Unglingsárin … tíminn sem maður vaknaði eldsnemma í skólann eftir að hafa vakað allt of lengi kvöldið áður. Ég held að margir tengi unglingsárin sín við slíkar minningar, en þá spyr ég hvers vegna er skólatími barna og ungmenna sá sami? Ef maður virkilega veit eitthvað um þroska ungmenna þá meikar það eiginlega ekki sens. Margar rannsóknir í gegnum tíðina hafa skoðað svefnvenjur ungmenna. Þar hefur meðal annars komið í ljós að ungmenni fara allt of seint að sofa, og þá sérstaklega vegna skjánotkunar í nútímasamfélagi. Líkams- og heilaþroski á unglingsárunum virka eftir allt öðrum lögmálum en á öðrum tímabilum lífsins. Þau breytast í hálfgerðar næturuglur þar sem þau sofa, borða og sinna ýmsum athöfnum á allt annan hátt og á öðrum tíma en bæði börn og fullorðnir. Til hvers byrjar hefðbundinn skólatími hjá ungmennum þá klukkan 8:10 í flestum skólum?