Er síminn að ræna ungmenni svefni?

Fyrir nokkrum vikum síðan fór ég ásamt 15-16 ára stúlkum í æfingarferð norður til Akureyrar. Ferðin gekk vel á allan hátt og var skemmtileg. Það sem vakti þó athygli mína var að þegar stúlkunum var sagt að nú væri komið að háttatíma að þá snéru sér nokkrar á hliðina og fóru í símann sinn. Ég ákvað að bíða í smá stund og sjá svo til hvort þær myndu leggja hann frá sér stuttu síðar. Svo var ekki. Þess í stað þurfti ég að biðja þær að hætta einnig í símanum. Ein stúlkan brá því á það ráð að fara með símann undir sængina og hélt því að hún gæti haldið áfram iðju sinni þar. Hún vissi ekki að sængin öll ljómaði því hún var með skjábirtu stigið á hæstu stillingu. 

Af hverju fannst mér þetta áhugavert? Jú, stúlkur sem höfðu verið að spila þrjá til fjóra leiki um daginn, farið í sund, verið á kvöldskemmtun og höfðu fengið tíma aflögu til að gera hvað sem er. Ég á erfitt með að trúa því að þær hafi ekki verið orðnar þreyttar eftir annasaman dag. Því spyr ég er síminn farinn að stela svefni frá unglingum? Mögulega þarf að ræða oftar og betur við unglinga hversu mikilvægur svefn er en ekki aðeins hreyfing og mataræði.

Það er mikilvægt að hlúa að andlegri heilsu jafnt sem og líkamlegri og er góður svefn nauðsynlegur, mikill ávinningar fæst af honum en einnig getur það haft slæmar afleiðingar í för með sér ef við fáum ekki okkar skammt af góðum næturblundi.

Stjórnkerfi líkamans er kölluð líkamsklukka en flest okkar líkamsstarfsemi tekur mið af henni. Líkamsklukkan stjórnar því að hluta til hvenær menn vakna og hvenær þeir sofna. Birtubreytingar í umhverfinu hafa mest áhrif á hvernig líkamsklukkan starfar og hefur það eining áhrif á framleiðslu hormónsins melatónín. Í heilakönglinum myndast melatónín en það stýrir svefni og vöku að mörgu leyti.

Svefn er lífsnauðsynlegur en þegar við sofnum þá minnkar meðvitund og seinkar viðbrögðum okkar við umhverfi en getur rofnað á augnabliki við ytra áreiti. Stig svefns eru fimm. Þegar manneskjur eru á stigi eitt og tvö eru þær á sem kallast grunnsvefn stig. Á stigi þrjú og fjögur þá erum við í draumsvefni, þá erum við að viðhalda minni okkar. En á stigi fimm erum við í hvíldarsvefni. Þá erum við að endurnýja frumur og viðhalda líkama okkar.

Til þess að lifa þá þurfum við svefn og er yfirleitt miðað við tíu klukkustundir á sólarhring fyrir unglinga vegna þess að þau eru að ganga í gegnum miklar breytingar líkamlega sem og andlega. Lengd svefns hefur áhrif á til dæmis námsgetu og hvernig er unnið úr upplýsingum líðandi dags sem og ónæmiskerfið styrkist við hæfilegan svefn. Mikil hormóna framleiðsla á sér stað á unglingsárum og fer hún mestmegnis fram á nóttunni og því háð góðum nætursvefni. Unglingar sem hafa góðar svefnvenjur taka frekar ábyrgð á heilsu sinni. Velja hollari valkosti í mataræði, hreyfa sig meira og eru betur í stakk búnir til að takast á við streitu.

Það getur haft veruleg áhrif á líf unglingsins ef hann fær ekki nægan svefn. Til dæmis minnkar einbeiting og við höfum minni orku. Við lítinn svefn þá verður athygli og einbeiting minni sem getur haft viðamikil áhrif á daglegt líf og komið niður á okkar nánasta umhverfi, fjölskyldu og félagslífi. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að þegar svefnleysi er orðið langvarandi þá er orðin aukin hætta á mörgum sjúkdómum til dæmis sykursýki, þunglyndi, offitu eða hjartaáfalli.

Of mikil svefn er ekki heldur góður því hann getur einnig valdið vandamálum eins og höfuðverk og þunglyndi.

Því má segja að ef hver unglingur fær sinn raunhæfa svefn þá mun hann lifa heilsusamlega lífi sem leiðir til meiri vellíðunnar. Það er því okkar hlutverk sem komum að lífi unglinga að hvað leyti sem er að upplýsa þau um góða símanotkun og hvaða afleiðingar það hefur að nota tækið ekki á uppbyggilegan hátt. Sem dæmi þá hefur Akureyrarbær sent til hvers heimilis segul, til þess að setja á ísskáp, sem inniheldur viðmið til skjánotkunar á dag fyrir nokkra aldurshópa og einnig hvar væri gott að sleppa símanotkun til dæmis við matarborðið eða uppi í rúmi. Þetta framtak þykir mér flott sem fleiri bæjarfélög gætu tekið sér til fyrirmyndar. Ekki síður þurfum við fullorðnu einstaklingarnir að vera fyrirmyndir á þessu sviði sem og á öðrum sviðum.

Íunn Eir Gunnarsdóttir, knattspyrnuþjálfari og nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði  við Háskóla Íslands.