Frá því að ég var ung hef ég alltaf haft mikinn áhuga á lestri og alltaf þekkt hugtakið yndislestur. Yndislestur er þegar aðili kýs að lesa sér til gamans, lesefnið er sérvalið og einstaklingurinn er ekki skyldugur til þess að lesa það. Fyrir mér var yndislestur sá tími sem fór í að lesa áhugaverða bók í rólegu umhverfi. Í dag finnst mér þó töluvert erfiðara að finna merkinguna á bakvið hugtakið. Hvort það sé vegna þeirra hröðu breytinga sem hafa orðið í samfélaginu eða að ég sé orðin eldri veit ég ekki. Þarf einstaklingur að halda á bók og fletta blaðsíðu fyrir blaðsíðu til þess að það kallist yndislestur? Ef þú slærð inn spurninguna „hvað er yndislestur“ í leitarvél Google blasir strax við setningin „Bók er vina best“. Lesa meira “Yndislestur, áhrif tækninnar í síbreytilegu samfélagi”
Tag: börn
Rafrænn útivistartími barna og unglinga
Á okkar tímum fer netnotkun barna og ungmenna ört vaxandi, tæknin er alltaf að verða betri, meiri og fullkomnari og á sama tíma er aðgengið einnig mun auðveldara. Langflest börn og ungmenni á Íslandi í dag hafa aðgang að þessum stafræna heimi, og þess vegna er það algjört grundvallaratriði að fræðsla og reglur í kringum notkun þessara miðla séu til staðar. Það er vissulega hlutverk okkar foreldranna að sjá til þess að börnin okkar séu vel upplýst og þá sérstaklega um hætturnar sem geta fylgt þessum annars ágæta heimi. Í því hraða nútímasamfélagi sem við búum í eru kröfurnar miklar, við þurfum að vinna mikið því það er dýrt að lifa, eiga í sig og á, tómstundastarf kostar sitt og svo mætti lengi telja. Lesa meira “Rafrænn útivistartími barna og unglinga”
Upplifa ungar stúlkur í fótbolta kynjamisrétti?
Árið 2000 var ég fótboltamamma stúlku sem æfði íþróttina ásamt vinkonum sínum í íþróttafélagi í Reykjavík. Þessar stelpur elskuðu að spila fótbolta, þær lögðu sig allar fram og æfðu mikið. Þjálfarinn þeirra lagði sitt af mörkum til að styðja stelpurnar, enda sá hann að áhuginn og dugnaðurinn var til staðar.
Allt var fyrir hendi nema aðstaða fyrir stelpurnar. Þarna var góður keppnisvöllur, æfingavöllur og aukavöllur en stundum var ekki pláss fyrir þær. Þegar þær mættu á æfingu þá voru strákarnir stundum fyrir á vellinum þar sem þær áttu að æfa og einu sinni enduðu þær á róló. Foreldrar og þjálfarar kvörtuðu ítrekað en allt kom fyrir ekki. Skýringin var aðstöðu- og plássleysi en strákarnir voru alltaf látnir ganga fyrir. Endirinn varð sá að stelpurnar hættu í fótboltanum og fóru að æfa handbolta sem var viðurkennd stelpuíþrótt en fótboltinn var álitinn jaðaríþrótt fyrir stelpur á þessum tíma.
Svo liðu árin og núna árið 2018 langaði mig til að athuga hvort að þetta væri ekki allt breytt enda eigum við glæsilegt landslið í kvennafótbolta jafnvel á heimsmælikvarða. Ég byrjaði á að skoða hvort að jafnréttisstefna væri fyrir hendi hjá helstu íþróttafélögunum í Reykjavík og sá að hún er til hjá flestum, ef ekki öllum.
Þá hafði ég samband við tvær íþróttamömmur fótboltastelpna á unglingsaldri sem æfa fótbolta í dag til að heyra hvað þær hefðu að segja. Önnur sagði að það væri svo augljóst misréttið á milli stráka og stelpna í fótbolta að stelpan hefði sjálf tekið eftir því þegar hún var í fimmta bekk og haft orð á því. Mamman sagði mér að í þessu íþróttafélagi þar sem dóttir hennar æfði kæmi misréttið fram í því að þær fengju ekki sömu þjálfun og strákarnir. Með þessu misrétti fengju þær þau skilaboð að það væri minna virði að vera stelpa en strákur þegar fólk æfði fótbolta.
Hin fótboltamamman kom með þær ábendingar að aðstöðuleysið væri frekar fyrir hendi hjá stelpunum en strákunum. Stelpurnar væru látnar gefa bestu vellina eftir til strákanna. Þetta koma alveg heim og saman við mína upplifun á árunum áður enda er þetta sama íþróttafélagið sem á þarna í hlut. Hún sagði jafnframt að þjálfararnir og þjálfunin væri í góðu lagi hjá stelpunum í þessu íþróttafélagi.
Í grein Guðmundar Sæmundssonar frá árinu 2012, Svo sæt og brosmild…. segir svo: „Sú mynd sem íþróttahreyfingar Vesturlanda hafa leitast við að draga upp af sjálfum sér er afar karllæg og gerir sjaldan ráð fyrir konum“(Guðmundur Sæmundsson, 2012).
Í samtali mínu við fótboltamömmurnar tókum við þetta atriði fyrir og töldu þær að þessi staðhæfing væri rétt og það tengdist því að það væru miklir peningar í karlafótbolanum. Þetta væri hrein hagsmunabarátta á milli kynjanna. Annað atriði bentu þær líka á og það er að það vantar konur í stjórnir og ráð íþróttahreyfinganna.
Þessi litla könnun mín gefur vísbendingu um að það sé enn kynjamisrétti í fótbolta sem ungu stúlkurnar upplifa, þrátt fyrir jafnréttisstefnu íþróttafélaganna.
Greinilega er mikil þörf á að kanna þetta mál nánar og gera alvöru rannsókn á þessu málefni. Síðan þarf að vinna markvisst út frá þeim niðurstöðum sem rannsóknin mun leiða í ljós, unga íþróttafólkinu okkar til hagsbóta um komandi framtíð.
—
Guðrún Barbara Tryggvadóttir
Heimild
Guðmundur Sæmundsson. (2012). Svo sæt og brosmild….: Umfjöllun í blöðum og tímaritum um íslenskar afreksíþróttakonur á alþjóðavettvangi. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http://netla.hi.is/greinar/2012/ryn/008.pdf
Útivist – Útikennsla – Ævintýrastarf
Á tímum snjalltækja og almennrar tölvunotkunar býður nútímasamfélag börnunum okkar upp á stöðugt áreiti. Samfélagsmiðlar eru við hendina allan daginn með aukinni notkun snjallsíma og sum börn eru með tilkynningar á í símanum og kíkja á hann við hverja tilkynningu á facebook. Jafnvel hef ég orðið vör við það að barn var að vakna um miðja nótt til að skoða tilkynningar. Börn eru að miklu leyti hætt að fara út að leika sér og hanga oft ein heima í tölvuleikjum og einu samskiptin við vini eru í gegnum netið, spilandi saman tölvuleiki. Þetta finnst mér ekki góð þróun og finnst mér börnin vera að fara á mis við svo ótal margt sem að myndi auðga líf þeirra svo mikið. Það sem að ég myndi vilja gera til að sporna við þessari þróun er að bæta útikennslu og ævintýrastarfi inn í grunnskólana. Hvað er það sem við gætum kennt í grunnskólunum sem að gæti hjálpað þessari kynslóð að tengjast náttúrunni og sjálfum sér betur? Lesa meira “Útivist – Útikennsla – Ævintýrastarf”
Eru skátarnir á leiðinni á safn?
Öll erum við ólík eins og við erum mörg. Val okkar á tómstundum er þar engin undantekning. Börn og ungmenni í dag hafa úr fjölbreyttu úrvali skiplagðra tómstunda, íþrótta og annarra áhugamála að velja. Íþrótta- og félagasamtök leitast við að virkja sem flesta til þátttöku og liður í að efla þátttöku barna og ungmenna er að brúa bilið milli skóla og tómstundastarfs. Til að ná því þá þurfa allt tómstundastarf að laga sig að breyttum aðstæðum í samfélaginu. En hafa skátarnir gert það?
Sjálf valdi ég skátahreyfinguna, eða með öðrum orðum félags- og tómstundastarf sem setti stóran ,,nörda” stimpil á ennið á mér. Tökum dæmi; Hvað er það fyrsta sem þú hugsar þegar orðið, „skáti“ er nefnt? Mjög líklega sástu fyrir þér hóp af krökkum í vel girtum búningum, að grilla sykurpúða yfir varðeldi, syngjandi hressa skátasöngva. Hversu nálægt var ég? Lesa meira “Eru skátarnir á leiðinni á safn?”
Þegar gott er nógu gott
Ég vinn á frístundaheimili fyrir 6-9 ára, sem er svo sem ekki í frásögu færandi, en það kom lítil 7 ára stelpa til mín miður sín um daginn þegar við vorum að taka okkur til að fara út að renna á snjóþotu því hún vildi ekki klæðast kuldagallanum sem hún var með. Ég spurði hana afhverju, hann væri svo hlýr og góður, en þá hafi önnur stelpa komið til hennar í skólanum þann saman dag, aðeins 2 árum eldri en hún, í 66°Norður úlpunni sinni og spurði hana hneykslanlega hvort hún ætlaði í alvörunni að vera í þessu úti. Þarna erum við að tala um börn svo það er rétt hægt að ímynda sér hvernig ástandið er hjá þeim sem eldri eru, kröfurnar eru orðnar það miklar. Eftir smá spjall ákváðum við í sameiningu að láta þetta ekki eyðileggja skemmtilegan snjódag og klæðast þessum „hallærislega“ galla. Lesa meira “Þegar gott er nógu gott”