Tómstundir háðar fjárhag

Margir krakkar vilja stunda tómstundir og flest allir foreldrar vilja að börnin sín stundi tómstundir af einhverju tagi. En því miður eru dæmi um það í þjóðfélaginu í dag að það er ekki möguleiki fyrir barn að stunda einhverja tómstund eða þurfa aðvelja sér bara eina tómstund til þess að iðka. Fjölskyldur sem eru stórar eða með nokkur börn hafa margar hverjar ekki efni á að senda öll börnin sín í tómstundir eða geta bara leyft þeim að velja eina tómstund til þess að iðka. En afhverju ? Svarið er að þær eru svo dýrar.

Að hafa barn í tómstundum er dýrt.  Foreldrar eða forráðamenn fá frístundarstyrk í flestum bæjarfélögum á bilinu 30 – 40 þús. en það er því miður stundum ekki nóg. Einnig er oft boðið upp á systkinaafslátt og er það kærkominn afsláttur fyrir margar fjölskyldur til að nýta sér. Einnig bjóða mörg félög og skólar sem bjóða upp á skipulagt tómstundarstarf  að hægt sé að skipta niður heildargreiðslunni á mánuði bæði fyrir og eftir frístundarstyrkinn og er það einnig það sem að margir nýta sér.

Að hafa barn í einni tómstund kostar frá 40 – 110 þúsund. Svo kemur yfirleitt auka kostnaður eins og fyrir mót, keppnisferðir, æfingargalla og til að mynda hljóðfæri ef barnið er að læra á slíkt. Allt þetta er auka kostnaður sem er ekki ódýr. Til dæmis eru æfingargallar á börn og unglinga í dag að kosta frá 10 – 20 þúsund. Ekki er ég með töluna á hvað hljóðfæri er að kosta í dag en get alveg trúað að það sé ekki ódýrt.

Nú hafa rannsóknir sýnt fram á að skipulagt tómstundarstarf er mikilvægt upp á þroska, félagsfærni, vellíðan og sjálfstyrkingu barna og unglinga og veitir gildi.

Núna veit ég um fimm manna fjölskyldu sem er að flytja til landsins aftur eftir langa dvöl erlendis. Þau fóru út til þess að mennta sig meira og til að afla sér meiri tekna hérna á klakanum eftir námið sitt erlendis.  En þegar þau eru búin að reikna gróflega saman hvað kostar að lifa hér eru þau að sjá fram á að elsta barnið fari bara í eina tómstund þó að það iðki tvær tómstundir erlendis.

Enn hvers vegna eru tómstundir svona dýrar fyrst að rannsóknir hafa sýnt fram á þessar jákvæðu niðurstöður? Er þetta ekki það sem við viljum öll að börn upplifi og öðlist?

Ég geri mér grein fyrir því að það er dýrt að reka félag eins og knattspyrnufélag og tónlistarskóla og þess háttar. Það þarf að borga mörgum laun og auðvitað eiga þau rétt á því eftir sitt nám til þess að geta kennt með skipulögðum hætti börnunum okkar tómstundir. Einmitt það sem við viljum,  faglærða í starfinu með börnunum okkar. En það sem ég er að hugsa er, hvers vegna eru tómstundir ekki niðurgreiddar meira af mörgum sveitarfélögum?

Að reka fjölskyldu í dag kostar mikinn pening og að mörgu er að huga. Væntanlega hefur það alltaf verið dýrt og alltaf að mörgu að huga og líklega er ég ekki sú fyrsta sem er að spá í þessu málefni og verð líklega ekki sú síðasta.

En mikið myndi ég vilja að við byggjum í þannig þjóðfélagi og að allir gæti stundað tómstundir við sitt hæfi og styrkt sína styrkleika, óháð fjárhagslegri stöðu fjölskyldunnar.

Edda Björt Edvinsdóttir