Tengslaröskun – lítil sem engin þekking

Ég vinn með börnum og ungmennum með margþættan vanda, greiningarnar sem við vinnum með eru margar og fjölbreyttar og hver annarri áhugaverðari. Sú greining sem mér hefur alltaf þótt mjög áhugaverð er sérstök greining sem heitir tengslaröskun (e. attachment disorder). Tengslaröskun er flókin og hefur hingað til verið erfitt að greina hana, en aftur á móti er greiningin frekar ný og má því áætla að þekkingin sé ekki mikil vegna þess. Mig langar að stikla á stóru í þessari grein um það sem mér finnst mikilvægt að vita um tengslaröskun og þar að leiðandi af hverju það er mikilvægt að þekkingin sé til staðar hjá t.d. stofnunum eins og heilsugæslum, skólum og félagsþjónustum. Lesa meira “Tengslaröskun – lítil sem engin þekking”

Starfsmenn félagsmiðstöðva með þarfir barna og ungmenna í fyrirrúmi

Eftir að hafa verið nemandi í grunnskóla og starfsmaður í tveimur grunnskólum seinna meir, varð mér hugsað til starfsfólks félagsmiðstöðva og frístundasstarfs utan skóla. Þá sérstaklega um mikilvægi þess að það séu góðar fyrirmyndir og hvetji ungmenni til virkrar þátttöku, þar sem virðing og skemmtilegheit eru í fyrirrúmi. Af minni reynslu er starfsfólkið í félagsmiðstöðvum að vinna almennt mjög gott starf, þó auðvitað megi alltaf bæta sig. Ungmenni eru eins mismunandi og þau eru mörg, sumum finnst ekkert mál að mæta, hafa samskipti við aðra og plumma sig gríðarlega vel í þessu umhverfi. Aðrir eru jafnvel aðeins til baka, finnst erfiðara að mæta og glíma við einhvers konar kvíða eða félagsfælni. Þessi tiltekni hópur gæti orðið svolítið út úr og ekki tekið jafn mikinn þátt í félagslífinu. Það getur verið svolítið yfirþyrmandi að koma inn í félagsmiðstöð þar sem eru mjög margir krakkar saman, allir að gera mismunandi hluti. Lesa meira “Starfsmenn félagsmiðstöðva með þarfir barna og ungmenna í fyrirrúmi”

„Er ekki bara kósý að vinna í félagsmiðstöð?“

Ég er starfsmaður í félagsmiðstöð, og hef starfað á þeim vettvangi í tæp tvö ár. Þegar starfið mitt kemur til tals með vinum og vandamönnum er ég oftar en ekki spurð um hvað vinnan mín snúist. Það hefur oft reynst mér mjög erfitt að gera fólki grein fyrir starfinu mínu þegar ótrúlega margir halda í rauninni að vinnan mín snúist einungis um það að spila borðtennis og playstation allan liðlangan daginn með unga fólkinu sem sækir starfið í félagsmiðstöðinni. Það virðist því sem flestir hafi litla eða enga hugmynd um það sem felst í starfinu. Mig langaði þess vegna að segja þér kæri lesandi aðeins hvað felst almennt í því að vinna í félagsmiðstöð með unglingum, og kannski reyna að veita þér innsýn inn í þetta frábæra starf. Lesa meira “„Er ekki bara kósý að vinna í félagsmiðstöð?“”

Er leikur að læra?

Ég á minningu frá því að ég var um 5 ára og var að byrja að læra að lesa. Ég man að ég var að lýsa því fyrir móður minni að það væri eins og stafirnir væru að fljúga. Hún hafði áður tekið eftir því að ég átti erfitt með að læra tölustafina og að ég væri hljóðvillt. Niðurstaða greiningar um 9 ára aldur var að ég ætti við sértæka námserfiðleika að stríða sem væru kallaðir dyslexia.

Sumir kannast betur við orðið lesblinda. Sjálf kann ég hins vegar betur við orðið dyslexia. Ég er sammála Jörgen Pind, prófessor í sálfærði við Háskóla Íslands, sem bendir á að orðið lesblinda vísar í það að fólk sé „blint“ á letur og það sé ekki lýsandi orð. Nýlegar rannsóknir benda nefnilega ekki til þess að dyslexia sé sjónræns eðlis. Dyslexia hefur hamlandi áhrif á lestur, stafsetningu og hjóðkerfisvitund fólks. „Hljóðkerfisvitund er hæfni til að meðhöndla hljóð tungumálsins á meðvitaðan hátt, segja til um rím orða og um einstök hljóð orðanna. Svo er að sjá sem talskynjun sé ekki háð því að hlustendur geti meðhöndlað málhljóðin með slíkum meðvituðum hætti en það er hins vegar nauðsynlegt þegar lesin er stafrófsskrift“. Dyslexia eða þroskafræðileg lesblinda er meðfædd og virðist vera arfbundin. Ekki er til nein „lækning“ við henni en hægt er að gera ýmislegt til að gera fólki auðvelda fyrir [1].

Það var visst áfall en á sama tíma léttir fyrir mig að fá dyslexiu greiningu. Sálfræðingurinn sem gerði greininguna, ítrekaði við mig að ég væri ekki heimsk en sagði að ég myndi þurfa að leggja mikið á mig til að ná bóklegum fögum í skóla. Ég lét lítið fyrir mér fara í grunnskóla og fæstir af kennurunum vissu hvað mér leið illa. Það var sannarlega ekki leikur að læra þessi bóklegu fög og mér leið oft eins og ég væri heimsk því formlega bóknámið var mér oftast mjög erfitt. Ég lagði mikið á mig fyrir námið í skólanum en árangurinn var ekki í samræmi við metnaðinn.

Ég vil hvetja þá sem vinna með börnum og unglingum að vera vakandi yfir þeim einstaklingum sem eru með dyslexiu. Þeir fá ekki oft að njóta sín í skólakerfinu. Margir sem eru með sértæka námserfiðleika eru með lágt sjálfsálit því formlegt nám reynist þeim oft erfitt og það reynist mörgum þungbært og niðurbrjótandi. Mikilvægt er að skapa þessum einstaklingum tækifæri til að finna hvar hæfileikar þeirra liggja. Fagfólk í frítímaþjónustu hefur kjörið tækifæri til að standa við bakið á þeim. Hvatning og skilningur skiptir miklu máli fyrir framtíð þessara barna og unglinga. Það þarf að byggja þau upp á markvissan hátt og gefa þeim tækifæri til þess að blómstra. Í því felst þjóðfélagslegur ávinningur.

Það er mikilvægt að standa vel við bakið á þeim því þessir einstaklingar hafa margt til brunns að bera. Algengt er að þeir sem eru með dyslexiu hafi öflugt ímyndunarafl og hugsi út fyrir kassann. Til gamans langar mig að nefna nokkra þekkta einstaklinga sem eru með dyslexiu: leikkonan Whoopi Goldberg, frumkvöðullinn Richard Branson, sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver, kvikmyndaleikstjórinn Steven Spielberg, listamaðurinn Leonardo da Vinci og tónlistarmaðurinn John Lennon [2]. Ég vildi nefna þessa einstaklinga, því það getur verið hvatning fyrir þá sem hafa dyslexiu eða hafa skjólstæðinga með dyslexiu að sjá og heyra af fólki sem hefur glímt við það sama og þeir og náð framúrskarandi árangri.

Framan af árum samsamaði ég mér illa við textann í laginu „Það er leikur að læra“. Í mínum huga var sá leikur mér hvorki kær, skemmtilegur né auðveldur. Í félagsstarfi utan skólans fann ég hins vegar ýmsar sterkar hliðar á sjálfri mér, hliðar sem ég fékk löngun til að styrkja. Ég fann löngunina til að vita meira og meira, meira í dag en í gær. Í dag veit ég nokkuð vel hvar hæfileikar mínir liggja. Dyslexian mun hins vegar alltaf fylgja mér og ég mun alltaf þurfa að nýta mér aðstoð annarra og tækninnar við að skrifa og lesa. Smámsaman hef ég þó öðlast betri færni við lestur en það tekur á og ég verð oft þreytt við að lesa lengi. Með árunum hef ég líka lært og þróað með mér ýmiskonar námstækni sem ég nýti mér í námi og starfi. Í dag get ég því sagt að það er oft leikur að læra. Nú veit ég betur um hvað menntun snýst og veit að menntun er mun víðtækara hugtak heldur en ég vissi þegar ég var barn að kljást við fljúgandi stafina.

Halla Marie Smith

 

Heimildir:

[1] Jörgen Pind og Aldís Guðmundsdóttir. „Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2001. Sótt 9. mars 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=1556.

[2] Helen Arkell. (2020). Sótt 14. mars 2020 af https://www.helenarkell.org.uk/about-us.php

Orðræða í kringum störf með börnum og unglingum

Bíddu, vinnur þú ekki í félagsmiðstöð?

Eða var það frístundaheimili?

Passa börn, er það ekki bara þæginlegt og auðvelt?

Ertu ekki bara að leika þér í vinnunni?

Ertu að fá borgað fyrir þetta starf?

Er þetta ekki kvennastarf?

Verður ekki svona klár strákur eins og þú að fá sér alvöru vinnu?

Er þetta ekki hálfgert djók þetta nám sem þú ert í?

Lesa meira “Orðræða í kringum störf með börnum og unglingum”

Fjöldatölur, kyn og gæði?

Þegar tómstundastarf í félagsmiðstöðvum er metið koma fjöldatölur oftar en ekki við sögu. Starfsmenn í hverri félagsmiðstöð í Reykjavíkurborg þurfa að halda utan um fjölda þeirra ungmenna sem sækja starfið hverju sinni. Þátttakendur þurfa oftar en ekki sjálfir að muna eftir því að skrá að þeir hafi mætt og tekið þátt í starfinu. Tölunum er svo safnað saman fyrir hvert tímabil og þær skoðaðar. Ég tel eðlilegt upp að vissu marki að notast við fjöldatölur til að stjórnendur hafi yfirsýn á hve mikið hlutfall nemenda taki þátt í og nýti sér starfið sem er skipulagt og á sér stað í félagmiðstöðum en ég tel þetta kerfi þó ekki gallalaust.

Lesa meira “Fjöldatölur, kyn og gæði?”