Unglingsárin … tíminn sem maður vaknaði eldsnemma í skólann eftir að hafa vakað allt of lengi kvöldið áður. Ég held að margir tengi unglingsárin sín við slíkar minningar, en þá spyr ég hvers vegna er skólatími barna og ungmenna sá sami? Ef maður virkilega veit eitthvað um þroska ungmenna þá meikar það eiginlega ekki sens. Margar rannsóknir í gegnum tíðina hafa skoðað svefnvenjur ungmenna. Þar hefur meðal annars komið í ljós að ungmenni fara allt of seint að sofa, og þá sérstaklega vegna skjánotkunar í nútímasamfélagi. Líkams- og heilaþroski á unglingsárunum virka eftir allt öðrum lögmálum en á öðrum tímabilum lífsins. Þau breytast í hálfgerðar næturuglur þar sem þau sofa, borða og sinna ýmsum athöfnum á allt annan hátt og á öðrum tíma en bæði börn og fullorðnir. Til hvers byrjar hefðbundinn skólatími hjá ungmennum þá klukkan 8:10 í flestum skólum?
Mörg ungmenni hanga í símanum að tala við jafningja, skrolla og horfa jafnvel á Netflix langt fram yfirmiðnætti. Þetta er ekki alfarið þeim, samfélagsmiðlum eða sjónvarpsþáttum að kenna, nei þetta er vegna þess að miklar líkamsbreytingar eru í gangi og heilinn stoppar ekki og biður um hvíld á sama tíma og hjá börnum og fullorðnum. Ég man eftir umræðu í samfélaginu fyrir nokkrum árum, en þá tóku sig nokkrir skólar saman og færðu mætingu ungmenna til klukkan 9:00. Þetta var gert til þess að mæta þeim, þroska og svefnvenjum þeirra. Mér persónulega finnst þetta góð byrjun, en hins vegar væri ég til í að sjá skóla ganga aðeins lengra og færa mætingu til klukkan 10:00.
Ef við hugsum aðeins um það þá er frekar galið að vera láta ungmenni vakna eldsnemma á morgnanna, eftir að hafa sofið jafnvel minna en 5 klukkutíma, til þess að setjast á skólabekk og fara reikna stærðfræði eða læra íslensku. Það er lítið sem ekkert sem sogast inn í heila sem er agndofa af þreytu. Margir fara heim og leggja sig eftir skóla eða jafnvel í frímínútum, ég man allavega að ég gerði það.
Við vitum flest að þrátt fyrir að slökkva á netinu á heimilinu eða vera með boð og bönn virkar það takmarkað þegar svefnvenjur ungmenna eiga við. Ef skólamæting væri frekar klukkan 10:00 myndi það gefa ungmennum nokkrar klukkustundir til viðbótar í svefn og þar að leiðandi myndi kennsla og námið komast betur til skila. Jú eða við gætum haft þetta bara svona eins og þetta er núna, þar sem ungmenni koma inn um dyrnar eins og hálfgerðir uppvakningar og leggja sig á borðum eða í sófum á öllum tímum dagsins.
Hvað finnst þér rökrétt?
—
Þórey Aðalsteinsdóttir, nemandi í uppeldis- og menntunarfræði