Samfélagsmiðlar og snjalltæki að taka yfir?

Að mínu mati eru unglingar í dag minna úti heldur en hér áður fyrr eða eins og ég upplifi það þá eru krakkar og unglingar meira inni að „hanga“ í tölvunni og símanum. Samfélagsmiðlar eru hægt og rólega að taka yfir líf ungra einstaklinga. Sumir segja meira að segja að það sé nú þegar orðið þannig að samfélagsmiðlar hafa tekið yfir lífið hjá mörgum ef ekki flestum unglingum.

En hvað væri þá hægt að gera fyrir þessa unglinga eða hvað geta þau gert er spurning sem margir hafa ef til vill spurt sig. Sú spurning brennur helst á vörum á sumrin þegar unglingavinnan klárast. Vinna sem þau fá í nokkra tíma á dag í aðeins nokkrar vikur af sumrinu. Hvað eiga unglingarnir að gera við allan þann frítíma sem þau þá hafa yfir sumarið?

Hér koma nokkrar lausnir sem gætu hent þér eða ef þú ert foreldi þá gæti eitthvað af eftirfarandi hentað unglingnum þínu.

  1. Útivera. Ég sjálf hef nýtt mér útiveru og náttúruna til þess að minnka samfélagsmiðlanotkun og svokallaðan skjátíma. Útivera hefur virkilega góð áhrif á alla til að ná aðeins að komast í núið og að vera í núinu. Komast út úr þeim ham sem hversdagsleikinn er.
  2. Yndislestur. Lesa bók eða hlusta á bók getur gefið manni svo mikið. Það að setjast bara einn með sjálfum sér með eitt stykki bók og lesa, leyfa sér að gleymda sér í bókinni. Yndislestur er vanmetin tómstund sem ég tel að þurfi að auka meira í nútímanum. Það hefur verið ákveðin aukning á lestri á bókum eða réttara sagt hlustun á bókum með nýjum forritum í snjalltækjum eins og Storytel. Storytel er forrit sem er með allar helstu bækur teknar upp og þú getur hlustað á þær hvar sem er og hvenær sem er.
  3. Ný áhugamál. Sama á hvaða aldri þú ert er alltaf hægt að finna sér ný áhugamál eða taka upp gömul áhugamál og þar má nefna ýmislegt sem ég gæti stungið upp á.
    • Bakstur, eldamennska, þrifaður, líkamsrækt eða hreyfing.
    • Fyrir foreldra væri hægt að skoða hvað væri í boði í nágrenninu og í því bæjarfélagi sem þið búið í.
  1. Sjálfboðastarf. Það er alltaf hægt að skrá sig í sjálfboðastarf og taka þátt í því, hvort sem það sé á vegum Rauða krossins eða skátastarfsins eða jafnvel bara bjóða þig fram til þess að hjálpa til heima svo eitthvað sé nefnt.
  2. Kynnast nýju fólki. Kíktu út og reyndu að kynnast eitthverjum nýjum.
    – Fyrir foreldra. Fáðu þau til að kíkja út og mögulega kíkja í félagsmiðstöðina.
  3. Líttu inn á við. Reyndu á þína innri föndur hæfileika svo sem teikna, mála eða þess háttar og prófaðu þig áfram.
    Fyrir foreldra. Leyfðu þeim að prófa sig áfram og hjálpaðu þeim með því að sýna þeim hvað hægt sé að gera.
  4. Skáldskapur. Prófaðu að taka blað og penna og skrifa sögu, ljóð eða lag. Hver veit nema þú búir yfir þeim hæfileika að geta skrifað gott lag sem gæti mögulega verið það flott að það kæmist í útvarpið einn daginn.
    Fyrir foreldra. Ýttu undir að þau prófi sig áfram og jafnvel sýna þeim hvað hægt er að gera með nýrri tækni.
  5. Fáðu þér gæludýr. Til dæmis hund og farðu í göngutúr með hann, kenndu honum ný trix, sem dæmi að setjast og sækja. Ef þú átt ekki hund farðu þá í göngutúr með nágrannahundinn eða hundinn hjá frænda eða frænku.
    – Fyrir foreldra. Ef keyptur er hundur þarf að kenna unglingum að sjá um hundinn. Virkja unglinginn með í að taka þátt í uppeldi á hundinum.
  6. Vertu meira með fjölskyldunni þinni. Farðu með ömmu þinni í búð eða kíktu í heimsókn til frænku og frænda.
    – Fyrir foreldra. Eyddu meiri tíma með unglingnum þínum, geriði eitthvað saman sem fjölskylda.

Þetta er aðeins brot af því sem hægt væri að gera fyrir unglingana. Með smá hjálp væri hægt að minnka samfélagsmiðlanotkun og fá unglingana til að eyða minni tíma inni í tölvunni.

María Lilja Fossdal

 

 

 

 

Geta stjórnvöld opnað augun?

Ég flokka mig sem fagmann í frítímaþjónustu. Reynsla mín hefur kennt mér að staðan getur verið gríðarlega erfið og krefjandi. Unglingarnir leita til okkar sem trúnaðarmanna og jafnvel sem vina til að hjálpa þeim að vísa veginn fyrir framtíðina. Þessi vettvangur skapar tækifæri fyrir einstaklinga, þar sem á að vera fullt aðgengi fyrir alla. Þegar litið er á starfsemi félagsmiðstöðva er mikilvægi starfsmannsins gríðarleg. Starfsmaður starfar sem fyrirmynd, sinnir mismunandi hlutverkum í lífi barna og unglinga. Hann er félagi, ráðgjafi og fræðari. Starfsmaður þarf að þekkja hlutverk sitt, virða trúnað og hafi ástríðu fyrir starfinu sínu. Starfsmaður þarf að vera góður leiðbeinandi og nýta og ígrunda sína reynslu, þekkja sín mörk og hafa góða samskiptatækni.

Eins og við erum alltaf að komast meira og meira að, er frítíminn hjá unglingum og börnum í dag er mikill, sérstaklega fyrir þá sem stunda ekki skipulagt íþróttastarf. Þær athafnir sem eiga sér stað í frítíma einstaklings má flokka sem tómstundir. En mikilvægt er að athöfnin feli í sér vellíðan og aukin lífsgæði. Með auknum frítíma barna og unglinga koma nýjar kröfur til félagsmiðstöðva sem ýtir undir það að fagfólk á vettvangi þurfi að leggja meiri áherslu á faglegu hliðar starfsins.

Samt sem áður er lítil sem enginn lagalegur rammi fyrir starf félagsmiðstöðva. Frá sjötta áratugnum þá hafa kröfur um fagmennsku aukist að einhverju leyti. Hérlendis hljóðar það svo að lögbundið frístundastarf nær til níu ára aldurs. Lagalegur rammi félagsmiðstöðva er því enginn en það myndi auka gæði starfsins til muna.  Núverandi reglugerðir skilgreina ekki félagsmiðstöðvar sem lögbundna grunnþjónustu. Þetta setur okkur sem starfsstétt í óörugga stöðu þar sem fáar eða engar starfslýsingar eru til staðar fyrir starfsfólk og stjórnendur félagsmiðstöðva. Lagalegur rammi tryggir einnig sveitafélögum fagleg viðmið og mögulega hindrar þetta misræmi á milli sveitafélaga.

Ef að sveitarfélög neyðast til þess að setja upp sínar reglur, markmið og áætlanargerðir í kringum félagsmiðstöðvar, mun stéttarskipting innan þessa viðkvæma kerfis myndast sem er nú þekkt að einhverju leiti í dag. Þetta er eitthvað sem við ættum að forðast því eins og áður kom fram ætti þetta að vera grunnþjónusta og það sama í boði fyrir alla landsmenn. Félagsmiðstöðvastarf hjálpar unglingum að mótast sem einstaklingar og verða að góðum samfélagsþegnum, eflir lýðræðishugsun og borgaravitund. Hvers vegna meta stjórnvöld þetta þá nánast einskis?

Siðareglur Félags fagfólks í frítímaþjónustu og tilmæli Samfés eru frábær leiðarbók fyrir starfsmenn en engu að síður vantar lagalegan ramma um starfið. Við verðum að halda betur utan um unga fólkið okkar, og tel ég félagsmiðstöðvar og ungmennahús vera mjög góðan vettvang til þess. Í Finnlandi nær lögbundin grunnþjónusta frístunda upp í 29 ára aldurs. Ættu ekki svipuð lög að gilda hérlendis? Ég held ég að það séu ekki óraunhæft markmið enda lítum við til Finna sem fyrirmynda með allt sem viðkemur menntamálum almennt.

Vilborg Harðardóttir

 

 

Þekkja unglingar mikilvægi tómstunda?

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort unglingar viti afhverju þeir stunda tómstundir. Hvað er það sem er svona mikilvægt við þær? Ég nýti mér oft tækifærið og spyr þá unglinga sem ég þekki til hvers þau stundi tómstundir og hvað þær gefi þeim. Oftar en ekki vita unglingarnir ekkert hverju þeir eiga að svara. Þó svo það séu til ótal margar skilgreiningar á því hvað tómstundir eru og ekki séu allir fræðimenn sammála hvernig best sé að skilgreina það, þá ættu allir að þekkja orðið og geta útskýrt í stuttu máli um hvað það nokkurn veginn snýst.

Það er löngu orðið tímabært að innleiða tómstundamenntun í skólakerfi landsins. Tómstundamenntun er vitundavakning á því hversu mikilvægar tómstundir og frítíminn eru.

Með því að koma tómstundamenntun inn í skólakerfið eykur það skilning unglinga á tómstundum og mikilvægi þeirra sem þau geta tekið mér sér út í lífið. Það er mikilvægt fyrir unglinga að vera meðvitaðir um hvaða áhrif tómstundir geta haft á líf þeirra, hvort þeirra tómstundir hafi neikvæð eða jákvæð áhrif á þeirra vellíðan, hamingju og lífsgæði. Neikvæðar tómstundir eru þær sem geta verið skaðlegar fyrir velferð einstaklinga eins og misnotkun áfengis eða eiturlyfja. Jákvæðar tómstundir eru síðan þær sem auka vellíðan, eru uppbyggjandi og eru nýttar til að bæta lífsgæði, þær tómstundir sem fela í sér líkamlega, félagslega, vitsmunalega eða tilfinningalega þætti.

Unglingsárin eru tími sem einstaklingar eiga það til að leiðast út í áhættuhegðun og finnst mér því unglingsárin kjörinn tími til þess að kynna þeim fyrir tómstundamenntun og geta þá t.d. leitt unglinga að réttri braut áður en þau komast útaf sporinu eða að koma í veg fyrir önnur frítímatengd vandamál og leiða.

Tómstundamenntun hefur þann tilgang að þjálfa og mennta einstaklinga í að iðka tómstundir í frítíma sínum og fá sem flesta til þess að stunda jákvæðar tómstundir sem hafa jákvæð áhrif á frítíma þeirra. Tómstundamenntun fyrir unglinga aðstoðar þau við það að auka eigin lífsgæði með þátttöku í tómstundum. Með tómstundamenntun kynnast unglingar þeirri færni og fá þá þekkingu og tæki til þess að geta nýtt sinn frítíma á uppbyggilegan hátt.

Nú er ég utan af landi, frá litlum bæ á Vestfjörðum og heyri oft talað um það hvað það sé ekkert að gera þar. Í öllum tilfellum kemur það frá unglingum eða ungmennum. Það kemur mér alls ekki á óvart að það sé byrjað að kvarta um þetta á unglingsárunum þar sem unglingar eru ef til vill að vaxa upp úr áhugamálum sem þau voru vön að eiga og enda þau því síðan oft á því að hanga og gera ekki neitt.

Ef til vill getur það verið erfitt að finna sér ný áhugamál eða einfaldlega eitthvað til þess að gera í frítíma sínum. Væri það jafn erfitt ef unglingar myndu læra um tómstundir og frítímann í skólanum? Gæti það komið í veg fyrir áhættuhegðun, frítímatengd vandamál eða leiða? Jafnvel minnkað síma og tölvunotkun?

Elín Ólöf Sveinsdóttir

 

Heimildir

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun, 23(1). 91-97. Sótt

af https://timarit.is/page/6009537#page/n89/mode/2up

 

 

Er íslenskan orðin tískuslys?

Við lifum á öld þar sem tækninni fleygir áfram og sífellt fleiri nýjungar koma fram sem allir verða að eignast. Flestir horfa á sjónvarpið, símann eða tölvuna á hverjum degi. Ungmenni nota styttingar á orðum eða ensku slettur sem að eldra fólkið skilur ekki og eldra fólkið notar íslensk orð sem að unga fólkið skilur ekki. Það er undantekningarlaust að maður heyrir í ömmum og öfum eða frænkum og frændum að ungmenni í dag kunni ekki að tala íslensku. Því miður hef ég, manneskja á þrítugs aldri, oft fengið að heyra þessa setningu og það sem meira er „ af hverju talarðu ekki bara íslensku?“ eða „ hvað er íslenska orðið fyrir þetta orð?“. En hvað ef kæri lesandi að ég myndi segja þér að ungmenni sem að tala fallega og flotta íslensku verða fyrir aðkasti að hálfu samnemanda sinna í grunnskólum í dag. Lesa meira “Er íslenskan orðin tískuslys?”

Áhrif snjalltækja og orkudrykkja á svefn ungmenna

Er svefn vanmetinn? Er hann kannski ofmetinn? Hvað er það sem hefur áhrif á svefn ungmenna? Talað er um að íslenskir unglingar eigi að sofa að meðaltali um 8-10 klukkustundir á sólahring en samkvæmt rannsókn sem gerð var hér á landi að þá eru þau einungis að sofa að meðaltali um 6 klukkustundir á sólarhring. Ástæða þess er meðal annars neysla orkudrykkja sem getur leitt til svefntruflana ásamt öðrum kvillum svo sem hjartsláttatruflana, kvíða og líðan þeirra. Unglingar eru mun viðkvæmari fyrir koffíni heldur en fullorðið fólk og er því mikilvægt að við sem foreldrar sem og aðrir nákomnir séum á varðbergi. Samkvæmt annarri rannsókn sem gerð var hér á landi sýndu niðurstöður að þeir unglingar sem sofa 7 klukkustundir eða minna á sólahring drekka fjóra orkudrykki eða meira á dag og að lítill svefn er stór áhættuþáttur á meðal þeirra hvað varðar andlega vanlíðan. Fjóra orkudrykki… á dag! Ég fer í hjartastopp einungis við tilhugsunina.

En hvað er það sem hefur áhrif á að unglingar drekka orkudrykki yfir höfuð? Með komu snjalltækjanna urðu snjallforritin sí fleiri og sí vinsælli. Sem dæmi má nefna Instagram og Snapchat sem við köllum í dag samfélagsmiðla. Á þessum samfélagsmiðlum deila notendur myndum og myndböndum ásamt því að fylgjast með hvað aðrir notendur eru að deila. Á þessum vettvangi eru mörg ef ekki flest ungmenni sem eiga snjalltæki og fylgjast þau með mörgum svokölluðum áhrifavöldum. Áhrifavaldar sjást oft á tíðum vera að miðla upplýsingum um ákveðnar vörur til notenda. Oft á tíðum eru þau að dásama ýmsar vörur sem gætu verið gagnlegar og áhugaverðar. Það sem er þó hvað vinsælast eru orkudrykkir sem margir áhrifavaldar sjá um að auglýsa og mæla með… sem fellur að sjálfsögðu strax í kramið hjá ungmennum alveg eins og eitthvað krem sem þau mældu með í gær. Og svo þegar von er á nýju bragði að þá er spennan gífurleg og biðin endalaus. Unglingar eru oftast ekki komin með fullþroskaðan heila til þess að átta sig almennilega á réttu og röngu hvað þetta varðar og því auðvelt að verða fyrir þessum áhrifum. Ég er 28 ára og verð ennþá auðveldlega fyrir áhrifum áhrifavalda…

Við vitum það flest sjálf að þegar verið er að auglýsa eitthvað og mælt er með því að þá erum við líkleg til að kanna það nánar og sýna því meiri áhuga heldur ef um enga auglýsingu væri að ræða. Áhrifavaldar eru einnig með ýmsa leiki í gangi og oft á tíðum er verið að gefa ekki einungis 1-2 orkudrykki heldur nokkra kassa af þeim og eru þátttakendurnir oftar en ekki unglingar og því mun líklegra að einhver unglingur taki „vinninginn“ frekar en aðrir einstaklingar.

Rannsóknir sýna að samfélagsmiðlar eiga einnig stóran þátt í svefnörðuleikum ungmenna ásamt líðan þeirra og sjálfsmynd. Snjallsíminn er oftast ómissandi hjá einstaklingum og er því með í för hvert sem hann fer allan sólarhringinn. Hægt er að stilla tækin þannig það sé kveikt á tilkynningum fyrir hvern miðil fyrir sig og er þá heldur ólíklegt að missa af einhverju sem má alls ekki bíða. Það þykir því líklegt að snjalltæki þeirra sé „bípandi“ allan sólahringinn og kemur því ekki á óvart að það hafi áhrif á svefn ungmenna (og háða einstaklinga) sem geyma jafnvel símann sinn undir koddanum og vakna svo á nóttunni við hverja tilkynningu sem truflar nánast allan svefninn og því erfiðara að fara í svokallaðan djúpasvefn.

Ef við sláum inn leitarorð á google um eitthvað sem tengist svefni fáum við upp meðal annars ýmsar rannsóknir, lokaverkefni, staðhæfingar fréttamiðla svo eitthvað sé nefnt um mikilvægi svefns og á þetta við bæði á íslensku og ensku.. sennilega öllum öðrum tungumálum líka án þess þó að staðhæfa vegna kunnáttu minnar í þeim tungumálum. Ég tel að rannsóknir af þessu tagi séu sennilega fleiri í dag en áður fyrr meðal annars vegna komu snjalltækjanna, samfélagsmiðlanna og orkudrykkjanna. Slíkar rannsóknir og niðurstöður finnst mér alltaf jafn áhugavert að skoða og því tilvalið að rýna í þetta efni með mín orð.

Zohara Kristín Guðleifardóttir

Tengslaröskun – lítil sem engin þekking

Ég vinn með börnum og ungmennum með margþættan vanda, greiningarnar sem við vinnum með eru margar og fjölbreyttar og hver annarri áhugaverðari. Sú greining sem mér hefur alltaf þótt mjög áhugaverð er sérstök greining sem heitir tengslaröskun (e. attachment disorder). Tengslaröskun er flókin og hefur hingað til verið erfitt að greina hana, en aftur á móti er greiningin frekar ný og má því áætla að þekkingin sé ekki mikil vegna þess. Mig langar að stikla á stóru í þessari grein um það sem mér finnst mikilvægt að vita um tengslaröskun og þar að leiðandi af hverju það er mikilvægt að þekkingin sé til staðar hjá t.d. stofnunum eins og heilsugæslum, skólum og félagsþjónustum. Lesa meira “Tengslaröskun – lítil sem engin þekking”