Er leikur að læra?

Ég á minningu frá því að ég var um 5 ára og var að byrja að læra að lesa. Ég man að ég var að lýsa því fyrir móður minni að það væri eins og stafirnir væru að fljúga. Hún hafði áður tekið eftir því að ég átti erfitt með að læra tölustafina og að ég væri hljóðvillt. Niðurstaða greiningar um 9 ára aldur var að ég ætti við sértæka námserfiðleika að stríða sem væru kallaðir dyslexia.

Sumir kannast betur við orðið lesblinda. Sjálf kann ég hins vegar betur við orðið dyslexia. Ég er sammála Jörgen Pind, prófessor í sálfærði við Háskóla Íslands, sem bendir á að orðið lesblinda vísar í það að fólk sé „blint“ á letur og það sé ekki lýsandi orð. Nýlegar rannsóknir benda nefnilega ekki til þess að dyslexia sé sjónræns eðlis. Dyslexia hefur hamlandi áhrif á lestur, stafsetningu og hjóðkerfisvitund fólks. „Hljóðkerfisvitund er hæfni til að meðhöndla hljóð tungumálsins á meðvitaðan hátt, segja til um rím orða og um einstök hljóð orðanna. Svo er að sjá sem talskynjun sé ekki háð því að hlustendur geti meðhöndlað málhljóðin með slíkum meðvituðum hætti en það er hins vegar nauðsynlegt þegar lesin er stafrófsskrift“. Dyslexia eða þroskafræðileg lesblinda er meðfædd og virðist vera arfbundin. Ekki er til nein „lækning“ við henni en hægt er að gera ýmislegt til að gera fólki auðvelda fyrir [1].

Það var visst áfall en á sama tíma léttir fyrir mig að fá dyslexiu greiningu. Sálfræðingurinn sem gerði greininguna, ítrekaði við mig að ég væri ekki heimsk en sagði að ég myndi þurfa að leggja mikið á mig til að ná bóklegum fögum í skóla. Ég lét lítið fyrir mér fara í grunnskóla og fæstir af kennurunum vissu hvað mér leið illa. Það var sannarlega ekki leikur að læra þessi bóklegu fög og mér leið oft eins og ég væri heimsk því formlega bóknámið var mér oftast mjög erfitt. Ég lagði mikið á mig fyrir námið í skólanum en árangurinn var ekki í samræmi við metnaðinn.

Ég vil hvetja þá sem vinna með börnum og unglingum að vera vakandi yfir þeim einstaklingum sem eru með dyslexiu. Þeir fá ekki oft að njóta sín í skólakerfinu. Margir sem eru með sértæka námserfiðleika eru með lágt sjálfsálit því formlegt nám reynist þeim oft erfitt og það reynist mörgum þungbært og niðurbrjótandi. Mikilvægt er að skapa þessum einstaklingum tækifæri til að finna hvar hæfileikar þeirra liggja. Fagfólk í frítímaþjónustu hefur kjörið tækifæri til að standa við bakið á þeim. Hvatning og skilningur skiptir miklu máli fyrir framtíð þessara barna og unglinga. Það þarf að byggja þau upp á markvissan hátt og gefa þeim tækifæri til þess að blómstra. Í því felst þjóðfélagslegur ávinningur.

Það er mikilvægt að standa vel við bakið á þeim því þessir einstaklingar hafa margt til brunns að bera. Algengt er að þeir sem eru með dyslexiu hafi öflugt ímyndunarafl og hugsi út fyrir kassann. Til gamans langar mig að nefna nokkra þekkta einstaklinga sem eru með dyslexiu: leikkonan Whoopi Goldberg, frumkvöðullinn Richard Branson, sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver, kvikmyndaleikstjórinn Steven Spielberg, listamaðurinn Leonardo da Vinci og tónlistarmaðurinn John Lennon [2]. Ég vildi nefna þessa einstaklinga, því það getur verið hvatning fyrir þá sem hafa dyslexiu eða hafa skjólstæðinga með dyslexiu að sjá og heyra af fólki sem hefur glímt við það sama og þeir og náð framúrskarandi árangri.

Framan af árum samsamaði ég mér illa við textann í laginu „Það er leikur að læra“. Í mínum huga var sá leikur mér hvorki kær, skemmtilegur né auðveldur. Í félagsstarfi utan skólans fann ég hins vegar ýmsar sterkar hliðar á sjálfri mér, hliðar sem ég fékk löngun til að styrkja. Ég fann löngunina til að vita meira og meira, meira í dag en í gær. Í dag veit ég nokkuð vel hvar hæfileikar mínir liggja. Dyslexian mun hins vegar alltaf fylgja mér og ég mun alltaf þurfa að nýta mér aðstoð annarra og tækninnar við að skrifa og lesa. Smámsaman hef ég þó öðlast betri færni við lestur en það tekur á og ég verð oft þreytt við að lesa lengi. Með árunum hef ég líka lært og þróað með mér ýmiskonar námstækni sem ég nýti mér í námi og starfi. Í dag get ég því sagt að það er oft leikur að læra. Nú veit ég betur um hvað menntun snýst og veit að menntun er mun víðtækara hugtak heldur en ég vissi þegar ég var barn að kljást við fljúgandi stafina.

Halla Marie Smith

 

Heimildir:

[1] Jörgen Pind og Aldís Guðmundsdóttir. „Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2001. Sótt 9. mars 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=1556.

[2] Helen Arkell. (2020). Sótt 14. mars 2020 af https://www.helenarkell.org.uk/about-us.php

Brottfall unglinga í skipulögðum íþróttum

Regluleg hreyfing barna og unglinga er mikilvæg fyrir heilsu og vellíðan. Samfélagið okkar í dag virðist vera að draga úr daglegri hreyfingu og kyrrseta ungmenna orðin algengari en áður. Hreyfing ungmenna getur dregið úr andlegum og líkamlegu sjúkdómum, svo sem kvíða og þunglyndi. Einnig eru ungmenni sem stunda íþróttir að sýna fram á betri sjálfsmynd og eru mun ólíklegri til að neyta vímuefna. Lesa meira “Brottfall unglinga í skipulögðum íþróttum”

Transbörn

Ég hef  aldrei leitt hugan að trans fólki, hvað þá að það væru til trans börn. Ég hef ekkert á móti þeim sem eru öðruvísi. Þau eru bara venjulegar persónur eins og ég. Það hafði ekki hvarflað að mér að börn gætu verið svona ung og verið búin að uppgötva það að þau væru kannski stelpa en ekki strákurinn sem þau voru þegar þau fæddust. Þegar börn tengja ekki við það kyn sem þau fæddust með, fer í gang ferli þar sem farið er í viðtöl hjá sálfræðingum og geðlæknum að meðtöldum stuðningi frá foreldrum.

Það er misjafnt hvað þau eru ung þegar þau uppgötva að þau eru ekki fædd í réttum líkama miðað við kynið sem þeim finnst þau vera. Þetta er mikið áfall bæði fyrir þau og foreldra þeirra. Mörg þeirra eru bara á leikskóla þegar þau finna þetta hjá sjálfu sér. Sem betur fer er fólk orðið opnara fyrir því að það séu ekki allir eins. Algengast er að börn uppgötvi þetta um kynþroskaaldurinn. Þá fer ýmislegt að gerast í líkama þeirra sem þau eru bara alls ekki sátt við.

Þá kemur einmitt erfiðasti hluti ævi þeirra en það er þegar þau komast á kynþroska-stigið. Þá er mikil hætta á að þau verði þunglynd, glími við átraskanir og jafnvel sjálfsvígshugsanir eða tilraunir. Það er hægt að gefa þeim lyf sem hægja á kynþroskanum og svo þegar þau eru 16 ára gömul er þeim gefin svokölluð krosshormón, sem eru hormómar öfugir við þeirra eigin hormóna. Það er ekki fyrr en á kynþroskaaldri þar sem hægt er að byrjar með læknisfræðilegt inngrip, en þá eru þeim gefnir hormónablokkerar. Þeir hægja á kynþroskanum og þeir koma í veg fyrir mikla vanlíðan og fleira sem getur fylgt því þegar kynþroskinn fer að koma fram.

Á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL, hefur verið haldið úti transteymi sem hefur verið með sérhæfða þjónustu fyrir trans börn. Þann 6. júlí 2019 tóku í gildi lög um kynrænt sjálfræði. Í 13. grein laganna segir að á Bugl skuli starfa teymi sérfræðinga um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni. Teymið á að vera skipað fagfólki með viðeigandi reynslu og þekkingu. Um síðustu áramót 2019-2020 varð að leggja þetta teymi niður vegna þess að fjármagn frá ríkinu skilaði sér ekki til Bugl. Eins hafa verið miklar mannabreytingar í teyminu sem kemur sér líka illa, því börnum og unglingum finnst óþægilegt að vera alltaf að tala við nýja og nýja persónu. Þetta setur líf 48 trans barna í algert uppnám og sumir foreldrar hafa þurft að vera á sjálfsvígsvakt allan sólarhringinn.

Það getur verið snúið fyrir trans börn að fara í skólann, hvort sem það er leikskóli eða grunnskóli. Því hefur verið komið upp gátlistum fyrir skóla og leikskóla, hvernig þeir geta stutt við trans barn í skólanum. Það er mælt með því að upplýsa foreldra og forráðamenn um að allir séu meðvitaðir um stöðu og þarfir barnsins og fá fræðslu fyrir starfsfólk. Einnig þarf að vera ókynjamerkt klósett.

Innan Samtakanna ’78 er starfrækt félagsmiðstöð samtakanna og eru trans börn og ungmenni tíðir gestir þar. Þar væri alveg kjörið tækifæri að hafa tómstunda- og félagsmálafræðing að störfum. Þar væri hægt að setja af stað hópavinnu með þessum börnum og unglingum. Þar kæmi Lífsleikni kunnáttan sér vel. Það væri hægt að fara í hópeflisleiki. Það væri líka hægt að taka bara gott  spjall.

Ég vona svo innilega að teymið fyrir trans börnin verði endurvakið og að peningarnir skili sér til Bugl. Þessi börn eiga það svo sannarlega skilið. Ég get ekki orðið annað en reið þegar maður heyrir um hluti eins og þetta að peningar sem eru eyrnamerktir viðkomandi verkefni skuli ekki skila sér þangað sem þeirra er þörf.

Aðalbjörg Runólfsdóttir

Hver eru þín mörk?

Þetta er spurning sem allir ættu að kunna svar við. Það ætti að vera skylda að kenna börnum og unglingum að þau eiga rétt á því að setja sín eigin mörk og kenna þeim að vera meðvituð um hvar þeirra mörk liggja.

Það hefur margt breyst frá því ég var unglingur hvað varðar þetta málefni og þegar ég horfi til baka sé ég svo margt sem þótti „í lagi“ á þeim tíma sem í dag þykir fara vel yfir öll mörk. Ég er af kynslóðinni sem var barn þegar tölvur voru að koma inn á hvert heimili og almenningur var að fá internettengingu. Kynslóðinni sem notaði Irc-ið og MSN þegar ég var unglingur. Á sama tíma er ég af þeirri kynslóð unglinga sem vissi ekki hvað var í lagi að fá sent og hvað ekki. Lesa meira “Hver eru þín mörk?”

Eflum sjálfstæði unglinga

Sjálfstæði unglinga hefur alltaf verið mér hugleikið og byrjaði þegar ég var sjálf unglingur sem þráði sjálfstæði og virðingu þeirra fullorðnu í kringum mig. Seinna fór ég að velta þessu hugtaki fyrir mér sem móðir, skátaforingi og ekki síst eftir að ég gerðist nemi í tómstunda- og félagsmálafræði.

Sem ungabörn lærum við um orsök og afleiðingu, við hendum frá okkur hlutum og til að byrja með þá er einhver sem að réttir okkur hlutinn til baka, sem sagt engin afleiðing og þetta verður að hinum skemmtilegasta leik. En það kemur að því að hinn aðilinn þreytist á leiknum og hættir að rétta okkur hlutinn. Á þennan hátt lærum við hægt og rólega að hætta að henda frá okkur því hluturinn skilar sér ekki alltaf til baka. Lesa meira “Eflum sjálfstæði unglinga”

Stytting framhaldsskóla – Af hinu góða?

Nám til stúdentsprófs var stytt haustið 2015 og var námið stytt úr 4 árum niður í 3 ár. Þegar ég var sjálf í menntaskóla var ekki búið að samþykkja þessa styttingu og átti ég vini sem kláruðu á 3,5 ári og sumir meiri segja á 2,5 ári. Það var þeirra val að klára á styttri tíma en 4 árum. En fyrir suma er nógu erfitt að klára námið á 4 árum. Sumir þurfa líka að vinna með námi og þá er ennþá erfiðara að stunda nám, sinna vinnu, stunda tómstundarstarf og hafa tíma fyrir félagslífið. Einnig spyr maður sig hvaða áhrif styttingin hafi á tómstundarstarf nemendanna? En tómstundarstarf hefur gífurleg áhrif á fólk og sérstaklega unglinga. Lesa meira “Stytting framhaldsskóla – Af hinu góða?”