Þekkja unglingar mikilvægi tómstunda?

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort unglingar viti afhverju þeir stunda tómstundir. Hvað er það sem er svona mikilvægt við þær? Ég nýti mér oft tækifærið og spyr þá unglinga sem ég þekki til hvers þau stundi tómstundir og hvað þær gefi þeim. Oftar en ekki vita unglingarnir ekkert hverju þeir eiga að svara. Þó svo það séu til ótal margar skilgreiningar á því hvað tómstundir eru og ekki séu allir fræðimenn sammála hvernig best sé að skilgreina það, þá ættu allir að þekkja orðið og geta útskýrt í stuttu máli um hvað það nokkurn veginn snýst.

Það er löngu orðið tímabært að innleiða tómstundamenntun í skólakerfi landsins. Tómstundamenntun er vitundavakning á því hversu mikilvægar tómstundir og frítíminn eru.

Með því að koma tómstundamenntun inn í skólakerfið eykur það skilning unglinga á tómstundum og mikilvægi þeirra sem þau geta tekið mér sér út í lífið. Það er mikilvægt fyrir unglinga að vera meðvitaðir um hvaða áhrif tómstundir geta haft á líf þeirra, hvort þeirra tómstundir hafi neikvæð eða jákvæð áhrif á þeirra vellíðan, hamingju og lífsgæði. Neikvæðar tómstundir eru þær sem geta verið skaðlegar fyrir velferð einstaklinga eins og misnotkun áfengis eða eiturlyfja. Jákvæðar tómstundir eru síðan þær sem auka vellíðan, eru uppbyggjandi og eru nýttar til að bæta lífsgæði, þær tómstundir sem fela í sér líkamlega, félagslega, vitsmunalega eða tilfinningalega þætti.

Unglingsárin eru tími sem einstaklingar eiga það til að leiðast út í áhættuhegðun og finnst mér því unglingsárin kjörinn tími til þess að kynna þeim fyrir tómstundamenntun og geta þá t.d. leitt unglinga að réttri braut áður en þau komast útaf sporinu eða að koma í veg fyrir önnur frítímatengd vandamál og leiða.

Tómstundamenntun hefur þann tilgang að þjálfa og mennta einstaklinga í að iðka tómstundir í frítíma sínum og fá sem flesta til þess að stunda jákvæðar tómstundir sem hafa jákvæð áhrif á frítíma þeirra. Tómstundamenntun fyrir unglinga aðstoðar þau við það að auka eigin lífsgæði með þátttöku í tómstundum. Með tómstundamenntun kynnast unglingar þeirri færni og fá þá þekkingu og tæki til þess að geta nýtt sinn frítíma á uppbyggilegan hátt.

Nú er ég utan af landi, frá litlum bæ á Vestfjörðum og heyri oft talað um það hvað það sé ekkert að gera þar. Í öllum tilfellum kemur það frá unglingum eða ungmennum. Það kemur mér alls ekki á óvart að það sé byrjað að kvarta um þetta á unglingsárunum þar sem unglingar eru ef til vill að vaxa upp úr áhugamálum sem þau voru vön að eiga og enda þau því síðan oft á því að hanga og gera ekki neitt.

Ef til vill getur það verið erfitt að finna sér ný áhugamál eða einfaldlega eitthvað til þess að gera í frítíma sínum. Væri það jafn erfitt ef unglingar myndu læra um tómstundir og frítímann í skólanum? Gæti það komið í veg fyrir áhættuhegðun, frítímatengd vandamál eða leiða? Jafnvel minnkað síma og tölvunotkun?

Elín Ólöf Sveinsdóttir

 

Heimildir

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun, 23(1). 91-97. Sótt

af https://timarit.is/page/6009537#page/n89/mode/2up

 

 

Er íslenskan orðin tískuslys?

Við lifum á öld þar sem tækninni fleygir áfram og sífellt fleiri nýjungar koma fram sem allir verða að eignast. Flestir horfa á sjónvarpið, símann eða tölvuna á hverjum degi. Ungmenni nota styttingar á orðum eða ensku slettur sem að eldra fólkið skilur ekki og eldra fólkið notar íslensk orð sem að unga fólkið skilur ekki. Það er undantekningarlaust að maður heyrir í ömmum og öfum eða frænkum og frændum að ungmenni í dag kunni ekki að tala íslensku. Því miður hef ég, manneskja á þrítugs aldri, oft fengið að heyra þessa setningu og það sem meira er „ af hverju talarðu ekki bara íslensku?“ eða „ hvað er íslenska orðið fyrir þetta orð?“. En hvað ef kæri lesandi að ég myndi segja þér að ungmenni sem að tala fallega og flotta íslensku verða fyrir aðkasti að hálfu samnemanda sinna í grunnskólum í dag. Lesa meira “Er íslenskan orðin tískuslys?”

Áhrif snjalltækja og orkudrykkja á svefn ungmenna

Er svefn vanmetinn? Er hann kannski ofmetinn? Hvað er það sem hefur áhrif á svefn ungmenna? Talað er um að íslenskir unglingar eigi að sofa að meðaltali um 8-10 klukkustundir á sólahring en samkvæmt rannsókn sem gerð var hér á landi að þá eru þau einungis að sofa að meðaltali um 6 klukkustundir á sólarhring. Ástæða þess er meðal annars neysla orkudrykkja sem getur leitt til svefntruflana ásamt öðrum kvillum svo sem hjartsláttatruflana, kvíða og líðan þeirra. Unglingar eru mun viðkvæmari fyrir koffíni heldur en fullorðið fólk og er því mikilvægt að við sem foreldrar sem og aðrir nákomnir séum á varðbergi. Samkvæmt annarri rannsókn sem gerð var hér á landi sýndu niðurstöður að þeir unglingar sem sofa 7 klukkustundir eða minna á sólahring drekka fjóra orkudrykki eða meira á dag og að lítill svefn er stór áhættuþáttur á meðal þeirra hvað varðar andlega vanlíðan. Fjóra orkudrykki… á dag! Ég fer í hjartastopp einungis við tilhugsunina.

En hvað er það sem hefur áhrif á að unglingar drekka orkudrykki yfir höfuð? Með komu snjalltækjanna urðu snjallforritin sí fleiri og sí vinsælli. Sem dæmi má nefna Instagram og Snapchat sem við köllum í dag samfélagsmiðla. Á þessum samfélagsmiðlum deila notendur myndum og myndböndum ásamt því að fylgjast með hvað aðrir notendur eru að deila. Á þessum vettvangi eru mörg ef ekki flest ungmenni sem eiga snjalltæki og fylgjast þau með mörgum svokölluðum áhrifavöldum. Áhrifavaldar sjást oft á tíðum vera að miðla upplýsingum um ákveðnar vörur til notenda. Oft á tíðum eru þau að dásama ýmsar vörur sem gætu verið gagnlegar og áhugaverðar. Það sem er þó hvað vinsælast eru orkudrykkir sem margir áhrifavaldar sjá um að auglýsa og mæla með… sem fellur að sjálfsögðu strax í kramið hjá ungmennum alveg eins og eitthvað krem sem þau mældu með í gær. Og svo þegar von er á nýju bragði að þá er spennan gífurleg og biðin endalaus. Unglingar eru oftast ekki komin með fullþroskaðan heila til þess að átta sig almennilega á réttu og röngu hvað þetta varðar og því auðvelt að verða fyrir þessum áhrifum. Ég er 28 ára og verð ennþá auðveldlega fyrir áhrifum áhrifavalda…

Við vitum það flest sjálf að þegar verið er að auglýsa eitthvað og mælt er með því að þá erum við líkleg til að kanna það nánar og sýna því meiri áhuga heldur ef um enga auglýsingu væri að ræða. Áhrifavaldar eru einnig með ýmsa leiki í gangi og oft á tíðum er verið að gefa ekki einungis 1-2 orkudrykki heldur nokkra kassa af þeim og eru þátttakendurnir oftar en ekki unglingar og því mun líklegra að einhver unglingur taki „vinninginn“ frekar en aðrir einstaklingar.

Rannsóknir sýna að samfélagsmiðlar eiga einnig stóran þátt í svefnörðuleikum ungmenna ásamt líðan þeirra og sjálfsmynd. Snjallsíminn er oftast ómissandi hjá einstaklingum og er því með í för hvert sem hann fer allan sólarhringinn. Hægt er að stilla tækin þannig það sé kveikt á tilkynningum fyrir hvern miðil fyrir sig og er þá heldur ólíklegt að missa af einhverju sem má alls ekki bíða. Það þykir því líklegt að snjalltæki þeirra sé „bípandi“ allan sólahringinn og kemur því ekki á óvart að það hafi áhrif á svefn ungmenna (og háða einstaklinga) sem geyma jafnvel símann sinn undir koddanum og vakna svo á nóttunni við hverja tilkynningu sem truflar nánast allan svefninn og því erfiðara að fara í svokallaðan djúpasvefn.

Ef við sláum inn leitarorð á google um eitthvað sem tengist svefni fáum við upp meðal annars ýmsar rannsóknir, lokaverkefni, staðhæfingar fréttamiðla svo eitthvað sé nefnt um mikilvægi svefns og á þetta við bæði á íslensku og ensku.. sennilega öllum öðrum tungumálum líka án þess þó að staðhæfa vegna kunnáttu minnar í þeim tungumálum. Ég tel að rannsóknir af þessu tagi séu sennilega fleiri í dag en áður fyrr meðal annars vegna komu snjalltækjanna, samfélagsmiðlanna og orkudrykkjanna. Slíkar rannsóknir og niðurstöður finnst mér alltaf jafn áhugavert að skoða og því tilvalið að rýna í þetta efni með mín orð.

Zohara Kristín Guðleifardóttir

Tengslaröskun – lítil sem engin þekking

Ég vinn með börnum og ungmennum með margþættan vanda, greiningarnar sem við vinnum með eru margar og fjölbreyttar og hver annarri áhugaverðari. Sú greining sem mér hefur alltaf þótt mjög áhugaverð er sérstök greining sem heitir tengslaröskun (e. attachment disorder). Tengslaröskun er flókin og hefur hingað til verið erfitt að greina hana, en aftur á móti er greiningin frekar ný og má því áætla að þekkingin sé ekki mikil vegna þess. Mig langar að stikla á stóru í þessari grein um það sem mér finnst mikilvægt að vita um tengslaröskun og þar að leiðandi af hverju það er mikilvægt að þekkingin sé til staðar hjá t.d. stofnunum eins og heilsugæslum, skólum og félagsþjónustum. Lesa meira “Tengslaröskun – lítil sem engin þekking”

Mikilvægi íþróttastarfsins

Eins og flestir vita þá hefur íþróttaþátttaka ótrúlega jákvæð áhrif á líðan ungmenna, bæði andlega, líkamlega og félagslega. Margar rannsóknir og gögn benda til þess að íþróttaiðkun íslenskra ungmenna hafi aukist gríðarlega á undanförnum áratugum og má rekja það til þeirra jákvæðu hugmynda sem flestir hafa um íþróttastarfið. Framboð margskonar íþróttagreina hefur aukist til muna svo að flest ungmenni ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Foreldrar hafa í vaxandi mæli kosið að senda börn sín í skipulagt íþróttastarf í þeim tilgangi að bæta líkamlega heilsu, andlega líðan, örva félagsleg samskipti, eiga áhugamál og til að tilheyra samfélaginu.

Þegar ég nefni skipulagt íþróttastarf á ég við íþróttastarf í íþróttafélögum undir leiðsögn fullorðinna þjálfara. Sýnt hefur verið fram á að með skipulögðu íþróttastarfi aukast líkurnar á að börn þroski með sér félagshæfni og meiri líkur eru á að þau sýni jákvæða hegðun í daglegu lífi. Þegar ég hugsa til baka frá því að ég var unglingur þá hafði skipulagt íþróttastarf mjög jákvæð áhrif á mitt líf. Ég æfði fótbolta frá því ég var 6 ára og það að bera ábyrgð á sínum æfingatíma, mæta á æfingar og skipuleggja tímann vel hafði ótrúlega þroskandi áhrif á mig. Ég tel því vera mikilvægt að ungmenni reyni að finna íþróttastarf við sitt hæfi og að foreldrar aðstoði og veiti þeim stuðning þegar þess þarf. Stuðningur foreldra finnst mér vera númer eitt, tvö og þrjú þegar kemur að því að fá barnið sitt til að stunda íþróttir. Börn og ungmenni horfa upp til foreldra sinna og ef ég tala út frá minni reynslu þá er stuðningur foreldra það allra mikilvægasta þegar viðkemur varanlegri íþróttaiðkun.

Við erum flest meðvituð um að íþróttastarf ungmenna dregur úr líkum á að þau leiðast út í áhættuhegðun, svo sem vímuefnanotkun og áfengisneyslu. Hinsvegar hafa rannsóknir sýnt að þau ungmenni sem stunda íþróttir utan skipulagðs íþróttastarfs eru í meiri áhættuhóp að lenda í áhættuhegðun og því má segja að það eru ekki einungis íþróttirnar sem sporna gegn því að lenda í áhættuhegðun heldur er það hvernig íþróttastarfinu er háttað og öll sú umgjörð sem er í kringum það. Það má því segja að skipulagt íþróttastarf beri með sér ákveðin uppeldisgildi sem eru gríðarlega mikilvæg fyrir ungmennin. Börnin og ungmennin læra að fara eftir settum reglum og að auki læra að tileinka sér hollar lífsvenjur. Þau læra að hlusta á fyrirmæli sem veitir þeim aga. Þau læra að borða hollt, sofa vel og hlusta á líkamann sinn sem og efla sjálfstraust sitt og öryggi.

Í þessari grein er ég að mestu leyti að skoða þau jákvæðu áhrif sem skipulagt íþróttastarf hefur á líf ungmenna en ég verð þó einnig að koma inná það að öll íþróttaiðkun í sjálfu sér er góð, sama hvort hún sé skipulögð eða óskipulögð. Að fara í ræktina, að fá sér göngutúr, að fara í sund, að fara út að hjóla eru dæmi um óskipulagt íþróttastarf en það getur haft gríðarlega góð áhrif á ungmennin. Sama hversu lítil hreyfingin er þá gleymist oft að skilgreina hana sem „hreyfingu“. Margir hverjir sjá sér ekki fært eða fúnkera ekki innan skipulagðs íþróttastarfs. Mikilvægt er að ungmenni fái að njóta sín í þeirri íþróttaiðkun sem þau kjósa og þeim sé leyft að efla sig á eigin forsendum en samt sem áður að fá aðstoð eða leiðbeiningu frá foreldrum eða aðstandendum.

Agnes Helgadóttir

Fá börn að njóta æskunnar í fámennum sveitarfélögum?

Íþrótta- og æskulýðsstarf gegnir þýðingarmiklu hlutverki í samfélagi okkar og í lífi einstaklinga. Þátttaka barna og ungmenna í starfinu hefur fjölþætt gildi á ýmsum sviðum og í gegnum þetta mikilvæga starf skapast vettvangur til að vinna að aukinni lýðheilsu, efla félagsþroska barna og ungmenna ásamt því að vinna að forvörnum, félags- og lýðræðiþátttöku, borgaravitund og ýmsu fleira.

Við höfum öll heyrt af ávinningi forvarnarátaka á Íslandi síðustu áratugi þegar kemur að neyslu áfengis, tóbaks og fíkniefna meðal ungmenna á Íslandi. Það hefur unnist með markvissu átaki og forvörnum í gegnum árin ásamt áherslu á virka þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Með þessum árangri hefur skilningur samfélagsins á gildum tómstunda og íþrótta skilað auknum fjárframlögum og áherslum í þeim málaflokki. En er sigurinn unninn og getum við farið að slaka á? Langt því frá, því það er ekki algilt að á Íslandi séu starfrækt öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf í hverju hverfi, bæ eða þorpi.

Snemma á þessu ári komst í fréttirnar úrskurður frá Norðurþingi þar sem að sveitastjórn ákvað að það skyldi loka sundlaug Raufarhafnar yfir veturinn og takmarka aðgengi að íþróttahúsinu. Lokunin nær til allrar þjónustu sem að var í boði í húsinu, þar á meðal sundlaugarinnar, innrauðs klefa, heits potts, gufuklefa og aðgengi almennings að íþróttahúsinu. Lokunin er gerð í sparnaðarskyni því að aðsóknin í íþróttamiðstöðina réttlætti ekki starfsemina. Samt sem áður er sundlaugin mjög vel sótt, yfirleitt er einhver í sundi og jafnvel nokkrir í einu sem að er jákvætt í ekki stærra þorpi.

Sundlaugin hefur gríðarlegt gildi fyrir íbúa þorpsins enda miklu meira en bara sundlaug. Hún þjónar ekki einungis heilsueflandi tilgangi fyrir alla aldurshópa og að vera samkomustaður heldur er hún líka í raun eina tómstund barnanna í þorpinu á veturna. Það er því ekki undarlegt að þessi ákvörðun hafi vakið miklar tilfinningar meðal íbúa Raufarhafnar. Þessi skerðing myndi hafa neikvæðar afleiðingar fyrir íbúana. Maður spyr sig hvernig er hægt að réttlæta að skera niður grunnþjónustu við heilt þorp þegar aðrir léttvægari hlutir innan sama sveitafélags eru fjármagnaðir, t.d. upphitaðir göngustígar á Húsavík.

Eftir mikil mótmæli íbúa og áskorun frá Hverfisráði Raufarhafnar var ákveðið að endurskoða lokun sundlaugarinnar en hún verður lokuð fram í apríl vegna viðhaldsvinnu og gert er ráð fyrir að hún opni í byrjun maí. Sem þýðir að með samstöðu og baráttu íbúa var ekki einungis hætt við að skera niður þjónustuna heldur er nú verið að fjárfesta í henni og bæta. En þegar þessi ákvörðun var tekin af fjölskylduráði Norðurþings ímynda ég mér að þau hafi ekki fyllilega velt fyrir sér áhrifum hennar og til þeirra mörgu hlutverka sem að sundlaugin þjónar.

Ég fagna baráttu Raufarhafnarbúa og sé nú hversu mikilvægt það er að við stöndum vörð um réttindi okkar og barna okkar til jákvæðrar tómstundaiðkunnar. Þessi ákvörðun sýnir að þrátt fyrir mælanlegan árangur og skilning á mikilvægi tómstundastarfs er ekkert sem að stendur í vegi fyrir niðurskurði að hálfu sveitafélagsins nema við íbúarnir. Það er greinilega þörf á því að bundið sé í lög aðgengi að frítímaþjónustu fyrir almenning á landinu öllu. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að sveitarfélögin mismuni íbúum sínum og að við getum boðið upp á jákvætt frístundastarf um allt land allt árið.

Jóna Guðbjörg Ágústsdóttir

Höfundur er nemi í tómstunda- og félagsmálafræði og fyrrum íbúi á Kópaskeri.