Kynfræðsla fyrir unglinga

Ég hef lítið verið að pæla í því hvernig kynfræðsla er í skólum landsins en ég átti spjall við systur mína sem er tiltölulega nýbúin með 10. bekk. Við ræddum aðeins um hvernig kynfræðslan var hjá henni og hvernig hún var frábrugðin minni. Eftir að hafa rætt saman í smá stund þá komst ég að því að kynfræðslan sem hún fékk og sú sem ég fékk fyrir 10 árum voru ekki jafn ólíkar og ég átti von á. Þegar ég fékk kynfræðslu sem unglingur þá var ekki mikið talað um hitt kynið. Bekknum var skipt í hópa, stelpur og strákar sem vissulega er gott til að byrja með. Strákarnir fengu fræðslu frá umsjónakennaranum og stelpurnar fengu fræðslu frá hjúkrunarfræðingi.

Ekki man ég eftir að hafa fengið nokkurs konar fræðslu um kvenlíkamann aðeins hvernig líkaminn okkar strákana virkar og hvernig á að nota smokkinn. Systir mín talar um að hafa fengið fræðslu um kven- og karllíkamann en þó ekki mikla fræðslu um karlkynið. Einnig lærði hún um pilluna, lykkjuna, smokk og notkun þessara getnaðarvarna.  Þarna var mér því miður ljóst að kynfræðsla fyrir unglinga hafði ekki svo mikið breyst á 10 árum. Í lok 10. bekkjar var Sigga Dögg kynfræðingur fengin til að fræða alla útskriftarnemendur um kynlíf og fleira. Systir mín talaði um að þessi eina fræðsla hafi kennt henni meira en öll kynfræðsla grunnskólans samanlagt.

Er nóg að ræða við unglinga um líkamlegan hluta kynlífs, hvað með tilfinningarnar.

Ekki fyrir svo löngu fór ég á ráðstefnu þar sem Sigga Dögg kynfræðingur var að fræða fagfólk um hvernig best væri að tala við ungmenni um kynlíf. Hvað skal gera ef barn eða unglingur kemur til þín og spyr þig um eitthvað tengt kynlífi eða sambandi.  Ég fór að hugsa með mér afhverju það er verið að fræða fullorðið fólk um hvernig ætti að tala um kynlíf við unglinga. Þar sem við erum fullorðin ættum við þá ekki að vita hvernig á að tala um kynlíf og fræða ungt fólk? Ég er ekki viss um að fullorðið fólk sé tilbúið að ræða þessi málefni við unglinga. Þetta fékk mig til að hugsa um kynfræðsluna sem ég fékk frá foreldrum mínum en hún var ekki þessi “týpíska” spjall þar sem við settumst niður og töluðum um þetta. Kannski var það að þau vildu ekki pressa á mig að ræða þetta en ég gat samt alltaf farið til þeirra ef ég hafði einhverjar spurningar, þetta var aldrei neitt feimnismál fyrir þeim.

Ég er þeirra skoðunar að það sé nauðsynlegt að kynfræðsla í grunnskólum þurfi að breytast. Ég vil að það sé gert meira af þvi að fá kynfræðinga inní bekki hjá unglingum (Sigga Dögg). Þegar ég tala um fræðslan þurfi að breytast þá á ég við um að tala um meira en bara smokka og kynsjúkdóma, ég á við að það sé talað meira um hvað sé heilbrigt samband og að kynlíf sé ekki nr 1.2.3.

Gauti Erlingsson