Eftir að hafa verið nemandi í grunnskóla og starfsmaður í tveimur grunnskólum seinna meir, varð mér hugsað til starfsfólks félagsmiðstöðva og frístundasstarfs utan skóla. Þá sérstaklega um mikilvægi þess að það séu góðar fyrirmyndir og hvetji ungmenni til virkrar þátttöku, þar sem virðing og skemmtilegheit eru í fyrirrúmi. Af minni reynslu er starfsfólkið í félagsmiðstöðvum að vinna almennt mjög gott starf, þó auðvitað megi alltaf bæta sig. Ungmenni eru eins mismunandi og þau eru mörg, sumum finnst ekkert mál að mæta, hafa samskipti við aðra og plumma sig gríðarlega vel í þessu umhverfi. Aðrir eru jafnvel aðeins til baka, finnst erfiðara að mæta og glíma við einhvers konar kvíða eða félagsfælni. Þessi tiltekni hópur gæti orðið svolítið út úr og ekki tekið jafn mikinn þátt í félagslífinu. Það getur verið svolítið yfirþyrmandi að koma inn í félagsmiðstöð þar sem eru mjög margir krakkar saman, allir að gera mismunandi hluti. Lesa meira “Starfsmenn félagsmiðstöðva með þarfir barna og ungmenna í fyrirrúmi”
Tag: Félagsmiðstöð
„Er ekki bara kósý að vinna í félagsmiðstöð?“
Ég er starfsmaður í félagsmiðstöð, og hef starfað á þeim vettvangi í tæp tvö ár. Þegar starfið mitt kemur til tals með vinum og vandamönnum er ég oftar en ekki spurð um hvað vinnan mín snúist. Það hefur oft reynst mér mjög erfitt að gera fólki grein fyrir starfinu mínu þegar ótrúlega margir halda í rauninni að vinnan mín snúist einungis um það að spila borðtennis og playstation allan liðlangan daginn með unga fólkinu sem sækir starfið í félagsmiðstöðinni. Það virðist því sem flestir hafi litla eða enga hugmynd um það sem felst í starfinu. Mig langaði þess vegna að segja þér kæri lesandi aðeins hvað felst almennt í því að vinna í félagsmiðstöð með unglingum, og kannski reyna að veita þér innsýn inn í þetta frábæra starf. Lesa meira “„Er ekki bara kósý að vinna í félagsmiðstöð?“”
Samskipti starfsfólks og unglinga innan félagsmiðstöðva
Unglingsárin er sá tími þar sem margar breytingar eiga sér stað, bæði líkamlega og andlega. Líkami unglinga þroskast, útlit þeirra breytist og nýjar og stórar tilfinningar kvikna, sem þau oft á tíðum ráða ekki við. Unglingar geta því verið viðkvæmir og tilfinningaríkir. Unglingsárin eru einnig tíminn þar sem unglingar eru að finna sjálfan sig, móta sjálfsmynd sína, skoðanir og viðhorf. Mikilvægt getur því verið fyrir unglinga að hafa góðan stuðning til að leita til og hafi góðar fyrirmyndir.
Tómstundir af einhverri sort eru mikilvægar fyrir unglinga, sama hvaða tilgangi þær gegna. Starfsemi tómstunda skiptir miklu máli og ekki síður starfsmenn hennar. Félagsmiðstöð er vettvangur fyrir unglinga til að koma saman og eiga í félagslegum samskiptum. Mikilvægt er því að þeim líði vel þar. Þar kemur hlutverk starfsfólks sterkt inn enda hafa rannsóknir sýnt að starfsfólk félagsmiðstöva hefur mikið að segja um viðhorf unglinga gagnvart félagsmiðstöðvum. Starf tómstundastarfsmanna í félagsmiðstöðvum getur verið gríðarlega mikilvægt. Þar sem mikið er talað um að starfsmenn innan félagsmiðstöðva nái oft mjög góðum samböndum við unglinga og öðruvísi tengslum heldur en foreldrar. Það er því mikilvægt að þeir viti hvað þau geta gert til að efla sjálfstraust og sjálfsmynd og hjálpað þeim að finna sig sem einstakling. Starfsmenn félagsmiðstöðvanna búa til það andrúmsloft sem ríkir í félagsmiðstöðinni þeirra og eiga að skapa stemmingu þar sem allir eru velkomnir.
Inni á félagsmiðstöðvum læra unglingar að koma vel fram við aðra, jákvæð samskipti og félagsfærni. Starfsmenn gegna lykilhlutverki þegar kemur að félagsmiðstöðvum þar sem þeir skipuleggja starfsemi fyrir unglingana og geta því haft áhrif á mætingu og þátttöku þeirra. Mikilvægt er því að starfsmenn hafi réttu verkfærin og hæfnina til að hjálpa unglingum út frá þörfum og áhugamálum hvers og eins. Unglingar eiga það til að miða sig við aðra í kringum sig og halda oft uppá starfsfólk innan félagsmiðstöðva. Þeir læra mikið af þeim og líta oft á þau sem fyrirmyndir og er því mikilvægt að þar séu góðar fyrirmyndir sem þeir leita til. Unglingar bera oft mikið traust til starfsfólks og ef unglingar eiga við eitthvað vandamál að stríða eru starfsmenn oft með þeim fyrstu sem þeir segja frá eða leita til.
Ég tók ekki mikinn þátt í tómstundum á mínum unglingsárum, sem ég sé mikið eftir í dag. En ég mætti nokkrum sinnum á opið hús hjá félagsmiðstöðinni minni sem voru nokkur virk kvöld á viku. Ef ég hugsa út frá minni reynslu eða mínu sjónarhorni hefði ég þurft einhvern sem hefði hjálpað mér að komast út úr skelinni þar sem ég var rosalega feimin og ýtt á mig til að mæta oftar. Ef starfsfólk í félagsmiðstöðvum nær að fylgjast með flestum unglingunum sem taka þátt í félagsstarfinu og sjá hvað þá vantar og geta hjálpað þeim er það frábært. Eftir að hafa fræðst um tómstundastarf og hvernig starfsemin fer fram sé ég hvað starfsmenn innan félagasmiðstöðva og annarra tómstunda fyrir unglinga eru gríðarlega mikilvægir. Þar sem þeir geta gegnt hlutverki ráðgjafa, vina, leiðbeinanda og fyrirmynda svo eitthvað sé nefnt, geta þeir skipt miklu máli í lífi unglinga. Þeir geta gert svo margt gott fyrir unglinga og hjálpað þeim að verða besta útgáfan af sjálfum sér.
—
Rakel Ingólfsdóttir
Hvar eru unglingarnir?
Það á við um mína kynslóð, sem og þær sem á undan hafa gengið, að okkur finnst allt hafa verið betra þegar við vorum að alast upp. Ég, ásamt flestu fólki sem er staðsett núna miðja vegu milli þrítugs og fertugs, sé tíunda áratug síðustu aldar baðaðan gylltum ljóma. Hreinlega allt var betra þá; tónlistin, tískan, veðrið, tæknin/tæknileysið, nefndu það. Tíundi áratugurinn var það fullkominn að nánast væri hægt að ræða um útópíu í þessu samhengi. Eða hvað? Lesa meira “Hvar eru unglingarnir?”
,,Það er ekkert að gera á þessum stað“
Í gegnum tíðina hef ég oft heyrt þessa setningu ,,það er ekkert að gera á þessum stað“ og eflaust eru margir aðrir sem koma frá litlum þorpum og bæjum utan af landsbyggðinni sem hafa heyrt þetta líka. Oftar en ekki þá má heyra unglingana segja þessi orð og ástæðan sú að þeim finnst lítið sem ekkert tómstundastarf vera í boði fyrir þá í sínum bæ. Vissulega er þetta rétt að mörgu leyti, það er kannski bara ein íþrótt sem hægt er að æfa, lítið úrval í hljóðfærakennslu, og félagsmiðstöðin bara opin eitt kvöld í vikunni. Það er mikill munur á framboði og eftirspurn á tómstundum fyrir unglinga eftir búsetu. Lesa meira “,,Það er ekkert að gera á þessum stað“”
Er síminn að taka yfir?
Þar sem ég vinn í félagsmiðstöð er ég í kringum unglinga alla virka daga. Það gerist ör sjaldan að ég sjái þau ekki í símanum, haldandi á símanum eða að skoða hvað eintaklingurinn við hliðina á þeim er að gera í símanum. Unglingarnir líta oft varla upp úr símanum þegar reynt er að tala við þau og skortir alla athygli á því hvað er að gerast í kringum þau þegar síminn er á lofti. Er þetta orðið áhyggjuefni hvað unglingar eru mikið í símanum? Þarf að bregðast við þessu eða er þetta það sem koma skal? Eru unglingar verri í mannlegum samskiptum útaf símanotkun? Allt eru þetta spurningar sem vakna þegar ég hugsa út í þessa síma/skjánotkun unglinga. Því að ekki fyrir svo löngu síðan voru símar aðeins notaðir í það að hringja og senda sms. Núna getur fólk gert nánast allt með þessu litla tæki og meira segja spjallað við tækið og fengið svör til baka. Hvernig ætli þessi snjalltæki verði orðin eftir nokkur ár? Lesa meira “Er síminn að taka yfir?”