Verum fyrirmyndir

Dóra Eggertsdóttir

Sú sem hér ritar hefur mikið verið að hugsa um kvíða barna og ungmenna undanfarið vegna BA ritgerða skrifa um kvíða barna. Við þekkjum örugglega öll tillfinninguna að upplifa kvíða af einhverju tagi eða við ákveðnar aðstæður. Margir eiga börn og ungmenni sem eiga við kvíðavandamál að stríða. Að vera ungmenni í dag getur ekki verið auðvelt.

Annars eru unglingsárin sjaldan auðveldur tími en með hröðum tækni- og samfélagsbreytingum getur undirritaður ímyndað sér að það sé ansi erfitt að standast ýmsar kröfur og væntingar sem unglingar standa frammi fyrir í nútímasamfélagi. Kvíði er hugtak sem  lýsir ótta, hræðslu og áhyggjum. Kvíði er eðlileg tilfinning sem getur verið bæði neikvæð og jákvæð. Þegar kvíði er jákvæður er það tilfinning sem er hluti af lífinu og getur bætt einbeitingu og frammistöðu. Þegar kvíði hefur heftandi áhrif á líf unglings og kallar á óeðlileg viðbrögð við aðstæður sem ættu ekki að kalla fram kvíða er það neikvæður kvíði sem er orðin að kvíðaröskun.

En hver getur verið ástæða þess að börn og unglingar eru kvíðnari í dag en áður fyrr?  Kannski er bara meira talað um það nú til dags og einstaklingar eru opnari. Margir þættir koma til greina sem orsakar kvíða og hafa rannsóknir sýnt að þessir þættir eru meðal annars: áhrif samfélagsmiðla, prófkvíði og fjárhagur foreldra. Kvíði ungmenna hefur aukist verulega og er talið að eitt af hverju tíu börnum þjáist af kvíða. Kvíði stúlkna hefur farið vaxandi síðan árið 2000 og er sérstaklega slæmur hjá stúlkum á aldrinum 13-15 ára.

Samfélagsmiðlar setja gríðarlega pressu og óraunhæfar kröfur á unglinga. Margir upplifa kvíða vegna samfélagsmiðla sem getur þróast yfir í kvíðaröskun sem er mun alvarlegri og þá upplifir einstaklingur mikla hræðslu og áhyggjur í aðstæðum sem ekki ættu að kalla á slík viðbrögð. Sumir geta ekki borðað kvöldmat eða sofið heila nótt án þess að kíkja í símann og fylgjast með hvað aðrir eru að gera. Með því fara einstaklingar ósjálfsrátt að bera sitt líf saman við glansmynd samfélagsmiðla og getur andleg líðan versnað við þann stanslausa samanburð. Sumir upplifa kvíða bara við þá hugsun að síminn gleymist eða sé batteríslaus og ekkert hleðslutæki til staðar. Hjá mörgum ungmennum skiptir mestu máli að fá sem flest like og ef það gerist ekki verður að eyða myndinni eða færslunni út vegna þess að það hefur áhrif á ímynd þeirra innan ákveðins samfélagsmiðils. Samfélagsmiðlar eru alls ekki bara slæmur vettvangur fyrir ungmenni og aðra einstaklinga. Samfélagsmiðlar geta haft jákvæð áhrif á samskipti við vini og ættingja, félagslegan stuðning og vettvangur þar sem hægt er að tjá skoðanir sínar. En því miður hafa samfélagsmiðlar líka neikvæðar afleiðingar á andlega líðan ungmenna. Sum ungmenni upplifa einangrun, kvíða og neteinelti.

En hvað getum við sem foreldrar, uppalendur og virkir þátttakendur í lífi ungmenna gert? Samfélagsmiðlar eru komnir til að vera og það þarf að aðlagast því. Mikilvægt er að ræða við börn og ungmenni um hvernig sé hægt að nota samfélagsmiðla á jákvæðan hátt. Það skiptir líka miklu máli að þau geri sér grein fyrir því að allt sem fer inn á þessa miðla eru þau búin að missa úr höndunum og er ekki eign þeirra lengur. Foreldrar þurfa að gera grein fyrir þeim hættum og neikvæðu afleiðingum sem samfélagsmiðlar hafa í för með sér og kenna ungmennum að bera virðingu fyrir öllum. Þó svo að manneskjan sjái þig ekki geta orð sært og haft alvarlegar afleiðingar fyrir báða aðila ef neteinelti á sér stað.

Foreldrar og aðrir uppalendur þurfa að vera vakandi, vera fyrirmyndir og upplýstir um líðan barna og unglinga. Mikilvægt er að þeir viti hvað ungmennin þeirra eru að skoða á netinu, hvaða forrit og leiki þau eru að nota og hverja þau eiga í samskiptum við. Ef tekið er eftir kvíðaeinkennum í sambandi við samfélagsmiðla og netnotkun eru mikilvægt að taka á því strax. Með því að taka strax á kvíðaeinkennum og hjálpa börnum og unglingum að takast á við hræðslu og ótta er hægt að koma í veg fyrir að kvíðinn verði alvarlegri og hafi heftandi áhrif á líf þeirra.  Börn og ungmenni sem nota samfélagsmiðla og netið þurfa að læra hvernig hægt er  að nota þessa miðla á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Þau þurfa að læra að bera virðingu fyrir hvert öðru, að orð og gjörðir geta sært og haft gríðarlegar afleiðingar.

Verum fyrirmyndir og sýnum ungmennum okkar gott fordæmi um hegðun á samfélagsmiðlum og netinu.

Dóra Eggertsdóttir

Sjálfsmynd unglingsstúlkna

Sjálfsmynd unglingsstúlkna er málefni sem hefur verið mér mjög ofarlega í huga. Þetta er nú ekkert nýtt málefni, en í dag eru samfélagsmiðlar farnir að hafa gífurleg áhrif á þessar ungu stúlkur sem eru enn að þroskast og móta sjálfsmynd sína fyrir komandi framtíð. Ég tala nú ekki um alla þessa óheilbrigðu sjálfsdýrkun og að stelpur í dag setja varla inn mynd á miðla sína án þess að breyta henni allsvakalega, minnka þetta, stækka hitt og nánast búa til einhverja manneskju sem er ekki til, gefa henni nýtt útlit. Ég er á því að ansi margar af þessum snapchat, instagram eða samfélagsmiðla stjörnum séu alls ekki góðar fyrirmyndir og sérstaklega hvað varðar útlit.

En er það eitthvað sem við getum gert í ? Getum við bannað þessum markhópi að fylgjast með þessum samfélagsmiðlum og ekki leyft þeim að fylgjast með fjölmiðlum og tískublöðum sem nánast sérhæfa sig í að segja hvernig við eigum að vera og hvernig við eigum ekki að vera? Það finnst mér ansi ólíkleg lausn á þessu vandamáli. Mér finnst sorglegt hvað þetta hefur mikil áhrif á alltof margar stúlkur, hvað þetta er farið að vera alltof algengt vandamál í samfélaginu okkar. Megum við ekki bara vera eins og við erum, þurfum við alltaf að vera að reyna að vera eins og einhver annar?

Auðvita er þetta vissulega erfiður aldur og er mjög mikilvægt á þessum árum að maður falli inn í hópinn og sé ekki öðruvísi. Stelpur hafa því mikið fyrir því að reyna að vera eins og þær vinsælu og einnig farnar að líta alltof mikið upp til samfélagsmiðlastjarnanna. Útlit virðist vera unglingum mjög svo ofarlega í huga og því er mikilvægt að fylgja þeim normum.

Sjálf hef ég oft orðið vitni af óöryggi meðal unglinngsstúlkna sem eru að setja út á hitt og þetta hjá sjálfri sér og óska þess að þær væru öðruvísi en þær eru. Alltaf að bera sig saman við einhverja aðra og halda að þeim líði betur ef þær væru öðruvísi. Oft vildi ég að ég gæti haft áhrif á þessar ungu stúlkur á unglingsárum og auðvitað reyni ég mitt allra besta til að láta þeim líða vel í eigin skinni og vera bara eins og þær eru. Því jú öll erum við einstök eins og við erum. Þetta er eflaust eitthvað sem flestar stelpur muna eftir á unglingsárunum að hafa upplifað og sett út á sjálfa sig útaf þessum miklu kröfum gagnvart útliti og eflaust margar óskað þess að hafa verið grennri, haft stærri brjóst, stærri rass, minni læri svo eitthvað sé nefnt.

Rannsóknir hafa sýnt að samskiptamiðlar séu að hafa verulega slæm áhrif á unglingsstúlkur og séu að ýta undir bæði kvíða og þunglyndiseinkenni. Einnig er öll þessi símanotkun, þar með talin samskiptamiðlanotkun, farin að hafa verulega slæm áhrif á svefn unglinga, þar sem allt of margir eru gjörsamlega orðnir háðir símunum sínum og geta varla lagt þá frá sér allan sólahringinn. Þetta helst því miður alltof mikið í hendur, símarnir og óöryggi og vanlíðan hjá ungum stúlkum.

Berglind Dana Maríasdóttir

Útlitsdýrkun ungra kvenna á Íslandi

Útlitsdýrkun á íslandi hefur farið sívaxandi síðustu ár og hafa samfélagsmiðlar mikil áhrif á ungar konur. Rannsóknir hafa sýnt að ungar konur séu almennt mjög ónægðar með líkamsímynd sína og eru bæði stórir samfélagsmiðlar og fjölmiðlar að ýta undir þessa óheilbrigðu líkamsímynd.  Flestar auglýsingar sem eru gefnar út, ýta mikið undir að konur eiga að vera miklu grennri en þær eru í raun og veru. Einnig hafa þær verið mikið „photoshoppaðar“ sem fer beint í ungar stelpur og stráka sem hefur mikil áhrif á þau.

Hvað er „útlitsdýrkun“?

Hugtakið Útlitsdýrkun getur verið svo mikið, en þá sérstaklega er talað um ákveðið vaxtarform á stúlkum sem getur verið mikil tískubylgja. Þessi útlitsdýrkun hjá ungum einstaklingum er mjög óholl, þá bæði á andlegu hliðina og líkamlega. Einstaklingar eru alltaf að bera sig saman við eitthvað sem þeir eru ekki, vilja breyta sjálfum sér og eru ekki þeir sjálfir. Það er hrikalega slæmt og þá sérstaklega þegar samfélagsmiðlarnir eru orðnir svo áhrifamiklir.

Stórir samfélagsmiðlar sem hafa sterk áhrif á útlitsdýrkun

Instagram er með stærstu samfélagsmiðlum í heiminum í dag. Hvaða einstaklingur sem er getur stofnað sinn eigin aðgang og sett sínar myndir sem hægt er að breyta og deila með öllu internetinu. Þegar ég tala um að breyta þeim, þá meina ég filtera þær. Sem á að gera myndirnar „flottari“. Instagram virkar þannig, að þeir sem eru með þig á sinni síðu geta „like-að“ þær. Sama virkar með facebook, þú færð þessi „likes“ sem hækkar sjálfstraustið þitt og vilt alltaf líta sem best út á þessari mynd sem fólk er að „læka“ hjá þér. Það er einhvað við þessi „likes“ að ungir einstaklingar vilja fá þau sem flest, því annars geta þau farið í kerfi og liðið illa og vilja bara eyða myndinni sinni. Það er hrikalega sorglegt hvað einn lítill takki á netinu getur hafti mikil áhrif. Þessir tveir stórir samfélagsmiðlar eru með miklar auglýsingar sem ungar stúlkur/strákar líta á, bera sig saman við og vilja breyta sér. Flestar af þessum auglýsingum eru ekki einu sinni sannar og ekkert við myndina sem þau sjá er sönn.

Auglýsingar og rannsóknir

Flestar konur sem leika í auglýsingum eða sitja fyrir eru ekki með neina galla á sér. Má nefna að frá árinu 1970 hefur orðið alveg 60% aukning af þessum auglýsingum þar sem þessar konur eru í þessum ákveðnu ‘’Punthlutverkum’’ og bendir auglýsingin frekar á útlit konu heldur en á eitthvað annað. Þær eiga að vera fullkomnar sem fer beint í einstaklinginn sem heldur að svona eigi maður að líta út. Þetta lækkar sjálfstraustið þeirra alveg gríðarlega.

Síðan að internetið kom hafa meira en milljóna vefsíðna verið búnar til um allan heim og hefur verið meira en 50% aukning af átröskunarsjúkdómum, frá árinu 1970. Sem er frekar mikil prósenta og er að valda miklum áhyggjum.  Eigindlegar og megindlegar rannsóknir hafa sýnt að samfélagsmiðlar stuðla að neikvæðri líkamsímynd og ýtir undir átröskunarsjúkdóma. Einstaklingar þrá að vera grannir og er mikil hræðsla við að fitna.

Í lokin

Útlistdýrkun er einhvað sem er ekki hægt að stoppa en það er hægt að minnka hana.  Miðað við þær byltingar sem eru að koma upp núna og fer sífjölgandi er örugglega að hægt að minnka þessa dýrkun mjög mikið.

Guðný Lilja Pálsdóttir

Eru samfélagsmiðlar að ræna sjálfsmynd unglinga?

Samfélagsmiðlar eru orðnir að sjálfsögðum hlut í lífi flestra og eru unglingar þar engin undantekning. Unglingar eru mjög virkir notendur á samfélagsmiðlum og eyða þeir miklum tíma á þeim. Vegna þessa velti ég því fyrir mér hvort það sé gott fyrir sjálfsmynd þeirra. Vinsælustu samfélagsmiðlarnir sem unglingar nota í dag eru Facebook, Snapchat, Instagram og Twitter. Það er ótrúlegt að sjá hvað það er mikið af unglingum sem eru undir áhrifum samfélagsmiðla og hvaða slæmu áhrif það getur haft á þau. Mótun sjálfsmyndar hjá unglingum getur verið mjög flókin og margir hlutir spila þar inní. Lesa meira “Eru samfélagsmiðlar að ræna sjálfsmynd unglinga?”

2017 árgerðin af unglingi

Unglingsárin hafa lengi verið þekkt sem erfiðasta tímabil einstaklings. Unglingurinn finnur að hann er að verða sjálfstæður einstaklingur, vill finna sjálfan sig og prófa sig áfram í lífinu. Á þessum tímamótum, þar sem hann er hvorki barn né fullorðinn, þá stendur hann oft á krossgötum. Með tilkomu sterkra eigin skoðana á þessum aldri þá vill unglingurinn oft ekki lúta öllu því sem fullorðna fólkið segir en á sama tíma veit unglingurinn oft ekki í hvorn fótinn er best að stíga. Sjálfstæðið rís í unglingnum og hann hafnar þá oft leiðsögn, þó hann þarfnist hennar.  Svo það er skiljanlegt að unglingsárin séu talið erfiðasta tímabil hvers einstaklings. Lesa meira “2017 árgerðin af unglingi”

Geta samfélagsmiðlar og góð samskipti verið vinir?

Það er alltaf hægt að stoppa og hugsa, hvernig væri heimurinn ef þetta og hitt væri öðruvísi. Maður spyr sig hvort lífið væri betra, verra eða bara aðeins öðruvísi ef ýmislegt hefði aldrei gerst eða ef það myndi breytast.

Spurning sem leitar oft á okkur sem vinnum með ungu fólki er hvort líf unglinga væri öðruvísi ef samskiptamiðlar (facebook, instagram, snapchat ofl.) væru ekki partur af lífi þeirra. Hægt er að hugsa þetta fram og til baka án þess virkilega að maður átti sig á því hvernig líf þeirra væri öðruvísi. Ég tel þó ekki vitlaust að velta þessu fyrir sér. Hafa til að mynda samskipti unglinga breyst fyrir tilstilli samfélagsmiðla? Lesa meira “Geta samfélagsmiðlar og góð samskipti verið vinir?”