Það er líf eftir skóla

Kvöld eitt sat ég heima hjá mér líkt og önnur kvöld að læra, úr herbergi unglingsdóttur minnar sem nú senn lýkur 10. bekk bárust fagrir gítartónar þar sem hún var að æfa sig undir gítartíma.  Skyndilega þagna þessir tónar og hurðinni er hrundið upp og andlit birtist í gættinni  sem tilkynnti mér að þetta væri síðasti veturinn í gítar því hún ætlaði að hætta eftir þennan vetur,  ástæðan jú hún hefði svo mikið að gera í heimalærdómnum núna og það myndi ekki breytast þegar framhaldskólinn tæki við í haust.

Ég varð mjög hugsi yfir orðum unglingsins á heimilinu sem stundar ekkert annað en gítartíma utan skóla og fer ekki einu sinni í félagsmiðstöðina á kvöldin til að hitta jafnaldra. Að hún skuli ekki  hafa tíma til að stunda sitt eina tómstundastarf. Hvernig eru málum þá háttað með þau börn sem eru í öllu og þurfa að hafa nóg að gera. Geta þau stundað sitt tómstundastarf og náð að sinna heimalærdómnum svo vel sé  eða eru unglingar orðnir þrælar menntakerfisins 24 klst sólarhringsins  og sú staðreyndir sem blasir fyrir dóttur minni sé í raun sú staðreyndir sem unglingarnir í landinu þurfa að horfast í augu við.

Æ oftar heyri ég t.d að erfiðlega gengur að fá unglingana til að starfa fyrir skátahreyfinguna, taka að sér aðstoðarforingjahlutverk með okkur fullorðna fólkinu og vera okkur til aðstoðar og læra jafnvel eitthvað af okkur líka en svörin eru yfirleitt á sama veg, það er svo mikið að gera í skólanum að ég get það ekki eða jafnvel er það þannig að þau byrja full að tilhlökkunar en þurfa að játa sig sigruð á miðri leið. Okkur sem eldri erum þykir það mjög leitt og þeim enn frekar að geta ekki staðið við sitt sem í upphafi var lagt upp með.

Stefnan í grunnskólanum sem ég vinn í var þennan vetur að afnema heimalærdóm nemenda skólans með breyttri heimanámsstefnu sem fæli í sér að  afnema heimalærdóme eða  minnka hann um helling og halda jafnvel bara  inni heimalestrinum.  Ástæðan væri sú að vinnutíma barnanna væri lokið um leið og skóla sleppir.  Við sem værum á vinnumarkaðnum værum ekki alltaf hamingjusöm ef við værum látin vinna alltaf eftirvinnu í lok okkar vinnudags og jafnvel þurfa að taka með okkur heim. Hvort þessi stefna grunnskólans sé að skila tilætluðum árangri og hvort fylgni sé með því að tómstundastarf og annað frístundastarf sé stundað að meira kappi  ef  unglingarnir hafi meiri tíma til þess skal ósagt.

Sagan sem ég byrjaði þessa greinaskrif mín á er sönn og blákaldur sannleikur, við erum venjuleg íslensk kjarnafjölskylda sem saman stendur af tveimur fullorðnum og tveimur börnum á grunnskólaaldri og ef það flokkast undir að hafa hund sem part af kjarnafjölskyldulífnu þá er hann svo sannanleg til staðar.  Hvernig er málum háttað annarstaðar hjá svo nefndum kjarnafjölskyldum annarstaðar á landinu? Nú geri ég ráð fyrir að mín fjölskylda sé ekki eitthvað frábrugðin öðrum.  Er ég því hugsi yfir stöðu unglinga okkar í þessu samfélagi, unglinganna sem jafnvel dæmdir eru til að taka heimavinnuna með sér heim ólíkt okkur sem fullorðin erum á kostnað frítíma þeirra og tækifæra til að stunda sitt tómstundastarf og eiga líf eftir að skóla lýkur á daginn.

Fanný Björk Ástráðsdóttir,

nemandi í tómstunda og félagsmálafræði við HÍ, móðir og skáti

Heimanám sem yfirtekur frítíma

Fyrir nokkrum árum var ég sem skátaforingi að leita að verkefnum til að gera með skátunum. Þemað í verkefninu var réttindi barna svo ég skoðaði vefsíðu umboðsmanns barna í leit að einhverjum skemmtilegum upplýsingum. Ég tók eftir að á síðunni er dálkur sem er tileinkaður börnum og unglingum og þar inni er sérstök spurt og svarað síða. Þegar ég renndi yfir spurningarnar sá ég spurningu frá 14 ára stúlku. ,,Hvað á maður að gera ef allur bekkurinn finnst að það sé of mikill lærdómur í skólanum og eftir skóla þarf maður að læra meira og maður vill minna heimanám”? Ég hneykslaðist yfir þessarri spurningu því stelpan var í grunnskóla og þar var sko ekkert heimanám miðað við menntaskóla. Ég hugsaði: „Bíddu bara þar til þú kemur í menntaskóla, þar er nefnilega svo miklu meira heimanám úr miklu þyngra efni“. Lesa meira “Heimanám sem yfirtekur frítíma”

Krafa samfélagsins til ungmenna

Í nútímasamfélagi sem okkar er mikið lagt uppúr því að börnum og unglingum gangi vel í námi en einnig að þau æfi íþróttir eða stundi einhvers konar tómstundir. Þessu fylgir oft mikil pressa og spenna sem stundum getur haft veruleg áhrif á einstaklinga sem eru að fóta sig í samfélaginu. Ungmennin í dag tala oft um það hvað mikið er lagt á þau og hversu mikið er ætlast til af þeim og þeim finnst þau oft vera bara einhverjir aular ef þau geta ekki staðist þær kröfur sem samfélagið setur þeim. Lesa meira “Krafa samfélagsins til ungmenna”