Íþróttaaðstaða ungs fólks

rakel guðmundsUpplifun úr eigin lífi er kveikjan að áhuga mínum á efninu. Ég kem úr litlu bæjarfélagi út á landi, nánar tiltekið Selfossi, þar sem aðstaða til íþróttaiðkunar var ekki góð, en nú í dag er íþróttaaðstaðan þar með þeim betri á landinu (Sveitafélagið Árborg, e.d.). Aðstaðan hefur farið batnandi, bæði vegna stækkunar á bæjarfélaginu og auknum áhuga á íþróttum. Á mínum yngri árum æfði ég bæði fótbolta og fimleika en flestir á mínum aldri voru í fleiri en einni íþrótt. Mikil aðsókn hefur verið í íþróttir á mínum heimaslóðum en með bættri aðstöðu jókst fjöldi þeirra sem stundaði íþróttir. Margir ferðast til dæmis yfir Hellisheiðina til þess að komast í betri aðstöðu í Reykjavík. Það er því mjög mikilvægt að það sé í boði íþróttaaðstaða, í öllum bæjarfélögum, sem nýtist öllum iðkendum sem hafa áhuga á þeim íþróttum sem eru í boði.  Betri aðstaða til íþróttaiðkunar getur aukið aðsókn sem skilar sér síðan til bæjarfélagsins.

Fólk úr minni bæjarfélögum hefur sótt í stærri bæjarfélög til þess að stunda íþróttir. Nær undantekningalaust er ástæðan fyrir því að fólk sækir í stærri bæjarfélög sú að þar er betri aðstaða. Það getur þó alltaf verið að sú aðstaða sé ekki nægilega góð, eins og best er á kosið. Ekki viljum við að keyra þurfi lengri leiðir með börn til þess að stunda íþróttir. Samkvæmt Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands eru íþróttir ein vinsælasta tómstundaiðkun barna á Íslandi, en um 12 ára aldur stunda rúmlega átta af hverjum tíu börnum íþróttir með íþróttafélagi. Margar ólíkar íþróttagreinar eru í boði og ættu öll börn að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, en það fer auðvitað eftir því hvar þú býrð og hversu mikið er í boði.

Einnig er mjög mikilvægt að aðstaða og aðgengi fyrir fatlaða einstaklinga, í íþróttahúsum, sundlaugum og öllum öðrum stöðum sem viðkemur íþróttum sé til fyrirmyndar. Við hönnun íþróttabygginga þarf að huga að aðstöðu íþróttaiðkenda jafn sem aðstöðu starfsfólks og áhorfenda. Taka verður mið að því að íþróttahjólastólar geta verið breiðari en venjulegir hjólastólar. Mikil áhersla hefur verið lögð á aðgengi fatlaðra að opinberum byggingum og húsum þar sem fram fer starfsemi ætluð almenningi. Við vitum vel að sumstaðar er aðgengi fyrir fatlaða mjög gott en sumstaðar er aðgengi mjög ábótavant.

Á Íþróttaþingi árið 2015 var endurskoðuð stefna í íþróttum barna og unglinga samþykkt. Mikil áhersla er lögð á að íþróttir eigi að vera fyrir alla, þær þurfi að vera skemmtilegar og að leikurinn skipi stóran sess. Barna- og unglingastefnunni til stuðnings hafa Íþróttaboðorðin 10 verið mörkuð.

Íþróttaboðorðin tíu
1. Íþróttir fyrir öll börn
2. Íþróttir byggi upp öfluga einstaklinga
3. Virðum skoðanir barna og unglinga
4. Fjölbreytt íþróttastarf
5. Þjálfun hæfi aldri og þroska
6. Íþróttakeppni með tilliti til aldurs og þroska
7. íþróttaaðstaða við hæfi
8. Fagmenntaðir þjálfarar
9. Stuðningur foreldra skiptir máli
10. Virðum störf dómara og starfsmanna

Ef litið er til dæmis nánar á boðorð 7, þá er mikilvægt að allir hafi aðgang að áhöldum og tækjum við hæfi, jafnt innan dyra sem utan. Íþróttir barna og unglinga eiga að vera á þeirra forsendum. Eru boltar og mörk af réttri stærð? Hefur leikvöllurinn verið aðlagaður að aldri krakkana? Eru æfinga- og keppnisvegalengdir við hæfi barna? Er fyllsta öryggist gætt? Krökkum þarf að finnast þau velkomin í íþrótta- og félagsaðstöðu íþróttafélaga, þar sé gert ráð fyrir að í þeim heyrist, að það sé líf í kringum þau og að þau njóti sín.

Hver veit nema við sem þjóð séum að missa af næsta Bjarna Friðrikssyni eða næstu Guðrúnu Arnardóttur eða Völu Flosadóttur þar sem að áhöldum og aðstöðu er víða ábótavant. Það er hins vegar alvarlegra að víða eru börn sem gætu verið að fara á mis við þá unun og ánægju sem íþróttir veita, eingöngu sökum þess að aðstaða er ófullnægjandi. Enn önnur börn og unglingar þurfa að verja heilu og hálfu dögunum í bíl til þess að komast í sína afþreyingu.

Líkt og áður hefur verið komið inn á er víða pottur brotinn. Það þýðir að sama skapi að tækifæri eru úti um allt til þess að gera betur. Nýir boltar eða áhöld geta oft reynst gulls ígildi og eru oftar en ekki á slíku verði að hópar eða félagasamtök gætu ráðið við verðið. Hvet ég því íþróttafélög og sveitarfélög til þess að bæta aðstöðu sína ef þess þarf svo að börn og unglingar sem hafa áhuga á íþróttaiðkun og langar til þess að stunda þá íþrótt sem er í boði í viðkomandi bæjarfélagi geti gert það með sóma og jafnvel skarað framúr í framtíðinni.

Rakel Guðmundsdóttir, fimleikaþjálfari og nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ

 

Heimildir

Sveitafélagið Árborg. (e.d.). Selfoss. Sótt af: http://www.arborg.is/upplysingar/frodleikur-um-arborg/selfoss/