Vil ég vera fyrirmynd?

Ef einhver hefði spurt mig sjálfa fyrir 10 árum hvort að ég héldi að ég gæti orðið fyrirmynd fyrir aðra hefði svarið verið nei. Ég var þessi stelpa sem var mjög feimin en aftur á mót mjög virk. Ég var hluti af vinahóp sem voru svona ,,the cool kids” ef við slettum aðeins en ég var svo aftarlega í fæðukeðjunni hjá þeim að ég hékk inn í hópunum því að besta vinkona mín þá var í hópnum. Mig langaði alltaf að vera vinsæl og vera með í öllu en það var ekkert þannig, ég var með en var samt svo ósýnileg.

Í dag er ég opin, ófeimin og er mjög sýnileg í leik og starfi. Ég hef unnið með unglingum í gegnum félagsmiðstöð í rúm sex ár og hef fengið tækifæri til að kynnast frábærum einstaklingum, myndað vináttu og verið til staðar fyrir þá sem þurfa. Ég gerði mér ekki grein fyrir því strax að ég skipti þessa krakka miklu máli, ég leit bara á þessa vinnu eins og venjulega vinnu, mætti geri það sem ég þurfti að gera og fór svo heim. Ég bý í litlum bæ úti á landi þar sem samskipti eru mikil og fólk hittist reglulega, ég var farin að taka vinnuna með mér heim því jú ég varð nú að svara krökkunum ef þau væru með einhverjar spurningar. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég var orðin einhverskonar fyrirmynd fyrir þessum krökkum. Það tók mig svolítinn tíma að átta mig á því og þá fór ég nú aðeins að aðlaga mig að hlutverkinu. Ég er komin í hlutverk sem ég er mjög stolt af hafa fengið. Þó svo ég sé 34 ára og það séu krakkar á aldrinum 13 ára og upp úr sem líta upp til mín finnst mér það ákveðið afrek í lífinu. Að vita það að þú skiptir máli er besta tilfinning sem þú getur upplifað og að hjálpa öðrum að upplifa það sama og þú er frábært verkefni.

Svarið við spurningunni í dag er já. Ég vil geta skipt máli og hjálpað öðrum og það er undir mér komið hvernig ég ætla að nota þetta hlutverk á góðan hátt. Ég er að hitta krakka sem eru orðnir 20 ára í dag og hafa unnið með mér og þau koma til mín og þakka mér fyrir að vera ég og vera til staðar.

Takk fyrir þetta frábæra hlutverk og ég ætla mér að vinna með það eins lengi og ég get.

—-

Halldóra Kristín Unnarsdóttir, nemi á 2. ári  í tómstunda- og félagsmálafræði