Frístundir fyrir alla?

Kampur_hringur_fjolbreytileikiMikilvægi skipulags frístundastarfs fyrir börn og unglinga með annað móðurmál en íslensku

Skipulagt íþrótta- og tómstundarstarf meðal barna og unglinga hefur fest rótum í íslensku samfélagi á undanförnum áratugum. Rannsóknir hérlendis sem og erlendis benda til forvarnargildi skipulags frístundastarfs og hefur orðið viðhorfsbreyting til fagvitundar þeirra sem vinna á þessum vettvangi með aukinni menntun og sérhæfingu. Hins vegar er frístundastarf fyrir börn og unglinga ekki alþjóðlegt fyrirbæri og hugmyndir um gildi þess ólíkt milli samfélaga.  Í Reykjavík búa um það bil 2000 börn á grunnskólaaldri sem hafa íslensku sem annað mál en þessi hópur kemur víðsvegar úr heiminum. Rannsóknir sem gerðar hafa verið hérlendis á þátttöku barna og unglinga í skipulögðu frístundastarfi af hendi Rannsókn og greiningu kemur í ljós að þátttaka barna með annað móðurmál en íslensku er mun minni en meðal íslenskra jafnaldra þeirra. Ástæður fyrir því hafa hins vegar ekki verið næganlega rannsakaðar en hugsanlega eru þær margvíslegar, samanber skortur á upplýsingum um hvað er í boði, kostnaður, félagsleg tengsl og aðgengi að þátttöku.

Frístundamiðstöðin Kampur er ein af sex frístundamiðstöðvum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur sem þjónustar börn á aldrinum 6 – 16 ára í frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Kampur er þekkingarmiðstöð í málefnum innflytjenda og var hún stofnuð árið 2007. Málefni innflytjenda eru hins vegar ekki ný af nálinni á starfsvettvangi frítímans og hafa verið unnin margvísleg verkefni á síðustu áratugum. Í gegnum félagsmiðstöðvar hafa verið unnið ýmis tilrauna verkefni, Ísjakarnir eru eitt af þeim verkefnum. Ísjakarnir var samstarfsverkefni félagsmiðstöðvarinnar Tónabæ og félagsmiðstöðvarinnar 100og1 sem hófst árið 2003. Megin markmið Ísjakana var að kynna fyrir unglingum í Austurbæjarskóla, Háteigsskóla og Breiðholtsskóla sem höfðu það allir sameiginlegt að vera með móttökudeild fyrir börn með annað móðurmál en íslensku, það fjölbreytta íþrótta- og tómstundarstarf sem stóð til boða í Reykjavík, þeim að kostnaðarlausu. Verkefnið hefur síðan tekið breytingum á undanförnum árum og var þar á meðal boðið uppá fyrir yngri nemendur á miðstigi. Frá árinu 2009 hefur frístundamiðstöðin Kampur unnið markvisst að verkefnum er snúa að auka þátttöku barna og unglinga með annað móðurmál en íslensku inn í skipulagt frístundastarf.

Sem dæmi má nefna:

  • Þýðingar á efni um mikilvægi þátttöku í frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum
  • Handbók móttökubarna í skipulagt frístundastarf
  • Tilraunaverkefni um aukna þátttöku unglinga með annað móðurmál en íslensku inn í félagsmiðstöðvar
  • Samstarfsverkefni milli leiksskóla og frístundaheimila
  • Kynning á fjölgreinaíþróttagreinum fyrir nemendur í 5.bekk
  • Upplýsingaöflun um hagi og líðan barna með annað móðurmál en íslensku
  • og margt fleira.

Frístundir fyrir alla?  Við sem vinnum á vettvangi frítímanns trúum því að skipulagt frístundastarf er mikilvægur þáttur æsku landans, þar sem börn og unglingar eigi rétt á uppbyggilegu starfi í sínum frítíma. Það ber hins vegar að hafa í huga að við búum í samfélagi sem einkennist orðið af ,,fjölmenningu“ og okkur ber skylda að gæta þess að starfið okkar taki mið af ólíkum þörfum einstaklingana. Ef við ætlum okkur að geta sagt að allir hafi sama aðgengi að skipulögðum frítíma óháð kyni, uppruna og trú þurfa þeir aðilar sem á þessum vettvangi að hugsa líka út fyrir ramman og huga að ólíkum þörfum barna og unglinga með annað móðurmál en íslensku. Losum okkur undan viðjum vanans og reynum að stíga skrefið í átt að því að mæta börnum og unglingum, óháð uppruna, á þeirra eigin vettvangi en ekki reyna að láta alla passa inn í ,,ramman okkar“.

Til frekari upplýsinga um verkefni á vegum Kamps er að finna á www.kampur.is og/eða að hafa samband við Dagbjört Ásbjörnsdóttir, [email protected]

Skipulagt tómstundastarf gegn brottfalli úr framhaldsskólum

Ég rakst á þetta skemmtilega myndband um daginn og ég hvet ykkur í raun til að skoða myndbandið hér að neðan áður en þið lesið lengra.

Ég tengi sjálfur svo ótrúlega sterkt við þetta myndband og gæti það allt eins verið útbúið eftir minni leið í gegnum skólakerfið. Í grunnskóla var ég alltaf „til vandræða”, ég hafði engan áhuga á náminu og kennurum og starfsfólki skólans tókst engan veginn að kynda undir áhuga mínum á námsefninu. Þegar ég byrjaði í menntaskóla var ég nú lítið upp á kant við kennarana en ég píndi mig í gegnum tímana því innri áhuginn var enginn. Ég prófaði nokkra skóla, nokkrar námsbrautir en allt kom fyrir ekki og var ég farinn að halda að mér mundi aldrei takast að ljúka við nokkurt nám.

Það var svo fyrir tilviljun að ég byrjaði að starfa í félagsmiðstöðinni Selinu á Seltjarnarnesi í metnaðarfullu æskulýðsstarfi að ég fann eitthvað sem kveikti innri áhuga hjá mér. Mig langaði til að verða besti starfsmaður í félagsmiðstöð sem ég gæti orðið og fór ég að fylgjast með öllu sem reyndara starfsfólkið gerði. Ég fór að stúdera mannleg samskipti út í hið óendanlega og lesa bækur um æskulýðsstarf. Þetta varð til þess að ég sótti um í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og lýk ég námi mínu þar núna 22. júní með fyrstu einkunn.

Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt þessa sögu enda tengja svo margir við hana. Það er nefnilega alveg magnað hvað menningin hér á landi er sú að allir eiga að keyra í gegnum skólakerfið án þess að vita hvert þeir stefna. Klára bóklegt nám fyrst og finna svo útúr því hvað maður vill gera við líf sitt. Þrátt fyrir að kennarar og þeir sem standa að skólakerfinu viti að kerfið er að mörgu leiti úrelt þá virðist samt sem lítið breytist. Þessi vanhæfni skólanna til að mæta þörfum nemenda sinna hefur orðið til þess að aðeins 45% nemenda í framhaldsskóla ljúka stúdentsprófi á 4 árum (Hagstofa Íslands, 2011).

Munurinn á „lélegum” nemendum og „góðum” er oftar en ekki skortur á innri hvatningu.Hér kemur skipulagt tómstundastarf sterkt inn. Ég er ekki að halda því fram að allir sem hætta í framhaldsskóla eiga að byrja að vinna í félagsmiðstöðvum (þó það væri nú ekki svo vitlaust). Það sem við þurfum hins vegar að gera er að mæta aldurshópnum 16-20 ára með skipulögðu tómstundastarfi og með stað í samfélaginu þar sem þau eru velkomin, geta prófað sig áfram og fundið sinn innri hvata. Ungmennahús eru frábær dæmi um skipulagt tómstundastarf fyrir aldurshópinn 16 ára og eldri. Í vel starfandi ungmennahúsi hafa ungmenni samkomustað, tækifæri til að taka þátt í spennandi verkefnum og að læra nýja hluti. Þau geta sjálf haft frumkvæði af verkefnum og valið þau út frá eigin áhugasviði. Það er einmitt við slíkar aðstæður þar sem einstaklingurinn fær að sýna sjálfstæði, tilheyra hópi og auka hæfni sína að innri hvati kviknar (Reeve, 2009). Ungmennið sem sá um bókhaldið á styrktartónleikunum finnur tilganginn með stærðfræðinni á meðan tæknimaðurinn fer í rafvirkjann, ungmennið sem tók þátt í norræna ungmennaskiptaverkefninu velur sér aukaáfangann í dönsku því hann veit hvað erlend tungumál eru mikilvæg og ungmennið sem gerðist sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum sperrir eyrun í félagsfræðinni og sálfræðinni með þá von að geta einn daginn hjálpað bágt stöddum einstaklingum í framtíðinni.

 

Heimildir:

Hagstofa Íslands. (2011, 3. maí). Brautskráningarhlutfall og brottfall á framhaldsskólastigi. Sótt 9. júní 2013 af http://www.hagstofa.is/?PageID=95&NewsID=5981.

Reeve, J. (2009). Understanding motivation and emotion. Hoboken, NJ: John Wiley & Sons.

Skilgreining á hugtakinu tómstundir

VandaSigurgeirsdottir-vefurÚtdráttur

Í greininni er leitast við að skilgreina hugtakið tómstundir (e. leisure). Hefur það ekki verið gert áður á Íslandi með þessum hætti, eftir því sem næst verður komist. Ekki er um einfalt verk að ræða því erlendir fræðimenn eru almennt sammála um að mjög erfitt sé að skilgreina hugtakið. Til umfjöllunar er nálgun frá fimm mismunandi hliðum; tómstundir sem tími, athöfn, gæði, viðhorf og hlutverk og mynda þær grunn að skilgreiningu sem sett er fram í lokin. Skilgreiningin gengur út á að tómstundir séu athöfn, hegðun eða starfsemi sem á sér stað í frítímanum en flokkast ekki sem tómstundir nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að einstaklingurinn líti sjálfur svo á að um tómstundir sé að ræða, að athöfnin, hegðunin eða starfsemin sé frjálst val og hafi í för með sér ánægju og jákvæð áhrif.

Hægt er að nálgast greinina hér.

Um höfundinn

Vanda Sigurgeirsdóttir er fædd árið 1965 og starfar hún sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands en þar hefur hún starfað frá upphafi námsins haustið 2001. Vanda er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands og er sem stendur í doktorsnámi við félagsráðgjafadeild HÍ. Ásamt því að starfa við háskólann er Vanda knattspyrnuþjálfari hjá Þrótti Reykjavík.

 

Mikilvægi skipulags íþrótta- og frístundastarfs fyrir unga innflytjendur

Kampur_hringur_fjolbreytileikiFrístundamiðstöðin Kampur og Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur stóðu fyrir fræðslufundi miðvikudaginn 29. maí þar sem ungir innflytjendur voru í brennidepli. Á fundinum flutti Eva Dögg Guðmundsdóttir, cand.mag í menningar- og innflytjendafræðum og uppeldis- og kennslufræði, erindi um mikilvægi skipulags íþrótta- og tómstundastarfs fyrir börn og unglinga með annað móðurmál en íslensku.

Eva sagði frá helstu rannsóknum sem gerðar hafa verið á íþróttaþátttöku barna og unglinga í Hollandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku og þremur verkefnum sem sett hafa verið á laggirnar í Danmörku. Einnig sagði Eva Dögg frá helstu niðurstöðum eigin vettvangs-rannsóknar í tengslum við lokaverkefni við Háskólann í Hróarskeldu.

Eva sagði frá stöðu ungra innflytjenda í dönsku samfélagi þar sem rannsóknir sýna að ungt fólk af með annað móðurmál en dönsku skila sér í litlu mæli inn í framhaldsskóla og enn síður í frekara nám. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt sömu þróun og því má horfa til reynslu Dana af því  hvernig hægt er að bregðast við.

Í erindi Evu kom fram að samþætting er það hugtak sem helst hefur verið notað í umfjöllum um aðlögun innflytjenda í samfélagi. Hún vill ítreka mikilvægi þess að slík samþætting þarf að vera gagnvirk til að geta verið innflytjendum og samfélaginu gagnleg, annars vegar í íþróttinni sjálfri sem viðfangsefni en einnig í gegnum íþróttina til að virkja unga innflytjendur og ungt fólk af erlendum uppruna með annað móðurmál en í dvalarlandinu til leiks í samfélaginu. Þar bendir Eva á rannsóknir sem sýna mikilvægi íþróttaþátttöku fyrir margar úr þessum hópum.

Eva vísaði í rannsóknir frá Hollandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku í máli sínu. Í gegnum íþróttirnar virðast ungir innflytjendur geta brotið þann múr sem tungumálið er í skólastarfi og íþróttavöllurinn því kjörinn vettvangur til að æfa daglegt mál. Í íþróttunum eru samskiptin jafnframt á öðrum forsendum og ekki eins háð tungumálinu og samskipti í skólaumhverfinu. Samveran og samskiptin eru á öðrum nótum sem gefa færi á annars konar tengslum og grunn að félagslegum samskiptum. Margir viðmælenda vísa í að hugurinn tæmist og ekkert skipti máli nema það sem er að gerast á vellinum sem verður um leið einhvers konar athvarf þar sem annað er skilið eftir fyrir utan. Þegar góður árangur næst í íþróttum er það jafnframt jákvæð styrking á sjálfsmynd viðkomandi.

Það er þó ekki svo að íþróttaþátttakan sé töfralausn á þeim vanda sem ungir innflytjendur og ungt fólk með annað móðurmál en dönsku glíma stundum við. Í þeim rannsóknum sem Eva fjallaði um kom jafnframt fram að oft væri að heyra ljótan tón á vellinum þar sem fordómar og neikvæð samfélagsumræða virðist stundum skila sér inn í samfélagið á vellinum. Þar eru einnig að finna sterkar staðalmyndir og sjálfsmynd þátttakenda getur boðið hnekki ef geta þeirra er ekki í samræmi við meginþorra iðkenda. Það virðist þó vera svo samkvæmt rannsóknum frá Hollandi að fram að kynþroskaaldri eigi börn af ólíkum menningar- og þjóðernisuppruna auðvelt með samskipti í íþróttum.

Það er niðurstaða Evu að skapa þurfi í íslensku samfélagi aðstæður og betra aðgengi fyrir virka þátttöku ungra innflytjenda á mismunandi sviðum samfélagsins og íþróttir eru þar ein leið.

Erindi Evu varð kveikja að fjörugum umræðum undir lok fundarins sem var ágætlega sóttur. Fundargestir voru sammála um mikilvægi þess að hlúa sérstaklega að þessum hópi í gegnum frítímastarf og þátttöku á þeirra eigin forsendum og skoða þarf þátttöku þeirra, möguleika og þær hindranir sem mæta þeim í íslensku íþrótta- og tómstundastarfi gaumgæfilega.

Áhugasamir geta komist í samband við Evu í gegnum netfangið [email protected]

FFF – Félag fagfólks í frítímaþjónustu

fagfélag

FFF eða Félag fagfólks í frítímaþjónustu starfar á vettvangi frítímans á vegum sveitarfélaga, s.s. í félagsmiðstöðvum, frístundaheimilum, frístundamiðstöðvum, ungmennahúsum og skrifstofum æskulýðsmála og hefur það markmið að stuðla að aukinni fagmennsku á vettvangnum. Félagið var stofnað árið 2005 af hópi fólks sem allt starfaði við frítímaþjónustu. Markmið félagsins er meðal annars að leggja áherslu á mikilvægi frítímaþjónustu sveitarfélaganna fyrir ungt fólk og efla fagvitund og samheldni fagfólks í frítímaþjónustu með því að skapa félögum vettvang til umræðna og skoðanaskipta. Til að geta gengið í félagið þurfa einstaklingar að hafa lokið háskólanámi í tómstunda- og félagsmálafræðum eða hafa starfað í fimm ár á vettvangi frítímans. Einnig er hægt að sækja um aðild ef einstaklingur sem starfar á vettvangi frítímans hefur lokið háskólanámi á sviði uppeldis- og félagsvísinda. Aukaaðild geta þeir sótt um sem stunda nám á sviði félagsvísinda, uppeldis- og tómstundafræða ef þeir starfa á vettvangi frítímans. Þeir hafa þó einungis áheyrnar-og tillögurétt á aðalfundi og greiða helming félagsgjalds.

Fagfélagið, eins og félagið er jafnan kallað manna á milli, stendur fyrir ýmis konar fundum og fræðslu fyrir fagfólk í frítímaþjónustu. Sem dæmi má nefna Kompás námskeið í lýðræðis- og mannréttindafræðslu sem Fagfélagið hefur staðið fyrir á síðastliðnum mánuðum. Ásamt því að stuðla að aukinni þekkingu á vettvangi frítímans stuðlar Fagfélagið að miklu samstarfi milli stjórnvalda, starfsfólks á vettvangnum og háskólasamfélagsins. Fagfélagið er því mikilvægur liður í því að dýpka þekkingu og auka fagmennsku starfsfólks ásamt því að standa vörð um hagsmuni vettvangsins.

Á nýafstöðnum aðalfundi félagsins var kosin ný stjórn Fagfélagsins en hana skipa:

Hulda Valdís Valdimarsdóttir – Formaður
Guðrún Björk Freysteinsdóttir
Helgi Jónsson
Elísabet Pétursdóttir
Bjarki Sigurjónsson

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Varamaður
Nilsína Larsen Einarsdóttir – Varamaður

Við hér á Frítímanum hvetjum alla sem starfa á vettvangi frítímans til að sækja um aðild í Fagfélagið og gerast þannig virkir þátttakendur í að móta og þróa starfsvettvanginn.

Hér er hægt að skrá sig í Fagfélagið.

Hvatningarverðlaun SFS

Hvatningarverðlaun SFS (skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar) voru veitt nú á dögunum, en þau eru veitt  fyrir framsækið fagstarf í skólum, frístundamiðstöðvum og skólahljómsveitum borgarinnar. Þrenn verðlaun voru veitt á hverju fagsviði; til leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfs. Markmið Hvatningaverlauna SFS er að vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem unnið er af starfsfólki og á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs og hvetja til nýbreytni og þróunarstarfs. Á sviði frístundastarfs fengu tvær félagsmiðstöðvar hvatningarverðlaun. Félagsmiðstöðin Miðberg hlaut verðlaun fyrir hæfileikakeppnina “Breiðholt´s got talent” og félagsmiðstöðin Kampur hlaut verðlaun fyrir stuttmyndahátíðina “Hilmarinn”.

Við tókum viðtal við Kára í Miðbergi og Friðmey og Valda í Kampi.

Breiðholt´s got talent

hvatningarverðlaunin

Hugmyndin kom árið 2009 frá Kára Sigurðssyni og Hafsteini Vilhelmssyni en þá var mjög vinsælt hjá unglingum að glápa á Britain´s got talent. Þeir  settu markið hátt og vildu gera þetta strax sem veglegast. Í kjölfarið var haft samband við allar félagsmiðstöðvar í Breiðholtinu og tímasetning ákveðin. Það lá beinast við að halda keppnina í Breiðholtsskóla þar sem má finna glæsilegan sal með góðu sviði. Þeir skiptu með sér verkefnum og sá Hafsteinn um tæknimál og Kári tók að sér að halda utan um atriði, auglýsingar og fleira. Strax í upphafi fengu þeir unglingaráðið með sér í lið og fleiri hæfileikaríka unglinga. Verkefnin sem þau fengu voru af ýmsum toga, má þar nefna tæknimenn, ljósamenn, auglýsingastjóra og margt fleira. Verkefnin voru öll unnin undir handleiðslu starfsmanna. Félgsmiðstöðvarstarfsmenn sinntu hlutverki dómara í keppninnni og settu sig oft í hlutverk ýktra persóna sem völdu síðan fimm bestu atriðin. Áhorfendur keppninnar sáu svo um að kjósa sigurvegara en þetta fyrirkomulag hefur vakið mikla lukku.

Keppnin hefur vaxið og dafnað á síðastliðnum árum og enn fleiri koma að undirbúningi. Svona viðburðir geta ekki orðið að veruleika nema að allir starfsmenn séu samstíga og hefur samstarf félagsmiðstöðanna í Miðbergi verið til fyrirmyndar. Einnig eru unglingarnir reynslunni ríkari eftir að hafa tekið þátt í að skipuleggja svona flottan viðburð.

Stuttmyndahátíðin Hilmarinn

Hilmarinn er stuttmyndakeppni fyrir unglinga í 8.- 10.bekk í félagsmiðstöðvunum 100og1, 105 og .is. Stuttmyndakeppnin heitir Hilmarinn í höfuðið á Hilmari Oddssyni sem var eitt sinn nemandi í Háteigsskóla. Hann er einnig verndari keppninar og hefur verið dómari frá upphafi.  Hugmyndin að keppninni kom frá tveimur unglingum í Félagsmiðstöinni 105. Þeim langaði að hafa keppni fyrir allar félagsmiðstöðvar sem tilheyra Frístundamiðstöðinni Kampi. Í ár var Hilmarinn haldinn í þriðja sinn og alls voru tólf myndir sýndar í keppninni.  Þrjár af þeim myndum sem tóku þátt í Hilmarnum í ár unnu til verðaluna á kvikmyndakeppni grunnskólanna sem haldin var í vetur.