Fyrir ekki svo löngu var ég stödd í Sundlaug Kópavogs. Í búningsklefanum var hópur af unglingstelpum, líklega í 8. bekk sem höfðu verið að klára skólasund. Þær voru að klæða sig og gera sig til á sama tíma svo ég komst ekki hjá því að heyra samtalið þeirra. Þær stóðu nokkrar við spegilinn og voru ýmist að greiða á sér hárið eða mála sig. Þær byrjuðu nokkrar að tala um húðina sína. Ein talaði um að hún væri með svo mikið af bólum að hún gæti ekki einu sinni talið þær allar. Önnur benti þá á bakið á sér og sagði að sú fyrri væri þó allaveganna ekki með svona ótrúlega mikið af bólum á bakinu. Lesa meira “„Ég hlakka svo til að verða ánægð með mig“”
Tag: Unglingar
Hafa íþróttir góð áhrif á líðan unglinga?
Unglingsárin eru mikilvægur tími í lífi hvers einstaklings og á þeim tíma skiptir máli fyrir félagsstöðu viðkomandi að tilheyra hópi. Á þessum árum er mikið að gerast hjá hverjum og einum bæði hvað varðar líkamlegan þroska og andlegan og því er gott að umgangast fólk sem hefur góð áhrif á líðan og þar sem einstaklingur getur verið hann sjálfur.
Mikil vitundavakning hefur orðið í samfélaginu hvað varðar heilbrigðan lífsstíl og er meirihluti unglinga í dag sem taka þátt í íþróttastarfi og/eða tómstundum af einhverju tagi. Unglingar eru orðnir mun upplýstari en áður um það hvað heilbrigður lífsstíll felur í sér en það er ekki einungis hreyfingin sem skiptir máli heldur einnig hollt og gott mataræði. Aðgengi að efni tengdu heilbrigðum matarvenjum er orðið mun aðgengilegra en áður og því auðveldara fyrir einstaklinga að afla sér upplýsinga. Lesa meira “Hafa íþróttir góð áhrif á líðan unglinga?”
Kyn- og klámfræðsla vikulegur þáttur í grunnskólum landsins
Þurfum við ekki að halda áfram að opna umræðuna um kynlíf við unglingana okkar? Kynlíf er eitthvað sem flestum unglingum langar sennilega að vita mikið um en hafa jafnvel ekki kjarkinn í að tala um. Mikið af unglingum þora ekki, finnst vandræðalegt eða vita einfaldlega ekki hvernig þeir eiga að byrja umræðuna um kynlíf. Þessi umræða á ekki að vera feimnismál heldur eiga krakkar að geta fræðst um kynlíf eins og allt annað.
Margar ranghugmyndir eru um kynlíf í nútímasamfélagi. Það er mjög auðvelt að fá þessar ranghugmyndir þar sem auðvelt er að nálgast klám, sem jú sýnir ekki réttu myndina á kynlífi. Klám getur verið mjög ofbeldisfullt, konurnar eiga aðeins að gera það sem karlarnir vilja og getur klámið orðið mjög gróft. Í klámi kemur líka mikið fram að konan fær fullnægingu fyrst og oft eftir mjög stuttan tíma, en í raun tekur þetta ekki alltaf svona stuttan tíma í raun og veru. Klámmyndband er svo oftast búið þegar karlinn er búinn að fá fullnægingu. Allskonar svona rangmyndir af kynlífi taka börn og unglingar til sín því þau fá ekki fræðslur eða umræður við aðila sem gætu frætt þau betur. Það þarf nefnilega ekki bara að fræða um kynlíf heldur þarf líka fræða krakkana um hvað klám er og hvað það er rangt á allan hátt. Þau verða að gera sér grein fyrir hvað felst í kynlífi og hvað felst í klámi.
Er það foreldranna að byrja þessar samræður við börnin sín? Vita foreldrar allt um kynlíf eða klám? Ég held ekki, rétt eins og þau eru ekki með öll svörin við náttúrufræði, stærðfræði og fleira. Að fá menntaða kynfræðinga inn í skólakerfið sem væru með fasta tíma í hverri viku myndi hjálpa unglingunum að dýpka skilning sinn á kynlífi og gera sér grein fyrir muninum á klámi og kynlífi. Það er mikilvægt að fá menntaða fagaðila sem eru búnir að öðlast reynslu að tala um kynlíf. Ég man sjálf þegar ég var í skóla og við fórum að tala um kynlíf, kennarinn gat ekki einu sinni sagt orðið píka heldur notaði alltaf formleg orð eins og kynfæri kvenna og karla. Kynfræðslan sem ég fékk var lítil sem engin og heyri ég mikið frá fólk á mínum aldri að þau hafi sömu upplifun á kynfræðslu í grunnskóla og ég. Þetta var meiri kynhræðsla en ekki kynfræðsla.
Persónulega finnst mér að það ætti að tala um kynlíf á nokkuð góðum jafningagrundvelli eins og t.d. Sigga Dögg kynfræðingur gerir. Hún er ekkert feimin að nota hin ýmsu orð þegar hún talar um kynlíf og ég held að það sé það sem lætur unglinga hlusta á hana því hún talar á jafningjagrundvelli.
Mikið er um fræðslu í félagsmiðstöðvunum og ungmennahúsunum sem er gott og blessað, en hverjir mæta? Það er alls ekki allir unglingar sem mæta og fræðast um þessi mál. Hvað með þá sem eru útundan og mæta aldrei í félagsmiðstöðvarnar? En langa samt jafnvel að fræðast um kynlíf. Eitt er víst að unglingar mæta í skólann þar sem það er skylda og er því nauðsýnlegt að koma kynfræðslu reglulega inn, helst vikulega.
—-
Klara Benjamínsdóttir – Nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ
Upplifa ungar stúlkur í fótbolta kynjamisrétti?
Árið 2000 var ég fótboltamamma stúlku sem æfði íþróttina ásamt vinkonum sínum í íþróttafélagi í Reykjavík. Þessar stelpur elskuðu að spila fótbolta, þær lögðu sig allar fram og æfðu mikið. Þjálfarinn þeirra lagði sitt af mörkum til að styðja stelpurnar, enda sá hann að áhuginn og dugnaðurinn var til staðar.
Allt var fyrir hendi nema aðstaða fyrir stelpurnar. Þarna var góður keppnisvöllur, æfingavöllur og aukavöllur en stundum var ekki pláss fyrir þær. Þegar þær mættu á æfingu þá voru strákarnir stundum fyrir á vellinum þar sem þær áttu að æfa og einu sinni enduðu þær á róló. Foreldrar og þjálfarar kvörtuðu ítrekað en allt kom fyrir ekki. Skýringin var aðstöðu- og plássleysi en strákarnir voru alltaf látnir ganga fyrir. Endirinn varð sá að stelpurnar hættu í fótboltanum og fóru að æfa handbolta sem var viðurkennd stelpuíþrótt en fótboltinn var álitinn jaðaríþrótt fyrir stelpur á þessum tíma.
Svo liðu árin og núna árið 2018 langaði mig til að athuga hvort að þetta væri ekki allt breytt enda eigum við glæsilegt landslið í kvennafótbolta jafnvel á heimsmælikvarða. Ég byrjaði á að skoða hvort að jafnréttisstefna væri fyrir hendi hjá helstu íþróttafélögunum í Reykjavík og sá að hún er til hjá flestum, ef ekki öllum.
Þá hafði ég samband við tvær íþróttamömmur fótboltastelpna á unglingsaldri sem æfa fótbolta í dag til að heyra hvað þær hefðu að segja. Önnur sagði að það væri svo augljóst misréttið á milli stráka og stelpna í fótbolta að stelpan hefði sjálf tekið eftir því þegar hún var í fimmta bekk og haft orð á því. Mamman sagði mér að í þessu íþróttafélagi þar sem dóttir hennar æfði kæmi misréttið fram í því að þær fengju ekki sömu þjálfun og strákarnir. Með þessu misrétti fengju þær þau skilaboð að það væri minna virði að vera stelpa en strákur þegar fólk æfði fótbolta.
Hin fótboltamamman kom með þær ábendingar að aðstöðuleysið væri frekar fyrir hendi hjá stelpunum en strákunum. Stelpurnar væru látnar gefa bestu vellina eftir til strákanna. Þetta koma alveg heim og saman við mína upplifun á árunum áður enda er þetta sama íþróttafélagið sem á þarna í hlut. Hún sagði jafnframt að þjálfararnir og þjálfunin væri í góðu lagi hjá stelpunum í þessu íþróttafélagi.
Í grein Guðmundar Sæmundssonar frá árinu 2012, Svo sæt og brosmild…. segir svo: „Sú mynd sem íþróttahreyfingar Vesturlanda hafa leitast við að draga upp af sjálfum sér er afar karllæg og gerir sjaldan ráð fyrir konum“(Guðmundur Sæmundsson, 2012).
Í samtali mínu við fótboltamömmurnar tókum við þetta atriði fyrir og töldu þær að þessi staðhæfing væri rétt og það tengdist því að það væru miklir peningar í karlafótbolanum. Þetta væri hrein hagsmunabarátta á milli kynjanna. Annað atriði bentu þær líka á og það er að það vantar konur í stjórnir og ráð íþróttahreyfinganna.
Þessi litla könnun mín gefur vísbendingu um að það sé enn kynjamisrétti í fótbolta sem ungu stúlkurnar upplifa, þrátt fyrir jafnréttisstefnu íþróttafélaganna.
Greinilega er mikil þörf á að kanna þetta mál nánar og gera alvöru rannsókn á þessu málefni. Síðan þarf að vinna markvisst út frá þeim niðurstöðum sem rannsóknin mun leiða í ljós, unga íþróttafólkinu okkar til hagsbóta um komandi framtíð.
—
Guðrún Barbara Tryggvadóttir
Heimild
Guðmundur Sæmundsson. (2012). Svo sæt og brosmild….: Umfjöllun í blöðum og tímaritum um íslenskar afreksíþróttakonur á alþjóðavettvangi. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http://netla.hi.is/greinar/2012/ryn/008.pdf
Kynfræðsla fyrir unglinga
Ég hef lítið verið að pæla í því hvernig kynfræðsla er í skólum landsins en ég átti spjall við systur mína sem er tiltölulega nýbúin með 10. bekk. Við ræddum aðeins um hvernig kynfræðslan var hjá henni og hvernig hún var frábrugðin minni. Eftir að hafa rætt saman í smá stund þá komst ég að því að kynfræðslan sem hún fékk og sú sem ég fékk fyrir 10 árum voru ekki jafn ólíkar og ég átti von á. Þegar ég fékk kynfræðslu sem unglingur þá var ekki mikið talað um hitt kynið. Bekknum var skipt í hópa, stelpur og strákar sem vissulega er gott til að byrja með. Strákarnir fengu fræðslu frá umsjónakennaranum og stelpurnar fengu fræðslu frá hjúkrunarfræðingi. Lesa meira “Kynfræðsla fyrir unglinga”
Hvernig geta fatlaðir nýtt frítímann sinn sem best?
Ég greindist með taugasjúkdóm þegar ég var einungis 8 mánaða og þekki þar með lítið annað heldur en að vera hreyfihamlaður. Eftir að ég byrjaði að læra Tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands þá hef ég velt mikið fyrir mér hversu mikilvægur frítími fyrir fatlaða einstaklinga er. Ég er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og ef ég á að vera hreinskilinn var voða lítið í boði fyrir mig í frítíma mínum sem barn og unglingur sem ég hafði áhuga á. Eins og svo margir fór ég í tónlistarskóla en náði aldrei að festa mig á einu hljóðfæri heldur var allaf að skipta og skipta. Flestir vinir mínir æfðu fótbolta og handbolta og ég reyndi eins og ég gat að vera með en að sjálfsögðu kom að því ég gat ekki stundað íþróttir út frá minni fötlun. Það eina sem stóð eftir fyrir mig var boccia og æfði ég það í nokkur ár með Íþróttafélaginu Ægi.
Ég hef mikið velt fyrir mér hversu mikilvægur frítími er fyrir fatlaða einstaklinga. Nú er ég alls ekki að alhæfa en það eru margir sem eru það mikið hamlaðir að úrval tómstunda minnkar gífurlega mikið fyrir þá einstaklinga. Þar sem það verður erfiðara fyrir ákveðna einstaklinga að taka þátt þá verðum við sem samfélag að vera tilbúinn til þess að hjálpa ákveðnum hópum, en þá er stóra spurningin hvað getum vð gert? Eftir að hafa setið áfangann Inngang að tómstundafræðum á mínu fyrsta ári í skólanum þá fékk ég mikinn áhuga á tómstundamenntun. Hvernig getum við kennt einstaklingum að nýta frítíma sinn á sem besta hátt?
Þegar við fengum það sem lokaverkefni í áfanganum að búa til tómstundamenntunarnámskeið þá fóru augu mín virkilega að opnast fyrir þessu. Við fengum það verkefni að búa til þetta tiltekna námskeið fyrir ákveðinn markhóp sem við vildum stuðla að. Það lá beinast við fyrir mig að gera það fyrir fatlaða þar sem ég var í nákvæmlega sömu sporum sjálfur. Ég hefði allavega haft gott af því sérstaklega á unglingsárunum að geta sótt slíkt námskeið. Ég vissi ekkert hvað var í boði og átti mjög auðvelt með að fara bara heim og vera í tölvunni á meðan vinir mínir voru úti að gera ýmislegt sem ég hafði ekki líkamlega heilsu í gera vegna fötlunar minnar. Þar með er mín skoðun að við þurfum að koma tómstundamenntunarkennslu inn sem allra fyrst, hvernig sem það verður gert. Ég er jafnvel á þeirri skoðun að það þyrfti að koma því inn í kennslu í grunnskólum. Þá er ég ekki að tala um sérstakt fag sem heitir Tómstundamenntun heldur að vera með það undir fagi eins og Lífsleikni. Við verðum að kunna að nýta frítíma okkar á sem bestan hátt því hann hefur verið að aukast gífurlega. Ef vitnað er í rannsókn Weiskopf frá 1982 þá miðar hann ævina svona út frá meðalævi sem var þá 70 ára:
- 27 ár í frítíma
- 24 árum í svefn
- 7,33 árum í vinnu
- 4,33 árum í formlega menntun
- 2,33 árum í borða
- 5 árum í annað
(Weiskopf, 1982)
Þetta sýnir nokkuð augljóslega að við verðum að nota frítíma okkar vel og kunna að nota hann í jákvæðar tómstundir. Miðað við að þetta sé meðalævi hjá venjulegri manneskju þá geri ég ráð fyrir því að frítími hjá fötluðum einstakling sé mun meiri þar sem það er oft erfiðara að fá vinnu og skapast þar með aukinn frítími heldur en hjá flestum.
—
Gunnar Karl Haraldsson, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði
Weiskopf, D. C. (1982). Recreation and leisure: Improving the quality of life (2. útgáfa). Boston: Allyn and Bacon.