Þegar gott er nógu gott

Ég vinn á frístundaheimili fyrir 6-9 ára, sem er svo sem ekki í frásögu færandi, en það kom lítil 7 ára stelpa til mín miður sín um daginn þegar við vorum að taka okkur til að fara út að renna á snjóþotu því hún vildi ekki klæðast kuldagallanum sem hún var með. Ég spurði hana afhverju, hann væri svo hlýr og góður, en þá hafi önnur stelpa komið til hennar í skólanum þann saman dag, aðeins 2 árum eldri en hún, í 66°Norður úlpunni sinni og spurði hana hneykslanlega hvort hún ætlaði í alvörunni að vera í þessu úti. Þarna erum við að tala um börn svo það er rétt hægt að ímynda sér hvernig ástandið er hjá þeim sem eldri eru, kröfurnar eru orðnar það miklar. Eftir smá spjall ákváðum við í sameiningu að láta þetta ekki eyðileggja skemmtilegan snjódag og klæðast þessum „hallærislega“ galla.Undanfarið hef ég mikið velt fyrir mér orðinu nægjusemi. Það er eins og svo margir hafi gleymt hver merking orðsins er miðað við neysluhyggjuna sem hefur herjað á landann að undanförnu. Neysluhyggja byggist á vali neytenda og því meira úrval því meira vald teljum við okkur hafa. Neysluhyggjan getur, og eiginlega hefur, farið út í öfgar því um leið og eitthvað nýtt merki, tegund eða hönnun kemur á markaðinn þá þykir það nauðsynlegt að losa sig við það „gamla“ og kaupa það nýja til að fylgja tískustraumunum eftir. Ef nægjusemi er flett upp í orðabók stendur:

„Nægjusamur, sem lætur sér nægja lítið, er ánægður með það sem hann fær, hófsamur, –semi skv. ób það er að vera nægjusamur“.

Einhvern veginn verða allir að eiga það nýjasta og flottasta. Það eru til dæmis ófáir unglingar í dag sem eiga ekki merkjaflík eins og 66°Norður. Áður fyrr klæddust unglingar og aðrir einstaklingar, bara ósköp venjulegri úlpu, töluvert ódýrari en merkja úlpan, sem gerði sama gagnið. Kröfurnar um að eiga það nýjasta og flottasta eru orðnar svo miklar. Staðalímyndin segir að þú þurfir að eiga flottustu merkjaúlpuna og nýjasta snjallsímann annars ertu ekki nógu „kúl“. Þetta getur verið erfitt fyrir þær fjölskyldur sem vinna hörðum höndum til að ná endum saman hver mánaðamót.

Ástandið á landinu er nefnilega þannig að um 11 þúsund börn á aldrinum 0-18 ára eiga á hættu að búa við fátækt eða félagslegra einangrun samkvæmt nýjustu rannsókn Barnaheilla – Save the children. Sameinuðu þjóðirnar hafa þó sett sér markmið til ársins 2030 að útrýma sára fátækt í heiminum og vona ég svo sannarlega að það standist.

Ég tel þó nauðsynlegt að foreldrar og aðrir mikilvægir fullorðnir kynni fyrir næstu kynslóðum orðið nægjusemi. Þó það sé aðeins til þess eins að þau læri að fara vel með eignir sínar, sama hvort það er úlpa eða hús, og læri að það sé allt í lagi þótt eitthvað sé orðið gamalt á meðan það virkar ennþá.

—–

Ágústa Gísladóttir