Hátíðarkveðja Frítímans

2014-New-year-fireworks-photoVið hjá Frítímanum viljum óska lesendum okkar ásamt landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar og þakka fyrir samfylgdina á árinu sem nú er að líða undir lok.

Þetta ár hefur verið viðburðurríkt fyrir okkur þar sem við létum langþráðan draum rætast um að opna veftímarit sem fjallar um tómstunda- og frítímatengt efni hér á landi. Við höfum lært mikið á þessu ári og teljum við okkur vera vel á veg kominn með að gera Frítímann sýnilegan og virkan miðil sem vettvangur frítímans nýtir sér til að sækja sér upplýsinga og miðla efni. Ritstjórn Frítímans hefur ávallt litið á Frítímann sem langtíma verkefni og að það muni taka um þrjú ár að koma tímaritinu almennilega á koppinn.

Það er alltaf gaman við tímamót að líta um öxl og rifja upp það helsta á árinu og höfum við útbúið smá samantekt af árinu sem nú er að líða.

Tölfræði fyrir árið 2013

Alls voru heimsóknir á Frítímann 59.905

Flestar voru heimsóknirnar 22. júní en voru þær 1.950 talsins

Mest lesnu greinarnar árið 2013

  1. „Mig langaði í raun að leggjast í dvala og sofna þangað til þetta væri allt búið“ með 3.648 lesningar
  2. Áhrif félagsmiðstöðvastarfsmanna á einstaklinga með 1.018 lesningar
  3. Starfskenning æskulýðsstarfsmanns með 867 lesningar

Mesta umræðan á grein árið 2013

  1. „Mig langaði í raun að leggjast í dvala og sofna þangað til þetta væri allt búið“ með 43 comment
  2. Áhrif félagsmiðstöðvastarfsmanna á einstaklinga með með 26 comment
  3. Pókermót í félagsmiðstöð – Hvað gerir þú? með 20 comment

Framtíðarsýn

Að lokum viljum við varpa upp framtíðarsýn fyrir árið 2014 og hvetjum við alla til að leggja sitt á mörkum svo hún verði að raunveruleika. Við sjáum fyrir okkur að árið 2014 verði Frítíminn virk gátt fyrir starfsfólk og fræðimenn á vettvangi frítímans þar sem yfirmenn málaflokksins sem og starfsmenn á gólfi sækja sér upplýsingar, taka þátt í umræðu og senda inn greinar um málefni sem brenna á þeim. Við sjáum einnig fyrir okkur að einstaklingar byrji að nýta sér viðburðadagatalið sem síðan býður uppá í auknum mæli. Bæði til að auglýsa sem og að finna áhugaverð námskeið og viðburði sem tengjast vettvangi frítímans. Einnig sjáum við fyrir okkur að við munum byrja að miðla efni á fjölbreyttari máta en með greinaskrifum og má því með sanni segja að árið 2014 líti vel út fyrir Frítímann – Veftímarit fagfólks í frítímaþjónstu!

Gleðilega hátíð og farsæld á komandi ári!
Ritstjórn Frítímans

Fræðsluáætlun FFF – Fullt af spennandi námskeiðum og fyrirlestrum

Þá er fræðsluáætlun FFF loksins tilbúin. Nú þegar hefur verið haldinn einn hádegisverðarfundur þar sem Steingerður Kristjánsdóttir fjallaði um hugmyndafræði þjónandi forystu (servant leadership) og var það áhugavert umfjöllunarefni sem skapaði góðar umræður hjá þeim sem á hlýddu. Hádegisverðarfundir og Kompás/Compasito námskeið eru fastir liðir hjá okkur og við höldum áfram í vetur að fjalla um reynslunám en nú verður boðið upp á námskeið þar sem viðfangsefnið er leiðbeinandinn í reynslunámi. Einnig verða spennandi námskeið um hvernig hægt er að nýta leiklist og aðferðarfræði verkefnisstjórnunar í frístundastarfi.

Hádegisverðarfundir/smiðjur

Viðfangsefni: Allt eftir stemmingunni hverju sinni.
Hvenær: Nóvember, febrúar, apríl og ágúst.
Staðsetning: Mismunandi – auglýst sérstaklega.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: Félagsmönnum og öðrum gestum að kostnaðarlausu.

Kompás og Compasito – stutt kynningarnámskeið

Samstarf FFF, Æskulýðsvettvangsins og Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Viðfangsefni: Bækurnar Kompás og Compasito (Litli Kompás) eru handbækur um mannréttindafræðslu fyrir börn og ungt fólk. Námskeiðið er ætlað þeim sem sinna slíkri mannréttindafræðslu á vettvangi frítímans en gagnast einnig öllum þeim sem starfa með börnum og ungu fólki.
Hvenær: Fjögurra klukkustunda námskeið í janúar, febrúar, mars og apríl.
Staðsetning: Nánar auglýst síðar.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: 5000 kr. og félagsmenn í FFF fá Kompás-bókina sér að kostnaðarlausu á námskeiðinu.

Leiðbeinandinn í reynslunámi – hvar er hann?auglysing

Samstarf FFF og Áskorunar ehf.

Viðfangsefni: Þátttakendur verða þjálfaðir í því að verða betri leiðbeinendur eða „vegvísar“ (e. facilitator) í frístunda- og æskulýðsstarfi þannig að þeir geti betur stutt við nám, vöxt og þroska skjólstæðinga sinna.

Markmiðið er að þátttakendur verði meðvitaðri um:

• Þau mismunandi hlutverk (og skyldur) sem fylgja starfinu.

• Þær víddir sem felast í hlutverki leiðbeinandans.

• Aðferðir og leiðir til að ná betri tökum á starfinu.

• Samhengið milli eigin þroska og getunnar til að vinna með þroska annarra.

• Leiðtogann – í eigin lífi og í lífi annarra.

Hvenær: Þrjú skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (21. janúar kl. 16-20, 10. mars kl. 9-13 og 29. apríl kl. 18-22) og verkefnavinna þess á milli.
Staðsetning: Hlaðan við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 15. janúar, takmarkaður fjöldi plássa.
Verð: 25.000 kr. fyrir félaga í FFF en 30.000 kr. fyrir aðra.

Leiklist í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Fjallað verður um hvernig hægt er að nota leiklist í frístundastarfi, bæði með börnum og unglingum. Námskeiðið byggir á virkri þátttöku og æfingum.

Markmið:

• Að þátttakendur öðlist grunnþekkingu í að beita leiklist sem listformi.

• Að þátttakendur fái innsýn í hvernig hægt er að nota kennsluaðferðir leiklistar á skemmtilegan hátt í tengslum við forvarnir og lífsleikni.

• Að þátttakendur kynnist fjölbreyttum kennsluaðferðum leiklistar og geti notað þær með börnum og unglingum.

Unnið verður með bókina Leiklist í kennslu eftir Önnu Jeppesen og Ásu Helgu Ragnarsdóttur.
Hvenær: Fjögur skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (14. janúar kl. 12.30-14.50, 15. janúar kl. 8.20-11.30, 21. janúar 12.30-14.50 og 22 janúar 8.20-11.30 ) og verkefnavinna á milli.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 6. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir félaga í FFF en 15.000 kr. fyrir aðra.

Verkefnastjórnun í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Á námskeiðinu veður farið yfir aðferðarfræði verkefnisstjórnunar og skipulagningu verkefna. Markmið námskeiðsins eru að þátttakendur tileinki sér aðferðir verkefnisstjórnunar til að geta aukið skilvirkni í daglegum störfum, stýrt verkefnum og byggt þau upp á faglegan hátt.

Helstu efnisatriði:

• Skilgreining á umhverfi, forsendum, markmiðum og umfangi verkefna.

• Skilgreining verkþáttum og vörður verkefna.

• Forgangsröðun og niðurbrot verkefna niður í verkþætti.

• Hagsmunaaðila- og áhættugreiningar.

• Grunnatriði verkefnaferilsins, uppbygging verkefnaáætlunar, stöðugreiningar, vörður og verkefnislok.

• Verkefnisskipulag og ábyrgð.

• Hlutverk verkefnastjóra, eigenda, stýrihóps, verkefnisteymis og verkefnishóps.

• Eftirlit með framgangi verkefna og hvernig tryggja má tilætlaða niðurstöðu.

Hvenær: Fimmtudaginn 16. janúar kl. 8.20-14.50 og föstudaginn 17. janúar á sama tíma.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 11. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir FFF-félaga en 15.000 kr. fyrir aðra.

 

Evrópu samvinna í 20 ár – Uppskeruhátíð Evrópu unga fólksins

Föstudaginn 22. nóvember fer fram uppskeruhátíð samstarfsáætlanna ESB en frá og með áramótum verða þessar áætlanir sameinaðar undir einu nafni, Erasmus+. Ein af þeim áætlunum sem munu falla undir Erasmus+ er Evrópa unga fólksins en sú áætlun hefur stutt við æskulýðsvettvanginn með því að fjármagna samstarfs- og þróunarverkefni á sviði æskulýðsmála.

Á síðustu 7 árum sem EUF hefur verið starfandi hefur áætlunin úthlutað €6.882.515 en á gengi dagsins í dag eru rúmlega 1.1 milljarður króna. Þetta fjármagn hefur runnið 410 verkefni sem unnin hafa verið hér á landi og hafa 6500 þátttakendur tekið þátt í þessum verkefnum.

Við hvetjum alla til að fjölmenna í Hafnarhúsið þar sem EUF verður með bás og kynningu á fyrirmyndarverkefnum sem áætlunin hefur styrkt. Einnig munu fulltrúar EUF svara spurningum varðandi nýju áætlunina Erasmus+.

Uppskeruh.22-2

Forvarnir í félagsmiðstöðvastarfi

magnus_gudmundsson_tomstundafraedingurLeiksviðið er Fellahverfið og árið er 1994. Ungur drengur er áhugasamur á fundi félagsmiðstöðvaráðs Fellahellis sem er að ræða stórdansleik sem á að halda síðar í mánuðinum. Hann hlustar á aðra meðlimi ráðsins ræða um hvaða hljómsveitir séu mest móðins á þessum tímapunkti og hlýðir í hálfgerðri lotningu á starfsmann félagsmiðstöð-varinnar ræða um aðgerðaáætlanir. Allt þetta umstang er honum framandi og hann finnur hvernig ábyrgðar-tilfinningin veitir honum gleði. Hann hefur æft íþróttir í áratug en varla tekið neinum framförum en þarna finnst honum hann metinn að verðleikum og hans styrkleikar fá að njóta sín. Tækjagrúsk, plötusnúðafikt, heimspeki-legar vangaveltur, graffiti og viðburða-stjórnun eru þættir sem hann stundar af alúð í Fellahelli og með hverju verkefninu þá þróar hann með sér nýja færni. Reynslunám er að eiga sér stað í gegnum óformlegar námsleiðir og það allt án þess að hann átti sig á nokkru. Þarna öðlast hann grunn að dýrmætri færni í gegnum handleiðslu fagmanna sem starfa í félagsmiðstöðinni – færni sem síðar kveikir hjá honum áhuga til að hefja nám í tómstundafræðum og gera þau að ævistarfinu. Eftir að þessi rótgróna og sögufræga félagsmiðstöð lokar á kvöldin og starfsmenn Fellahellis halda til síns heima þá mælir hann götur Fellahverfis næstu þrjú árin með tugum ef ekki hundruðum annarra ungmenna úr þessu hverfi sem hafði á sér ógæfustimpil. Leiksviðið er líflegt og þar gilda oft önnur lögmál en samfélagið samþykkir. Lögreglan er með aðsetur í hverfinu og dyrnar á lögreglustöðinni eru ávallt opnar fyrir forvitinn æskulýðinn. Neysla ungs fólks hefur verið vandamál og fjölmiðlar keppast við að mála Breiðholtið í vandræðalit og sögur af hinni alræmdu Landalöggu birtast á forsíðum dagblaða reglulega. Þegar þessi ævintýragjarni ungi maður, sem er ég, lítur til baka og ígrundar unglingsárin sín og hvað þátttaka í opnu félagsmiðstöðvastarfi gerði fyrir hann þá sækir á hann forvitni. Forvitnina ákveður hann að festa á blað og senda frá sér þessar vangaveltur.

Það sem mig fyrst langaði að vita var hversu alvarleg og algeng neysla ungmenna var á þeim tíma sem ég ólst upp og hvort sú mynd sem fjölmiðlar máluðu hafi verið réttmæt. Einnig langaði mig að rýna í hvernig staðan væri í dag. Frá því að ég var að ala manninn þá hefur verið unnið markvisst með forvarnastarf og skyldi það starf hafa borið árangur? Fjölmiðlar hafa stundum fjallað um alvarleika ýmissa brota sem unglingar fremja og margir sem ekki þekkja vel til halda án efa að á Íslandi sé stór partur ungmenna sem sé stórlega vafasamur.

Hvað skyldu rannsóknir sýna um unglingamenninguna á Íslandi? Eins og allir starfsmenn í æskulýðsstarfi vita þá hefur neysla ungmenna á tóbaki, áfengi og vímuefnum verið skoðuð reglulega síðan 1997. Bendi ég á rannsóknina „Vímuefnaneysla unglinga í efstu bekkjum grunnskóla“ sem allir geta kynnt sér á vef Rannsókna og greiningar (http://www.rannsoknir.is). Þar kemur fram að árið 1997 hafi 61% nemenda í 10.bekk prufað að reykja sígarettu en árið 2012 var það hlutfall komið niður í 21%. Daglegar reykingar sama árgangs hafa lækkað úr 21% í 3%. Rannsóknin sýnir vel þróun áfengisdrykkju unglinga. Svona lítur hún út: grein-afengi

(Rannsóknir og greining, 2012:19)

Þegar maður skoðar þróun kannabisneyslu ungmenna þá birtast manni þessar tölur:

grein-kannabis

(Rannsókn og greining, 2012:21)

Það er því ljóst að gríðarlegur árangur hefur náðst í forvarnastarfi á Íslandi. Það er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Menntastofnanir og jafnvel kirkjan hefur í aldanna rás komið að uppeldi barna með beinum hætti í gegnum formlegar kennsluaðferðir. Um miðja síðustu öld kom Æskulýðsráð Reykjavíkur (ÆR) upp tómstundaheimili að Lindargötu (Árni Guðmundsson, 2007:62) og með því hófst blómleg saga félagsmiðstöðva í höfuðborg Íslendinga. Þessar félagsmiðstöðvar hafa vaxið og dafnað á þessarri rúmu hálfu öld og fagmennska starfsmanna einnig. Þær léku stórt hlutverk í forvarnastarfi fyrir unglinga þegar ég var unglingur og gera enn. Þær eru vettvangur óformlegrar menntunar sem þátttakendur starfsins öðlast í gegnum leik og starf. Allt þeirra starf er litað af beinum og óbeinum forvörnum um málefni líðandi stundar og fylgjast starfsmenn þeirra vel með tíðarandanum hverju sinni. Þegar ný vá steðjar að þá keppast þeir við að skapa umræður og hvetja notendur sína til að taka upplýsta ákvörðun í áttina að beinu brautinni. Starfsmenn félagsmiðstöðva starfa náið með öðru fagfólki sem kemur að uppeldi barna í gegnum þverfagleg teymi. Þessi þverfaglega vinna hefur borið árangur í forvarnarmálum á Íslandi. Kennarar, foreldrar, þjálfarar, lögreglan, starfsmenn þjónustumiðstöðva, aðrir fagmenn og starfsfólk í félagsmiðstöðvum geta klappað sér á bakið og verið stolt af árangrinum.

Starfsmenn Fellahellis, þau Linda Udengaard, Eygló Rúnarsdóttir, Agnar Arnþórsson, Hafsteinn Hrafn Grétarsson, Helgi Eiríksson og Arna Kristjánsdóttir, áttu öll markvisst inngrip í mitt líf á mínum róstusömu unglingsárum og voru mínar fyrirmyndir. Þau öll starfa enn í æskulýðsstarfi með ólíkum hætti og hafa snert við lífi margra. Þegar ég var forvitinn um andfélagslega hluti og þreifaði fyrir mér í rangar áttir þá átti ég heimahöfn í minni félagsmiðstöð. Þar gat ég sest niður og rætt við þessa starfsmenn og fengið ráðgjöf og hvatningu. Ég einsetti mér sem ungur maður að verða eins og þau þegar ég yrði stór og lifi enn í draumnum. Félagsmiðstöðvastarfsfólk á Íslandi – verum stolt af þætti okkar í forvarnarmálum og höldum áfram baráttunni.

Magnús Sigurjón Guðmundsson

Tómstundafræðingur

Landsþing Ungmennahúsa – „Markmið Ungmennahúsa er að efla ungmenni og leyfa þeim að vinna að áhugamálum sínum”

landsþing ungmennahúsaDaganna 24. – 25. október fór fram Landsþing Ungmennahúsa sem haldið var á vegum Samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi (Samfés). Landsþingið fór fram í Hvíta húsinu sem er ungmennahús á Akranesi. Á Landsþingið voru mættir fulltrúar frá sjö ungmennahúsum víðs vegar af landinu. Dagskráin var fjölbreytt en auk almenns hópeflis til að kynna ungmennin hvert fyrir öðru var Sigga Dögg með kynlífsfræðslu og unnið var í smiðjuvinnu.

Ungmennahús eru ekki ný á nálinni hér á landi en sem dæmi má nefna að Hitt Húsið var stofnað sem eins konar ungmennahús árið 1991. Ungmennahúsin sem nú eru starfrækt hér á landi eru um 20 talsins en þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Ungmennahús eru þó oftar en ekki aðstaða fyrir ungmenni 16 ára og eldri til að stunda jákvæðar og uppbyggilegar tómstundir á sínum eigin forsendum. Starf ungmennahúsanna er afar mikilvægt þar sem lítið sem ekkert opið vímuefnalaust tómstundastarf er í boði fyrir þennan aldurshóp sem að hluta til er ekki orðinn lögráða og hefur einnig ekki aldur til að drekka áfengi.

Á Landsþinginu var haldinn stórfundur þar sem fulltrúum frá ólíkum ungmennahúsum var skipt upp í umræðuhópa sem fjölluðu um málefni ungmennahúsa. Eitt af því sem unga fólkið ræddi sín á milli var hvert markmiðið með ungmennahúsum væri í þeirra huga. Hér fyrir neðan verða taldir upp nokkrir þeir hlutir sem þau nefndu:

  • Staður til þess að hafa gaman
  • Staður til að hittast, kynnast öðru fólki og blanda geði
  • Staður til að leyfa ungmennum að koma hugmyndum sínum í framkvæmd
  • Staður til að efla ungmenni og leyfa þeim að vinna að áhugamálum sínum
  • Samastaður til að skapa heilbrigt umhverfi án vímuefna (forvarnarstarf)
  • Umhverfi fyrir krakka sem gætu verið útundan, þeir sem stunda kannski ekki íþróttir eða eru jafnvel ekki í skóla
  • Staður til að lífga upp á samfélagið

Að lokum vann unga fólkið saman að því að búa til samstarfsverkefni ungmennahúsa þar sem markmiðið væri að efla samstarf á milli ungmennahúsa og kynna ungmennahúsin fyrir ungu fólki út um allt land. Það verður því spennandi að sjá hvernig þetta frábæra starf ungmennahúsanna mun þróast á næstu mánuðum og árum.

Áhrif félagsmiðstöðvastarfsmanna á einstaklinga

1082717_10151772202789860_1648688873_n

Unglingsárin eru það æviskeið þar sem einstaklingur tekst á við að móta sjálfsmynd sína. Það er margt sem hefur áhrif á sjálfsmynd fólks en fyrirmyndir geta átt mikinn þátt í að móta einstakling. Starfsfólk félagsmiðstöðva er oftar en ekki miklar fyrirmyndir þeirra unglinga sem sækja félagsmiðstöðvar reglulega og taka virkan þátt í starfinu. Viðhorf til félagsmiðstöðva hefur breyst mikið á undanförnum árum með tilkomu fagvitundar starfsmanna og jákvæðrar upplifunar einstaklinga af félagsmiðstöðinni.

Öll fæðumst við sem lítil krúttleg börn. Við vöxum og döfnum og verðum að áhugaverðum fullorðnum einstaklingum. Við lærum margt á þroskaferlinu sem við nýtum okkur í daglegu lífi t.d. lærum við að ganga, sýna væntumþykju, gera skattskýrslu, skilja kaldhæðni og bera virðingu fyrir öðrum. Þessi dæmi eru einungis brotabrot af því sem við tileinkum okkur á lífsleiðinni.

Unglingsárin eru það æviskeið sem mótar einstaklinginn hvað mest. Hann tekst á við miklar breytingar, bæði útlitslegar og andlegar. Vitsmunaþroski unglingsins eykst og fer hann að finna fyrir auknum kröfum frá samfélaginu. Eitt helsta verkefnið er að takast á við sjálfsmynd sína, skilgreina sig og aðgreina frá öðrum. Hann fer í raun að móta þær hugmyndir sem hann hefur um sjálfan sig. Þeir unglingar sem hafa sterka og örugga sjálfsmynd eru betur í stakk búnir til að takast á við lífið.

Félagsmiðstöðvar eru afar góður vettvangur fyrir unglinga til að efla félagsfærni, framkomu, samskiptafærni og að styrkja sjálfsmyndina. Hlutverk og tilgangur félagsmiðstöðva er í grófum dráttum að veita unglingum fjölbreytt frítímastarf samhliða því að vera vettvangur til að stunda heilbrigða tómstund með jafnöldrum sínum. Einstaklingum gefst færi á að styrkja sjálfsmynd sína, tilheyra jafningjahópi og geta þar af leiðandi borið hugmyndir sínar og gildi saman við aðra unglinga. Félagsmiðstöðvar eru svo miklu meira en bara að spila borðtennis eða billjard. Eitt helsta hlutverk félagsmiðstöðva er að efla og þroska unglinginn á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og gera þá að hæfari einstaklingum til að geta tekist á við verkefni framtíðarinnar.

Viðhorf almennings til félagsmiðstöðva hefur breyst töluvert frá því að þær voru fyrst stofnaðar hér á landi. Það er ekki það langt síðan unglingar reyktu á opnunum félagsmiðstöðva og jafnvel starfsmennirnir með þeim. Styttra er síðan það var í lagi að mæta undir áhrifum áfengis á böll á vegum félagsmiðstöðvarinnar. Þetta er sem betur fer liðin tíð. Það var stuttu eftir árið 1990 sem vitundavakning varð í þjóðfélaginu gagnvar reykingum og farið var að vinna markvisst að forvarnarstarfi.  Nú til dags er forvarnarstarf ein af undirstöðum félagsmiðstöðvastarfs hér á landi. Viðhorf til starfsmanna félagsmiðstöðva tel ég að hafi líka breyst. Nú til dags er t.d. hægt að læra tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Maður fer ekki þangað til að læra að spila borðtennis heldur lærir maður að sinna faglegu starfi tómstundanna. Megin ástæðu viðhorfsbreytinga til félagsmiðstöðva tel ég vera að fleiri einstaklingar hafa verið virkir þáttakendur í  því faglega félagsmiðstöðvastarfi sem nú er unnið. Það hafa fleiri einstaklingar jákvæða upplifun af félagsmiðstöðvum og þekkingu á því faglega starfi sem þar fer fram. Það er ekki hægt að segja að félagsmiðstöð nýtist öllum á sama hátt. Hún getur verið mis mikilvæg einstaklingum. Hún getur hreinlega bjargað sumum en styrkt aðra.

Þegar ég var yngri var ég mjög virkur í félagsmiðstöðvastarfinu í mínu hverfi. Ég átti ekki auðvelt með að læra í skólanum. Mér gafst ekki færi á því að blómstra í skólanum, allavegana ekki í tímum. Í félagsmiðstöðinni gafst mér tækifæri á að læra og að blómstra. Þar gat ég lært á þann hátt sem ég á auðveldast með að læra. læra með því að gera hluti, og læra af mistökunum. Þó svo að ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, þá lærði ég mikið í mannlegum samskiptum og ég fékk tækifæri til að njóta mín sem einstaklingur. Ég sat í stjórn nemendaráðsins og lærði mikið. Ég lærði að bera virðingu fyrir skoðunum annara, að hlusta og fyrst og fremst að koma skoðunum mínum á framfæri. Ég eignaðist vini og var partur af hópi sem vann að því að hafa félagslífið skemmtilegt í skólanum. En það dýrmætasta sem félagsmiðstöðin gaf mér, var sjálfstraust. Tel ég starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar hafa átt þátt í því. Þau hvöttu mann áfram til þátttöku í ýmsum uppákomum og byggðu upp sjálfstraust mitt, meðvitað og jafnvel ómeðvitað.Ég sótti mikið í starfsfólkið og að fá viðurkenningu á því sem ég gerði í þágu félagsmiðstöðvarinnar og það að vera metinn að verðleikum. Starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar voru mér fyrirmyndir. Þau hlustuðu á mig, sögðu mér sögur, gáfu mér ráð og gáfu mér færi á að blómstra. Ég mætti ekki bara í félagsmiðstöðina til að spila bortennis eða spila pool enda eru sjaldnast veraldlegir hlutir sem fá unglinga til að mæta í félagsmiðstöðina heldur sækja þau í samveru stundir með jafnöldrum og starfsfólki. Það að vera innan um fullorðið starfsfólk sem talar við mann sem jafningja skiptir máli. Það að geta leitað til starfsmanns sem hlustar og skilur mann er dýrmætt á unglingárunum.

Hlutverk starfsmanna í félagsmiðstöðvum er mjög mikilvægur partur af félagsmiðstöðvastarfinu. Er það mun meira en bara að opna húsnæðið og spila borðtennis með ungingunum. Fjölbreyttur starfsmannahópur ætti að geta höfðað til breiðari hóps unglinga. Staðreyndin er sú að ákveðnir starfsmenn ná betur til einstakra skjólstæðinga. Unglingar líta upp til vissra starfsmanna og eru þeir oftar en ekki miklar fyrirmyndir fyrir viðkomandi einstaklinga. Þeir hafa þar af leiðandi meiri áhrif á hegðun þeirra einstaklinga en þeir gera sér grein fyrir. Starfsmenn félagsmiðstöðva vinna að því að þjálfa samskipta- og félagsfærni einstaklinga sem sækja félagsmiðstöðina ásamt því að hvetja þá á jákvæðan hátt við mótun sjálfsmyndarinnar og hafa þannig jákvæð áhrif á hegðun þeirra og sálfræðilega velferð.  Þrátt fyrir að starfið gangi útá það að vera skjólstæðingum sínum innan handar í félagsmiðstöðinni, leiðbeina þeim, örva og virkja, þá mega starfsmenn ekki gleyma því að þeir eru einnig fyrirmyndir sem unglingarnir líta upp til.

Rannsóknir sýna að þeir einstaklingar sem eru fyrirmyndir barna móta hegðun þeirra og því er mikilvægt að starfsmaður sé meðvitaður um hlutverk sitt sem fyrirmynd, bæði í vinnu sem og utan hennar. Unglingar sem sjá heilsteyptan einstakling sem vinnur í félagsmiðstöðinni, er félagi þeirra og talar við þá sem jafningja, er vís til að líta upp til hans. Starfsmaður verður að hugsa um að þrátt fyrir að starfsdeginum sé lokið og hann búinn að stimpla sig út, getur hann ekki tendrað sér í sígarettu og reykspólað úr bílastæðinu og skilið unglingana eftir í reykjamökknum. Hann er starfsmaður félagsmiðstöðvar og verður að vera meðvitaður um það.

Öll munum við eftir fyrirmyndum og einstaklingum sem við litum upp til á okkar yngri árum.  Í sumum tilfellum voru það systkini eða fjölskyldumeðlimur en í öðrum tilfellum kennari eða kannski starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar. Starfsfólk félagsmiðstöðva getur því markað djúp spor í uppvaxtarár einstaklings og er því gott starfsfólk félagsmiðstöðva undirstaðan í góðu félagsmiðstöðvastarfi.

 

 

Bjarki Sigurjónsson

Tómstunda- og félagsmálafræðingur