Ungmennaþing í stað lokaðs ungmennaráðs

ungness logoFyrir fimm árum fórum við á Seltjarnarnesi af stað með eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í þegar við lögðum í það að stofna Ungmennaráð Seltjarnarness eða Ungness. Við nálguðumst verkefnið þannig að Ungness yrði skipað ungmennum sem væru 16 ára og eldri og var markmiðið sem við lögðum af stað með að ráðið yrði bænum til ráðgjafar á stjórnsýslustiginu ásamt því að halda viðburði og fræðslu fyrir ungmenni á menntaskólaaldri á Nesinu.

Við boðuðum nýútskrifuð ungmenni í félagsmiðstöðina og auglýstum kosningar í ráðið. Góð mæting var á þennan stofnfund en 19 ungmenni lögðu leið sína á fundinn og 12 gáfu kost á sér til setu í ráðinu. Haldnar voru framboðsræður og svo kosnir 7 fulltrúar ungmennana í Ungmennaráð Seltjarnarness. Veturinn fór vel af stað og héldum við úti opnun fyrir 16+ einu sinni í viku í félagsmiðstöðinni og var mætingin góð. Þegar líða fór á veturinn fór hópurinn þó að þynnast og hægt og rólega fóru ungmenni sem ekki voru í ráðinu að hætta að mæta.

Þetta fyrsta sumar tókum við þátt í ungmennaskiptum á vegum Evrópu unga fólksins með sænsku ungmennaráði frá Lundi. Þetta sænska ráð hafði verið starfandi frá aldamótum og voru með allt annan strúktúr á sínu ráði en við. Þar var ekki kosið í neitt ráð heldur var ráðið opið öllum sem vildu taka þátt og byggðist starfið upp á ungmennaþingum sem haldin eru fjórum sinnum á ári. Á þessi ungmennaþing eru öll ungmenni Lundar velkomin en í Lundi búa rúmlega 80.000 manns. Þingin eru alltaf með ákveðin þemu og eru fræðsla og umræður út frá þemanu. Á þinginu velja ungmennin sig svo í nefndir og vinna verkefni út frá sinni nefnd.

Eftir að hafa kynnst þessum sænska strúktúr og bera hann saman við okkar ákváð Ungmennaráð Seltjarnarness að breyta sínu fyrirkomulagi og heimfæra sænska stílinn á Seltjarnarnes þar sem búa rúmlega 4000 manns.

Ákveðið var að opna ungmennaráðið og í staðinn fyrir að hafa það lokað ráð með kjörnum fulltrúum, að gera það að opnu ráði þar sem öll ungmenni Seltjarnarness mættu taka þátt í verkefnunum og segja sína skoðun sem. Við tókum upp á því að halda fjögur Ungmennaþing á ári en á þau eru allir Seltirningar á aldrinum 16-25 ára boðaðir og þeir sem mæta á þingin eru með atkvæðis- og tillögurétt. Á þingunum er farið yfir verkefni síðastliðinna þriggja mánaða og næstu þrír skipulagðir. Stundum er skipulagt lengra fram í tímann en þetta er svona grunnstefið sem miðað er við.

Við það að opna ráðið og halda þessi fjögur þing sem virka eins og púlsinn í starfseminni jókst þátttaka til muna og verkefnin samhliða því. Á hverju þingi er ákveðið hvaða verkefni skal ráðast í og skipaðir eru verkefnastjórar eða nefndir fyrir hvert verkefni. Það má í raun segja að í staðinn fyrir að hafa eitt ráð sem hefur yfirumsjón með öllum verkefnum er Ungmennaráðið orðið vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til að framkvæma verkefni og myndaðar eru minni nefndir fyrir hvert verkefni af þeim sem vilja koma að því verkefni. Við hugsum þetta sem hugarkort eða bubblukerfi eins og við höfum kallað það.

 

Ungness
Hluti af verkefnum Ungness. Verkefni fæðast út frá ráðinu og allir jafnir.

Eftir að við tókum upp á þessu kerfi hefur ungmennaráðið vaxið og dafnað, endurnýjun hefur verið góð á sama tíma og stofnmeðlimir taka enn þátt í starfinu. Það góða við þetta kerfi er það að þú þarft ekki að vera með í öllum verkefnum og þarft ekki að bjóða þig fram til að vera einn af sjö heldur geturðu valið þér verkefni sem þú hefur áhuga á. Þetta minnkar pressuna á krakkana sem margir hverjir hafa nóg á sinni könnu og þurfa þau ekki að vera all inn alltaf heldur kemur maður í manns stað.

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Tómstunda- og félagsmálafræðingur
Verkefnastjóri í Selinu og Skelinni

Sunneva úr ungmennaráði Samfés tekur sæti í stjórn samtakana

Á nýafstöðnum aðalfundi Samfés var samþykkt að meðlimir úr ungmennaráði Samfés geta tekið sæti í stjórn samtakana. Seinna á fundinum var Sunneva Halldórsdóttir 15 ára ungmennaráðsmeðlimur frá Dalvík kjörin í stjórn Samfés. 

Við spjölluðum við Sunnevu og spurðum hana hvers vegna hún taldi þetta skref mikilvægt.

 

Veitum ungmennum raunveruleg áhrif – lækkum kosningaaldur

árnigVeik rödd

Við sem höfum starfað að velferðaramálum barna og ungmenna  um langa hríð  höfum ekki farið varhluta af því hve börn og ungmenni eiga sér veika rödd í samfélaginu. Margt hefur áunnist en það er ennþá langt í land hvað varðar raunveruleg áhrif ungmenna, bæði í samfélaginu og í nærumhverfi sínu.  Á níunda áratug síðustu aldar innleiddu félagsmiðstöðvar hérlendis starfsaðferðir unglingalýðræðis sem tæki og lið í valdeflingu ungmenna. Aðferð sem byggir á lífsleikni og er menntandi í víðasta skilningi þess orðs. Starfsaðferðir unglingalýðræðis ganga út á það að efla getu einstaklings og/eða hópa til þess að vinna með öðrum á lýðræðislegum forsendum og að takast á við tilveruna í öllum hennar margbreytileika.  Ungmennin öðlast með virkni í starfinu aukna félagslega hæfni og þroska með sér jákvæða sjálfsmynd sem fæst með þátttöku í þeim fjölmörgum verkefnum og viðfangsefnum sem starfsemi félagsmiðstöðva inniheldur

Æskulýðslög

Þessi þróun hefur m.a leitt til þess að í æskulýðslögum (17.mars/2007/11.gr.) er ákvæði um heimild um stofnun ungmennaráða í sveitarfélögum en þar segir: „Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.“ Flest sveitarfélög hafa nýtt þetta heimildarákvæði en ekki öll. Í Hafnarfirði var ákveðið fyrir margt löngu að fulltrúi unglinga ætti sæti í Íþrótta- og tómstundanefnd bæjarins með áheyrnar- og tillögurétt  á sama hátt og fulltrúi íþróttahreyfingarinnar.

Ungmennaráð

Starfsemi ungmennaráða hafa víða um land gengið vel ekki síst hér í Hafnarfirði en hér var búið að koma á ungmennaráði löngu áður en ákvæði um slíkt kom í lög. Ungmennaráðið/in hér í bæ hafa ýmsu áorkað í gegnum árin.  Hinu er þó ekki að leyna að þegar að kemur að stóru málunum þá verður oft brestur á, ekki bara hér í firðinum heldur víðar þar sem ungmennaráð starfa. Það má velta fyrir sér hvers vegna ungmennaráð eru ekki höfð með í ráðum í stærri málum. Ég minnist mikils niðurskurðar til æskulýðsmála hér í bæ fyrir nokkrum árum. Á þeim tímapunkti sýndu hafnfirsk ungmenni sterka lýðræðisvitund, efndu til fjölmennrar mótmælagöngu og  sýndu hug sinn í verki.  Í þessu ljósi má velta fyrir sér hvers vegna er verið að tala um unglingalýðræði og til hvers er fyrirkomulag eins og Ungmennaráð  ef það hefur ekkert um brýn hagsmunamál ungs fólks að segja þegar virkilega á reynir? Mynd af brosandi stjórnmálamönnum og ungmennaráðum er vissulega hugguleg en hefur ekkert vægi umfram það ef starfsemi ráðanna fylgja ekki raunveruleg völd.

Lækkum kosningaaldur

Gæti verið að ungt fólk þ.e.a.s. þau sem ekki eru kjörgeng eigi sér í raun enga rödd eða málsvara í samfélaginu þegar að raunverulega blæs á móti?  Ég minnist þess fyrir allmörgum árum þegar að stjórnmálamenn fóru allt í einu að tala um framhaldsskólann sem var í velflestum tilfellum í beinu samhengi við lækkun kjörgengis í 18 ár. Getur verið að áherslur stjórnmálamanna miðist nær eingöngu við áhuga virkra atkvæða sbr. foreldramiðuð skólaumræða? Ég hef lengi verið talsmaður þess að lækka kjörgengi í 16 ára og jafnvel 15 ára aldur og með því gefa ungmennum raunhæfa möguleika á því að hafa áhrif á mótun samfélagsins, ekki síst nærsamfélagsins og á þau mál sem á þeim brennur. Unglingalýðræði í núverandi mynd virkar ekki þegar á móti blæs. Ég tel því einu raunhæfu leiðina að lækka kjörgengi og því fyrr því betra. Ég veit sem er að við slíkt myndu málefni unglinga ekki verða sú afgangsstærð í  þjóðfélaginu sem því miður oft vill verða. Það hefur ekkert samfélag efni á slíku fálæti og allra síst á tímum eins og þeim sem við lifum á.

Árni Guðmundsson M.Ed  félagsuppeldisfræðingur

Landsþing Ungmennahúsa – „Markmið Ungmennahúsa er að efla ungmenni og leyfa þeim að vinna að áhugamálum sínum”

landsþing ungmennahúsaDaganna 24. – 25. október fór fram Landsþing Ungmennahúsa sem haldið var á vegum Samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi (Samfés). Landsþingið fór fram í Hvíta húsinu sem er ungmennahús á Akranesi. Á Landsþingið voru mættir fulltrúar frá sjö ungmennahúsum víðs vegar af landinu. Dagskráin var fjölbreytt en auk almenns hópeflis til að kynna ungmennin hvert fyrir öðru var Sigga Dögg með kynlífsfræðslu og unnið var í smiðjuvinnu.

Ungmennahús eru ekki ný á nálinni hér á landi en sem dæmi má nefna að Hitt Húsið var stofnað sem eins konar ungmennahús árið 1991. Ungmennahúsin sem nú eru starfrækt hér á landi eru um 20 talsins en þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Ungmennahús eru þó oftar en ekki aðstaða fyrir ungmenni 16 ára og eldri til að stunda jákvæðar og uppbyggilegar tómstundir á sínum eigin forsendum. Starf ungmennahúsanna er afar mikilvægt þar sem lítið sem ekkert opið vímuefnalaust tómstundastarf er í boði fyrir þennan aldurshóp sem að hluta til er ekki orðinn lögráða og hefur einnig ekki aldur til að drekka áfengi.

Á Landsþinginu var haldinn stórfundur þar sem fulltrúum frá ólíkum ungmennahúsum var skipt upp í umræðuhópa sem fjölluðu um málefni ungmennahúsa. Eitt af því sem unga fólkið ræddi sín á milli var hvert markmiðið með ungmennahúsum væri í þeirra huga. Hér fyrir neðan verða taldir upp nokkrir þeir hlutir sem þau nefndu:

  • Staður til þess að hafa gaman
  • Staður til að hittast, kynnast öðru fólki og blanda geði
  • Staður til að leyfa ungmennum að koma hugmyndum sínum í framkvæmd
  • Staður til að efla ungmenni og leyfa þeim að vinna að áhugamálum sínum
  • Samastaður til að skapa heilbrigt umhverfi án vímuefna (forvarnarstarf)
  • Umhverfi fyrir krakka sem gætu verið útundan, þeir sem stunda kannski ekki íþróttir eða eru jafnvel ekki í skóla
  • Staður til að lífga upp á samfélagið

Að lokum vann unga fólkið saman að því að búa til samstarfsverkefni ungmennahúsa þar sem markmiðið væri að efla samstarf á milli ungmennahúsa og kynna ungmennahúsin fyrir ungu fólki út um allt land. Það verður því spennandi að sjá hvernig þetta frábæra starf ungmennahúsanna mun þróast á næstu mánuðum og árum.

Pókermót í félagsmiðstöð – Hvað gerir þú?

Við höfum ákveðið að setja inn nýtt siðferðislegt álitamál. Það barst okkur fyrirspurn um „no stakes“ pokermót í tómstundastarfi. Við hvetjum alla til að blanda sér í umræðuna og beita rökum með og á móti. Mikilvægt er að fólk sé opið og virði skoðanir annarra. Ef þið hafið siðferðislegt vandamál sem ykkur langar að ræða sendið það endilega á [email protected]. Það má vera raunverulegt úr starfinu ykkar eða aðstæður sem gætu hugsanlega komið upp.

poker

Vandamál:
Unglingaráðið þitt óskar eftir að halda “no-stakes” poker mót. (En fyrir þá sem ekki vita þá er ekki spilað upp á peninga í „no stakes“ pokermóti). Oftast er spilað uppá peninga þegar spilað er póker og margir hafa farið illa út úr því og jafnvel tapað öllu sínu. Póker er ein mest spilaða íþrótt á netinu skv. Wikipedia.
Hvað finnst þér um þér um að hafa “no-stakes”  pokermót í Félagsmiðstöðvum?

 

„Ekkó bjargaði unglingsárum mínum“ : viðhorf einstaklinga sem voru virkir í félagsmiðstöðinni Ekkó

Um verkefnið

Verkefni þetta er lokaritgerð til BA prófs í tómstunda- og félagsmálafræði. Leiðbeinandi verkefnsins er Árni Guðmundsson félagsmiðstöðvamógúll. Höfundar verkefnisins höfðu unnið saman í félagsmiðstöðvastarfi og voru einnig samferða í náminu. þeir luku námið í febrúar 2012. Þegar kom að því að ákveða viðfangsefni ritgerðarinnar vildum þeir báðir leggja lóð á vogaskálarnar og upplýsa fólk um mikilvægi félagsmiðstöðvastarfs og áhrif þess á einstaklinga í framhaldinu framkvæmadu þeir minniháttar rannsókn og athuga viðhorf einstaklinga sem voru virkir í félagsmiðstöðvastarfinu hér á árum áður.til félagsmiðstöðvarinnar.  

Útdráttur

Í þessari rannsóknarritgerð byrjum við á að fjalla stuttlega um unglingsárin og þau vandamál sem þeim fylgja. Því næst fjöllum við um tómstundir almennt og þrengjum rammann að félagsmiðstöðvastarfi. Félagsmiðstöðvastarf í Kópavogi er kynnt auk þess sem farið er í sögu og þróun félagsmiðstöðvarinnar Ekkó í Kópavogi. Hrafnhildur Ásbjörnsdóttir fyrrum forstöðumaður Ekkó til 19 ára gefur okkur sína sýn og skoðun á félagsmiðstöðvastarfi. Eigindleg rannsókn var framkvæmd þar sem viðmælendur voru 8 einstaklingar sem höfðu öll tekið virkan þátt í starfi Ekkó. Markmið rannsóknarinnar var að fá fram viðhorf þeirra til starfsins og hvaða þættir í starfinu mótuðu viðhorf þeirra. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að félagsmiðstöðin er mikilvægur staður til að eflast og þroskast félagslega. Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar getur skipað stóran sess í lífi unglingsins og getur haft gífurleg áhrif á hann. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að gefa starfsfólki í frítímaþjónustu hugmynd um hvað það er sem virkilega skiptir máli í frítímaþjónustu unglinga og hversu mikilvægt hlutverk þeirra er.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni

Um höfundana

1082717_10151772202789860_1648688873_nBjarki Sigurjónsson er fæddur árið 1988 og er uppalinn í Kópavogi. Hefur hann starfað á vettvangi frítíans frá árinu 2007. Hann hefur komið víða við hefur meðal annars unnið í Félagsmiðvunum Þebu, Fókus og Bústöðum og frístundaheimilinu Krakkakoti. Starfar hann núna sem frístundaleiðbeinandi í félagsmiðstöðinni Laugó. Síðasta vor lauk hann framhaldsprófi í raftónlist við tónlistarskólann í Kópavogi.

 

 

 

 

 

Snorri PállSnorri Páll er fæddur árið 1986 og er uppalinn Kópavogsbúi. Hann hefur stundað íþrótta- og tómstundastarf í Kópavogi frá blautu barnsbeini. hefur starfað í Kópavogsbæ um árabil og í félagsmiðstöðum Kópavogsbæjar frá árinu 2007. Starfar nú sem frístundastaleiðbeinandi í félagsmiðstöðinni Ekkó í Kópavogi.