsmiðstöðvastarfi. Félagsmiðstöðvastarf í Kópavogi er kynnt auk þess sem farið er í sögu og þróun félagsmiðstöðvarinnar Ekkó í Kópavogi. Hrafnhildur Ásbjörnsdóttir fyrrum forstöðumaður Ekkó til 19 ára gefur okkur sína sýn og skoðun á félagsmiðstöðvastarfi. Eigindleg rannsókn var framkvæmd þar sem viðmælendur voru 8 einstaklingar sem höfðu öll tekið virkan þátt í starfi Ekkó. Markmið rannsóknarinnar var að fá fram viðhorf þeirra til starfsins og hvaða þættir í starfinu mótuðu viðhorf þeirra. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að félagsmiðstöðin er mikilvægur staður til að eflast og þroskast félagslega. Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar getur skipað stóran sess í lífi unglingsins og getur haft gífurleg áhrif á hann. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að gefa starfsfólki í frítímaþjónustu hugmynd um hvað það er sem virkilega skiptir máli í frítímaþjónustu unglinga og hversu mikilvægt hlutverk þeirra er.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni

Um höfundana

1082717_10151772202789860_1648688873_nBjarki Sigurjónsson er fæddur árið 1988 og er uppalinn í Kópavogi. Hefur hann starfað á vettvangi frítíans frá árinu 2007. Hann hefur komið víða við hefur meðal annars unnið í Félagsmiðvunum Þebu, Fókus og Bústöðum og frístundaheimilinu Krakkakoti. Starfar hann núna sem frístundaleiðbeinandi í félagsmiðstöðinni Laugó. Síðasta vor lauk hann framhaldsprófi í raftónlist við tónlistarskólann í Kópavogi.

 

 

 

 

 

Snorri PállSnorri Páll er fæddur árið 1986 og er uppalinn Kópavogsbúi. Hann hefur stundað íþrótta- og tómstundastarf í Kópavogi frá blautu barnsbeini. hefur starfað í Kópavogsbæ um árabil og í félagsmiðstöðum Kópavogsbæjar frá árinu 2007. Starfar nú sem frístundastaleiðbeinandi í félagsmiðstöðinni Ekkó í Kópavogi.

Orðanefnd ýtt úr vör

Orðanefnd á stofnfundi
Orðanefnd að loknum fyrsta fundi. Frá vinstri Hulda V. Valdimarsdóttir, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Jakob F. Þorsteinsson, Eygló Rúnarsdóttir og Ágústa Þorbergsdóttir

Stofnuð hefur verið orðanefnd í tómstundafræðum sem tók formlega til starfa 24. júní síðast liðinn. Námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði hefur um nokkur skeið unnið að stofnun orðanefndarinnar í samvinnu við Félag fagfólks í frítímaþjónustu og Ágústu Þorbergsdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Lesa meira “Orðanefnd ýtt úr vör”

LAN í félagsmiðstöð – Hvað gerir þú?

tapeta-counter-strike-02-600x450

Nú er komið að nýjum lið hér á Frítímanum þar sem við vörpum upp siðferðislegu álitamáli sem getur komið upp í tómstundastarfi. Við hvetjum alla til að blanda sér í umræðuna og beita rökum með og á móti. Mikilvægt er að fólk sé opið og virði skoðanir annarra. Ef þið hafið siðferðislegt vandamál sem ykkur langar að ræða sendið það endilega á [email protected]. Það má vera raunverulegt úr starfinu ykkar eða aðstæður sem gætu hugsanlega komið upp.

Vandamál:
Hópur af strákum í félagsmiðstöðinni þinni langar að skipuleggja LAN hitting (En fyrir þá sem ekki vita er LAN viðburður þar sem einstaklingar koma með tölvuna sína, tengja þær saman og spila tölvuleiki.) Á LANinu vilja þeir spila þá tölvuleiki sem þeir eru vanir að spila, skotleiki og herkænsku leiki sem eru bannaðir innan 18 ára. Þessi strákahópur er lítið virkur í félagsstarfinu og mætir illa skólann.

Hvað gerir þú?

„Mig langaði í raun að leggjast í dvala og sofna þangað til þetta væri allt búið“

ÞórunnÞórunn Þórsdóttir 22 ára nemi í félagsráðgjöf var lögð í einelti í rúmt ár á unglingsárunum sínum. Eineltið átti sér stað á netinu, í skólanum og á heimili gerandanna sem voru þáverandi þrjár bestu vinkonur hennar. Eineltið byrjaði þegar hún var 13 ára gömul. Þórunn var hlédræg og viðkvæm á þessum árum og þar af leiðandi auðvelt skotmark fyrir einelti eins og hún orðar það sjálf. ” Hún talar um að þetta sé eins og með rándýrin, þau velja auðveldustu bráðina til að ráðast á.” Vanlíðanina faldi hún í tæpt ár þar til móðir hennar áttaði sig á hvað væri í gangi. Skólinn brást ótrúlega vel við og félagsmiðstöðin bjargaði lífi hennar.

Hvenær byrjaði eineltið og hvernig lýsti það sér?

Eineltið byrjaði um fermingaaldurinn, ég var þrettán ára. Eineltið átti sér stað á netinu, í skólanum og heima hjá “vinkonum” mínum. Ég man sérstaklega eftir löngum texta sem mátti finna í nafnlausu kommenti á síðunni minni, þar stóð sem dæmi: þú ert ógeðsleg, hóra, aumingi, viðbjóðsleg manneskja. Enginn vill þig, enginn vill eiga þig sem vin, þú átt aldrei eftir að eignast kærasta. Ég væri ógeðsleg, ég ætti ekkert gott skilið, að ég væri spikfeit (þegar ég var alltof grönn), tussa, lessa og margt fleira.
Gerendurnir voru þáverandi þrjár bestu vinkonur mínar, það var ótrúlega sárt. Þetta var ekki bara einhver í skólanum, þetta voru þrjár bestu vinkonur mínar. Þær voru ótrúlega lúmskar og þar af leiðandi tók enginn eftir eineltinu. Þær létu mig trúa því að ég væri einskis verð.
Eineltið hafði mikil áhrif á mig, ég horaðist niður og oft missti ég matarlystina. Þegar ég fór heim úr skólanum sem kom oft fyrir, fór ég inn í herbergi og ég grét lengi. Ég laug alltaf til um að ég væri með mikinn hausverk. T.d. var ein virkilega leiðinleg við mig einn daginn, hún var búin að vera að atast í mér og stríða mér allann daginn í frímínútum og svo hélt hún áfram þegar við komum inn í tíma. Ég lét mig hafa það en svo gat ég ekki meir. Ég fór til kennarans og sagði að ég þyrfti að fara heim vegna þess að ég væri með svo mikinn hausverk, það var ekkert mál. Ég labbaði út og fór að skápnum mínum. Þá kom ein “vinkona” mín sem var búin að vera leiðinleg við mig allan daginn og sagði er ekki allt í lagi elsku Þórunn og knúsaði mig, hún var svo fölsk. Einu sinni hengdu þær upp mynd af mér hér og þar í skólanum þar sem ég var grátandi og á myndinni stóð “Þórunn grenjuskjóða”.
Þær létu mér líða það illa að ég sagði einu sinni við mömmu að mig langaði í raun að leggjast í dvala og sofna þangað til þetta væri allt búið, mér fannst allt svo vonlaust, eins og ekkert myndi lagast og verða betra. Ég hélt að líf mitt yrði alltaf ömurlegt og að mér myndi aldrei líða vel aftur.

Hvað viðgegst eineltið lengi?
Eineltið stóð yfir í 1 ár, eitthvað um það. Ég faldi eineltið fyrir öðrum allan þennan tíma. Þetta er stundum svona blörrað fyrir mér. Ég var rosa góð í að fela þetta og þær líka, gerendurnir. Svo kom sá dagur að móðir mín uppgötvaði eineltið og þá gat ég ekki falið það lengur.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að segja frá eineltinu?
Mamma hafði oft haft áhyggjur af því að ég yrði lögð í einelti af því ég var svo viðkvæm og átti svo erfitt með að svara fyrir mig. Ég var með mígreni á þessum tíma og ég notaði það mikið sem afsökun til að sleppa heim úr skólanum. Á tímabili fór ég allavegana þrisvar til fjóru sinnum heim úr skólanum á viku. Mamma spurði mig oft hvort að það væri ekki allt í lagi í skólanum og ég svaraði því alltaf játandi að það væri allt í lagi. Ég setti upp grímu, var alltaf hress í skólanum, hló og var brosandi þótt að ég gréti inn í mér. Mamma mín fór einn daginn á foreldrafund með litla bróður minn og fékk bækling um einelti. Hún las bæklinginn og áttaði sig þá á að það var eitthvað mikið að. Sama kvöld kom hún til mín áður en ég fór að sofa. Hún marg spurði mig hvort það væri ekki allt í lagi og hvort það væri einhver vondur við mig og að lokum brotnaði ég saman, missti mig og sagði mömmu allt. Ég marg bað hana um að segja ekki neinum frá þessu vegna þess að ég óttaðist að eineltið yrði þá enþá verra en hún tók það ekki í mál.

Hvernig var brugðist við?
Strax daginn eftir hringdi mamma í umsjónakennarann minn og sagði honum frá þessu. Þetta kom honum rosa mikið á óvart. Hann talaði við námsráðgjafann og ræddu þau hvernig best væri að taka á þessu máli. Þetta gerði mamma að mér óafvitandi. Mamma talaði einnig við skólastjórann og hann benti henni á að fara til lögreglunnar. Þetta var orðið það alvarlegt og ljótt, sérstaklega eineltið sem fram fór á netinu. Mér þótti vænt um hversu vel lögreglan tók í þetta. Þeir lögðu sig virkilega fram við að rekja IP tölurnar og komast að því hverjir stæðu á bakvið þessi nafnlausu skilaboð á heimasíðunni minni.

Í skólanum voru 10. bekkingar sem fylgdust með í frímínútum á vegum skólans. Skólastjórnendur töluðu við þá nemendur og gangaverðina og hvöttu þau til að fylgjast extra vel með mér og gerendunum í frímínútum. Það tók þau hálfan mánuð að sjá eineltið þrátt fyrir að það ætti sér stað á hverjum degi. Námsráðgjafinn hafði líka samband við þá sem sáu um unglingavinnuna og það var passsað uppá að ég lenti ekki með þessum “vinkonum” mínum í hóp og eins sá skólinn um að ég var ekki með þeim í bekk þegar ég byrjaði í 9. bekk.

Hvernig greip félagsmiðstöðin inn í?

Námsráðgjafinn talaði við félagsmiðstöðina og lét þau vita af mér og upplýsti þau um það einelti sem hafði átt sér stað.  Námsráðgjafinn talaði einnig við mömmu um að það væri tilvalið fyrir mig að sækjast eftir að fá að taka þátt í félagsmiðstöðvastarfinu í  9. bekk. Um haustið fór ég því að sækja félagsmiðstöðina ásamt einni vinkonu minni sem hafði ekki tekið þátt í eineltinu. Það var rosa mikil aðsókn í félagsmiðstöðina og ég varð ótrúlega ánægð og stolt þegar ég fékk að vera með í nefnd.
Ég kveið oft gífurlega fyrir því að fara í frímínútur og hádegishlé þegar ég var í 8. bekk en eftir að ég fór að taka virkan þátt í félagsmiðstöðinni fór ég alltaf þangað í frímínútum og oft í hádegishléunum og hitti krakkana þar. Mér fannst frábært að félagsmiðstöðin var alltaf opin og maður var alltaf velkominn, maður gat komið þangað hvenær sem var, það voru alltaf einhverjir þarna.
Ég var alltaf pínu smeyk við þessa konu sem var yfir félagsmiðstöðinni. Hún var alltaf svo ákveðin við mig og ég svo viðkvæm. Eftirá að hyggja var hún náttúrulega bara að stappa í mig stálinu og láta mig vera sterka og sjálfstæða. Í félagsmiðstöðinni var ég látin hringja og bóka skemmtikrafta, ég var kynnir á einni skemmtun. Ég var alltaf hvött áfram. Það hjálpaði mér alveg rosalega mikið. Í félagsmiðstöðinni fékk maður líka að heyra: þú ert frábær og stendur þig vel. Þarna fór ég líka að kynnast fleiri krökkum. Þar kynntist ég einni stelpu mjög vel og varð þar af leiðandi hluti að tíu manna vinkonuhópi og við erum allar góðar vinkonur í dag.

Ég vissi það ekki fyrr en eftir að ég útskrifaðist að ég hafði verið hvött til að fara í félagsmiðstöðina útaf eineltinu og að félagsmiðstöðin vissi af eineltinu.
Skólinn og félagsmiðstöðin tóku svo ótrúlega vel á þessu. Ég væri klárlega ekki sú mannsekja sem ég er í dag hefði ég ekki farið að sækja félagsmiðstöðina.  Þar lærði ég að vera opin og ákveðin. Ég get bara sagt það að félagsmiðstöðin bjargaði lífi mínu, það er bara þannig.

Hefur eineltið haft mikil áhrif á þig?
Ég hef rosa mikið blokkað út fá þessum tíma þegar eineltið átti sér stað.  Ég er enþá að vinna úr þessari lífsreynslu en með yndislegri fjölskyldu sem stóð við bak mitt eins og klettur og með mikilli hjálp komst ég í gegnum þetta. Einnig verð ég að nefna hvað ég er feginn að móðir mín lét vita af þessu því ef hún hefði ekki gert það veit ég ekki hvar ég væri í dag. Ég fæ stundum hnút í maga
nn og verð reið þegar ég hugsa um þetta og þá vonsku sem var til í þeim, þessum þremur sem voru bestu vinkonur mína. Fyrst tókst þeim að brjóta mig niður, en síðan ákvað ég að gera þeim það ekki til geðs. Ég komst í gegnum eineltið og það sýnir sig og hefur sannað að með því að hafa trú á sjálfan sig getur maður allt. Ég fékk mér tattoo seinasta sumar til þess að minna mig á að ég er sterk og komst í gegnum þessa lífreynslu. Ef ég verð leið eða mér líður illa horfi ég á tattoo-ið og minni sjálfa mig á að fyrst ég komst í gegnum þetta kemst ég í gegnum allt. Tattoo-ið er orðið Styrkur. Ég er ótrúlega opin í dag og á félagsmiðstöðin stóran þátt í því. Í dag er ég hamingjusöm, jákvæð, ákveðin og sterk og leyfi engum að komast upp með að gera lítið úr mér eða tala niður til mín. Ég á yndislegann kærasta, yndislega fjölskyldu og frábæra vini bæði í Garðabæ og HÍ. Aldrei í lífinu bjóst ég við að eiga þetta allt saman.

Sumarið og frítíminn

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, var í morgunspjalli á Rás 2 þriðjudaginn 18. júní og ræddi sumarið og frítímann. Mikið framboð er á fjölbreyttum námskeiðum á höfuðborgarsvæðinu og ræddi hún meðal annars innihald og umgjörð, mikilvægi þess að huga að áhugasviði barnanna og ekki síst þörf þeirra fyrir að komast líka í sumarleyfi. Hún kom jafnframt inn á þau viðfangsefni sem foreldrar standa frammi fyrir á sumrin enda aðstæður fólks misjafnar.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér