Í nútímasamfélagi sem okkar er mikið lagt uppúr því að börnum og unglingum gangi vel í námi en einnig að þau æfi íþróttir eða stundi einhvers konar tómstundir. Þessu fylgir oft mikil pressa og spenna sem stundum getur haft veruleg áhrif á einstaklinga sem eru að fóta sig í samfélaginu. Ungmennin í dag tala oft um það hvað mikið er lagt á þau og hversu mikið er ætlast til af þeim og þeim finnst þau oft vera bara einhverjir aular ef þau geta ekki staðist þær kröfur sem samfélagið setur þeim.
Að sjálfsögðu vilja foreldrar að börnum sínum gangi vel í lífinu en það sem ég velti fyrir mér hérna er af hverju er verið að setja svona mikla pressu á þau? Hérna áður fyrr þá var nú ekki mikið um að börn og unglingar stunduðu íþróttir heldur þótti frekar almennt að þau stunduðu vinnu og færu út á vinnumarkaðinn mjög snemma en heimanámið og skólanámið yfir höfuð var kannski ekki eins mikið og það er núna. Við sjáum hvernig fyrri kynslóð hefur staðið sig þrátt fyrir þær aðstæður. Við getum ekki ætlast til þess að allir verði lögfræðingar og læknar eða sálfræðingar. Unglingar verða að fá að verja sínu eigin lífi á þann hátt sem þau vilja og stjórna því hvernig þau vilja hafa hlutina, en auðvitað er gott að leiðbeina þeim í rétta átt.
Þegar kemur að kröfum um heimanám hjá ungmennum þá oft á tíðum er það svo erfitt að unglingarnir hafa ekki tök á því að læra heima einfaldlega því þau eiga erfitt með að skilja námsefnið. Það spilar einnig stóran sess í því hvort foreldrar geta hjálpað þeim við það eða ekki, hvernig þeim gengur að sinna þeim sjálf.
Ég velti því oft fyrir mér af hverju unglingar eigi að taka heimavinnuna með sér heim þegar við fullorðna fólkið á vinnumarkaðinum reynum að forðast það sjálf. Flestir unglingar eru í skólanum nær allan daginn og stunda síðan einhverjar tómstundir eftir skóla og koma oft ekki heim fyrr en um kvöldmat og þá eiga þau eftir að læra. Það er oft engin frítími fyrir ungmenni í dag þar sem þau geta aðeins tekið því rólega og hugsað um það hvað þau vilja gera og hvernig þau vilja nýta þann frítíma sem þau hafa.
Einnig er mjög mikilvægt að börn og ungmenni eiga góðar samverustundir með fjölskyldum sínum án þess að sá tími fari í einhver leiðindi útaf heimanámi sem börnin eða ungmennin hafa ekki verið að sinna nógu vel einfaldlega því þau hafa ekki tíma eða orku í það. Heimanámi fylgir oft mikill kvíði sérstaklega hjá börnum og ungmennum sem eiga erfitt með nám og fá kannski litla hjálp heima fyrir. Huga þarf að þessum krökkum og huga þarf að heilsu þeirra. Að setja of miklar kröfur á unglinga, bæði almennt og í skólanum, getur haft þær afleiðingar að ungmennin flosni uppúr skóla og fari að sýna áhættuhegðun. Oft á tíðum eiga þessir einstaklingar lítið sem ekkert sjálfstraust af því að þeim hefur gengið svo illa að koma hlutunum í rétt horf og standast þær kröfur sem allir setja þeim.
Mikilvægt er að hafa námið spennandi sem gæti aukið líkurnar á því að nemendur haldi áfram í framhaldsnámi. Að sjálfsögðu er heimanám líka jákvætt þar sem nemendur læra að bera ábyrgð á sínu eigin námi en heimanámið verður líka að vera þannig sett upp að nemendur ráði við það sem þeim er sett fyrir.
—
Margrét Jóhanna Guðjónsdóttir, nemandi í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ