Forvarnir

Börn og unglingar er sá hópur sem eru í mestri hættu á að byrja að drekka því flest allir eldri eru búnir að móta sér stefnu hvort þeir muni drekka eða ekki. Hvernig getum við sem samfélag reynt að koma í veg fyrir að unglingar verði fyrir áhrifum samfélagsins um áfengisneyslu? Eins og staðan er núna eru áfengisauglýsingar bannaðar sem gerir það að verkum að börn og unglingar finna ekki jafn mikið fyrir þrýstingi um að byrja að drekka. Sú frábæra hugmynd sem var framkvæmd hér að hafa vínbúð þar sem aðeins er selt áfengi er frábær og góð forvörn. Freistingin sem felst í því að hafa áfengi í búðum og sýnilegra en það er núna er mjög neikvæð þróun. Fólk á að hafa aðgang að áfengi en það þarf að taka umræðuna um alvarleika þess að hafa áfengi á fleiri stöðum en það er á nú. Það er góð forvörn að selja áfengi í sérstökum áfengisbúðum með starfsfólki sem er duglegt að skoða skilríki og leggur mikinn metnað í að meina fólki að kaupa áfengi ef það hefur ekki aldur til.

En það þarf meira til. Það á að ræða um skaðsemi áfengis og það þarf að koma í veg fyrir að börnum og unglingum finnist spennandi að drekka áfengi. Eins og staðan er í dag þá er fólk mikið að ræða áfengi og hvort það eigi að fara í matvörubúðir eða hvað annað á að gera við áfengi. Nú er staðan samt þannig að fólk vill hafa betra aðgengi að áfengi en hver er það sem tapar á því? Hvað gerist ef við vöndum okkur ekki nóg og okkur tekst ekki að koma í veg fyrir að áfengi fari í hendur þeirra sem hafa ekki aldur til.

Það þarf að tryggja að fræðsla og forvarnir verði í fyrsta sæti. Hvað þurfum við að gera? Ef það verður samþykkt að áfengi fari í búðir þá þurfum við að leggja meiri peninga í forvarnarmál. Félagsmiðstöðvar, íþróttastarf og annað æskulýðsstarf þarf að efla og hafa alla aðila með í þeim málum. Það þarf að leggja meira í forvarnir ef aðgengi að áfengi verður aukið.

Það er mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir að unglingar byrji að drekka og reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji að drekka fyrr en það má drekka samkvæmt landslögum. Skipulagt æskulýðsstarf getur haft góð áhrif á unglinga og þeir unglingar sem eru í skipulögðu æskulýðsstarfi eru ólíklegri til að byrja að drekka ungir.

Æskulýðsstarf er lykill að góðu forvarnarstarfi, við þurfum að efla það og gefa því meira vægi. Forvarnir verða að vera góðar og umræðan um áfengisneyslu og skaðsemi hennar á unglinga og fólk almennt verður að vera á allra vörum en samt má umræðan ekki verða þannig að áfengisneysla verði tabú því það er engin lausn að fela allt sem ekki telst vera norm. Hjálpum fólki að átta sig á hinum gullna meðalvegi og hjálpum unglingum að sleppa við þá pressu sem virðist vera um að byrja að drekka.

Ágúst Arnar Þráinsson, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði