Áhrif áfengisneyslu á kynhegðun unglinga

Tíðni kynlífsathafna fer hækkandi hjá unglingum vegna áfengisneyslu. Þeir unglingar sem eiga stranga foreldra eru líklegri til þess að byrja fyrr að stunda kynlíf og þeir sem eiga afskiptalausa foreldra eru þar á eftir. Áfengisneysla er stór partur þess að unglingar sýni slæma kynhegðun, þau eru líklegri til þess að stunda óábyrgt kynlíf undir áhrifum áfengis. Við þekkjum það mörg að þegar maður er undir áhrifum áfengis þá er maður líklegri til þess að taka áhættur og gera hluti sem maður myndi vanalega ekki gera þegar maður er ódrukkinn.

Coleman og Cater (2005) sögðu að það væri sterkt samband á milli þess að drekka áfengi, stunda kynlíf og að sjá eftir því. Eftir að unglingar höfðu stundað kynlíf undir áhrifum áfengis töluðu þau um eftirsjá sem fylgdi því vegna þess að þau voru viss um að sú kynhegðun hefði ekki átt sér stað ef þau hefðu ekki drukkið áfengi. Einnig kom í ljós að unglingar undir áhrifum áfengis skynja minni áhættu sem kemur fram í hegðun þeirra, eins og að ganga einn heim síðla kvölds eða nota ekki getnaðarvarnir.

Unglingar sem eru undir áhrifum áfengis eru mun líklegri til þess að stunda óvarið kynlíf sem getur haft slæmar afleiðingar í för með sér. Kynsjúkdómar eru orðnir mun algengari í dag en var hér áður fyrr og einnig hefur fóstureyðingum hjá ungum stúlkum fjölgað mikið. Það er því miður sjaldgæft að unglingspiltar noti getnaðarvarnir eins og smokkinn og gera þeir oft bara ráð fyrir því að stelpan sé á getnaðarvörn eins og t.d. pillunni. Mörgum unglingum finnst vandræðalegt að fara út í búð að kaupa getnaðarvarnir og eiga oft ekki pening fyrir þeim og þora kannski ekki að biðja foreldra sína um pening fyrir þeim. Með því að hafa smokka ókeypis gætu kynsjúkdómasmit minnkað og einnig gæti það komið í veg fyrir þungun.

Klamydíusmit eru algengust á aldrinum 14-26 ára sem segir okkur að unglingar eru í þeim áhættuhópi. Klamydía er ein algengasta ástæða ófrjósemi kvenna þar sem hún veldur bólgu í eggjaleiðurum, og því er nauðsynlegt að fræða unglinga um kynlíf og hvaða áhrif það getur haft í för með sér.

Þegar ég var unglingur voru margir í árgangnum mínum farnir að stunda óábyrgt kynlíf og tel ég að ástæðan fyrir því hafi verið áfengisneysla þeirra sem ýtti undir það. Ég tók líka eftir því að þeir einstaklingar sem stunduðu óábyrgt kynlíf hvað mest áttu foreldra sem höfðu lítil afskipti af þeim og held ég að það spili mikið inn í. Áfengisneysla er mismunandi milli hópa og árganga en t.d. í mínum árgangi var það mjög eðlilegur hlutur hjá flestum að hafa neytt áfengis, prófað að reykja og að stunda kynlíf á aldrinum 14-16 ára. Í sumum hverfum var það mun sjaldgæfara og hafði meirihlutinn þar ekki prófað að neyta áfengis né stunda kynlíf á sama aldri. Þetta gæti stafað af hópþrýstingi en í mínum árgangi voru ákveðnir aðilar farnir að drekka og stunda kynlíf snemma á unglingsárunum og það mætti segja að það hafi smitað út frá sér til annarra í árgangnum.

Það sem ég tel að hægt væri að gera til þess að breyta þessum viðhorfum unglinga er fyrst og fremst að hafa betri fræðslu í grunnskólum og held ég að flestir geti verið sammála um að hún er alltof lítil í nútíma samfélagi. Það væri hægt að fá fagaðila til að koma og vera með fjölbreytta fræðslu þar sem talað væri bæði um jákvæðar og neikvæðar hliðar kynlífs. Einnig væri hægt að fá einstaklinga sem að unglingarnir líta jafnvel upp til, til að koma og vera með fræðslu og segja frá reynslusögum. Með því að hafa fræðsluna fjölbreytta eru mun meiri líkur á því að unglingarnir sýni henni áhuga og væri gott ef að kennarinn fengi að vera með í fræðslunni þannig að krakkarnir hefðu möguleika á því að leita til hans ef að einhverjar spurningar myndu vakna eftir á. Að mínu mati er þetta mikilvægt umræðuefni og ætti ekki að vera neitt feimnismál.

Bryndís Þórólfsdóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ.

 

Heimildaskrá

Coleman, L. M. og Cater, S. M. (2005). A qualitative study of the realationship between alcohol consumption and risky sex in adolescents. Archives of Sexual Behavior, 34, 649-661.