Flestir hafa lent í því að finnast þeir ekki velkomnir einhversstaðar. Hvort sem það er á vinnustað, heima hjá einhverjum sem er manni nærri eða bara meðal fólks sem maður þekkir ekki. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að finnast við vera velkomin og það skiptir ekki máli á hvaða aldri við erum. Mér finnst gott að heyra góðan daginn þegar ég fer í búðina eða að hótelherbergið mitt sé vel upp á búið og hreint þegar ég leyfi mér þannig munað, það er búið að sjá um hlutina þannig að mín upplifun sé góð og að ég upplifi að ég sé velkominn aftur. Lesa meira “Er ég velkominn hér?”
Tag: fagmennska
Nýjar áskoranir – Breytt heimsmynd
Frístundastarf er frjáls vettvangur þar sem óformlegt nám á sviði félagslegrar og lýðræðislegrar þátttöku, félagsleg virkni, félagsfærni og þróun sjálfsmyndar fer fram. Með þátttöku í frístundastarfi fá börn tækifæri til að leita þekkingar og efla færni sem þau geta notað seinna í samfélaginu. Í frístundastarfi kemur fjölbreyttur hópur barna með mismunandi uppeldi og uppruna og fá þau að upplifa margbreytilegt samfélag með skýrum römmum sem er mikilvægt fyrir þróun samfélags. Lesa meira “Nýjar áskoranir – Breytt heimsmynd”
Mikilvægi félagsmiðstöðvarinnar
Unglingsárin eru árin sem margir bíða eftir og eru spenntir að fá að upplifa nýja hluti og fá að vera sjálfstæðari. Á þessum tíma eru þó margar breytingar sem eiga sér stað, bæði andlega og líkamlega. Sjálfmyndin er að mótast, sjálfstraustið fer upp og niður eftir dögum jafnvel klukkutímum og síðan eru það tilfinningasveiflurnar sem einkenna oft unglingsárin hjá mörgum unglingum enda er oft sagt að það sé sko ekkert létt að vera unglingur. Þegar sjálfsmyndin okkar er að mótast, erum við oft að leita af eiginleikum sem okkur langar til þess að hafa, hvernig manneskjur við viljum í raun vera. Lesa meira “Mikilvægi félagsmiðstöðvarinnar”
Að vera „gamall“ forstöðumaður í félagsmiðstöð
Árið 2014 fékk ég starf sem forstöðumaður í félagsmiðstöð þá fertug að aldri. Fyrir það vann ég sem grunnskólakennari en hafði verið viðloðandi félagsmiðstöðvarstarfið í 11 ár bæði sem starfsmaður og sem tengiliður skólans við félagsmiðstöðina. Mér mætti furðulegt viðmót, það upplifði ég frá kollegum mínum í grunnskólanum sem og mörgum öðrum í kringum mig. Af hverju að fara að vinna í félagsmiðstöð lærður grunnskólakennari? Ertu þá ekki alltaf að vinna á kvöldin? Hvað ertu að gera í vinnunni, spila borðtennis? Svo lítið vissi fólk um þetta starf og mér fannst ég alltaf þurfa að vera að verja þessa ákvörðun mína og starfið mitt. Að vinna sem forstöðumaður í félagsmiðstöð er nefnilega ekki bara það að spila borðtennis þó sannarlega sé það kostur að geta gripið í spaðann með unglingunum og þannig ná góðu spjalli. Lesa meira “Að vera „gamall“ forstöðumaður í félagsmiðstöð”
Er starfandi félagsmiðstöð í þínu hverfi?
Ég hef unnið í tómstunda- og frístundstarfi undanfarin 15 ár með hléum, hef starfað sem aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöð, frístundaleiðbeinandi, aðstoðarverkefnastjóri í frístund og svo aftur aðstoðarverkefnastjóri í félagsmiðstöð.
Ég byrjaði óvart að vinna í félagsmiðstöð í Hafnarfirði þegar ég var 20 ára og vissi hreinlega ekkert út í hvað ég var að fara. Ég fann strax að þetta var eitthvað sem hentaði mér en ég var samt alltaf alveg að fara að hætta. Samfélagið, vinir og vandamenn áttu það til að spyrja mig: „Hvenær ertu svo að að fara að hætta að vinna í þessari félagsmiðstöð?“ Ég tel að margir viti ekki alveg út á hvað félagsmiðstöðvastarf gengur. Við erum ekki alltaf bara í borðtennis eða í playstation.
Tímarnir hafa breyst þessi ár sem ég hef unnið á vettvangi og er frítíminn því stundum svolítið þaulskipulagður og stjórnaður af okkur fullorðna fólkinu, bæði foreldrum og okkur sem störfum á vettvangi. Ég hef sjálf dottið í að vera að stjórna of mikið og við verðum að passa okkur að leyfa unga fólkinu að hafa frumkvæði, virkja hugmyndaflæðið þeirra og leyfa þeim að njóta unglingsáranna með því að njóta starfsins sem félagsmiðstöðvarnar hafa upp á að bjóða.
En hvaða fyrirbæri er félagsmiðstöð?
Helstu markmið félagsmiðstöðva almennt eru að auka félags- og lýðræðisþátttöku ungs fólks, sinna forvörnum og veita börnum og unglingum stuðning og tækifæri til að sinna áhugamálum sínum. Að félagmiðstöðvar notast við leiðir unglingalýðræðis eins vel og hægt er, bjóða upp á starf þannig að það sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi og að starfsfólkið tengjist börnunum og unglingunum með samtölum og virkri hlustun og mæti þeim einnig á þeirra forsendum og þeim sé sýnd virðing í leik og starfi.
Þar er frábært starfsfólk á gólfinu sem tekur á móti börnunum og unglingum ykkar með bros á vor og alltaf tilbúið í spjall. Sumar félagsmiðstöðvar bjóða upp á starf fyrir 5.-10. bekk á meðan aðrar sjá kannski aðeins um unglingastig. Opnunartíminn er mismunandi eftir sveitafélögum en það er oftast lagt upp með að það sé að minnsta kosti opið þrisvar sinnum í viku.
Undanfarin ár hefur þekking starfsfólks á gólfinu í félagsmiðstöðvum verið efld þar sem Háskóli Íslands heldur úti námsbraut sem kallast tómstunda- og félagsmálafræði. Fagmanneskan í starfinu er því orðin mikil þar sem þeir starfsmenn sem eru tómstunda- og félagsmálafræðingar koma með aukna fagþekkingu inn í starfið.
Það fer fram svokallað óformlegt nám í félagsmiðstöðunum en þá er unnið að fyrirfram settum markmiðum og starfsfólk félagsmiðstöðvanna veitir þann stuðning sem þarf til að þau náist innan ákveðins tímaramma. Mannleg samskipti koma sterk inn og á tímum snjallforrita þá er frábært að það sé í boði fyrir barnið, unglinginn þinn að kíkja í félagsmiðstöðina í sínu skólahverfi og geta spurt og spjallað við starfsmann félagsmiðstöðvarinannar um allt milli himins og jarðar.
Unglingarnir og börnin okkar hafa svo margt í sér, við verðum að virkja þau og sköpunarkraft þeirra og þar kemur félagsmiðstöðin sterk inn og tekur á móti öllum hugmyndum. Starfsfólkið hjálpar þeim að útfæra hugmyndirnar, t.d. ef þau koma með hugmynd að klúbbastarfi, langi þau að halda bingó, íþróttamót, stofna jafnréttisráð o.s.frv.
Ef þú átt ungling eða barn í 5.-10.bekk athugaðu hvað er í boði í félagsmiðstöðinni í þínu hverfi. Taktu upp tólið og hringdu í félagsmiðstöðina, skoðaðu heimasíðuna, samfélagsmiðlana eða kíktu bara í heimsókn.
—
Þórunn Þórarinsdóttir
Höfundur er nemi á öðru ári í Tómstunda- og félagsmálafræði
Geta stjórnvöld opnað augun?
Ég flokka mig sem fagmann í frítímaþjónustu. Reynsla mín hefur kennt mér að staðan getur verið gríðarlega erfið og krefjandi. Unglingarnir leita til okkar sem trúnaðarmanna og jafnvel sem vina til að hjálpa þeim að vísa veginn fyrir framtíðina. Þessi vettvangur skapar tækifæri fyrir einstaklinga, þar sem á að vera fullt aðgengi fyrir alla. Þegar litið er á starfsemi félagsmiðstöðva er mikilvægi starfsmannsins gríðarleg. Starfsmaður starfar sem fyrirmynd, sinnir mismunandi hlutverkum í lífi barna og unglinga. Hann er félagi, ráðgjafi og fræðari. Starfsmaður þarf að þekkja hlutverk sitt, virða trúnað og hafi ástríðu fyrir starfinu sínu. Starfsmaður þarf að vera góður leiðbeinandi og nýta og ígrunda sína reynslu, þekkja sín mörk og hafa góða samskiptatækni.
Eins og við erum alltaf að komast meira og meira að, er frítíminn hjá unglingum og börnum í dag er mikill, sérstaklega fyrir þá sem stunda ekki skipulagt íþróttastarf. Þær athafnir sem eiga sér stað í frítíma einstaklings má flokka sem tómstundir. En mikilvægt er að athöfnin feli í sér vellíðan og aukin lífsgæði. Með auknum frítíma barna og unglinga koma nýjar kröfur til félagsmiðstöðva sem ýtir undir það að fagfólk á vettvangi þurfi að leggja meiri áherslu á faglegu hliðar starfsins.
Samt sem áður er lítil sem enginn lagalegur rammi fyrir starf félagsmiðstöðva. Frá sjötta áratugnum þá hafa kröfur um fagmennsku aukist að einhverju leyti. Hérlendis hljóðar það svo að lögbundið frístundastarf nær til níu ára aldurs. Lagalegur rammi félagsmiðstöðva er því enginn en það myndi auka gæði starfsins til muna. Núverandi reglugerðir skilgreina ekki félagsmiðstöðvar sem lögbundna grunnþjónustu. Þetta setur okkur sem starfsstétt í óörugga stöðu þar sem fáar eða engar starfslýsingar eru til staðar fyrir starfsfólk og stjórnendur félagsmiðstöðva. Lagalegur rammi tryggir einnig sveitafélögum fagleg viðmið og mögulega hindrar þetta misræmi á milli sveitafélaga.
Ef að sveitarfélög neyðast til þess að setja upp sínar reglur, markmið og áætlanargerðir í kringum félagsmiðstöðvar, mun stéttarskipting innan þessa viðkvæma kerfis myndast sem er nú þekkt að einhverju leiti í dag. Þetta er eitthvað sem við ættum að forðast því eins og áður kom fram ætti þetta að vera grunnþjónusta og það sama í boði fyrir alla landsmenn. Félagsmiðstöðvastarf hjálpar unglingum að mótast sem einstaklingar og verða að góðum samfélagsþegnum, eflir lýðræðishugsun og borgaravitund. Hvers vegna meta stjórnvöld þetta þá nánast einskis?
Siðareglur Félags fagfólks í frítímaþjónustu og tilmæli Samfés eru frábær leiðarbók fyrir starfsmenn en engu að síður vantar lagalegan ramma um starfið. Við verðum að halda betur utan um unga fólkið okkar, og tel ég félagsmiðstöðvar og ungmennahús vera mjög góðan vettvang til þess. Í Finnlandi nær lögbundin grunnþjónusta frístunda upp í 29 ára aldurs. Ættu ekki svipuð lög að gilda hérlendis? Ég held ég að það séu ekki óraunhæft markmið enda lítum við til Finna sem fyrirmynda með allt sem viðkemur menntamálum almennt.
–
Vilborg Harðardóttir