2017 árgerðin af unglingi

Unglingsárin hafa lengi verið þekkt sem erfiðasta tímabil einstaklings. Unglingurinn finnur að hann er að verða sjálfstæður einstaklingur, vill finna sjálfan sig og prófa sig áfram í lífinu. Á þessum tímamótum, þar sem hann er hvorki barn né fullorðinn, þá stendur hann oft á krossgötum. Með tilkomu sterkra eigin skoðana á þessum aldri þá vill unglingurinn oft ekki lúta öllu því sem fullorðna fólkið segir en á sama tíma veit unglingurinn oft ekki í hvorn fótinn er best að stíga. Sjálfstæðið rís í unglingnum og hann hafnar þá oft leiðsögn, þó hann þarfnist hennar.  Svo það er skiljanlegt að unglingsárin séu talið erfiðasta tímabil hvers einstaklings.

Með vaxandi notkunar internetsins og sívaxandi notkunar á samfélagsmiðlum þá hafa unglingar safnast saman á ákveðnum síðum, stundum í þúsunda tali. Þar ræða þau daginn og veginn og jafnvel nota þessar síður til að opna huga sinn og hjarta til að leita stuðnings. Þessar síður geta reynst ungling, sem reynir að finna sig í lífinu, virkilega hættulegar. Með aukinni notkun internetsins hefur neteinelti verið mjög áberandi hjá notendum. Ekki bara hjá unglingum heldur hjá fullorðnu fólki líka. Fólk á öllum aldri hefur svo sannarlega látið allt vaða í kommentakerfum. Fólki finnst það vera orðið svo eðlilegt að segja hvað sem er á internetinu og margir hafa algjörlega misst tilfinninguna fyrir öllu því sem þeir skrifa á internetið þegar kemur að því að segja neikvæða hluti í garð annara. Fólk skrifar oft ljót orð og ýtir á enter og heldur áfram með líf sitt. Á meðan er sá sem situr undir gagngrýninni jafnvel að brotna niður hægt og rólega. Fórnarlambið gleymir síður þeim skrifum sem ætluð voru honum.

Þegar þessi grein er skrifuð eru 33.847 meðlimir skráðir inn á facebook-síðuna Beauty Tips! og daglega koma þar inn skrif eftir unglinga sem eru að reyna að finna sig. Þar biðja unglingar ýmist um ráð eða nota þennan vettvang til að tjá sig um málefni sem hvíla þungt á þeim. Það sem gerir þessa tilteknu síðu, sem og svo margar aðrar, sérstaklega hættulegar eru allir sjálfmenntuðu sérfræðingarnir. Þessir sérfræðingar eru margir hverjir á grunnskóla-og framhaldsskólaaldri. Þeir gefa þessum krökkum læknisráð, kynlífsráð og margt fleira. Án þess að vita nokkuð um aðstæður einstaklings eða bakgrunn.

Vegna þessa getur nútíma unglingur verið í mun meiri hættu þegar hann lendir á krossgötum. Hann upplifir ekki lengur bara þrýsting frá fjölskyldu og vinum heldur er heill heimur á internetinu sem segir honum daglega hvernig hann eigi að haga sér, klæða sig og bera sig. Ef hann gerir einhverja vitleysu reynir fjölskyldan að hlúa að honum og hjálpa honum aftur á rétta braut. Á síðum þar sem eru yfir 33.000 notendur er sagan þó önnur og mistökin fá að lifa mun lengur.

Unglingar í dag fá ekki að gera mistök án þess að fá að heyra af því í einhvern tíma. Unglingar, jafnt og fullorðnir, eru margir hverjir mjög grimmir og margir hafa ekki öðlast þroska til að setja sig í spor annarra og geta verið algjörlega miskunnarlausir hvað varðar skoðanir og tilfinningar annarra.

Mér finnst það vera skylda foreldra og forráðamanna að fræða börn sín og unglinga um internetið. Internetið er annar heimur sem er partur af okkar heimi. Það sem fer á internetið verður sjaldan hægt að taka til baka. Foreldrar og forráðamenn verða því að taka höndum saman og ræða þessi málefni við börn sín og halda styrkum böndum við börn sín svo þau finni alltaf að þau geti leitað til þeirra í öruggu skjóli. Það þarf að fræða þau um hættur internetsins og fylgjast með notkun þeirra.

Síðast en ekki síst þurfa þau að muna að þau eru fyrirmyndir og það sem þau skrifa sjálf á netið eru skrif sem börn þeirra komast auðveldlega í og jafnvel fylgja eftir.

Karlotta Helgadóttir