Unglingar úti á landi, gleymast þeir?

Undafarin ár hafa málefni unglinga brunnið mikið á mér, þá ekki síst unglinga sem búa á landsbyggðinni sem eiga erfitt með að sækja tómstundir eða félagsmiðstöðvar vegna vegalengdar. Alveg frá því að ég náði þeim aldri að geta farið í félagsmiðstöðvar hefur mér oft á tíðum fundist landsbyggðin gleymast. Á mínum grunnskólaárum var Reykjavík oftar en ekki miðpunktur viðburða eða þá stærstu þéttbýliskjarnar Íslands, svo sem Akureyri, Egilsstaðir, Selfoss og oft á tíðum Vestmannaeyjar. Eftir að ég hóf nám við tómstunda – og félagsmálafræði við Háskóla Íslands þykir mér við ennþá vera að spóla í sömu förunum hvað varðar þessi mál. Ég er alls ekki að setja út á kennara eða kennslu innan veggja Háskólans, heldur held ég að pottur sé brotinn innan Menntamálaráðuneytisins og þeirra aðila sem að sjá um mál unglinga og menntun almennings hér á landi.

Ég er alls ekki að segja að unglingar í Reykjavík skipti ekki máli en það sem ég er að fara með þessum pistli er að benda á að unglingarnir út á landi, þá sérstaklega á dreifbýlustu stöðunum, þurfa líka aðhlynningu. Ungmennin sem búa á strjálbýlum stöðum eiga oft á tíðum erfitt með að sækja ýmsa starfsemi sem ætluð er þeim. Mér finnst þetta hálf sorglegt. Ég kem frá fámennum stað og ég man að sem unglingur var erfitt að sækja þá starfsemi sem ætluð var ungmennum og þótti mér mjög leiðinlegt að geta ekki æft íþróttir eða farið í félagsmiðstöðina með vinum og skólasystkinum. Ég þori næstum því að fullyrða að margir unglingar í dag eru í sömu sporum og ég var á sínum tíma. Þessi ungmenni missa af miklu og þau finna það best þegar þau hitta jafnaldra og vini. Öll sú tækni sem komin er í dag, svo sem snjallsímar og samfélagsmiðlar gera það að verkum að unglingar geta verið í sambandi við vini og jafnaldra en samt er það ekki eins og að vera á staðnum. Við höfum öll heyrt talað um að ungmenni sem hafa ekki tækifæri til að sækja þá starfsemi sem þeim er ætluð t.d. íþróttir, séu líklegri að leita frekar í áfengi og önnur vímuefni. Það er kannski erfitt að halda uppi félagsstarfi eða íþróttaæfingum á litlum stöðum en þau ungmenni sem að búa á litlu stöðunum eiga til með að gleymast. Getum við gert eitthvað til að bæta þeirra stöðu?

Einnig getur það gerst að ungmenni missi af unglingsárunum og að þau hafi lítið að gera heima hjá sér í dreifbýlinu og byrji ung að aldri að vinna einungis til þess að drepa tímann. Mér persónulega finnst það vera gott að unglingar byrji að vinna snemma en á hinn bóginn þá finnst mér nauðsynlegt að unglingar fái að njóta unglingsáranna alveg eins og börn fái að njóta barnæskunnar. Ekki nóg með að það sé langt í allar þær íþróttaæfingar sem eru í boði í þéttbýlinu sem og félagsmiðstöðvar, heldur er líka langt í næsta sálfræðing, lækni eða aðra þjónustu sem unglingarnir þurfa stundum að leita til.

Með þessari grein er ég einungis að vekja athygli á að unglingar út á landi geta átt við sömu vandamál að stríða og unglingar á stærri stöðum. Ég vil vekja athygli á að það þarf ekki síður að hlúa að unglingum í dreifbýli, eins og unglingum í stærri borgum og bæjum landsins.  Það er langt að fara fyrir unglinga í dreifbýli að sækja þá þjónustu sem þeir þurfa og oft á tíðum hafa foreldrar ekki möguleika á að keyra ungmenni í frístundastarf vegna vinnu. Aðstaða ungmenna út á landi skiptir mig miklu máli og ég vil sjá framfarir í þessum málum. Það er komið árið 2018 og kominn tími á breytingar á aðbúnaði unglinga í dreifbýli.

——-

Ragna Kristín Jónsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði