Útivist – Útikennsla – Ævintýrastarf

Á tímum snjalltækja og almennrar tölvunotkunar býður nútímasamfélag börnunum okkar upp á stöðugt áreiti. Samfélagsmiðlar eru við hendina allan daginn með aukinni notkun snjallsíma og sum börn eru með tilkynningar á í símanum og kíkja á hann við hverja tilkynningu á facebook. Jafnvel hef ég orðið vör við það að barn var að vakna um miðja nótt til að skoða tilkynningar. Börn eru að miklu leyti hætt að fara út að leika sér og hanga oft ein heima í tölvuleikjum og einu samskiptin við vini eru í gegnum netið, spilandi saman tölvuleiki. Þetta finnst mér ekki góð þróun og finnst mér börnin vera að fara á mis við svo ótal margt sem að myndi auðga líf þeirra svo mikið. Það sem að ég myndi vilja gera til að sporna við þessari þróun er að bæta útikennslu og ævintýrastarfi inn í grunnskólana. Hvað er það sem við gætum kennt í grunnskólunum sem að gæti hjálpað þessari kynslóð að tengjast náttúrunni og sjálfum sér betur?

Það er svo ótal margt sem hægt er að gera í svona starfi og hef ég sjálf unnið á leikskóla þar sem að ég fékk svolítið frjálsar hendur með það hvað við gerðum og þar sem að ég er mikið náttúrubarn var útivera mikið notuð. Eitt af því skemmtilegasta sem við gerðum voru gönguferðirnar okkar þar sem að kennslu var bætt inn í eftir hentisemi. Við fórum í fuglaskoðunarferðir og í ótal fjöruferðir þar sem við fundum krabba og allskyns lífverur sem voru seinna skoðaðar betur og lært um. Ekki bara fengu börnin kennslu heldur líka hreyfingu og útrás. Það sem að mér finnst sniðugt í svona kennslu er til dæmis allskonar ræktun bæði að vetri til og að sumri þar sem að börnin setja niður fræ og sjá að það er ekki sjálfgefið að koma þessu upp. Það þarf að huga að mörgu til að vel á að vera. Kartöflu- og matjurtaræktun er líka ótrúlega skemmtilegt viðfangsefni og eitt af því sem við unnum með á leikskólanum mínum með mismunandi árangri en alltaf miklum áhuga hjá bæði börnum og fullorðnum. Að fara með börnin að veiða er líka ótrúlega sniðugt og skemmtilegt. Þar læra þau svolítið um gang lífsins, það er að segja að við öflum þess sem við borðum. Þau geta sjálf gert að aflanum og jafnvel borðað hann seinna.

Eitt af hugðarefnum mínum er að börn fái líka að umgangast dýr en vissulega er kannski erfitt að koma því við í almennu skólastarfi. En er þá ekki okkar að finna lausnir á því? Þetta sem ég nefni hér er ekki tæmandi listi yfir það sem hægt er að gera. Það væri sniðugt að skipa vinnuhóp sem að myndi útbúa hugmyndabanka með kennslugögnum. Það er mikilvægt að vinna markvisst að svona starfi.

Það sem ég er að meina með þessum pistli er að þróunin er orðin þannig að tölvur og allskonar tæki eru farin að eiga stóran part af tilverunni okkar miklu meira heldur en nokkurn tímann áður. Við getum eflaust ekki stöðvað þessa þróun en það sem við getum gert er að reyna að sporna við henni og reyna að fá ungdóminn til að tengjast náttúrunni betur. Börn fara á mis við svo mikið ef að þau hanga bara inni í tölvuleikjum. Þau fara til dæmis á mis við gleðina og ánægjuna af að fara út að renna sér á sleða og vellíðanina að koma þreytt og köld heim og fá sér heitt kakó. Það er svo margt sem veitir okkur ánægju og vissulega geta tölvur og tækni veitt okkur einhverja gleði en þegar að við erum orðin þrælar þessarar þróunar þá þurfum við að gera eitthvað. Samfélagið er að breytast svo mikið en almennt skólastarf hefur lítið breyst undanfarna áratugi.

Sara Arnbjörnsdóttir