Hæfilegur tími til samveru – Hvernig er hann mældur?

eyglo sofusVið lestur á lokaverkefni Huldu Orradóttur um samverutíma unglinga og foreldra komst ég að mikilvægi samverustunda. Á unglingsárunum breytist margt í lífi unglinga, sjálfstæði unglingsins eflist og vinir fara að verða mikilvægir. Þó svo að þessar breytingar eigi sér stað er samband unglinga og foreldra mjög mikilvægt fyrir tilfinningalegt öryggi unglings. Það að foreldrar og unglingar verji tíma saman hefur áhrif á ýmsar ákvarðanir í lífi unglinga. Það eru margar rannsóknir sem sýna fram á mikilvægi þessa tíma. Samverustundir unglinga og foreldra hafa til dæmis jákvæð áhrif á þroska og heilbrigði unglinga. Þeir unglingar sem verja tíma með foreldrum sínum glíma síður við félagsleg og sálræn vandamál og það eru minni líkur á áhættuhegðun hjá þeim unglingum. Samverutíminn getur dregið úr eða jafnvel komið í veg fyrir þau áhrif sem vinir hafa á unglinga og getur þessi tími einnig dregið úr afbrotahegðun.  

En víkjum aftur að rannsókn Huldu.  Hún athugaði samræmi í svörum unglinga og mæðra um þann tíma sem þau vörðu saman. Það var margt áhugavert sem kom úr þeim niðurstöðum, misræmi í svörum unglinga og mæðra um samverustundir en það var eitt sem ég tók sérstaklega eftir. Flestir unglingar og meirihluti mæðra fannst þau verja hæfilegum tíma hvort með öðru. Því velti ég fyrir mér, hvað er hæfilegur tími að verja saman og hvernig er sá tími mældur? Er það einhver ákveðin tími per einstakling eða fer það eftir því hvernig þeim tíma sé varið? Fer klukkan af stað um leið og unglingurinn mætir heim? Ætli fjölskyldur með sameiginleg áhugamál eins og skíði eða fjallgöngur séu með besta samverutímann? Hér eru allir saman að gera eitthvað sem allir hafa gaman af og tíminn er vel nýttur? Eða nægir það að allir séu á sama stað, t.d í stofunni hver í sinni tölvu eða síma að gera sitt? Þarf að vera að gera eitthvað til þess að tíminn fari að tikka eða er nóg að vera saman?

Ætli þetta sé ekki eins og með svo margt annað.  Allt fer þetta eftir fjölskyldunni, foreldrum, unglingum, einstaklingnum, hvað hentar hverjum. Það er misjafnt hvað við þurfum mikla nánd til að tengjast og eiga góðar stundir saman. Ætli þetta sé ekki líka  innilegar ánægjustundir sem sumar eru langar, aðrar stuttar en skilja eitthvað eftir sig. Eitthvað sem er ekki hægt að mæla. Ætli það sé í raun hægt að mæla hve mikill hæfilegur tími sé eða ætli samband milli unglings og foreldra gefi ekki frekar til kynna þann tíma?

Þetta eru stórar spurningar sem ég get engan vegin svarað en það er gaman að velta þessu fyrir sér. Það eru eflaust margir sem átta sig ekki á mikilvægi samverustunda fjölskyldna og þá sérstaklega þegar á unglingsaldurinn er komið. Það er mikilvægt að gefa sér tíma til að verja tíma með fjölskyldunni og reyna að njóta hans. Ég á tvö ung börn, er í námi og vinnu. Mér finnst ég ekki verja nægilegum tíma með þeim. Ég vil gera betur og ætli þau verði ekki komin með leið á mér þegar að unglingsaldurinn knýr að dyrum.

Eygló Sófusdóttir,  nemi í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands