Lýðræði og tómstundastarf

Í stuttu máli má segja að lýðræði og lýðræðisleg þátttaka sé hlekkur í að við sjáum eigin hagsmuni falla saman við almannahag. Þátttaka í tómstundastarfi er því ákveðin samfella þess að hafa val og hafa áhrif á framvindu starfs sjálfum sér og öðrum til menntunar og ánægju. Lýðræði í tómstundastarfi og lýðræðisleg þátttaka í starfinu er því mikilvæg því hún er trygging þess að við og aðrir séum gerendur í starfinu en ekki viljalaus verkfæri sem fljótum bara með.

Lýðræðisleg umræða

Lýðræði er þannig á vissan hátt grunnur þess samfélags sem við byggjum og án lýðræðislegrar þátttöku erum við sem einstaklingar og samfélagið í heild í nokkrum vanda. Lýðræðisleg þátttaka er því ekki spurning um að vera bara í meiri- eða minnihluta heldur miklu frekar að eiga þátt í að móta það samfélag sem við lifum í með umræðu við aðra einstaklinga. Með umræðu og þátttöku í tómstundastarfi þroskum við eigin hugmyndir og höfum áhrif á umhverfi okkar.

Þátttaka í opnu tómstundastarfi er að mínu mati sérstaklega mikilvæg fyrir ungt fólk. Ungt fólk er að læra á lífið og hefur oft ómótaðar hugmyndir um það hvernig málum skuli háttað. Í tómstundastarfi er því mikilvægt að gefa fólki tækifæri til að hafa áhrif og þroska saman hugmyndir sínar og sýn.

Hvers vegna skiptir lýðræði máli í tómstundastarfi?

Til að byrja með er gagnlegt að skilgreina hugtökin tómstundir annars vegar og lýðræði hins vegar. Flestum ber saman um að tómstundir megi skilgreina sem ákveðna þátttöku í tómstundastarfi, listum eða íþróttum. Þetta starf er skipulagt af ýmsum aðilum svo sem félögum eða einhverjum samtökum utan hefðbundins skólatíma. Grunnpunkturinn er að tómstund sé afþreying sem við erum frjáls í og höfum frjálst val um, hvort sem um er að ræða skipulagt eða óskipulagt starf .

Lýðræðið og lýðræðisleg þátttaka er bæði mikilvæg og mikilsverð. En við hvað eiga menn þegar rætt eru um lýðræðislega þátttöku? Víða má greina þá sýn að menn aðgreina á milli þess sem er einhverskonar skylda og þess sem við getum flokkað undir algjörlega valfrjálsa þátttöku.

Aðalatriðið er í mínum huga það að með lýðræðislegri þátttöku er hver einstaklingur þátttakandi og gerandi í eigin lífi. Með öðrum orðum þá má segja að með lýðræði í tómstundastarfi séum við að tryggja hverjum einstaklingi að vera þátttakandi á eigin forsendum. Í tómstundastarfi er einstaklingurinn að vinna að markmiðum heildar með þátttöku á eigin forsendum sem taka mið af þremur megin punktum en það eru ábyrgð, þátttaka og samvinna.

Allt tómstundastarf hefur ákveðin markmið hvort sem það vísar til einstaklingsmarkmiða eða starfsins í heild. Umhverfi okkar á mikinn þátt í að móta okkur sem einstaklinga, viðhorf okkar og framtíðarsýn. Lýðræðisleg þátttaka í tómsundastarf er þannig grundvöllur þess að markmið starfsins náist. Vart verður séð að markmið tómstundastarfs verði náð án lýðræðislegra starfshátta. Starfsemin verður vart frjáls eða valbundin án þess að hver einstaklingur geti haft áhrif á ferlið og verið virkur gerandi. Án lýðræðis verður þátttakandi hverju sinni vart ánægður því hver vill vera viljalaust verkfæri? Grundvöllur þess að tómstundastarf geti verið þroskandi og menntandi á einhvern hátt er að einstaklingar hafi áhrif og fái ánægju út úr þátttöku sinni í starfinu. Þess vegna er lýðræði nauðsynlegt í öllu tómstundastarfi.

Arnar Freyr Sigurðsson