„Þegar ég var á þínum aldri …“

ivar orri kristjansÉg, sem starfsmaður í félagsmiðstöð, fæ oft á tíðum að vita hvað er í gangi í lífi unglinga. Oft í gegnum létt spjall yfir borðtennisleik, spil eða annarri afþreyingu. Ég dáist af mörgum þeirra. Þéttsetin dagskrá allan daginn, allt á fullu í íþróttum, tónlist, leiklist, skátastarfi, námskeiðum og auðvitað í skólanum. Þetta er eins og erfitt púsluspil hjá mörgum þeirra.

En ég stend mig stundum að því að í miðju spjalli sé ég mig færan um að henda í „þegar ég var á þínum aldri…“ línuna. Til þess að koma því á framfæri hvernig lífið var þegar ég var á þeirra aldri. Hvernig ég tókst á við hlutina og komst af á unglingsárunum. Allt svo sem gott og blessað með það, en oftar en ekki er það vegna þess að ég kann ekki við margt sem unglingarnir eru að gera og langar að þau breyti til hjá sér. Ég fékk sömu meðferð hjá þeim sem eldri voru á mínum unglingsárum, markmið þeirra var væntanlega nákvæmlega það sama. Þeim líkaði ekki við einhverjar breytingar sem fylgdu unglingamenningunni og vildu sjá aðra þróun í þeirri menningu.

Kynslóðirnar sem að á undan komu halda því nefnilega alltaf fram að æskan sé að fara til fjandans og unglingar séu algerlega búnir að missa það nú til dags. Allt sem þau gerðu á sínum yngri árum hafi nú verið þó nokkuð betra en það sem unglingar í dag fást við dags daglega. Í flestum þessara ráðlegginga kemur fram að útiveran hafi nú verið miklu meiri í þá tíð, þessi tæknivæðing sé af hinu versta og þar fram eftir götunum.  Það er ábyggilega gaman stöku sinnum fyrir ungling að heyra hvernig lífið gekk fyrir sig hér áður fyrr. Hvernig allt gekk upp án þess að fá tilkynningu um það á skjáinn á símanum sínum, án þess að fá mynd af öllu marktæku í lífi allra vina sinna og hvernig það var að þurfa að muna hvenær vinir manns áttu afmæli.

Við getum ábyggilega litið á alls kyns staðreyndir til þess að draga fram í því samhengi að allt hafi verið frábært þegar við vorum sjálf unglingar og langar að þau upplifi það sama og við. En þau geta aftur á móti gert það líka, þ.e.a.s. dregið fram fullt af staðreyndum sínu máli til stuðnings. Ég tel unglinga nefnilega vera vel þenkjandi og staðfasta í því að standa sig í þeim verkefnum sem þeir taka sér fyrir hendur.

Sá heimur sem þau búa við er þeim mjög spennandi, það er allt á fullu, þau eru að takast á við fullt af flottum hlutum í sínu lífi og stundum mis flottum meira segja, að  mati okkar sem eldri eru. En það er ekki okkar að dæma það þrátt fyrir að óttast kannski hvert þessi þróun er að fara. Við verðum í raun bara að læra inn á það hvernig þau takast á við lífið og aðstoða þau ef þau vantar aðstoð.

Ég hef hugsað þetta reglulega, ekkert endilega komist að neinni sérstakri niðurstöðu, en þrátt fyrir það komist að því að við vitum ekkert hvað kemur út úr þessari þróun meðal unglinganna. Við þurfum ekkert endilega að vita það, því þrátt fyrir það að æskan sé alltaf að fara til fjandans á hverjum tíma að þá skila unglingarnir sér ávallt nokkuð vel undirbúnir til leiks inn í samfélagið þegar fullorðinsárin taka við.

Ívar Orri Kristjánsson, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.